GÓP-fréttir forsíða * -Umsögn Skafta Halldórssonar

Í Morgunblaðinu þann 12. september 1996 skrifar ritdómari blaðsins, Skafti Þ. Halldórsson, svofelldan ritdóm:

Áin urgar í grjóti

Í ERLI DÆGRANNA
  • eftir Pétur Sumarliðason.
    Útgefandi: Gísli Ólafur Pétursson.
    Rvk. 1996 - 111 bls.
Fimmtán árum eftir fráfall Péturs Sumarliðasonar er gefin út ljóðabók eftir hann, Í erli dægranna. Þessi útgáfa ber vott um mikla ræktarsemi við minningu hans. Guðrún Gísladóttir og Gísli Ólafur Pétursson bjuggu ljóðin til prentunar eftir handritum Péturs af alúð og vandvirkni.
Kvæði Péturs eru börn síns tíma. Þau einkennast af náttúru-ljóðrænu og rómantískri lífssýn þar sem áhersla er lögð á samband manns við náttúru, samkennd og samúð með því sem lífsandann dregur.
Efni kvæðanna tengist oftast náttúrusýn skáldsins, hvort sem verið er að fjalla um bernskustöðvar við Bolungarvík ellegar öræfin í Jökulheimum þar sem Pétur starfaði við veðurathuganir. Raunar víkur skáldið sérstaklega að þessum tveimur meginskautum í ljóðheimi sínum í kvæðinu

Tveir heimar:

Ég veit nú ómar aldan
úti við bláa strönd,
en hér urgar áin í grjóti
undan jökulrönd.

Þótt náttúran yfirgnæfi önnur yrkisefni í ljóðum Péturs er ekki laust við að gæti ýmissa andstæðna samtímans í kvæðum hans og birtast þær jafnt í efni og formi. Þannig þarf ekki lengi að skoða kvæðin til að greina átök þéttbýlis og náttúru, t.a.m. í kvæðinu Öræfaminningu þar sem samlíðan með, þótt í einveru sé, er borin upp að hinum sára broddi einmanans í byggð. Jafnframt er vikið að samtímaviðburðum á borð við Víetnamstríðið og æskulýðsuppreisn 68-kynslóðarinnar sem Pétur lítur nokkuð jákvæðum augum:

Sem ljósið brýst
gegnum myrkrið
fara ný sannindi
gegnum gamlar hefðir.

Eftirtektarverð finnast mér einnig ljóð Péturs um gildiskreppu samtímans og einna best þeirra ljóðið

Orð:

Það er undarlegt
að sitja í byggð
innan um allskonar
fjölmæli
og ívitnanir
til mikilla hugsjóna,
sem talið er sjálfsagt
að enginn meini.

En átaka gætir einnig í ljóðformi í kvæðum Péturs. Hann yrkir oft hefðbundið og er ágætur hagyrðingur en honum lætur líka vel að yrkja í lausu máli. Segja má því sem svo að hann hafi tekið nýjum tímum opnum huga þótt hann skynji einnig varasama boða á leið okkar inn í framtíðina. Kvæðaheimur hans er heildstæður og sannfærandi og bókin á erindi til okkar.

GÓP-fréttir forsíða * Til baka í Útgáfufréttir