Forsíða
Ferðatorg 
Vaðatal 
Ferðaskrá


Norður Sprengisand 6. nóv. 1965

2. apríl 2002 sett á vefinn
Hér er lýst ferð sem GÓP og Árni Jakobsson, rafvirkjameistari, fóru tveir saman á einum jeppabíl í nóvember árið 1965. Á laugardagskvöldi var farið inn í Landmannalaugar og hafði þá hvorugur þangað áður komið. Á sunnudeginum var ekið norður Sprengisand og gist á Akureyri. Árni Jakobsson lést í október árið 1995.

22. maí 1991
Í gær hringdi til mín fornvinur minn kær, Árni Jakobsson, að biðja mig að senda sér neðanritað kvæði sem ég setti saman eftir þá ferð okkar sem þar er lýst. Engra sérstakra skýringa er þörf með kvæðinu en þess má þó geta að Árni er rjúpnaskyttan en ég sá ferðagjarni.

Atvikin höguðu því svo til að þótt ég smellti oft af minni frábæru myndavél í þessari ferð þá reyndist í henni vera óþrædd filma sem ekkert á festist. Kvæðið hefur reynst okkur báðum nokkur uppbót og ætíð þegar ég les það sé ég fyrir mér atvikin - einnig mörg sem ekki eru þar nefnd.

Þessi uppskrift er gerð eftir frumritinu og engu um breytt nema stafsetningu og nokkrum greinarmerkjum. Ég hef fellt burt allar setur (z) í samræmi við núgildandi stafsetningu en kvæðið er saman sett í þeim hætti málsins sem seturíkastur var. Greinarmerkjum hef ég nokkrum breytt á þann veg sem mér nú þykir auðveldari aflestrar.

Ferðin var farin 6. nóvember 1965
Á næstliðnum árum hef ég oft reynt að rifja upp fyrir mér hvenær þessi ferð var farin. Ég er viss um mánaðardaginn því viku seinna vorum við aftur á ferð í Landmannalaugum og þá var þriðji maður í förinni, Þórarinn Jakobsson, bifvélavirki, bróðir Árna. Þá var laugardagurinn 13. nóvember - sem ber saman við árið 1965. Á sunnudeginum ókum við frá Landmannalaugum í Eldgjá og í kvöldinu niður í Skaftártungu. Þá byrjaði að dyngja niður snjó. Þann dag villtist við Skjaldbreið Jóhann Löve og fannst degi síðar heill á húfi en kalinn á tánum.

