GÓP-fréttir
Ferðatorg 
Vaðatal 
Ferðaskrá

Suður yfir Skaftá

Forferð haustferðar 1992

28.-29. ágúst 1992 Föstudagskvöldið 28. ágúst var lagt úr Reykjavík í forferð í Jökulheima að kanna leiðina suður yfir Skaftá í afrétt Skaftfellinga og niður á veginn frá Laka. Ferðina fóru:
  • með Guðbirni Haraldssyni á Toyota DC: Þórarinn Axel Jónsson - hér neðar nefndur Kási, og Ragna Freyja Gísladóttir,
  • með Sigurjóni Péturssyni á Nissan Patrol: Bragi Skúlason
  • og með Magnúsi Ásgeirssyni á Landcruiser: Pétur Örn Pétursson og GÓP.

Í Jökulheimum hittum við fyrir smiði frá Jöklarannsóknafélaginu sem voru þar komnir í vinnuferð að ljúka við að einangra gamla skálann. Ætlunin er að hafa hann framvegis læstan - eins og nýja skálann. Þá þurfa menn sem þar vilja gista að hafa samband við félagið í Reykjavík til að fá lykil og hafa hann meðferðis. Ástvaldur Guðmundsson, rakari, var fyrir þeim hópi sem taldi marga vaska smiði og nokkra kornunga ferðalanga.

Lítill svefn var leyfður í Jökulheimum því svalt viðraði svo mögulegt þótti að komast yfir Skaftá - eins og kom á daginn. Það fór því svo að þótt við legðum okkur þrjár stundir í Blágiljum neðan Laka síðdegis næsta dag var þreyta í liðinu á heimferðinni um kvöldið. Það var því til að stytta þá stund sem meðfylgjandi ferðarlýsing tók að fæðast. Til þess að fylgja henni er nytsamt að hafa við höndina nýtt kort af svæðinu því á næstliðnum árum hefur Vatnajökull hopað verulega frá Langasjó og Fögrufjöllum.

Þetta var næturferð.
Hitastigið fór lækkandi.
Blásturinn jókst og
vegarslóðar hurfu
sjónum.
Þó að líði ár og öld
aldrei mun ég gleyma
að ég fór eitt ágústkvöld
inn í Jökulheima.

Sendi bylur sandarót
- sortinn faldi stikur -
úti bæði urð og grjót,
eyðimörk og vikur.

Sigurjón var ögn á
undan og stóð með
smiðum JÖRFÍ þegar
okkur bar að garði.
Ókum raunar eins og ljón
- okkar föstu siðir -
sæll var kominn Sigurjón
sem og fleiri smiðir.
Ástvaldur rakari tók
okkur vel
-
og allt hans fólk.

Ekki voru allir þar
enn við háan aldur.
Öllum smiðum æðri var
Ástar raki valdur.

Tók af alúð okkur við
þótt engar væru Stínur
og að þetta þreytta lið
þyrfti margar dýnur.

Við sváfum á nýja gólfinu í uppgerða gamla skálanum og hvíldumst sannarlega eins og unnt var í einn og hálfan klukkutíma.

Hálfþrjú lögðumst hlið við hlið
- hljóðar urðu bögur
til þess að við fengjum frið
fram til klukkan fjögur.

Skaftá er ekki lamb að leika sér við og þegar svellkólnar í veðri í ágústlok verður skyndilega hugsanlegt að finna á henni nothæft vað.

Fimm við ókum enn af stað
- engu var að tapa -
yfir Tungná áttum vað
undir honum Gnapa.

Það er munaður
að fara frá Jökulheimum
upp á Breiðbak
við sólarupprás
í heiðskíru lognveðri.

Fórum upp á Breiðabak
- birti morgunskíma -
hvergi stopp né stímabrak
og stefndi vel með tíma.

Hér var fjallafriður tær
frítt á grundum öllum
þar sem liggur Langisær
ljúft með Fögrufjöllum.

