GÓP-fréttir
Ferðatorg 
Vaðatal 
Ferðaskrá

Hofsjökulhringur

Haustferðin 13.-15. september 1991

Í
Nýjadal
Í Nýjadal

Eftir vinnu föstudaginn 13. september fara bílar að tínast úr byggð bæði sunnan og norðan heiða og halda í Nýjadal við Tungnafellsjökul. Það rignir ekki stanslaust syðra - og ekki alltaf mikið. Í Árnesi dokar Gunnar verslunarstjóri eftir okkur og afgreiðir bensín og aðrar nauðsynjar til ferðalanga. Þaðan er haldið inn í öræfahúmið og strekkingskalda sem heldur færist í aukana. Hann er þó hættur að rigna.

Það er langt norður í Nýjadal. Það kann að virðast stutt þegar til þess er hugsað eða um það talað en þegar til kastanna kemur er það langt. Það er meira að segja langt frá Sigöldu upp að Þórisvatni þótt það telji aðeins 10 kílómetra - og eftir að þangað er komið eru næstum 100 kílómetrar eftir. Og - þar er ekki alltaf hægt að aka greitt. Stundum þykir gott að aka á 35.

Skammt ofan við Þórisvatn er hugsunarsamur bílstjóri á hópferðabíl frá Vestfjarðaleið og gefur okkur veginn. Hann er að flytja ferðahóp Útivistar í Hallgrímsferð. Þau ætla að vitja minnisvörðunnar við Fjórðungsvatn um Hallgrím Jónasson, kennara, hagyrðing og ferðamann, - þann frábæra ferðafélaga sem lést í október síðastliðnum.

Versalir nálgast - leitarmannaskálar sem eru gistihús á sumrin. Við ökum til hægri af upphækkaða veginum og leiðin liggur um heflaða slóðann austan húsanna, yfir brúna og norður, ... norður.

Skuggi himinsins er ögn minni en öræfamyrkrið. Útundan okkur sýnast fjöll rísa - en við eygjum þau ekki ef til þeirra er horft. Bílarnir klifra upp og ofan Þveröldu, Hnöttóttuöldu og Skrokköldu og við vitum af Hágöngunum syðri og nyrðri. Og - jafnvel eftir að Kistualda er að baki er enn drjúgur spölur í skálann í Nýjadal.

Þar er fagnaðarfundur og margir á fleti fyrir. Sumir hafa fundið sér svefnstað. Aðrir doka inni en hafa búið sér næturstað í bílunum sem nú eru orðnir 17 talsins. Sigurður Lúðvígsson og Guðríður Valva eru komin norðan af Dalvík. Fleiri norðanbílar munu koma til móts við okkur á morgun.

Veðrið lemur á húsinu og skekur hurðir svo að það verður að rífa sig upp til að troða með þeim. Tveir bílar eru enn ókomnir að sunnan. Við vitum af þeim á leiðinni. Hinn fyrri kemur liðlega tvö. Sá seinni kemur klukkan fjögur og þeir fara svo hljóðlega að enginn vaknar þegar þeir leggjast á dýnurnar sem bíða þeirra á gólfinu.

Í
morguns-
árið
Í morgunsárið

Við höldum dálítinn fund klukkan 9. Ekki komast allir fyrir inni í salnum svo brýna verður raustina. Við heilsumst og fögnum nýjum félögum. Huganum hjálpum við til að rifja upp síðustu haustferð suður Vonarskarð í Jökulheima, suður um Breiðbak í Eldgjá og heim um Landmannalaugar.

Áætlun er gerð um þessa ferð. Gunnar Eydal hefur farið leiðina áður og til móts við okkur kemur Bragi Skúlason frá Sauðárkróki sem er öllum hnútum kunnugur norðan Hofsjökuls. Samúel Guðmundsson undirbýr myndatöku og klukkan 10 eru bílarnir lagðir af stað inn í lágskýjaðan morguninn. Veðrið hefur heldur gengið niður, hitastigið er rétt ofan við frostmarkið og það ætti ekki að verða mikið í ánum.