1
Við höfum nokkrar ferðir farið
ferðanestið saman barið,
bílinn hlaðið, búist tækjum
býsna góðum ef við ækjum
oní keldu eða snjó:
að við kæmumst uppúr þó.
2
Við höfum látið byssu í bílinn:
best er að taka rjúpnakrílin
ef þau eru að flækjast frammi
fyrir okkar ökugammi,
en að taka á sig krók
er ekki til í vorri bók.
3
Við höfum hlaðið tækjum, tólum,
töngum, lagerum og hjólum:
ætíð við því versta búnir:
vilja síður standa rúnir
allri gleði og góðri von,
Gísli og Árni Jakobsson.
4
Við höfum bensínbirgðir tekið,
bílinn smurt og treyst og skekið,
íklæðst buxum ullar tvennum,
ullarsokkum, peysum þrennum.
Látið úlpur, prímus, pott
og pjakkara í afturskott.
5
Við höfum heyrt á veðurfregnir
vongleði eða ótta slegnir,
hagað för af fremsta mætti
eftir frónskum veðrahætti:
vetrarfagurt fjallaland
ferðamanni býður grand.
6
Við höfum höndum stillt á stýri
stefnt úr bæ í þriðja gíri,
ekið austur Hellisheiði
hlemmiveg í óskaleiði.
- Mikið lék nú lífið sér
einn laugardag í nóvember.
7
Við höfum Kambabrekku brunað,
báðir sínum hag vel unað,
átt í vændum ævintýri
og á brá var geislinn hýri:
langt í  fjarska fjöllin há
fagurbúin til að sjá.
8
Við höfum farið Ölfus austur
á oss blés þar vindur hraustur
en við höfðum hlýju nóga
héldum síðan yfir Flóa,
Skeið og Þjórsá, Holtin heið -
hér var okkar fjallaleið.
9
Við höfum - frá Galtalæk á Landi
lagt að Rjúpnavallasandi,
rennt frá Hlaupi í Rangárbotna -
rjúpu enga fengið skotna,
- dagsins ljós við himinhlið
hafði á sér fararsnið.
10
Við höfum litið Heklu háa,
horft á Búrfellsskóginn gráa,
skyggnst umkring að fjærstu fönnum:
farartálmum ökumönnum,
axlað síðan okkar skinn
- ekið þar í kvöldið inn.
11
Við höfum senst um sand og bruna,
séð til Halds við dimminguna
þar sem Tungna fljótið flæddi
flaumurinn til Þjórsár æddi -
haft þar kláfinn hálfa stund.
Hvarf nú sýn um Ísagrund.
12
Við höfum Búðaháls upp haldið,
heldur gerðist veður baldið:
byrjaði að hvessa og hríða -
hafði áður verið blíða -
þá í myrkri ákváðum
inni að fá í Laugunum.
13
Við höfum síðan suður snúið
sest við Hald og mat upp búið.
Hér var skjól og hér var friður
hríðarveðrin gengu niður.
Bak við Hálsinn bjarmi var:
brellinn Karlinn leyndist þar.
14
Við höfum aftur axlað skinnin -
urðu fleiri en þessi sinnin -
ekið móts við Eyjafossinn,
en við Hófsvaðs brautarkrossinn
aukið hafði éljagang:
allur var hann beint í fang.
15
Við höfum ennþá aukið hraða
inn að vatni Frostastaða.
Var þá nokkur fönn á fallin
- furðu lítið skreipur hallinn -
ekki var þó ekið hratt
enda bæði hátt og bratt.
16
Við höfum nálgast Laugalænu,
litið fyrst á þessa sprænu
síðan ekið yfir hana
ósköp grunna og hrekkjarvana,
- áfram suður auraból
uns við fundum húsaskjól.
17
Við höfum reku lyft af loku
litið inn í myrkursþoku,
talið víst að húsi heitu
héldi fólk með hitaveitu -
- ólík vonin vissu er:
var og frost og kuldi hér.
18
Við höfum stofu fyllt með farmi
fýrað upp í ofnagarmi
kveikt  á fjórum prímuspjökkum
prísað einveru með þökkum -
etið síðan okkar mat
eða bragðað apparat.
19
Við höfum þannig þarna dvalið
þessa stund og föngin valið -
nú - og eftir nokkurn tíma
norðurhimin tók að skíma:
Tungli karlinn tölti þar
á töfrabirtu hvergi spar.
20
Við höfum klæðst í morgunmundinn
mikið nærðir eftir blundinn -
hitað upp og etið nesti,
eina tvo þá fengið gesti
þó þeir kæmu ekki inn
alveg strax í þetta sinn.
21
Við höfum horft í heiðríkjuna,
haldið út í dagsbirtuna,
