GÓP-fréttir
forsíða



Pétur Guðmundur
Sumarliðason,

ISBN - 9979-9050-6-9

Ljóðabók eftir Pétur Sumarliðason, kennara.

Hann kenndi lengst af við Austurbæjarskólann í Reykjavík og var kunnur fyrir útvarpslestur. Hann sinnti einnig margvíslegum ritstörfum og orti ljóð en birti fá. Hér koma þau sem hann hafði sjálfur ætlað til útgáfu og meðal þeirra er ljóðaflokkur sem hann flutti í útvarpi og tengist veru hans við veðurathuganir í Jökulheimum við rætur Vatnajökuls.

F. 24. júlí 1916
d. 5. sept. 1981

Pétur fæddist í Bolungarvík. Foreldrar hans voru hjónin Sumarliði Guðmundsson, sjómaður, ættaður frá Miðhúsum í Reykjarfjarðarhreppi og Björg Pétursdóttir frá Moldbrekku í Kolbeinsstaðahreppi en hún lést þegar Pétur var á fyrsta ári. 

Hann tók kennarapróf 1940 og kenndi m.a. í Fróðárhreppi, á Drangsnesi, undir Vestur-Eyjafjöllum og í Reykjavík. Hann var skólastjóri í Fljótshlíð og á Búðum við Fáskrúðsfjörð. Lengst af kenndi hann við Austurbæjarskólann í Reykjavík en síðast við Seljaskóla.

Pétur vann við veðurathuganir í Jökulheimum sumrin 1963-70. Hann sá um útgáfu Sólhvarfa 1971, ritaði greinar í blöð, vann bækur til útgáfu fyrir aðra og einnig bækur sem hann þýddi sjálfur. Hann vann efni til útvarpsflutnings og las í útvarp eftir sjálfan sig og aðra.

 

Allir dagarnir

Þetta eru þínir dagar.
- Allir þínir dagar.
Svo margir eru dagarnir.

Og þessir dagar.
Hversu var farið með
þá daga -
- farið með þá daga

Og þá ég
hef horfið úr leiknum
stendur spurnin eftir -
-Æ, hversu var farið
með þá daga?

  Bókinni er skipt í þrjá hluta sem nefnast Brot, Við hvítan jökul þar sem er að finna samstæð Jökulheimaljóð og Í erli dægranna. Á yngri árum orti Pétur mest bundið og rímað en leysti upp formið þegar á leið.

Pétur hafði tekið til ljóð sem hann hugðist gefa út á bók undir nafninu Í erli dægranna. Í kaflanum Brot birtast þó fáein fleiri ljóð auk þess sem ljóðið Gnapi í kaflanum Við hvítan jökul er hér látið fylgja kvæðinu Rati enda standa þeir tröllbræður hlið við hlið efstir af Tungnárfjöllum.

  Jökulheimar
tengd saman til útvarpsflutnings 17.2.1980

Atvikin féllu þannig að um sjö sumra bil var ég við veðurathuganir undir suðvesturhorni Vatnajökuls. Þetta var á árunum 1963 til 1970. Ef til vill minnast einhverjir öræfaferðamenn þess að hafa á þeim árum hlustað grannt eftir veðurfréttum frá Jökulheimum.
Húsið stendur á hraunnefi og snýr áttrétt norður - suður. Út um austurgluggann blasir jökullinn við í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð. Til suðurs eru aurar Tungnaár, stálgrá jökulmöl og gráhvítir taumar af jökulleir. Hið næsta rísa kynjadrangar í hraunjaðrinum en fjær rísa Rati og Gnapi með gnauðandi fljótið við rætur sér. Til norðurs er Dórinn og í fjarska hillir uppi toppinn á Syðri-Hágöngu.
Sé gengið á Heimabungu blasa við fegurstu fjöllin í umhverfinu, tveir tindar sem rísa upp úr jökuljaðrinum. Hvernig nafnið - Kerlingar - hefur komist á slíka prýði veit ég ekki, en heimamaður í Jökulheimum kallar þær:

Jöklasystur

Höfuð bera hnarreist
hátt í morgunroðann,
faðmar þær fimbuljökull
flétta sveig norðurljósin.

Skarta þær skýjaveifum -
skín sól á enni meyja
þá í dimmum dali
dökkri nótt blóm hneigja.
12. sept.
1996
Í Morgunblaðinu þann 12. september 1996 skrifar ritdómari blaðsins,
 Skafti Þ. Halldórsson, svofelldan ritdóm:

Áin urgar í grjóti

Í erli dægranna
  • eftir Pétur Sumarliðason.
    Útgefandi: Gísli Ólafur Pétursson.
    Rvk. 1996 - 111 bls.
Fimmtán árum eftir fráfall Péturs Sumarliðasonar er gefin út ljóðabók eftir hann, Í erli dægranna. Þessi útgáfa ber vott um mikla ræktarsemi við minningu hans. Guðrún Gísladóttir og Gísli Ólafur Pétursson bjuggu ljóðin til prentunar eftir handritum Péturs af alúð og vandvirkni.

Kvæði Péturs eru börn síns tíma. Þau einkennast af náttúru-ljóðrænu og rómantískri lífssýn þar sem áhersla er lögð á samband manns við náttúru, samkennd og samúð með því sem lífsandann dregur.

