Forsíða

(Teljarinn
núllstilltur
20070506)

FKE í Lillehammer 5. - 9. júní 2002
Samantekt: Þórir Sigurðsson, fararstjóri.
Myndir: Ragna Freyja Karlsdóttir.
Músaðu á myndirnar tili að fá þær stærri og skýrari!

Stærri og skýrari færðu myndirnar hér!!

Miðvikudagur 
5. júní

01_fulltruar.jpg
Þórir, Rannveig, Ólöf, Óli og Björg


Ólafur Haukur og Björg 

03_fulltruar.jpg
Yfir öxlina á Óla Kr.:
Gísli Ólafur, Ragna Freyja, Björg
og Ólafur Haukur

Skæringur bílstjóri kom á Vesturbrún 6 klukkan 5:45 í morgun og sótti mig og farangurinn, síðan var haldið niður á Skúlagötu þar sem Ólöf, Björg og Ólafur Haukur biðu okkar. Þaðan var ekið í Kópavoginn til Rögnu Freyju og Gísla Ólafs, Óla Kr. og Rannveigar. Morgunninn var einstaklega fallegur og létt yfir ferðafélögunum. Innritun gekk vel en eitthvað var öryggisgæslan að angra okkur, málmhluti voru sumir með í vösum og það krafðist nánari skoðunar. Við bara brostum að þessu. Þegar við komum upp í Fríhöfnina tvístraðist hópurinn, Ragna Freyja og Gísli Ólafur fóru með flugvél til Kaupmannahafnar og þaðan til Gardermoen flugvallarins við Oslo. Við hin fórum með flugvél beint til Gardermoen og komum þangað á hádegi að staðartíma. Greiðlega gekk að komast í gegnum vegabréfaskoðun og tollgæslu. Í flugstöðinni beið vinur okkar Erlingur Jónsson myndlistamaður og kennari eftir okkur. Hann leiðbeindi okkur og aðstoðaði við að kaupa lestarmiða til Lillehammer. 

Nokkur bið var á að lest færi þangað, við gátum sest niður um stund og fengið okkur hressingu og spjallað við Erling. Hann gekk svo með okkur að Lillehammerlestinni og kvöddumst við þar. Á brautarpallinum hittum við nokkra norræna eftirlaunakennara sem við þekktum.
Lestarferðin til Lillehammer tók um tvo tíma. Bærinn er í Østlandet við norðurenda Mjøsa sem er stærsta stöðuvatn Noregs, íbúar eru um 23 þúsund. Árið 1994 voru Vetrar-Olympíuleikarnir haldnir í Lillehammer og nágrenni.
Við lestarstöðina þar beið Helge Røyne eftir okkur, hann var með stóra hópferðabifreið og flutti þá sem á eftirlaunamótið voru að fara til Hotel Rica Victoria en þar var mótið haldið. 
Hófst nú úthlutun ráðstefnugagna og innritun á mótið og gekk hún fljótt fyrir sig. Við fengum lykla að herbergjum og þau voru mjög þokkaleg. Nú var góður tími til að taka úr töskum og skipta um föt fyrir kvöldmatinn sem hófst klukkan 19:00. Ragna Freyja og Gísli Ólafur voru komin, dóttir þeirra sem býr í Lillehammer hafði sótt þau á flugvöllinn í bíl sínum.
101 þátttakandi var skráður á ráðstefnuna, flestir frá Noregi og Danmörku, fæstir frá Færeyjum, aðeins 4. 
Helge Røyne var ráðstefnustjóri, hann er skemmtilegur náungi og fjölhæfur. Hann ók hópferðabílnum sem sótti okkur á lestarstöðina eins og áður er sagt, hann stjórnaði almennum söng og söngkór sem hann hafði æft, svo lék hann einnig ágætlega á gítar.
Við upphaf kvöldmatarins voru ráðstefnugestir boðnir velkomnir og nokkur stutt ávörp flutt. Þetta kvöld skemmti sönghópurinn “a la carte” á meðan við snæddum. Ráðstefnugestirnir sungu einnig nokkur lög. Dagskráin var ekki mjög löng þetta kvöld, margir voru þreyttir eftir löng ferðalög.

