GÓP-fréttir

Jökulheima-
annáll

Útdrátt í vinstri dálki
gerði GÓP

Sigurjón Rist
1917 - 1994

Ávarp Sveinbjörns Björnssonar
í kaffisamsæti í Hálendishóteli við Hrauneyjar
eftir afhjúpun styttu af Sigurjóni Rist við Hald
6. október 2006.


Sveinbjörn Björnsson, prófessor og fyrrum háskólarektor
Guðmundur Þórðarson bað mig að minnast Sigurjóns við þetta tækifæri með nokkrum orðum. Ég fór í Jökul og sótti mér efni í tvær ágætar greinar um Sigurjón eftir Jakob Björnsson og Helga Björnsson sem birtust í minningu Sigurjóns í heftinu 1994.

Það sem ég rek hér er að mestu byggt á þessum greinum, fyrir utan mitt eigið minni úr samstarfi við Sigurjón við útgáfu Jökuls og störf í stjórn Jöklarannsóknafélagsins.

Ég fór einnig á vef Morgunblaðsins og rakst þar á heimasíðu Gísla Ólafs Péturssonar með ýmsu efni um Sigurjón og ferðir hans. Þar er m.a. frásögn af einni frægustu ferð hans til snjómælinga á Gusa inn að Tungná í desember 1957 sem lýsir vel þeim aðstæðum sem Sigurjón glímdi við og hér fer vel á að lesa ykkur til upprifjunar. Gísli Ólafur er sonur Péturs Sumarliðasonar sem var um árabil við veðurathuganir í Jökulheimum og Guðrúnar Gísladóttur bókavarðar Orkustofnunar og systur Jakobs Gíslasonar raforkumálastjóra.

29. ágúst 1917 Sigurjón Rist fæddist á Akureyri 29. ágúst 1917. Foreldrar hans voru hjónin Margrét Sigurjónsdóttir (1888 – 1921) og Lárus J. Rist, fimleikakennari og kunnur íþróttafrömuður (1879 – 1964). Sigurjón ólst upp í foreldrahúsum til ársins 1922, en móðir hans lést í ágúst 1921 frá sjö ungum börnum. Þá var hann tekinn í fóstur af hjónunum Jónínu Rannveigu Sigurjónsdóttur og Sigtryggi Jóhannessyni bónda á Torfum Í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði. Þar átti hann gott atlæti og minntist hann fósturforeldra sinna ætíð með miklum kærleikum sem hefðu þau hjón verið foreldrar hans.
Menntavegur
í
skugga stríðs
og
verkleg þjálfun
Sigurjón lauk stúdentsprófi úr stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri 1938. Um haustið 1938 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að nema haffræði við háskólann þar. Hann stundaði það nám í efnafræði og stærðfræði veturinn 1938 – 1939 og lauk prófi í forspjallsvísindum þá um vorið. Vegna heimsstyrjaldarinnar sem skall á haustið 1939 varð ekki af frekara námi í haffræði.

Næstu ár stundaði Sigurjón ýmis störf á Akureyri, hafði umsjón með síldveiðiskipum og síldarsöltun, og frá 1942 rak hann bifreiðaverkstæði fyrir KEA og Mjölni hf, allt fram til 1947, er hann hóf störf hjá raforkumálastjóra við vatnamælingar, sem áttu eftir að verða ævistarf hans. Árið 1942 kvæntist hann Þorgerði Sigrúnu Jónsdóttur en þau skildu. Á þessum árum tók hann mikinn þátt í fjallaferðum á vegum Ferðafélags Akureyrar, einkum norðanlands. Þar öðlaðist hann mikla reynslu í ferðalögum á bílum um óbyggðir og vegleysur. Sú reynsla kom honum að ómetanlegum notum í vatnamælingastarfinu síðar.

