GÓP-fréttir
Ferðatorg
|
Hallgrímur Jónasson (30.10.1894
- 24.101991), kennari við Kennaraskólann segir frá - í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1950 - bls. 143: Um Vatnahjallaveg á bílum Frá Hveravöllum norður
Eyfirðingaveg Fararstjórar: |
Úr Árbók FÍ 1950 |
Svona millifyrirsagnir eru frá GÓP
|
Fimmtu- dagur 8. sept. 1949 Einar Magg Alls | Lagt af stað Hinn 8. dag septembermánaðar haustið 1949 hélt hópur manna af stað úr Reykjavík á þrem bílum og stefndi til fjalla. Það eitt var raunar ekkert sjaldgæft. Samt var för þessi ætluð um leiðir sem bílar höfðu ekki fyrr farið. Markmið hennar var að freista þess að komast þvert um öræfi landsins frá Hveravöllum norður Eyfirðingaveg og Vatnahjalla til Eyjafjarðar. Forystu ferðalagsins höfðu þeir Einar Magnússon, menntaskólakennari, og Guðmundur Jónasson, bílstjóri, en fyrstu hugmynd að því mun Ingimar Ingimarsson, bílstjóri, hafa átt. Þriðji vagnstjórinn var Egill Kristbjörnsson. Voru þessir menn allir harðduglegir og þaulvanir slarkferðum, en vagnar þeirra háir og hinir traustustu. Alls voru 29 menn í förinni, þar á meðal tveir kvikmyndatökumenn. Fyrsta daginn var haldið til Hveravalla. Þó var Blanda könnuð áður en þangað kom. Reyndist hún vel fær litlum spöl ofar en þar sem hún liggur næst veginum. Lá áin þröngt, dágóð í botninn og ekki vatnsmikil, en straumþung. |
9.
sept. 1949 Frá |
Norðan Hofsjökuls Frá Hveravöllum var lagt af stað í birtingu næsta morgun. Veður var dásamlega fagurt, heiðskírt, logn með nokkru frosti og alhrímaðri jörð. Nú var lagt hiklaust í Blöndu og eftir fáeinar mínútur stóðu allir heilu og höldnu á austurbakkanum í því dýrlegasta veðri sem á varð kosið. Síðan var haldið norðaustur með Hofsjökli fyrir Álftabrekkuhorn. Þarna er fjöldi kvísla er fellur til Blöndu. Nú voru þær litlar. Næturfrostið hafði níst úr þeim jökulkorginn. |
Austur yfir Blöndu til Laugafells |
Strangakvísl sýndi enn ættmót sitt og uppruna en tafði annars ekki fyrir að neinu ráði. Þá er kom austur fyrir Sátu var sveigt nær jöklinum. Guðmundur Jónasson ók fyrir en við stóðum nokkrir á bílpallinum, kusum það fremur en sitja inni í bólstruðum sætum hjá Ingimari - þótt gott væri. Héðan var og hægara að velja greiðustu leiðina með Guðmundi sem annars virtist finna hana af eðlisávísun einni saman. Sólin skein í heiði og öræfin ljómuðu í mildu árdagsskini sem voldugur töfraheimur í blækyrrð haustsins. Við ókum sunnan við Eyfirðingahóla og að Jökulsá vestari gegnt Krókafelli. Hún var sæmileg yfirferðar þar sem við völdum vaðið. Því næst var stefna tekin norður með Lambahrauni og austur að Ásbjarnarvötnum. Hraunþúfukvísl, er úr þeim fellur allt norður í Vesturdal, var fyrsti verulegi farartálminn. Hún lá í stokki langt norður eftir. Það ráð var tekið að brúa hana með grjótíburði og tókst þar yfirförin giftusamlega eftir nokkra töf. Um Rauðhóla var nú stefnt til suðausturs á Illviðrahnúka en fram með þeim kemur Jökulsá austari. Hún er mun vatnsmeiri en systir hennar sem fyrr var nefnd, enda sú torfæran sem við töldum erfiðasta. Sveigt var í boga fram með ánni þar sem hún slær sér norður á sandana, en lagt að henni við suðausturhorn hnúkanna. Var hún þar í einu lagi, breiddi dálítið úr sér en botninn ekki sem bestur og bleyta í suðurbakkanum. Eftir að hafa vaðið ána aftur og fram var lagt í hana á bílunum og gekk allt sæmilega. En vel kom sér að hafa vindu á einum bílnum þegar upp úr kom og kviksyndi leyndist undir grjóteyrinni. Nú var haldið suðaustur með Langahrygg og á Sprengisand og þaðan að Laugafelli til gistingar, en þar stendur nýlega reist sæluhús Ferðafélags Akureyrar við heita uppsprettur. Það var dálítið ævintýraleg sjón að sjá 3 bíla standa uppi á hæsta hrygg Laugafells (892 m) í kvöldhúminu. Og útsýni þaðan var ógleymanlegt. Við áttum góða nótt í sæluhúsi FFA. Það er hið myndarlegasta í alla staði og var þó ekki fullbúið. Hér fannst okkur ferðinni raunar lokið. Frá Hveravöllum og hingað hafði aldrei verið ekið bílum fyrr. Við höfðum verið um 14 klukkustundir á leiðinni, rúmlega 100 km vegalengd. Héðan lágu troðnar slóðir norður í Eyjafjörð. |
10.