Fimmtudagur
6. júní


FKE_2002_0606_093648AA.jpg
Annað sjónarhorn

FKE_2002_0606_093833AA.jpg
Minnismerki um
sovésku
fangana

FKE_2002_0606_091616AA.jpg 
Við minnismerkið um norsku kennarana

Á slaginu klukkan átta mættum við í morgunmat í sama matsalnum og í gærkvöld. Maturinn er ágætur, fjölbreyttur og ríkulega fram reiddur. Klukkan hálftíu var farið í tveim hópferðabílum á hersvæðið Jørstadmoen, var það um 15 mínútna ferð frá hótelinu okkar. Þar var gengið í samkomusal og tvö ávörp flutt. Það fyrra flutti yfirmaður hersins þarna á svæðinu. Seinna erindið fjallaði um hóp um 1000 norskra kennara sem þarna var í fangelsi um tíma. Ástæðan til að þeir voru hnepptir í fangelsi var sú að þeir neituðu að styðja Nasjonal Samling flokk Quislings og vildu ekki útbreiða og túlka kenningar þeirra kumpána. Eftir að erindinu lauk gengum við öll að minnismerki um þessa hugdjörfu kennara og blómsveigur var lagður að minnismerkinu. Einnig var lagður blómsveigur að minnismerki um tugþúsundir sovétskra fanga sem þarna voru í haldi hjá Þjóðverjum og norskum bandamönnum þeirra. Áttu þeir þar dapra vist. Þegar stríðinu lauk fögnuðu fangarnir ákaflega, léku á hljóðfæri, sungu og dönsuðu í marga daga. Svo birtust sovéskir herflutningabílar og fluttu þessa menn á brott. Var okkur sagt að leið þeirra margra hefði aftur legið í fangelsi, nú hjá eigin landsmönnum. Áhrifamikið var að hlusta á frásagnir um kennarana og fangana.

FKE_2002_0606_102458AA.jpg
Inn í tröllasalinn
er auðvitað gengið
milli fóta tröllsins
Klukkan 12 var farið í skemmtigarðinn Hunderfossen í Lillehammer. Þetta er mjög stór og fjölbreyttur fjölskyldugarður uppbyggður á fremur óvenjulegan hátt. Byrjað var á því að fara í hádegismat í Tröllasalnum. Hann var uppbyggður eins og hellir, risastórar myndir af tröllum og alls kyns verum skreyttu salarkynnin. Myndefnin voru sótt í norskar þjóðsögur. Eftir matinn voru ýmsir staðir garðsins heimsóttir. Við flest fórum í ævintýrahöllina Soria Moria. 
FKE_2002_0606_122605AA.jpg
Ævintýrahöllin Soria Moria

FKE_2002_0606_123309AA.jpg
Drottningin virtist heima ?!

FKE_2002_0606_132941AA.jpg
Þarna voru þeir Clint ..

FKE_2002_0606_133534AA.jpg
.. og Castro


Soria Moria
Tölvustýrður vagn flutti okkur milli herbergja í höllinni. Þar voru þjóðsagnapersónur búnar til af miklum hagleik og listfengi og herbergin sjálf hreinustu listaverk. 

FKE_2002_0606_124947AA.jpg * FKE_2002_0606_125109AA.jpg
Þríhöfða  - - - - - - - - - og Fiðlu-Hans

FKE_2002_0606_125151AA.jpg * FKE_2002_0606_125311AA.jpg
Ævintýrahetjur - og konan sem var svo þrjósk ..

FKE_2002_0606_125354AA.jpg
.. og svo auðvitað kóngsdóttirin á glerfjallinu!

Úti fóru sum okkar í bátsferð eftir straumharðri rennu og við Óli tókum létta skák á útitafli. 

FKE_2002_0606_124011AA.jpg

Heim á hótel var farið um klukkan 16 en tveim tímum síðar var farið í hópferðabílunum í veitingahúsið Gaiastova.

 

FKE_2002_0606_191044AA.jpg
Við Gaiastovu í kvöldhúminu
Gaiastova er falleg veitingastofa hátt upp til fjalla og mikið útsýni yfir byggðina, dali og fjöll. Í Gaiastova var snæddur hinn ágætasti kvöldverður. Songhópurinn Karteswingen skemmti okkur. Helge Røyne stjórnaði sönghópnum. Þetta kvöld var mjög skemmtilegt, heimferð var nokkru fyrir miðnætti.

FKE_2002_0606_192848AA.jpg
Horft niður af fjallinu skammt frá Gaiastovu. 

Föstudagur
7. júní

Maihaugen - kynningarmynd
Frá Maihaugen

Mynd úr kynningarriti
Maihaugen-safnsins 


Morgunmatur snæddur klukkan 8. Síðan var ekið með hópinn til byggðasafnsins Maihaugen og leiðbeinendur sögðu frá og útskýrðu það sem fyrir augu bar. Þarna er fjölmargt fróðlegt og fallegt að sjá, veðrið var frábært og gaman að vera í safninu.Þar eru 185 byggingar, bæði frá Gudbrandsalen og Lillehammer. Sumar mjög gamlar. Við urðum sjálf að bjarga okkur með hádegismat þennan dag.Eftir hádegi var frjáls dagskrá hjá okkur. Við ákváðum að skoða miðbæinn betur og gengum Storgatan á enda. Litið var á varning í verslunum og eitthvað smávegis keypt. Ég ætlaði að skipta ávísun frá Búnaðarbanka Íslands, reyndi í þrem bönkum en hafði ekki erindi sem erfiði. Ólafur Haukur var mér til styrktar en Norðmenn eru fastheldnir á fé. Óli Kr. orti bænaljóð og álagavísur í tilefni af erindisleysu okkar, en ekkert gekk. Kom því með ávísunina heim aftur óskipta. 