Nám og störf
við
vatnamælingar
Sigurjón hóf starf sitt við vatnamælingar hjá raforkumálastjóra hinn 2. janúar 1947. Þá hófst jafnframt sú starfsemi sem nefnd hefur verið Vatnamælingar raforkumálastjóra og síðar Orkustofnunar eftir að hún var sett á laggirnar 1967. Sigurjón dvaldist við nám í vatnsaflsfræði í Svíþjóð 1948 og hjá norsku Vatnsfallastofnuninni 1948 – 49 og nam vatnafræði hjá Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna 1966. 
Fjölskylda Hann kvæntist Maríu Sigurðardóttur, viðskiptafræðingi og kennara, 1962 og eignuðust þau tvær dætur, Rannveigu og Bergljótu, sem eru hér með okkur í dag.
Mótun
vatnamælinga
á
Íslandi

Myndina af
Sigurjóni tók
Jakob Jakobsson
árið 1959
við uppsetningu
vatnamælis
við Þjórsá.

Músaðu hér
- eða á myndina
til að sjá þær allar

Sigurjón veitti starfsemi Vatnamælinga forystu allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1987, þ.e. í fjörtíu ár. Hann lést 15. október 1994.

Fyrstu tíu árin var Sigurjón eini fastráðni starfsmaður Vatnamælinga. Á þessum frumbýlingsárum byggði hann að heita má einsamall upp kerfisbundnar vatnamælingar í öllum landshlutum. Þetta gerði hann á þeim tíma sem samgöngur allar voru mun örðugri en nú, sérstaklega á hálendinu. Fyrir tíma Sigurjóns höfðu ýmsir gert mælingar á rennsli fallvatna og þær voru á höndum vegamálastjóra þar til raforkumálaskrifstofa var sett á fót. Þessar mælingar voru hins vegar ekki samfelldar og því gagnslitlar fyrir áætlanir um virkjanir. Með starfi Sigurjóns verða til í fyrsta sinn hér á landi samfelldar rennslisraðir fallvatna.

Hann er þannig upphafsmaður nútímalegra vatnamælinga hér á landi.

40 ár Í 40 ár vann Sigurjón af ósérhlífni og fádæma kappi að því að koma upp og reka hverja stöðina af annarri um allt land til mælinga á rennsli straumvatna. Með mælingum sínum lagði hann grunninn að þekkingu á vatnsafli og vatnafari landsins. Enginn annar en þessi mikli ferðamaður hefði getað unnið þetta verk um og eftir miðja síðustu öld. Sigurjón undirbjó ferðir sínar vandlega, var bæði djarfur og varkár í senn. Hann braust um vegleysur með tæki sín og búnað meðan ferðalög um hálendið voru fátíð. Fyrst upp úr 1970 urðu samgöngur um hálendi landsins svo auðveldar að venjulegir menn gátu ráðið þar við þungaflutninga.

Sigurjón lagði áherslu á að kanna vatnafar landsins í öllum landshlutum og var óþreytandi á ferðalögum til að mæla rennsli við allar þær aðstæður sem upp koma hér á landi. Hann mældi jafnt rennsli linda, vetrarrennsli á ísilögðum ám sem vatnavexti. Hann hélt norður í land til þess að mæla stórflóð þegar sumarleysingar á hálendi hófust af fullum krafti eftir kalt vor, austur á land til þess að mæla skyndileg haustflóð vegna stórrigninga á frosna jörð, upp í Elliðaár og Sog þegar jarðstífla brast, um hávetur kannaði hann þrepahlaup, þegar ísstíflur brustu hver af annarri og flóðöldur mögnuðust þrep af þrepi. Hann óð með járnstaf í hendi út í skaftfellsk jökulhlaup, inn í jakaflugið og það tók undir í fjöllunum þegar stórgrýtið valt fram á árbotninum. Þegar bergspilda hrundi niður í Steinholtslón og hratt fram flóðbylgju náði Sigurjón að meta flóðtoppinn, sem á tíu mínútum varð fimmfalt meðalrennsli Þjórsár.

