GÓP-fréttir Ferðatorg Vaðatal Ferðaskrá |
Þórsmörk
19. - 20. janúar 2002 |
Næstliðin tíð | Næstliðna viku hefur verið mikil vætutíð og krapar orðið hangandi til fjalla sem meðal annars ruddust í miklu flæði í Markarfljót fyrir fáum dögum og gerði svo mikið vatn að vart komst undir gömlu brúna. Gamlir menn nærsveitis mundu aldrei slíkan elg í Fljótinu. |
Laugardagur með veður mild Gengið að |
Veðrið var milt og þurrt en með nokkrum austanblæstri og við runnum að Hvolsvelli og svo áfram inn í Mörk. Færið inneftir höfðum við
fregnað að væri leiðinlegt vegna úrrennslis. Það var þó ekki svo afleitt en grófast þó nokkuð breitt bil við Steinsholtsá og þó breiðast og
miklu grófast við Hvanná. Tafði okkur þó ekki meira en svo að við vorum í Skagfjörðsskála um kl. 13 á sex bílum.
Ekki var mikið í vötnunum og kl. 14:30 héldum við aftur útyfir Krossá og fyrst inn í Hvanngil. Þar skiptum við síðan liði. Hluti hópsins fór inn í Tungur og gekk að Hrunajökli. Þar eru skemmtilegar leiðir og þeir hvötustu komust alla leið en barnafólkið skemmra. |
Kannað Hvanngil |
Þeir sem könnuðu Hvanngil fundu að tvisvar þurfti að aka yfir Hvanná til þess að komast þar að sem voru stígar í hlíðum. Þaðan mátti
ganga allt inn að Útigönguhöfða. Gengið var svo langt að sá til efsta hluta gilsins. Í ljós kom að í Hvanngili er enginn foss en áin er strax
vatnsmikil og straummikil vegna mikils botnhalla. Alls ekki er unnt að komast niður Hvanngilið nema vaða að lokum yfir Hvanná tvisvar
sinnum ef förinni er heitið í Langadal - yfir brúna á Krossá - eða í Bása á Goðalandi. Á móts við Útigönguhöfðann er einnig þrenging og
þverhníptir klettar þannig að ekki verður komist hjá að fara yfir ána. Hún er hvergi í slíku aðhaldi að unnt sé að stikla yfir hana. Ef
ætlunin er að ganga upp gilið verður það ekki gert þurrum fótum nema í vöðlum og hafa þarf staf að styðjast við því grjótið er afar gróft
og áin getur verið 60 til 100 sm djúp þegar þó er ekki meira vatn á ferðinni en þessa helgina.
Í bakaleiðinni var Gunnufuð könnuð. Hún er þröng inngöngu og þarf að ganga undir mikinn klett. Komið er inn á hringlaga botn - innan við 10 metrar í þvermál. Veggirnir eru þverhníptir og virðast hallast ögn saman þegar litið er upp til himins. |
Saman á kvöldi |
Við stóðum góðan tíma úti við eldinn og sungum svo inni í skálanum. Við minntumst fyrri ferða, góðra stunda og genginna félaga og skoðuðum stjörnur á miðnætti. |
Sunnudagr með bjartara veður |
Sunnudagurinn var með bjartara veður og hitinn hafði farið undir frostmark um nóttina. Jökullinn var tær - nema slikja á toppi og sólin roðaði morgunskýin með frábærri litafegurð. Gengið var í Myndahvamm í Básum og farið í Húsadal. Ummerki síðasta flóðs voru greinileg. Rofið í varnargarðinn hafði stækkað og útrásin sýndi að þarna hafði verið breiður áll. Hann hafði þó að mestu runnið niður með garðinum og aftur í Fljótið. |
Góð vöð | Að þessu sinni ókum við niður fyrir flugvöllinn áður en við beygðum þvert að Markarfljóti ofan við Lausölduna. Á þeirri leið fengum við allt vatnið í fjórum álum með góðum vöðum og vorum senn á Hellisvöllum umkringd hinu mikla hamravirki. |
Niður að Þórólfsfell |
Gilsá við Hellisvelli var ljúf eins og við var að búast en gatan sums staðar deig og úr runnin. Vegurinn frá Hellisvöllum niður aurinn er hins vegar góður og fljótfarinn. Þórólfsáin var nett og kurteis og þar vorum við komin á sveitarveginn. |
Bleiksár- gljúfur |
Við litum til Bleiksárgljúfurs þegar komið var niður fyrir Barkarstaði en þar er nú girðing meðfram veginum og óhægt að komast að þessu fræga gljúfri sem áður var ein helsta náttúrusmíð sem ferðamönnum var sýnd. Þá komu þeir í Múlakot til gistingar en héldu síðan áfram inn Hlíðina á hestum. Sumir fóru aldrei lengra en í Bleiksárgljúfur en aðrir fóru alla leið inn á Þórsmörk. |
Gunnars- steinn |
Áfram runnum við hjá Tumastöðum og Tungu og gegnum Vatnsdalinn upp á Rangárvelli. Þar ókum við hjá Reynifelli en mörg ár eru
liðin síðan býlið fór í eyði og nú er þar að finna marga sumarbústaði. Við ókum Rangá á brúnni með háu riðin og staðnæmdumst við
Gunnarsstein.
Þar rifjuðum við upp hestaats-forspil Njálu að fyrirsátinni við Knafahóla og bardaganum við Rangá og íhuguðum enn einu sinni hvort trúlegt væri að Rangáin hefði runnið nær steininum fyrir þúsund árum. Þótti margt í frásögninni benda til þess að svo hefði ekki verið - ella hefði það vart verið frásagnarvert að Gunnar kastaði Agli í Sandgili af atgeirnum út í Rangá. |
Heima kl. 17:30 | Við runnum nú heim um auða vegi og voru í Reykjavík fyrir kl. 18. Þetta var mjög góð ferð. Við sáum og ókum eftirhreytur vatnavaxta
vetrarins og könnuðum svæði sem við ekki höfðum fyrr farið um þótt oft höfum komið á Mörkina. Við áttum saman góðar stundir,
sungum og spjölluðum og sögðum frá - en þótt margar stjörnur sæjust á himni varð okkur örðugt að greina nógu margar úr
Karlsvagninum til að staðfesta þá guða-kerru. Á sunnudeginum dró sólin glæsidrætti með sínum geislapensli um Tindfjallajökulinn og
hvít öræfin norður til Laufafells og Torfajökuls.
Ritari þakkar ferðafélögunum skemmtilega samveru og frábæra ferð. |
Efst á þessa síðu * Ferðatorgið * GÓP-fréttir-fréttir