Virðist Þórir vegamóður, 
villugjarnan reika stig. 
Viltu ekki Guð minn góður 
gæta drengsins fyrir mig. 

Ólaf hélt ég í vanda væri,
vafrandi þennan sama stig.
Viltu Drottinn, vinur kæri,
vernda hann einnig fyrir mig.

Þér vil ég Drottinn þakkir tjá, 
þinn er mikill kraftur. 
Þeir eru komnir þægir á, 
þrönga veginn aftur. 

Klukkan 17:00- 18:00 var samráðsfundur í ráðstefnuherbergi á hótelinu. Á fundinum voru 3-4 fulltrúar frá hverju þátttökulandanna á ráðstefnunni. Þórir, Ólafur Haukur og Ólöf voru þar fyrir Íslands hönd. Þarna kynntum við ráðstefnuna sem á að vera í Reykjavík 12.-16. júní 2003. Við lýstum dagskránni og útbýttum bæklingum með upplýsingum um Reykjavík, Suðurland og Borgarfjörð. Svöruðum spurningum sem fram voru bornar. Góður áhugi virtist vera fyrir ráðstefnunni í Reykjavík.
Að venju var kvöldmatur klukkan 19. Nemendur frá Tónlistarskólanum í Gjøvík léku á strokhljóðfæri. Íslendingar og Færeyingar sungu eitt lag hvor hópur.

Laugardagur
8. júní

FKE_2002_0608_073027AA.jpg
Í iðrum fjallsins

Morgunmatur klukkan 7:30. Síðan var ekið til Gjøvik var það um 40 mínútna akstur. Klukkan 9:15 var skoðaður Fjellhallen, sem Norðmenn segja að sé stærsti íþróttasalur í heimi. Er það mikið mannvirki, sprengt inn í fjallshlíð. 

Fjallasalurinn
Fjellhallen er sprengdur inn í fjallið
Mynd úr kynningarbæklingi 

Skibladnir

FKE_2002_0608_095432AA.jpg
Ljúf sigling ... 

FKE_2002_0608_100041AA.jpg
í léttum blæ ...


FKE_2002_0608_093929AA.jpg
Horft til lands af Skibladni

Klukkan 10:30 lagt af stað í siglingu með hjólaskipinu Skíðblaðni, var siglt eftir vatninu Mjøsa frá Gjøvik til Hamar. Skíðblaðnir er elsta hjólaskip sem enn er í notkun. Siglingin var mjög ánægjuleg. Veðrið var eins og best var á kosið, sólskin og smáandvari. Vatnið Mjøsa er um 120 kílómetrar að lengd. Um 20 tegundir af fiski eru í vatninu, urriðategund ein er algengust. Veiðst hefur 17 kílóa urriði í Mjøsa og algengt er að fá þar 7-9 kílóa fiska. 

Skíðblaðnir lagði að bryggju í Hamar um hádegisbil og þar biðu okkar hópferðabílarnir. Hamar er sögufrægur bær. Þar áðu þeir Hákon konungur og Ólafur krónprins á flóttanum frá Osló þegar Þjóðverjar réðust á Noreg í apríl 1940. Hádegisverður var snæddur í Seaside veitingahúsinu í Hamar og eftir það var farið til Domkirkeodden. 

 

Dómkirkjan - kynningarmynd
Kvöldstund í kyrrðinni -
Kynningarmynd frá
Hedmarksmuseet 
FKE_2002_0608_131720AA.jpg * FKE_2002_0608_131749AA.jpg
Í Glassdomen - Gler-dómkirkjunni

Í Domkirkeodden er Glassdomen frá 12.öld, mjög falleg bygging. Þar var viðburðarík saga kirkjunnar sögð. Stuttur orgelkonsert leikinn og Vest-Oppland kammerkór söng nokkur lög frábærlega vel. Klukkan hálf sex var ekið til hótels okkar í Lillehammer.

FKE_2002_0608_191512AA.jpg
Ólöf, Ólafur Haukur og Björg

FKE_2002_0608_191631AA.jpg
Gísli Ólafur, Rannveig og Óli Kr. 

Klukkan 20 hófst lokaveisla mótsins. Hún var í sérstökum hátíðasal á hótelinu. Miklar og ágætar veitingar voru fram bornar. Allir þátttakendur fengu minningargjöf frá norsku mótshöldurunum. Fluttar voru nokkrar stuttar ræðu, kveðjur og þakkir. Þá kom tónlistaratriði. 

