GÓP-fréttir
FKE-vefurinn

170. fræðslu- og skemmtifundur
Félags kennara á eftirlaunum

2. febrúar 2005

Jóhanna, Hermann spilastjóri og KristrúnFundarstaður var Húnabúð og 56 skráðu nafn sitt í gestabók.

Spilað var á 11 borðum undir stjórn Hermanns Guðmundssonar og verðlaun kvenna hlaut Kristrún Óskarsdóttir en karla Jóhanna Björnsdóttir.

Eftir spilalotuna lék Sigurður Jóelsson á píanóið undir almennum söng.

Veislukaffi var að venju.

Á meðan menn gæddu sér á krásunum flutti formaður pistil um málefni félagsins.

  • Þar var sagt af starfi í áhugahópum

  • og af fjármögnun starfsemi félagsins en það er félagssjóður KÍ sem leggur félaginu til 2 milljónir króna árlega til að unnt sé að standa straum af virkri hagsmunagæslu eftirlaunakennara sérstaklega og einnig að taka þátt í baráttu íslenskra eftirlaunamanna fyrir viðunandi kjörum og þjónustu í samfélaginu.

  • Nokkur hluti af þessu rekstrarfé fer samkvæmt hefðum til að styðja almenna starfsemi svo sem að leigja húsnæði og ýmsa þjónustu á fundi félagsins og greiða aksturskostnað í sumarferðum.

  • Sumarferðin á Breiðafjörð. Þar hefur fyrsta hugmynd um fargjald reynst of lág og þótt stuðningur félagsins verði sá að greiða aksturskostnað til og frá Stykkishólmi mun kostnaðurinn við siglinguna og hátíðakvöldverð verða kr. 8.500 svo að verðið hækkar í þá upphæð. Auk þess verða menn að skrá sig skjótt því aðeins komast 120 manns í skipið - og allir félagsmenn, hvar sem þeir búa á landinu, geta skráð sig til þátttöku. Gera má ráð fyrir að það verði biðlisti og þess vegna er nauðsynlegt að þeir sem skrá sig til þátttöku greiði fargjaldið í síðasta lagi 12. ágúst til þess að þá verði ljóst hverjir komist með af biðlistanum.

  • Frammi liggur blað sem menn geta skrifað sig á til að tryggja sér aðgang að sumarferðinni á miðaverðinu kr. 8.500.

  • Árshátíðin verður föstudaginn 4. mars og frammi liggur blað sem menn geta skrifað sig á til að tryggja sér aðgang og þeir sem þar á skrifa þurfa ekki að hringja inn til KÍ að tilkynna þátttöku sina.

  • Þeir sem hafa skráð sig til þátttöku á 28. NPT í Kiruna í Svíþjóð næsta sumar fá hér upplýsingablað en eru svo boðaðir til samráðsfundar næstkomandi þriðjudag, 8. febrúar, kl. 10 árdegis í kjallarasalnum í KÍ-húsinu.


Vigdís Jack flutti okkur frásögn úr Grímsey eftir kaffið. Hún sagði af sinni fyrstu komu á það úthafssker þar sem allt var hundrað árum á eftir tímanum og vatni var safnað af húsþökum og farið sparlega með. Hún fór þangað til að vera ráðskona séra Róberts Jack sem þar var ekkjumaður með syni sína en  svo fór að þau tvö tóku saman og hún sagði frá ævintýralegri giftingarför þeirra til Siglufjarðar. Einnig sagði hún ítarlega af bandaríkjamanninum Willard Fiske sem hafði mikinn áhuga fyrir Íslandi og sérstaklega Grímseyingum sem hann gaf svo rausnarlega peningagjöf að þeir gátu byggt sitt fyrst alvöruhús undir skóla og bókasafn og auk þess gaf hann tafl á hvert heimili í eyjunni.

Í lokin lék Sigurður Jóelsson undir fjöldasöng.

°
*  *  *

Efst á þessa síðu * FKE-vefurinn * Forsíða GÓP-frétta