Sigurjón dýptarmældi stöðuvötn landsins, reiknaði vatnsmagn þeirra og mat aðstöðu til þess að safna og geyma þar vatnsforða. Hann kannaði ísalög í ám og vötnum, vann að snjómælingum á hálendi og jöklum og kom upp safnmælum til mælinga á úrkomu. Hann skráði snjóflóð og lengdarbreytingar á skriðjöklum landsins og tók þátt í leiðöngrum til að mæla þykkt Vatnajökuls 1951 og Mýrdalsjökuls 1955 með bergmálsmælingum.

Meðal jöklafræðinga um allan heim var Sigurjón þekktur fyrir mælingar sínar á rennsli í jökulhlaupum frá Grímsvötnum. Það er erfitt verk að mæla straumhraða, breidd og dýpt í jökulám sem flæmast yfir sanda í síbreytilegum álum og ógerningur er að koma fyrir stöðugum vatnshæðarmælum. Mælingar hans við þær aðstæður, áður en brýr ogvegir komu yfir Skeiðarársand eru meðal mikilla afreka hans.

Sigurjón vandaði til allra verka, kannaði alla málavöxtu áður en hann hófst handa og hlustaði vel á hvert orð þegar hann var kallaður til ráðuneytis.

Kappið og þrekið var óskaplegt. Hann stakk sér til sunds og kafaði eftir mælitækjum sem fallið höfðu til botns í straumvötnum, hlóð sleitulaust stórgrýti í undirstöður að mælistöðum líkt og þá sem stytta hans stendur á, lagði nótt við dag til að koma út skýrslum um mælingar sínar, unni sér ekki hvíldar né matar fyrr en verki var lokið. Hann gekk svo vel frá mælistöðvum sínum að fólk trúir því að þær hafi alltaf staðið við árnar.

Gusi í
Tungnaá
Áður en ég lýk þessum minningarorðum vildi ég taka þann útúrdúr sem ég nefndi í byrjun og rifja upp ferðina á Gusa. Endursögn Gísla Ólafs byggir á frásögn Sigurjóns sem birtist í bókinni Vadd’útí 1989.
GÓP
setti
saman

"Gusi í Tungnaá
með skíðin upp á skararbrún"

Tilvitnað og endursagt úr bókinni Vadd' út í eftir Sigurjón Rist, Hermann Sveinbjörnsson skráði, útgefandi Skjaldborg 1989. Í Jökulheimum er (árið 2001) til eintak af bókinni og þú skalt lesa frásögn hans af þessum atburði á síðunum 163 - 176.

Í des. 1957

ann 10. desember (1957) lögðum við þrír af stað frá Reykjavík, Eberg Elefsen, sem var þá nýbyrjaður hjá Vatnamælingum og hefur unnið með mér alla tíð síðan, Guðmundur Jónasson, fjallabílstjóri með snjóbíl sinn Gusa upp á vörubílspalli, og ég (Sigurjón Rist) var leiðangursstjóri fararinnar."

Skáletraðar
eru
beinar tilvitnanir
í bókina
Vadd´út í
eftir
Sigurjón Rist
Aðstæður voru þær að þeir félagar voru á mælingaferð á Gusa. Vegna mistaka stöðvaði Guðmundur Gusa úti á ísnum á Tungnaá í stað þess að aka áfram á miklu bruni eins og þeir höfðu sammælst um. Guðmundur sagði síðar að hann hefði talið sig sjá grasstrá standa upp úr ísnum og álitið sig kominn yfir ána. Sigurjón stóð á fyrsta pósti á ánni en Eberg á þeim næsta þar sem Guðmundur átti að beygja til lands. Þess í stað stöðvar hann Gusa hjá Eberg til að taka hann upp í. Sigurjón sér hvað verða vill og kemur hlaupandi og hrópandi en allt án árangurs og Gusi sígur og sígur og sígur til botns sem reyndist á 170 sentimetra dýpi - um það bil hæð meðalmanns. Þeir höfðu örskamma stund - örfáar sekúndur gáfust til að bjarga út dóti, skjölum og matarskrínu - en svo var Gusi sestur að aftan með skíðin uppi á skararbrún að framan.
Geymirinn
sóttur
á
kaf
Talstöðin var staðsett uppi á þakinu svo að hún var óskemmd - en hún var gagnslaus án rafmagnsgeymis. Varageymir var auðvitað vís - en hann var í trékassa aftast í bílnum. Kassinn var öryggisfestur með tveimur samanhertum róm. Dýpið var meira en vöðlur dygðu.