Ég sagði frá því að næsta mót norrænna eftirlaunakennara yrði á Íslandi dagana 12.-16. júní 2003 og lýsti dagskránni þar. Einnig var mér falið að þakka, fyrir hönd þátttökulandanna, norsku nefndinni sem hafði undirbúið og stjórnað þessu ágæta og eftirminnilega móti. Þar næst komu fulltrúar Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar og Íslands og afhentu stjórn og framkvæmdanefnd mótsins gjafir sem þakklætisvott frá öllum þátttakendum. Færeyingar höfðu annan hátt á. Þeir gáfu einum frá hverju landi bókagjöf, Kennaratal Færeyinga og Sögu kennaramenntunar í Færeyjum. 

Eftir þetta voru sungin nokkur lög. Gísli Ólafur hafði samið ágætt ljóð á norsku og var það sungið við írskt lag. Gísli Ólafur fjölfaldaði ljóðið og kenndi veislugestum lagið, tókst söngurinn með miklum ágætum. Mótinu slitið um klukkan 23.

NPT-sangen
Melodi: 
Den irske Wild Rover
Text: GÓP
Fra strande, fra fjelle, fra breer, fra elv,
fra fortid vi kommer og möter frem selv
og treffer hinanden den helt förste dag
og her vi oplever kulturens innslag 

... så forventningsfulle * * * *
- finns en aften så blid!
nå tiden vil rulle -
- en eventyrtid!

Og sammen ved frokosten setter vi oss
og siden i utflukt til skogs og til foss
og höjt opp til fjellet og dypt inn til dal
og dagen er fylt op með venskap og tal.

... dette husker vi siden * * * *
- ja - en glemmer ei sånt!
-Vort liv - det er tiden -
- en tid som er lånt.

Ja, her er vort möte i samvær og smil
i slotter, i parker, i grupper og bil.
Vi interagerer i öst og i vest
og alt kulminerer i avslutningsfest

:,: ... hei! ho! takk for den tiden! * * * *
hei! ho! takk - kjære ven! 
- og måtte vi siden
så mötes igjen! :,:
Sunnudagur
9. júní
Morgunmatur klukkan 7:30. Síðan lokið við að pakka farangri í töskur. Komið var að kveðjustund. Ragna Freyja og Gísli Ólafur voru með aðra ferðaáætlun en við hin í íslenska hópnum og þarna skildust leiðir. Helge Røyne kom með hópferðabíl sinn heim að hóteli Rica Victoria klukkan 8:45 og ók með þá á lestarstöðina sem ætluðu til Gardermoen og Osló. Með lestinni ókum við til Østbanestöðvarinnar í Osló .Tók sú ferð tvo og hálfan tíma. Það má taka fram að norsku járnbrautarlestarnar eru afar þægilegar og hljóðlátar og gott að ferðast með þeim. 

Á Østbanestöðinni beið vinur okkar Erlingur Jónsson. Hann hjálpaði til með farangurinn út á bílastæðið við stöðina . Þar beið Sidsel Marie Nielsen vinkona hans með bíl sinn og þar var einnig bíll Erlings. Þau voru búin að skipuleggja dvöl okkar þennan dagpart í Osló. Fyrst fóru þau með okkur til heimilis Sidsel í Domstredet 12, en það er ekki mjög langt frá miðbænum. Hún býr í gömlu virðulegu húsi, íbúðin er á þrem hæðum, einstaklega notaleg. Margar fagrar myndir og málverk ásamt listaverkum Erlings prýða íbúðina auk annarra fagurra muna og merkilegra bóka. Það er auðséð að hér er mikið og einstakt menningarheimili. Sidsel var búin að útbúa hádegisverð fyrir okkur og gerðum við honum góð skil. Skemmtilegar umræður fóru fram á meðan við neyttum matarins, um nóg var að tala. Sidsel virtist okkur stórmerkileg kona og mikill persónuleiki. Hún er cand mag. í leiklistarsögu, listasögu og tónlistarsögu. Sidsel hefur víða komið við á menningarsviði Evrópu, verið sviðsleikari og kvikmyndaleikari í Danmörku og Noregi, stjórnað leiksýningum og óperusýningum, m.a. óperusýningu á Ítalíu nú í sumar. Rithöfundur er hún, hún gaf okkur eintök af bók sem hún skrifaði um föður sinn norska stórleikarann, leikhússtjórann og gagnrýnandandann Hans Jacob Nilsen ( 1897-1957). Er auðséð við lestur á þessari ágætu bók að hann hefur verið mikilsvirtur og mikilvirkur í norsku menningarlífi. M.a. var hann leikhússtjóri við Det Norske Teatret, Den Nationale scene og Folketeatret. 

..