sept. 1949 | Um Vatnahjalla í
Eyjafjörð Við gerðum ráð fyrir svona tveggja stunda akstri norður á Vatnahjallabrún og flýttum okkur ekkert af stað. Skýrsla um ferðina var skráð í gestabók hússins. Veður var enn hið sama sem daginn áður. |
Um Vatna- hjalla til Akureyrar |
Leiðin norður fyrir Geldingsá var sæmilega greiðfær en þá tóku við naktir urðarhjallar sem urðu því stórgrýttari sem nær dró Urðarvötnum. Er þar skemmst frá að segja að hér mættu okkur meginerfiðleikarnir. Varð ekki ekið hraðar en hægasta lestargang á 15 - 20 km kafla. Vegur er að vísu ruddur nokkuð en bílar okkar voru helst til breiðir fyrir hann. En loks var Vatnahjallabrúninni náð þar sem varða ein mikil, Sankti Pétur, stendur og gnæfir yfir Eyjafjarðardalinn. En þá var eftir að komast niður. Reyndist það allörðugt, meðal annars vegna þess að runnið hafði ír vegarbeygjunum í undangengnum úrfellum. En loksins - að aflíðandi nóni - náði leiðangurinn niður í dalinn heilu og höldnu. Hér skildist okkur fyrst að fullu hvílíkt afreksverk forgöngumenn Ferðafélags Akureyrar höfðu unnið með því að flytja efni í sæluhús sitt um þessar erfiðu torfærur alla leið suður að Laugafelli. Á formaður ferðanefndar FFA, Þorsteinn Þorsteinsson, miklar þakkir og mikla aðdáun skilda fyrir slíkt þrekvirki, ásamt mörgum öðrum mætum mönnum þessa félags. |
Að ferðar- lokum |
Við sem tókum þáttí þessum leiðangri
vorum og þakklátir fararstjórum okkar, þeim Einari Magnússyni og
bílstjórunum. Allir höfðu þeir reynst hinir traustustu og skemmtilegustu
ferðafélagar.
Ef til vill munu ýmsir spyrja: Er þessi öræfaleið fær, til dæmis jeppum og venjulegum bílum? Ég fyrir mitt leyti tel það hæpið. Árnar voru að þessu sinni litlar sökum frostnótta. Þó tel ég tvísýnt að jeppar hefðu komist yfir þær, auk þess fulllágir undir öxul á sumum þeim leiðum sem við fórum. Hinsvegar mun eflaust hægt að finna betri leið en þá sem við völdum sums staðar. Og af Sprengisandi er mun greiðfærara bílum ofan í Bárðardal en um Vatnahjalla. Við höfðum góðan útbúnað. Engir skyldu leggja á öræfin án þess - og naumast nema fleiri en ein bifreið sé í förinni. Öræfin eru dásamlegur heimur að ferðast um í góðbviðri. En fyrirhyggju skyldi ávallt gætt á þeim leiðum og ekki flasað þar að neinu. Að kveldi 4. dags frá því að við lögðum af stað úr Reykjavík, komum við heim aftur með endurminningar sem við gleymum seint eða aldrei. Hallgrímur Jónasson |
Hallgrímur Jónasson | Kennari við
barnaskólann í Vestmannaeyjum 1921-1931 og að hluta við unglingaskóla.
Endurreisti bókasafnið og hóf útlán að nýju 1924 og var bókavörður þar til
hann og Elísabet kona hans fluttu úr Eyjum 1931. Kennari við Kennaraskóla
Íslands frá 1931 til 1968. Hann starfaði við blaðamennsku nokkur ár fyrir
1940, þá við Tímann og var meðritstjóri Nýja Dagblaðsins 1934-1935. Í stjórn
Ferðafélag Íslands 1944-1972 og leiðsögumaður á vegum þess um 30 sumur. Var
heiðursfélagi Ferðafélagsins og Útivistar. (Upplýsingar úr eftirmælum Haraldar Guðnasonar í Mbl. 11. des. 1991.) |