Sigurjón réðst í að reyna að ná geyminum úr þessari krapagröf. Til að halda fötunum þurrum afklæddist hann öðru en milliskyrtu og húfu og var síðan í vaðgallanum. Svo fór hann hiklaust ofan í krapagrautinn og á kaf með höfuðið með lykil í höndum, þreifandi fyrir sér - og þurfti í atlögunni að fara þrisvar eða fjórum sinnum upp með höfuðið til að anda. Upp kom kassinn heilu og höldnu.

Ofkæling Sigurjón segir: Það var heldur ónotalegt allt meðan á þessu stóð, en hiti í krapavatni er ætíð núll stig. Ég fann þó ekki sérstaklega fyrir kuldanum fyrr en ég byrjaði að þurrka mér. Önnur höndin sveik, bögglaðist framan við úlnlið og slettist til. Ég skalf frá hvirfli til ilja og reyndi að hraða mér í fötin sem mest ég mátti. Nú var notalegt að vita af öllum fötum þurrum nema húfu og skyrtugarmi.

Sigurjón smaug úr helgreipum kuldans og það var atorka hans sem bjargaði lífi þeirra allra þriggja og að endingu Gusa úr vökinni og öllum heim fyrir jólin. Hann segir: Þegar við höfðum borið á bakinu eða dregið á sleðakrílinu allan nauðsynlegan farangur út af ísnum vestur í brekkuna í Svartakróki, s.s. talstöðina, geyminn, svefnpoka, mat og sitthvað fleira, var ég laus við kuldahrollinn að fullu. Ég var orðinn vel heitur og mér leið alveg sérstaklega vel. Mér fannst þetta vera ævintýralegt og ég fylltist vellíðan. Við það að hafa tekist að ná geyminum af djúpu vatninu fylltist ég öryggiskennd og varð strax vongóður um að okkur tækist að ná bílnum upp.

Félagar Sigurjóns voru ekki eins brattir og hann - og líklega liðið verr en mér þegar þeir horfðu á mig fara í kaf í krapasúpuna -

Snjóhús
mastur

skeyti
Nú drifu þeir félagar upp loftskeytamastur og útbjuggu snjóhús og þá var að semja og senda skeyti. Þeir hugleiddu hvað skyldi taka til bragðs ef ekki tækist að ná talsambandi. Frá Svartakróki hlaut leiðin að liggja fyrst inn í Landmannalaugar en þar næsta dag að ganga að vörubílnum undir Valahnjúkum. Til þess kom þó ekki því þegar á reyndi náðu þeir sambandi.
Skeytið
samið
Ég ætlaði að senda skeyti sem í stæði meðal annars:

Snjóbíllinn hefur fallið niður um ís á Tungnaá. Hann situr á 170 cm dýpi með skíðin uppi á skararbrún. Hann er 400 metra frá landi við Svartakrók. 

Guðmundur taldi óæskilegt að nefna Tungnaá, það mundi valda óþarfa hræðslu og kvíða. Betra væri að tala um krap. Nokkru síðar um kvöldið náðum við sambandi við Reykjavíkurradíó.