Erlingur sýndi okkur mörg listaverk sín sem eru þarna í íbúðinni. Útskýrði hann tilurð verkanna og hugsunina á bak við gerð þeirra, var mjög fróðlegt að hlusta á Erling.
Einstaklega fallegur kirkjugarður er í nágrenni við heimili Sidsel. Þangað gengum við í góða veðrinu. Í kirkjugarðinum eru legstaðir margra mestu listamanna Noregs, skálda, myndlistarmanna og annarra andans stórmenna og stjórnmálamanna. Á leiðunum er margt fagurra minnismerkja. Þarna gáfum við okkur góðan tíma. Næst var farið í vinnustofu Erlings þar sem hann vinnur þrívíðar myndir sínar. Efnisnotkun og útfærsla er mjög fjölbreytt. Erlingur hefur hlotið margar viðurkenningar í Noregi fyrir list sína og er orðinn vel þekktur þar. Hann er góðvinur margra helstu myndlistarmanna Noregs og er virkur meðlimur í fagfélögum þeirra. 

Erlingur kom okkur á óvart þegar hann birtist með fallega fiðlu sem hann hafði á vinnustofunni og byrjaði án undirbúnings að leika á fiðluna. Það var sérstök upplifun að hlusta á hann leika nokkur lög ágæta vel. Erlingur er lærður fiðluleikari, er þó ekki mikið fyrir að spila opinberlega fyrir fólk. Ég haf til dæmis aldrei áður heyrt hann leika á fiðlu og hef þó þekkt Erling í meira en 30 ár. Eftirminnileg stund.

Næst var okkur boðið í ökuferð uppá hæð fyrir norðan borgina, þaðan mátti sjá yfir alla Osló og til Holmenkollen. Við fórum þarna inn á veitingahús og buðum gestgjöfum okkar uppá kaffi og meðlæti. Nú var farið að líða að því að við þyrftum að koma okkur niður á Umferðamiðstöðina. Farangurinn var sóttur heim til Sidsel. Á Umferða-miðstöðinni kvöddum við Sidsel, hún fór til Rómar næsta dag, þar á hún íbúð. Erlingur aðstoðaði okkur við að komast í áætlunarbílinn sem ekur til Notodden. Erling hittum við svo aftur þegar við komum til Osló um hádegi á miðvikudag.

.. Bíllinn var tvo tíma á leiðinni til Notodden á Þelamörk, vestur eða suðvestur frá Osló. Á torginu í Notodden biðu okkar tveir vinir mínir, þeir Gunnar Guttormsgaard og Steinar Kjosavik. Báðir voru þeir kennarar við Kennaraskólann í Notodden. Gunnar hafði haft allan veg og vanda við skipulagningu á dvöl okkar í Notodden. Hann hafði fengið herbergi fyrir okkur í Bolkesjø hótelinu- Gran byggingunni sem er í nokkurri fjarlægð frá Notodden bænum. Þetta er sannkallað glæsihótel, annar aðaleigandi þess er íslensk kona, Laila dóttir Ib Wessmann sem margir kannast við. Nú stóð svo á að við vorum víst einu næturgestirnir á hótelinu, stórri ráðstefnu var nýlokið og ekki von á næsta hópi fyrr en við við vorum farin. Við skráðum okkur inn á hótelið, fengum ágætis herbergi, tókum farangur upp úr töskum. Síðan fórum við niður í setustofu, fengum okkur kvöldhressingu og ræddum viðburði dagsins og áætlanir næstu tveggja daga. Svo var farið í háttinn.
Mánudagur
10. júní
Við létum það eftir okkur að mæta í morgunmat klukkan hálf níu. Morgunverðarborðið var hlaðið hollustufæðu og góðgæti- og við vorum einu gestirnir. Matarlystin var í góðu lagi, við vissum líka að langur dagur var framundan og betra að vera vel undir hann búin. Klukkan hálftíu komu þeir vinirnir Gunnar Guttormsgaard og Ingvar Sundvor kennaraskólakennari og fjárbóndi í bílum sínum til Bolkesjø hótelsins. Þeir buðu okkur í dagsferð yfir fjöllin til Rjukan bæjarins og þaðan til Rauland kennaraskólans við Totakvatnið. Þetta var alveg stórskemmtileg og fróðleg ferð. Á tveimur stöðum áðum við og fengum okkur hressingu. 

Fyrst var farið upp í fjöllin í nær 1800 metra hæð í áttina að Rjukan. Hæsti tindurinn þarna er Gusta 1883 metra hár. Mikið útsýni var á þessari leið og fróðlegt að sjá hvernig gróðurfar breyttist eftir því sem hærra kom í fjöllin. Allt í einu fór leiðin að liggja niðurá við svo varð vegurinn snarbrattur alla leið niður í dalinn þar sem Rjukan bærinn er. Rjukan svæðið er mjög merkilegt og sögulegt. Rjukan fossinn var frægur fyrir fegurð sína og mikilleik. Nú er hann löngu horfinn, búið að virkja hann. Þarna hóf Norsk Hydro starfsemi sína sem byggðist fyrst á framleiðslu tilbúins áburðar. Rjukan varð frægur staður í Seinni heimstyrjöldinni þá var þar framleitt þungt vatn sem átti að nota til framleiðslu á kjarnorku- og vetnissprengjum. Breskar flugvélar köstuðu sprengjum á raforkuverin þarna og norskir menn úr andspyrnu-hreyfingunni eyðilögðu vélarnar sem áttu að framleiða þunga vatnið. Um þetta allt fræddumst við þegar við skoðuðum stórmerkilega sýningu í einu aðal raforkuverinu frá þessum tíma. Rjukan bærinn sjálfur er vinalegur smábær, sérstaka athygli vöktu myndarlegir verkamannabústaðir sem Norsk Hydro hafði á sínum tíma látið reisa fyrir starfsmenn sína.