Laugafelli
Að Laugafelli

Ágúst Halldórsson flytur Samúel fremst í röðina á ný. Þeir Gunnar velja myndatökustaði. Á eftir Gunnari heldur Guðbjörn Haraldsson hópnum í skefjum en aftastur er Kristján Sæmundsson. Á milli þeirra erum við hin og áður en varir erum við í Tómasarhaga þar sem Gæsavatnaleið liggur til austurs. Okkar leið liggur til norðurs að Fjórðungsvatni og síðan æ meira í vestur. Við förum yfir Bergvatnskvísl og á Háöldum bíður Bragi. Þeir Reynir Kárason hafa farið árla úr byggð og ekið suður úr Skagafirði.

Ég sit með þeim fyrsta spölinn. Þeir fara nokkuð greitt og ég óttast að það togni um of úr lestinni. Hún tengist þó aftur þegar við hægjum ferðina. Bragi leiðir okkur upp á Laugafellið og útsýnið er alveg þokkalegt. Við sjáum vestur í Ásbjarnarfell og suður í Miklafell og þeir Grétar Ingvarsson og Brynjólfur Eyjólfsson bætast í hópinn.

Í Laugafelli syndir Karl Sellgren í lauginni en Steinunn Jakobsdóttir lætur nægja að fara í fótabað. Hefði átt að fara ofaní segir hún. Pétur Örn Pétursson og Hólmfríður Þórisdóttir ganga upp í gilið norðan við skálann og skoða Þórunnarlaug. Við fáum okkur bita og höldum svo vestur á bóginn.

Guðmundar
Jónassonar
- leiðin
Guðmundar Jónassonar - leiðin

Margir eru kunnugir frásögn Einars Magnússonar af fyrstu ferðinni þegar þeir Guðmundur Jónasson og fleiri félagar fóru austur með Hofsjökli að norðan frá Hveravöllum. Karl T. Sæmundsson er með okkur í för. Hann var líka með þeim Einari og Guðmundi. Ekki man ég það svo gjörla hvar við fórum segir Karl þegar Bragi leiðir okkur um mikla jarðsprungu og bendir suður til jökulsins. Ferðin er honum þó vel í minni þar sem hann situr í bíl með Sverri Kr. Bjarnasyni.

Ingólfs-
skáli
 
Ingólfsskáli

Leiðin er ekki alltaf mjúk undir hjólin og stundum er varað við: Athugið hvort þetta er of krappt fyrir stóru bílana en Guðmundur Jónsson og Hjálmar Diego komast allt með lipurð og gætni. Við komum vestur fyrir Ásbjarnarvötn og að Ingólfsskála í Lambahrauni í yndislegu veðri. Skálinn er fallegur smíðisgripur og eigendum sínum til sóma. Við dokum þar um stund og dáumst að honum. Stutt er vestur að fyrstu jökullænunni og hér er skilti sem hvetur ferðamanninn til aðgæslu: Leiðin norðan Hofsjökuls er varhugaverð sökum sandbleytu og straumþungra jökulvatna. Verið ekki ein á ferð.

Til
Hveravalla
Til Hveravalla

Hér mætum við jökulánum sem koma ofan úr skriðjöklunum sem Bragi mælir á haustin hvort fram hafi gengið eða hopað undan. Hér hefur hann þegar farið fyrir stuttu á þessu hausti og við komumst leiðar okkar án umtalsverðra tafa framhjá Austarikróki og Vestarikróki og Eyfirðingakróki. Leiðin sækist þó seint og komin eru birtubrigði þegar við förum fyrir vestustu Blöndukvíslina og ökum til Hveravalla. Þar tekur hún á móti okkur, konan sem heitir vornafninu: Harpa Lind.

Gíslavina-
félagið
 
Gíslavinafélagið

Stóra húsið bíður okkar - en við erum of mörg fyrir það. Í litla húsinu eru nokkrir starfsmenn frá Guðmundi Jónassyni í vertíðarlok. Þeir taka okkur hlýlega og bjóða okkur velkomin í húsið eftir þörfum.

Við njótum heitra húsa og setjumst saman um kvöldið við spjall og söng. Það er svo erfitt að útskýra hvaða hópur er á ferð segja menn. Ég er frammi í eldhúsi þegar Páll Guðmundsson stingur upp á að hópurinn nefni sig Gíslavinafélagið og verð var við þegar menn fagna nafngiftinni. Það er hlýja í öllum hópnum og ágætt að heita Gísli.