Að þessu sinni fórum við að Fögru
sem er innsta fjallkeilan í Fögrufjöllum.
Sú leið niður að Skaftá er um jökulurðarhrauka og er nú aflögð.

Út af brún sem ei var hál
inn við jökulhlaðið
fundum Skaftár aðalál
og svo Urðarvaðið.

Állinn var svo sem 75 sm djúpur
og lygn en botnfastir voru í honum
stórir steinar. Að lokum fannst
akanleg braut milli þeirra.

Klukkutíminn flaug oss frá
fannst þá braut í grjótum -
allir komust yfir á
eðal fararskjótum.

Skaftá er þarna í tveimur álum eftir að kuldatíð fer að draga niður í henni. Syðri állinn kemur stuttleiðis úr jöklinum, oft stríður en ekki mjög vatnsmikill.

Fram um eyrar fórum þar
fundum ál sem er'ðar
talsvert mikill tilsýndar
en taflaus yfirferðar.

Við vorum komin yfir vötnin
í Innri Skaftárbotnum.

Voru að baki vötnin sjálf
vænkast fararhagur:
klukkan orðin átta og hálf
- yndislegur dagur.

Ekki langt frá syðri álnum liggur leiðin um dalverpi sem opið er í báða enda en fjöll til austurs og
vesturs. Austurhliðin liggur að undirfjöllum Vatnajökuls en vesturhliðin er fjall sem nefnist Sjónaukinn því þaðan sér vítt um völlu.

Ókum við á höfðann há
hægt var ökuljónum
þar að horfa Útfall á
út úr Langasjónum.

Vatnajökull veitir hér
vítt um breiða sanda
ám sem héðan yfir sér
og til beggja handa.

Sunnan Sjónaukans eru Fremri Skaftárbotnar. Oftast eru þar nokkrar lænur sem flæmast um. Alltaf kemur öflugur sandbleytulækur norður með Fljótsoddanum sem krækir svo vestur í aðal farveginn. 

Lögðum við í lænurnar
leyndust deigjur neðan -
ókum sprækir sprænurnar.
Sprundið hló á meðan.

Afar erfitt getur verið að komast af sandinum upp á veginn sem þræðir
hraunbrúnina við Tröllhamarinn. Að þessu sinni reyndist fært að klettunum og þar upp úr grunnri lænu.

Hrauns er breiðan hrönglið eitt
hræðir allt sem lifir:
Fljóts við oddann fannst ei neitt
fært að aka yfir.

Bjössi og Kási beittu þá
brögðum sínum tamar
beint af sandi óku á
ás við Tröllahamar.

Maggi lyfti Landcruiser
létt í hlíðardragi
litlu síðar sé ég fer
Sigurjón - og Bragi.

Það var gleðilegt að komast upp úr farvegi Skaftár á veginn sem lagður hefur verið suður um hraunið að Laka. Sá hraunaslóði er þó sérlega grýttur og seinfær - og er þó sem malbikaður þegar miðað er við hraunið sjálft til hliðar. Þar er varla unnt að sjá að fært sé nokkurri skepnu - án vængja.

Þar við ókum góða stund
stillt í góðri treyju:
Pétur Örn kom á þann fund
ásamt Rögnu Freyju.

Yfir sá hvar leynd hún lá
leiðin okkar góða.
Stáls svo fákum stýrt var á
strangan vegarslóða
.

Á leið okkar suður frá Laka renndum við yfir á Blágil. Þegar inn var litið í kojurnar sem brostu til
okkar ákváðum við að sofa þar til sex.
Vökuþreyta veitti títt
von úr innri hyljum
þá varð dýrðlegt heimahlýtt
hús í Bláu giljum.
Ferðafólk hafði mætt okkur og leit við í skálanum í Blágiljum eftir að við vorum sofnuð - utan Pétur Örn. Hann varð var við fólkið og skynjaði undrun þess á því að við höfðum farið hjá því skömmu fyrr - en hér voru allir sofandi.

Heima í Reykjavík vorum við á síðkvöldinu.

GÓP-fréttir (forsíða) * Ferðatorg * Vaðatal * Ferðaskrá