..

Frá Rjukan var ekið að Totak vatninu og að kennaraháskólanum við Rauland. Þar höfðu vinir okkar pantað hádegismat fyrir hópinn og borðuðum við þar ágætismat í boði skólans.

Eftir matinn var haldið sem leið lá í áttina til Notodden og Bolkesjø. Við fórum framhjá bænum hans Ingvar Sundvor, bærinn heitir Sauland og er það við hæfi því Ingvar stundar þar myndarlegan fjárbúskap. Hann og fjölskylda hans voru einmitt nú að fá eftirsótt verðlaun og viðurkenningu fyrir framúrskarandi búskaparhætti á jörð sinni. Klukkan var farin að halla í sjö þegar bílarnir okkar renndu að Bolkesjø hótelinu okkar. Kvöddum við þá Gunnar og Ingvar, en hann hittum við ekki aftur í þessari ferð. Kvöldið var rólegt hjá okkur, enda við orðin ferðaþreytt.

Þriðjudagur
11. júní
Eftir morgunmat komu þeir Gunnar Guttormsgaard og Steinar Kjosavik á bílum sínum til hótelsins. Nú var byrjað á því að skoða Notodden bæ og nágrenni hans. Þeir sögðu okkur fróðlega sögu bæjarins Notodden er fallegur og vinalegur bær. Fjölmargar virkjanir eru í bænum og í nágrenni hans. Á sínum tíma byggðist uppbygging bæjarins á raforkuframleiðslunni. Mikill og fjölbreyttur iðnaður var byggður upp þarna þó engin stórfyrirtæki skildist okkur. Nú á tímum eru það skólarnir sem eru lyftistöng bæjarfélagsins. Bærinn er einstaklega hreinlegur og snyrtilegur.

Við vorum boðin í heimsókn í Kennaraskólann í Notodden. Kari Carlsen afdelingsleder i forming og Jostein Sandven lektor tóku á móti okkur og byrjuðu á að bjóða okkur öllum til hádegisverðar í matarsal skólans. Svo fórum við í fyrirlestrasal þar sem Kari Carlsen sagði okkur frá skipulagi og uppbyggingu skólans og Jostein Sandven fræddi okkur um sögu skólans og starfsemi hans. Eftir það voru húsakynni skólans skoðuð og Ella Mellby lektor sýndi okkur og útskýrði lokaverkefni nemenda í textíldeild. Var þetta allt saman mjög fróðlegt og skemmtilegt. Sérstaka athygli vakti glæsilegt bókasafn skólans. Stórt og vel skipulagt. Verkstæði verklegra greina voru einstaklega vel búin vélum og verkfærum. Mikil samskipti hafa verið í yfir 30 ár milli Notodden skólans og islenskra skóla og skólamanna. Margir íslenskir mynd- og handmenntarkennarar hafa farið til framhaldsnáms og bera þeir allir skólanum vel söguna. Bæði nemendahópar frá skólanum í Notodden og kennarar hafa heimsótt Ísland og skoðað skóla hér. 