Jakob
Gíslason
Ég var alltaf vanur að senda skeyti til Raforkumálaskrifstofunnar en nú sendi ég það beint til Jakobs Gíslasonar, raforkumálastjóra, því þannig var ég viss um að fá skjóta afgreiðslu. Skeytið var svohljóðandi:

Við búum í snjóhúsi við Svartakrók. Snjóbíllinn er fastur í krapi. Hjálparleiðangur hafi meðferðis margar krafttalíur, mikið af vírum og köðlum, járnum, trjám og gaslampa. Sigurjón Rist.

og

Jón
Eyþórsson

Ég frétti síðar hver hefði verið afgreiðsla skeytisins. Þótt Jakob kannaðist við Svartakrók vildi hann leita til kunnugri manna varðandi allar aðstæður. Honum hugkvæmdist að hringja til Jóns Eyþórssonar, veðurfræðings og formanns Jöklarannsóknafélagsins. Auk þess að þekkja vel bæði veður og vatn þekkti hann íbúa snjóhússins afburða vel.

Jón bað Jakob að lesa skeytið aftur, sem hann gerði. Þá sagði Jón hægt en ákveðið: "Þetta er ekkert venjulegt krap". Þeir gerðu sér báðir grein fyrir því að snjóbíllinn var fastur í Tungnaá. Með þá fullvissu fór harðsnúinn þriggja manna leiðangur af stað strax um nóttina á snjóbílnum Kraka.

Ofsa-
veður
og

vist
í snjóhúsi

Suðaustan ofsaveður skall á með hækkandi hitastigi og það fór að rigna eins og hellt væri úr fötu með miklum gauragangi.

Þeir félagar reyndu nú að hvílast og sofa í snjóhúsinu. Ekki var allt slétt undir þeim og þess er sérstaklega getið hvernig Guðmundur þurfti að skera af ísköggli til að geta lagst fyrir. Þeir náðu að sofna enda allir dauðuppgefnir.

Hjálpin
berst
Hjálparleiðangurinn lagði dag við nótt í afar erfiðu færi og kom inneftir klukkan 17 næsta dag.

Út úr snjóbílnum komu þeir Haukur Hallgrímsson, Heiðar Steingrímsson og Gunnar Guðmundsson, allir virkir félagar í Jöklarannsóknafélaginu. Um leið og þeir hoppuðu út úr Kraka þá tautaði Guðmundur fyrir munni sér: "Haukur - já, Heiðar - já, Gunnar - Já." Það sýndi glöggt að þarna voru komnir þrír menn sem Guðmundur treysti til að leysa af höndum það erfiða verk sem framundan var.

Erfitt
og
seinlegt
Menn unnu af öllu afli við að reyna að ná Gusa upp en það gekk lítið. Veðrið versnaði sífellt með mikilli snjókomu og bíllinn lyftist lítið og stoppaði loks með beltið í ísinn - og annað skíðið slitnaði af. Klukkan var 03. 
Ekki
fleiri
færir
Allir voru útkeyrðir þegar þeir komu aftur til lands að finna Kraka og hvílast.

Nokkrum mínútum eftir að við vorum komnir inn í Kraka leið yfir Hauk og það svo hastarlega að hann virtist vart með lífsmarki. Ekkert var hægt að gera, sex manna hópur einangraður inni á öræfum. Í slíkum skafbyl var vonlaust að ná talstöðvarsambandi og þar að auki gagnslaust því að þeir einu sem treystandi var til að brjótast úr höfuðborginni í skyndingu inn í Svartakrók voru komnir þangað.

Enn
meira
Næsta dag vaknaði Haukur eldhress og aftur var ráðist til atlögu. Sigurjón tók að sér að standa í vökinni og snúa vélinni með sveif og ásamt með öðru togi mjakaðist bíllinn einn sentimetrann eftir annan - og aðallega upp á við. Nú fraus allt sem upp kom í 10-12 stiga gaddi. Loksins snerist vélin ekki meir - ef til vill vegna þess að ísköggull hafði myndast ofan á stimpli í vélinni. Lengra varð ekki komist þann daginn.
Vélin
sett
í gang
Eina leiðin til að koma bílnum virtist vera sú að koma honum í gang. Vélin var opnuð og þurrkuð og vatnsblandin olía hreinsuð þannig að Heiðar saug olíu-vatnshroðann upp með sogröri uns hrein olía var eftir. Eftir þúsund handtök við ótrúlegar aðstæður tók Sigurjón enn til við að snúa vélinni - og nú í gang. Já - hún fór í gang! 
-31,2° Nú var haldið heim á leið með Gusa á einu skíði yfir hraunnef og nibbur. Við lentum í kuldapolli í Dyngjuskarði. Í eins metra hæð frá jörðu, í fyrstu skímu morgunsins 21. desember, komst frostið í 31,2 stig.