séð til fjalls hvar frekast mætti
fylgja austurslóðar hætti,
gengið fram á eyrarnar
til aðal stóru árinnar.
22
Við höfum hana vaðið tæra -
var það eigi ill torfæra,
klifið þar upp skreipar skriður
- skrikað furðu lítið niður.
Stórt er Barmsins bæjarhlað
best við uppi sáum það.
23
Við höfum séð er sunnudagur
settist upp á loftið, fagur,
sólflóð braut á silfurhæðum
sindraði í litaglæðum:
- hvílík ægifegurð fleyg
er fengum við í einum teyg!
24
Við höfum horft til hárra jökla:
hvergi fönn í skó né ökla -
unaður á öllum vangi -
ást á lífi í beggja fangi -
hvílíkt land á leifturstund!
litum hvergi fegri grund.
25
Við höfum allt í einu báðir
elding sömu verið háðir:
- okkur setur enginn skorður -
ættum við að fara norður?
samþykki við augnaráð -
innan skamms var húsi náð.
26
Við höfum skráð á bókarblaði:
"búum för á nyrðri staði":
ekið létt um líparítið -
lífið var svo undurskrítið -
næturfrostið festi svell
- fugla geymdi Tjörvafell.
27
Við höfum enn um Haldið haldið
Hálsinn upp - í fjallavaldið -
norður stefnt frá afleggjara
allra Vatnajökulsfara:
sem á verði í vestri tröll
voru tigin Kerlufjöll.
28
Við höfum stefnt að Stóraveri
staldrað við í rjúpnageri,
vetrarsól í vesturhæðum
veröld sveipað nýjum klæðum:
degi brá um loft og land -
langt var enn á Sprengisand.
29
Við höfum litið Landhreppsmanna
Löðmund, Frostastaðagranna.
- Aftanblik á Kerlukletti
kveik í hennar Loðmund setti.
Í það dagur fagur fór
að ferðast inní jöklakór.
30
Við höfum séð er silfurmóðir
sendi gull á þessar slóðir:
Kerlufjöll á foldu loga
fagurrauð við himinboga.
Það var glæst og göfug sýn
- geymist meðan lífið dvín.
31
Við höfum myrkri mætt á fjöllum -
- menn þá verða að litlum köllum,
hugarlíðan svört í sorta -
seint við munum af því gorta
allt þó gengi enn af snilld:
- áttum heilladísa fylgd.
32
Við höfum brautir auðar ekið,
ís um læki fegnir tekið -
margan gamlan farveg fljóta
farið milli stórra grjóta -
fyrir norðan Nýjadal
nálgast tveggja leiða val.
33
Við höfum meiri fannir fundið
fylgt þó tröð um jöklasundið -
fyrir norðan Fjórðungsöldu
fundið prest á landi köldu:
önnur slóð í Eyjafjörð -
eystri hin - um lægri jörð.
34
Við höfum beygt í Bárðardalinn
- brautin varð nú snævi falin -
langt á hæð var lítil stika:
ljósið sást þar endurblika -
komist yfir Kiðaá:
klakastokkna svellagljá.
35
Við höfum fest í fönnum tveimur -
fundið: hér var nyrðri heimur -
sumar skarir lækja lagað -
lipurt yfirförum hagað -
niður urðum orpin Snös
inn á Mjóadalsins grös.
36
Við höfum kílómetra marga
mælt og talið - suma karga -
- þéttar höndin hélt um stýri
- heldur styttist leið að Mýri.
Hindrun varð þá loks á leið:
lítil á var full og breið.
37
Við höfum horft á hana renna,
hrokakrapa stíflu spenna,
vaslað út í, brautu brotið,
blotnað, svitnað, þreyst og hnotið -
eftir loka herslu-hnykk
hljóp hún fram í einum rykk.
38
Við höfum tíma týnt úr sinni
- tapað fæðu hreint úr minni -
máttum nú á Mjóugrundum
matast vel og tíð þá fundum:
þriggja stunda þar var bið -
þvarr að mestu krapaskrið.
39
Við höfum þarna yfir ekið -
endasprettinn loksins tekið.
Nú var úti ævintýri:
óttuskeið - og hér var Mýri.
Eftir för um fjallasal
fundið höfðum Bárðardal.
40
Við höfum þeyst um þjóðarvegi
þótt ei veita af mánudegi.
Sást nú hvergi sólarlogi.
Seint var áð í Kópavogi.
Okkur flutti framar von
15 19 Y.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ferðatorg  * vaðatal * Ferðaskrá