.. Eftir að heimsókninni í Kennaraháskólann í Notodden lauk var ekið til hótelsins okkar, Egel Skotte, lektor í tónlist og Gunnar óku með okkur, Steinar var við prófdómarastörf. Eftir um það bil tvo tíma komu þeir Gunnar og Steinar í bílum sínum og óku með okkur til stafkirkjunnar í Heddal. Þetta er stærsta stafkirkja í Noregi, talin reist um árið 1250, kór kirkjunnar er jafnvel eldri. Kirkjan var líklega í upphafi vígð Maríu mey. Veggmálverk kirkjunnar eru frá lokum 17. aldar. Um 1930 urðu menn varir við 13. aldar málverk undir 17. aldar málverkunum. Þessi málverk sýna líklega manneskjur og dýr í skrúðgöngu. Stóllinn hægra megin í kórnum er frá 13. öld. Tréskurðurinn á honum sýnir Sigurð Fáfnisbana í atviki sem sagt er frá í Völsungasögu. Stafkirkjan er enn sóknarkirkja í Heddal, hún var katólsk kirkja til 1537 en er nú evangelísk lútersk kirkja. Söfnuðurinn hefur reist glæsilegt safnaðarheimili skammt frá stafkirkjunni. Gunnar Guttormsgaard er frammámaður í sóknarnefndinni, greinilega leiðandi þar eins og víðar. 
.. Eftir þessa skoðunarferð fór hópurinn í heimboð til Gunnars og Oddveigar konu hans. Þau búa í útjaðri bæjarins í ágætu einbýlishúsi. Hafa stóra lóð. Töluvert útsýni. Einu sinni voru þau þarna með nokkrar kindur og hænsn en nú er það liðin tíð. En þau eru með margs konar ávaxtatré og berjarunna sem þau nytja þarna á lóðinni. Oddveig stóð brosandi úti á hlaði þegar fyrri billinn kom að húsinu. Heilsaði gestum hlýlega og bauð þá velkomna. Heimili þeirra Oddveigar og Gunnars er fallegt og vinalegt, sannkallað menningarheimili. Oddveig var búin að leggja á borð þegar okkur bar að garði, allt smekklegt og fallegt. Þetta kvöld gleymist seint, frábærar veitingar, fallega fram bornar, skemmtilegar og fróðlegar umræður. Ekkó geisladiskurinn spilaður. Oddveig, Gunnar og Steinar hældu söngnum og fannst mikið til um hvað kórinn væri vel samstilltur og æfður. Við sungum svo líka nokkur lög. Komumst skammlaust frá því. Gunnar og Steinar óku með okkur heim á hótelið um 11 leytið.
Miðvikudagur
12. júní
Þá var upprunninn síðasti dagurinn í þessari ferð okkar. Farangri var pakkað í töskur og svo farið í matsalinn og snæddur morgunverður. Hótelreikningar greiddir. Nokkru fyrir klukkan 9 komu þeir Gunnar og Steinar í bílum sínum og svo var ekið niður til Notodden að torginu þar sem áætlanabílarnir hafa bækistöð. Vinir okkar voru kvaddir og þeim þakkað fyrir frábærar móttökur, aðstoð og akstur og alla fyrirgreiðslu. Brátt var heim ferðin hafin og við á leið til Oslóar. 

Eftir tveggja tíma skstur vorum við komin á hópferðastöðina í Osló þar sem Erlingur Jónsson beið okkar. Nú var að koma farangrinum í geymslu á meðan við dveldum í borginni. Öll farangursbox þarna virtust annaðhvort upptekin eða biluð, endaði þetta með því að við komum hluta farangursins í eitt box en við Erlingur fórum með hluta hans til heimilis Sidsel og geymdum hann þar um daginn. Svo þurfti að koma bíl Erlings í bílageymslu og það reyndist ekki fljótlegt- en tókst að lokum. Allt þetta umstang tók meira en klukkustund og ferðafélagarnir orðnir óþolinmóðir að komast niður á Karl Jóhann. Þangað gengum við og Erlingur fræddi okkur um marga hluti sem fyrir augu bar, arkitektúr, myndastyttur og skreytingar. Á öllu þessu kann hann góð skil og gaman og fróðlegt var að hlusta á hann. Við brugðum okkur inn í stórverslun og fengum okkur léttan hádegisverð í matstofu þar. 

..

Í góða veðrinu reikuðum við átt að konungshöllinni, námum staðar við þinghúsið og skoðuðum styttur þar, skoðuðum styttuna af Christian Krogh, litum inn á Grand Hotel og restaurant sem listamenn sækja mikið. Svo var gengið alla leið að konungshöllinni og þar taknar myndir af hópnum. Vaktaskipti voru hjá hallarverðinum á meðan við stóðum við þar. Miklar serímóníur .Næst var farið í Ráðhús Oslóar. Skreytingar utan og innan dyra skoðaðar. Í útiveitingahúsi í miðborginni fengum við okkur hressingu og nutum þess að virða fyrir okkur fólk og umhverfi. Það er vissulega margt að sjá í miðborginni. 

Nú var farið að líða að þeim tíma að við þyrftum að fara til Gardermoen. Rólega var gengið að Umferðamiðstöðinni. Götulistamenn voru með uppákomur og tónlist. Erlingur hljóp á undan hópnum sótti bíl sinn í bílageymsluna og farangurinn til íbúðar Sidsel. Við hittumst svo á Umferðastöðinni. Erlingur var kært kvaddur og honum þökkuð öll hjálpin sem hann hefur veitt okkur. Honum verður þó seint fullþakkað, það er ómetanlegt að eiga slíkan vin. Brátt vorum við á leið á Gardermoen flugvöllinn.
Innritun gekk fljótt. Við fengum okkur kvöldhressingu í veitingastofu og ræddum viðburði dagsins. Öryggisvarsla var óvenju öflug. M.a. var greiða tekin af Ólöfu og einhverjar aðrar athugasemdir gerðar við aðra í hópnum. En öll komumst við um borð í flugvélina sem var troðfull, aðallega af Asíubúum. Flugferðin heim gekk vel og brátt stóðum við í Flugstöðinni í Keflavík. Öryggiseftirlitið var óvenju nákvæmt og vegabréfaskoðun tók sinn tíma hjá sumum. 
Skæringur bílstjóri beið eftir okkur og skilaði hverjum til síns heima. Eftirminnilegri og skemmtilegri ferð var þar með lokið. Óli Kr. orti:

Yfir Þóri englar vaka,
alla daga.
Allar ferðir enda taka,
endar saga. 