Þann dag tókst að koma Gusa 20 kílómetra og á vörubílspallinn sem beið sunnan Valahnúka - en snjórinn var slíkur að bílarnir komust hvergi.

Halldór
Eyjólfsson
á
Rauðalæk
Það tókst að ná talstöðvarsambandi við Halldór Eyjólfsson á Rauðalæk. Hann hafði ráð á jarðýtu og hafði auk þess ráð undir rifi hverju. Hann brá við skjótt ásamt Þóri Sveinbjörnssyni í Lyngási og þeir komu til móts við okkur sexmenningana upp við horn Valahnjúka að áliðnum degi daginn eftir.

Galtalæk
á
Þorláks-
messu

og
til
Reykja-
víkur

Nálægt rismáli komum við að Galtalæk. Þar var okkur fagnað fádæma vel og matföng biðu á borðum. Við sterk rafljós og hita frá heimilisrafstöðinni í Galtalæk sveif á okkur svefnhöfgi. Þessi átta manna hópur var snarlega eins og skotinn og fékk sér morgunblund í öllum fötunum, stuttan að vísu en notalegan. Engan hef ég heyrt minnast á þrengsli í þeim bæ, þau voru ekki til. Þar sem er hjartahlýja þar er einnig húsrými.

Við áttum langan veg fyrir höndum því í allri ófærðinni varð að fara Krísuvíkurveg. Það tókst að komast til Reykjavíkur um daginn og ganga frá dótinu, setja hvern hlut á sinn stað og komast til jólainnkaupanna á elleftu stundu á kvöldi heilags Þorláks. Gusi var kominn á bæði skíðin sín aftur áður en jólin voru úti.

Athugasemd
GÓP >>>
Þessi frásögn er mun ítarlegri í bókinni - sem nú virðist ófáanleg. Þess vegna er hún hér endursögð - en þú skalt fylla inn í hana með því að lesa hana í heild í bók Sigurjóns.

Sveinbjörn
B
jörnsson
Sigurjón unni náttúru landsins og virti hana. Hann hafði einlægan áhuga á vísindum og kennslu og kemur það vel fram í umfangsmiklum ritstörfum hans. Hann leit á það sem tilgang ævistarfs síns að leggja grundvöll að því að þjóðin eignaðist er tímar liðu, traust heildaryfirlit yfir vatnafar alls landsins.

Sigurjón vann mikið starf fyrir Jöklarannsóknafélag Íslands og var þar heiðursfélagi. Hann var gjaldkeri frá stofnun þess þar til hann tók við formennsku að Sigurði Þórarinssyni látnum.

Í öllum sínum störfum sýndi Sigurjón frábæran dugnað, ósérhlífni og samviskusemi. Hann átti sér vissulega góða samstarfsmenn sem hann bar ávallt mikla umhyggju fyrir. Hann gerði miklar kröfur til þeirra. En mestu kröfurnar gerði hann þó ávallt til sjálfs sín og hann bar jafnan sjálfur þyngstu byrðarnar.

Sigurjón öðlaðist í æsku í ríkum mæli hugsjónina um betra Ísland og hún vék aldrei frá honum. Þessi hugsjón mótaði öll hans störf. Starf hans er lýsandi dæmi þess hverju einstaklingur með hugsjón fær áorkað.

GÓP-fréttir forsíða * Jökulheima-annáll * Ferðatorg