Efni kvæðanna tengist oftast náttúrusýn skáldsins, hvort sem verið er að fjalla um bernskustöðvar við Bolungarvík ellegar öræfin í Jökulheimum þar sem Pétur starfaði við veðurathuganir. Raunar víkur skáldið sérstaklega að þessum tveimur meginskautum í ljóðheimi sínum í kvæðinu

Tveir heimar:

Ég veit nú ómar aldan
úti við bláa strönd,
en hér urgar áin í grjóti
undan jökulrönd.

Þótt náttúran yfirgnæfi önnur yrkisefni í ljóðum Péturs er ekki laust við að gæti ýmissa andstæðna samtímans í kvæðum hans og birtast þær jafnt í efni og formi. Þannig þarf ekki lengi að skoða kvæðin til að greina átök þéttbýlis og náttúru, t.a.m. í kvæðinu Öræfaminningu þar sem samlíðan með, þótt í einveru sé, er borin upp að hinum sára broddi einmanans í byggð. Jafnframt er vikið að samtímaviðburðum á borð við Víetnamstríðið og æskulýðsuppreisn 68-kynslóðarinnar sem Pétur lítur nokkuð jákvæðum augum:

Sem ljósið brýst
gegnum myrkrið
fara ný sannindi
gegnum gamlar hefðir.

Eftirtektarverð finnast mér einnig ljóð Péturs um gildiskreppu samtímans og einna best þeirra ljóðið

Orð:

Það er undarlegt
að sitja í byggð
innan um allskonar
fjölmæli
og ívitnanir
til mikilla hugsjóna,
sem talið er sjálfsagt
að enginn meini.

En átaka gætir einnig í ljóðformi í kvæðum Péturs. Hann yrkir oft hefðbundið og er ágætur hagyrðingur en honum lætur líka vel að yrkja í lausu máli. Segja má því sem svo að hann hafi tekið nýjum tímum opnum huga þótt hann skynji einnig varasama boða á leið okkar inn í framtíðina. Kvæðaheimur hans er heildstæður og sannfærandi og bókin á erindi til okkar.
16. sept.
1996

Sigríður
Albertsd.
í DV

Í erli dægranna
ljóð eftir Pétur Sumarliðason

Í bókmenntagagnrýni DV þann 16. september 1996 skrifar
Sigríður Albertsdóttir, ritdómari blaðsins, eftirfarandi ritdóm:

Alltaf mætir auganu eitthvað nýtt

Þegar Pétur Sumarliðason, kennari og rithöfundur, lést fyrir 15 árum skildi hann eftir sig ljóð sem hann hafði sjálfur ætlað til útgáfu. Þessi ljóð hafa sonur hans og kona nú gefið út á bók sem nefnist Í erli dægranna. Það er ekki nóg með að ljóðin séu bæði gjöful og grípandi heldur er útlit bókarinnar sérlega fallegt og vandað. Hvert ljóð er rammað inn í einfalda umgjörð sem ljær bókinni gamaldags og um leið rómantískan blæ. Slíka veislu fyrir augað er sjaldgæft að sjá í nýjum bókum og enn fremur þann fyrirmyndarfrágang að hafa efnisyfirlit fremst í bók og lista yfir upphafsorð ljóða í lok bókar.

Bókinni er skipt niður í þrjá hluta, 1. bók sem nefnist Brot, 2. bók sem heitir Við hvítan jökul og 3. bók, Í erli dægranna. Í fyrsta og öðrum hluta er náttúran í aðalhlutverki en í þeim þriðja reikar hugur höfundar vítt og breitt og staldrar meðal annars við vatnið sem stöðugt drýpur úr mælikeri tímans (Við áramót, bls 102). Í þessum hluta er höfundur angurvær, dálítið dapur stundum:

- Æ, hversu var farið
með þá daga?

spyr hann í ljóðinu Allir dagarnir; en þó hann eigi engin svör og gefi engin svör felur þessi upphrópun í sér það þægilega æðruleysi sem einkennir allan hans kveðskap. Manni líður vel við lestur þessara ljóða, þau eru hlý og ástúðleg.

Ljóðin í miðhlutanum eru hugleiðingar tengdar veru höfundar við veðurathuganir undir suðvesturhorni Vatnajökuls en þær stundaði hann í sjö sumur. Upp úr þeim hugleiðingum verða til ljóð um kynleg og stórkostleg fyrirbæri náttúrunnar:

Frostnótt og heitur dagur

Í streng árinnar glitruðu
stálbláir steinar í botni.
Sólin var enn bak við jökulinn.
Frostnepja næturinnar
enn í kulinu.

- - -

Og sólin hellti geislum sínum
yfir jökulinn,
bláhvítur ísinn
varð að kolgráu vatni,
æðandi, beljandi vatni
er bruddi ís og grjót
með urgandi hljóði.
(35)

Þetta ljóð er aðeins eitt dæmi af mörgum um það hvernig höfundi tekst á sinn látlausa hátt að koma sterkri og lýsandi mynd til skila: hinum heillandi samruna dags og nætur, hita og kulda svo og litadýrð hinnar ósnertu náttúru. Þannig eru ljóðin í miðhlutanum hvert öðru myndrænna, og svo vitnað sé í orð höfundar, þar mætir auganu alltaf eitthvað nýtt(39).

 

GÓP-fréttir - forsíða * Til baka í Bókabúðina