Þórir Sigurðsson

Þórir Sigurðsson
f.: 24.07.1927
d.: 18.09.2003

Upplýsingar
úr
andlátsfregn
Morgunblaðsins

Þórir var í stjórn
FKE frá 1996-2001
og formaður
frá 1999
Hann lét af 
þeim störfum 
og baðst undan 
endurkjöri á 
aðalfundi 
félagsins 
vorið 2002.

Þórir Laxdal Sigurðsson 
var gagnfræðingur frá MA 1944 og teiknikennari frá Handíðaskólanum 1949. Árið 1964 stundaði hann framhaldsnám í Danmörku og á árunum 1969 - 1982 sótti hann kennaranámskeið af ýmsum toga. Hann var teiknikennari við Laugarnesskóla 1949 - 1969 og stundakennari þæar 1969 - 1983. Hann var umsjónarkennari með allri myndmenntakennslu á skyldunámsstigi og safnakennslu í Reykjavík 1969-1974. Frá 1974 var hann starfsmaður skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins og var námsstjóri í mynd- og handmennt frá 1975 til 1992. Eftir það sinnti hann ýmsum verkefnum á vegum ráðuneytisins til 1994. Hann stjórnaði líka endurmenntunarnámskeiðum fyrir kennara á árunum 1971 - 1978 og árið 1983.

Þórir sat í mörgum nefndum. Hér skal sérstaklega nefna myndíðanefnd um skipan mynd- og handmenntarnáms í íslenskum skólum á árunum frá 1971 til 1973 en síðasta árið var hann formaður hennar. Hann var líka formaður í námskrárnefnd mynd- og handmennta 1973 til 1977.

Hann var prófdómari í teikningu á barnaprófi ig unglingaprófi í Reykjavík 1967 til 1975 og sat í stjórn Félags íslenskra myndlistarkennara. Hann sat í stjórn Félags kennara á eftirlaunum og lét þar af formennsku vorið 2002. 

Frá árinu 1972 var Þórir fulltrúi Íslands í INSEA, sem eru alþjóðleg samtök myndlistakennara. Hann var mikill áhugamaður um listir, listfræðslu, skrift og skriftarkennslu. Hann var sjálfur listaskrifari og var oft fenginn til að annast skrautritun - meðal annars á verðlaunaskjöl. Hann haf'ði áhuga á hvers konar handverki og sat í ritnefnd tímaritsins Hugur og hönd. Hann var höfundur og meðhöfundur fjölda rita um teikningu, skrift og skriftarkennslu. 

Árið 1951 kvæntist Þórir Herborgu Kristjánsdóttur, kennara, frá Holti í Þistilfirði (1922-1989). Þau áttu sex börn. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Jónatansson (1864-1949) frá Einarsstöðum í Reykjadal og Ágústa Jósefsdóttir (1891-1974) frá Hillnabakka á Árskógsströnd.  

Kveðja frá GÓP Ég er að lesa ferðalýsinguna 
sem Þórir Laxdal Sigurðsson skrifaði um ferð okkar til Noregs í júníbyrjun 2002. 

Elskuleg frásögn, hlý og hlutlæg. Gerir ferðafélögunum hátt undir höfði og hendir góðlátlegt gaman að sjálfum sér. Hann annaðist þessa ferð. Réttara er sennilega að segja: hann annaðist okkur á þessari ferð. Vissulega var hann fararstjóri og öllum hnútum kunnugur - en eins og við öll vitum eru fararstjórar misjafnir. Þórir stóð hins vegar alltaf fyllilega undir öllum væntingum. Hógvær, hlýleg, nákvæm og skemmtileg lýsing hans er í samræmi við persónu hans á samferð okkar. 

Kynni okkar voru skammvinn. Það er hins vegar svo að persónueinkenni manna lýsa sér í athöfnum þeirra. Ég er viss um að þau persónueinkenni sem geisluðu frá Þóri Laxdal Sigurðssyni í samferð okkar hafa einkennt hann á allri hans vegferð.

Við Ragna Freyja Karlsdóttir þökkum honum okkar stuttu samfylgd og sendum vinum hans og aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Gísli Ólafur Pétursson

Efst á þessa síðu * Forsíða *