Forsíða

Valgerður Gísladóttir

og frásögn af för hennar úr Jökulheimum
þann 14. ágúst 1967.

Valgerður
Gísladóttir
sjötug
Þau veðrast
fjöllin okkar
er gnæfa yfir heiðarnar,
stormar og regn
hafa rist þeim svip.
Þannig sé ég þig,
Valgerður,
stolta í stormi,
stóra í fylgd.

Pétur Sumarliðason

Þann 20. des. 1996
sendi GÓP þeim
Gísla Sigurhanssyni
og Helgu
Ragnarsdóttur
þessa frásögn af
ferð Valgerðar og
hennar
samferðarmanna
úr Jökulheimum
til Reykjavíkur
í ágústmánuði
árið 1967.
Gísli Sigurhansson og Helga Ragnarsdóttir

Heil og sæl, heiðurshjón!

Það hafði ég löngu ætlað að láta þetta sjötugskvæði til Valgerðar fylgja bókinni föður míns til ykkar - og hér kemur það.

Ekki gleymist mér frá ágúst 1967 er Valgerður dvaldi í Jökulheimum hjá foreldrum mínum og för okkar þaðan til Reykjavíkur sem varð alveg sérstök. Hér kemur sagan:

Þannig stóð á að við þurftum að fara til Reykjavíkur og þurftum að fá bíl á móti okkur upp að Tungnaá sem þá var óbrúuð. Við settum stefnumót við Bjarna, bróður minn, sem koma átti að Hófsvaði á Buick Century fólksbíl um miðnætti. Síðan ók faðir minn okkur niður í Veiðivötn þar sem við vissum að Gunnar vatnavörður átti bát sem hann notaði til að róa yfir ána ofan við Hófsvað.

Segja verður eins og er að Gunnar varð nokkuð fár við þar sem hann sat í góðri gleði meðal gesta sinna í Veiðivötnum. Hann sagði þó lítið en bjóst til ferðar og við ókum niður að Hófsvaði. Þar biðum við að minnsta kosti í tvo klukkutíma áður en bílljós sáust nálgast.

Gunnar sagði nú fyrir um hvernig hátta skyldi ferðum því báturinn var lítill, hann einn til að róa og miklir flutningar framundan því auk fólksins var verulegur farangur. Þar voru þær Valgerður og Guðrún, móðir mín, Björg, systir mín sem þá var 6 ára og ég.

Nóttin var niðdimm og við störfuðum við bílljósin á árbakkanum. Gunnar þurfti að fara tvær ferðir og ég horfði á eftir honum út á lygnuna ofan við brotið á ánni. Hann þurfti að beita leikni sinni til að halda bátnum bæði í réttu horfi á ská upp í strauminn og að hindra að hann bærist um of niður eftir ánni. Hann hvarf mér í myrkrið því áin er breið á þessum stað. Hinn bíllinn var með ljósum handan árinnar og eftir nokkra stund bar í þau fólk á ferli. Aftur birtist Gunnar og tók mig og farangurinn í bátinn.

Þegar yfir var komið og allt var komið upp úr bátnum stóðum við þar litla stund einir. Ég þakkaði honum hjartanlega fyrir en hann sagði: Gísli, ég segi þér að þetta geri ég aldrei aftur. Síðan sté hann í bátinn og lagði frá landi. Von bráðar var hann úr augsýn í myrkrinu en skömmu síðar sá ég bifreið hans hverfa upp frá ánni í átt til Veiðivatna.

Næstliðnar klukkustundir höfðu smám saman gert mér ljóst hvað þessi tilætlun mín í Gunnars garð var yfirmáta óraunhæf. Hann hafði einhvern tíma sagt mér af því tiltæki sínu að eiga þarna bát svo hann gæti skroppið til byggða og hann reri þarna sjálfum sér einum yfir straumvatnið. Svo birtist ég hjá honum með fullt af fólki og mikið skipulag sem ekki er hægt að stöðva og allt byggist á því að hann skili okkur yfir ána. Til allrar hamingju var veðrið yndislegt og ekkert kom fyrir en þessi kveðjuorð hans eru mér sífelld sanngjörn áminning.

Gamli Buick Century var ekki alveg mannlaus. Með bróður mínum var kona hans og kunningi sem slegist hafði í skemmtiför. Þessi ágæta ameríska drossía flutti okkur, sex fullorðin og barnið ásamt farangri - heilu og höldnu til Reykjavíkur - en jafnvel sá hluti leiðarinnar hefði einn dugað til að gera ferðina óviðjafnanlega í endurminningu - þó að ef til vill hefði ekkert okkar fýst að leika neitt af þessu aftur.

Ritað 20. desember 1996 - Gísli Ólafur Pétursson

Efst á þessa síðu * Forsíða