Til
Kerlingar-
fjalla

Grétar
fann
kortið!

Til Kerlingarfjalla

Bjart er í morgunmundinn. Bílarnir eru fylltir af eldsneyti. Sæmundur heldur beint til Reykjavíkur en aðrir aka í Kerlingarfjöll. Himinn er heiður og yndislegt að vera á ferð. Þorsteinn Ólafsson hefur lagt til að farið verði niður í hreppana og töfrað fram nákvæmt kort af afréttinum. Ég uppgötva að mitt eintak hefur lagst afsíðis á Hveravöllum þegar ráðslagað var um málið. Vonandi hefur einhver fundið það. Uppi er hugmynd um að skipta hónum: sumir fari beint til byggða, aðrir niður um Svínárnes í Tungufell og þriðju norðan Kerlingarfjalla austur að Þjórsá og niður á þjóðveginn við Sandafell. Eftir stutta stund verður ljóst að Ágúst Halldórsson ætlar beint á Selfoss með Karl Dyrving og Karl Georg son hans sem báðir þurfa í Stykkishólm í kvöld. Allir aðrir hyggjast fara austur um Illahraun í þessu bjarta og fagra veðri.

Austur
um
Illahraun
Austur um Illahraun

Á hádegi leggjum við upp. Kristján og Vigdís er vel búin fjarskiptatækjum með talstöð og síma og taka að sér forystuhlutverkið með Gunnar og Ásgerði í nálægð því Gunnar hefur farið leiðina áður. Nú rekur Guðbjörn lestina með uppkomnum börnum sínum tveim - þeim Ástu og Haraldi.

Nú skil ég hvers vegna hann heitir Loðmundur segir Hólmfríður og við sjáum öll hversu loðinn hann er að sjá. Það er ekki bara af hrími. Nei, það er eins og klettahöfuðið sé sveipað óstýrilátum hárlokkum.

Uppi á Brattöldu stöðvar Magnús Ásgeirsson bílinn hjá hinum. Við stígum út, tökum myndir og snæðum af nestinu. Morguninn hefur verið yndislega bjartur eftir frostkalda haustnóttina og framundan er hið nafntogaða Illahraun. Það reynist ekki örðugt yfirferðar þrátt fyrir nafnið og senn erum við austur af Kisubotrnum með stórkostlegt útsýni um öll suðuröræfin allt austur á Vatnajökul. Þarna eru Hágöngurnar, Bárðarbunga og Hamarinn í Vatnajökli. Þar við rísa Jöklasystur nyrðri og syðri nærri Jökulheimum og í suðri er Heklan há.

Nú eru þeir fremstu komnir austur fyrir Setuhraun. Skálinn er hérna segja þeir og við rennum í hlað við Setrið sem 4x4 hefur reist. Það er myndarlegur skáli og haglega gerður. Við dokum þar við og dáumst að honum.

Suður
með
Þjórsá
Suður með Þjórsá

Ekið er austur og suður um Fjórðungssand sunnan Hofsjökuls og senn er Þjórsá á vinstri hlið. Það er ekki hratt farið yfir og Norðurleitirnar eru vissulega bæði lengri og styttri. Ár og lækir eru í minna lagi og mesta vatnsfallið, Dalsá, er á góðu og breiðu vaði vart dýpri en í hné.

Í Bjarnalækjarbotnum eru þreytumerki á fleirum en Guðlaugu Völu sem er yngsti ferðafélaginn og Kristín drífur hana inn í bílinn áður en mín hópmynd verður til.

Vegurinn batnar - hann hefur verið lagaður hingað uppeftir. En leiðin er löng og klukkan er orðin 18 þegar komið er á veginn neðan við Sandafell. Þar er safnast saman og við tökumst í hendur. Að kvöldi þessa dýrðardags þökkum við hvert öðru samfylgdina um fjöllin. Stórkostleg slóð hefur bæst í leiðasafnið sem tengir vinahópinn öræfaböndum.

GÓP-fréttir (forsíða) * Ferðatorg * Vaðatal * Ferðaskrá