GÓP-fréttir forsíða
Afmælapáskaferðin 1999
-
31. mars - 4. apríl:

Norður Langjökul og suður Hofsjökul - og aftur suður Langjökul!

Þess ber sérstaklega að geta að Gunnar Eydal átti hugmyndina að þessari frábæru för og allan heiður af skipulagi hennar út í ystu æsar. Hann var forseti ferðarinnar og við sem nutum góðs af þökkum þeim Ásgerði kærlega fyrir.

Góð aðstaða í Reykholti

Að kvöldi miðvikudagsins 31. mars, sem var afmælisdagur ritara, runnu þau Gunnar og Ásgerður, þeir Bjössi og Haraldur og einnig ritari og Pétur Örn í Borgarfjörð og gistu í Reykholti Snorra. Veður var heiðskírt og páskatunglið fullt og merlaði Hvalfjörðinn þegar til baka var horft. Nokkurt frost var á og í æðum kraumaði eftirvæntingin: ný ferð að hefjast! Um miðnættið voru allir komnir í hús. Það er Óli Jón Ólason sem rekur hótelið og hefur símanúmerið 435-1260. Svefnpokaplássið kostar 700 krónur og morgunverðurinn kr. 1100. Það var frábært að hefja förina með slíkum þægindum á sannarlega þægilegu verði.

Þrír plús fjórir

Fimmtudaginn 1. apríl, Skírdag lögðu þrír bílar frá Reykholti á miðjum morgni, dokuðu myndartak við Hraunfossa og í Húsafelli og héldu svo viðstöðulaust upp að Kristleifsskála í vestur-jaðri Langjökuls. Veðrið var eins og best varð á kosið. Einstök, ljós og lítil háský á annars skafheiðum himni og sólin heit í logninu. Greiðlega gekk að fara upp fyrstu brekkuna og innan skamms var áð með útsýni suður yfir Skjaldbreið gamla og Hlöðufell og alla þeirra prúðu nágranna. Austur sá til Eyjafjallajökuls og Tindfjallajökuls, Þríhyrnings og Heklu, Jarlhettna, Bláfells og Kerlingarfjalla. Við snæddum nesti og lágum í sólbaði og nutum nú fyrirhyggju RFK sem sett hafði sólaráburð í farteski ritara. Varð hann mörgum mikið gleðiefni. Eftir góða stund var ekið norður að Þursaborgum. Þar á útsýnishæð til austurs náðu okkur fjórir bílar - svo sem vænst hafði verið. Þar voru komin Þorsteinn, Hjördís og Anna, feðgarnir Ágúst og Haraldur, þau Jón og Þóra með Elínu og Jón Þór og þau Haraldur og Vilborg með Hafrúnu. Þetta var afmælisdagur Vilborgar.

Horft norður Kjöl frá Kirkjubóli

Dálítill krókur er niður að Kirkjubóli. Um þann skála segir Sverrir Kr. Bjarnason í skálaskrá sinni:

KRKBOL Kirkjuból við Fjallkirkju, Langj. JÖRFÍ. 12 m. O 644388 195360 1100 55

Skálinn stendur á klettabrún undir Fjallkirkjunni. Mikilfenglegt útsýni er niður yfir undirhlíðar jökulsins. Yfir Kirkjujökul sér yfir Leggjabrjót á Hvítárvatn og suðurhluta Kjalar. Yfir lægri jökulbreiðu gnæfir Hrútfell - sem einnig er nefnt Regnbúðajökull, og handan Kjalar eru Kerlingarfjöll. Í sólroða síðdegisins bar Hofsjökul við himin svo kenna mátti hvar við mundum koma niður af honum undir Þverfelli nær sjálfum Loðmundi.

Í Dauðsmannsgil

Búnað og birgðir tókum
blakkir og tóg og spil -
Langjökul austur ókum
ofan í Dauðsmannsgil.

Þennan fyrsta apríldag er daginn farið svo að lengja að sólin hangir og hangir á lofti. Skuggar voru þó sestir í slakkana þegar Jón leiddi okkur framhjá Oddnýjarhnúks-leiðinni og fylgdi slóð norður á Djöflasand og í Dauðsmannsgil. Færið var sums staðar þungt en aldrei umtalsvert erfitt og það var vel ratljóst þegar við komum á Hveravelli.

Hvervellir

Húsráðendur á Hveravöllum höfðu í mörg horn að líta þessa ferðamannadaga en allir fengu úrlausn sem til þeirra höfðu leitað í tíma - og sjálfsagt fleiri sem ekki gerðu boð á undan sér. Við gistum nýja húsið - sem auðvitað er ekki lengur svo alveg nýtt - en það er gott og þægilegt - og hlýtt! Klósett er afar gott - en fleiri hefðu mátt vera opin því þröng var á þingi. Stuttu síðar var uppi fullur máni og baðaði hvíta veröldina og einnig stóra, auða svæðið handan lækjarins sem snjó festir ekki á.

Sjö plús tveir - og olíusaga

Þegar út var stigið að morgni föstudagsins langa, 2. apríl, sem var afmælisdagur Elínar, höfðu tveir bílar bæst í hópinn. Þar voru komin Rúnar og Þuríður og einnig Sigurjón. Veðrið var hreint afbragð. Sól og birta um alla veröld og frost 8 gráður klukka 08. Ritari fékk ekki hamið sig inni og fór að taka myndir og fylla bifreið sína brennsluefni hjá Hveravallabóndanum. Klukkutíma síðar safnaðist hópurinn allur til olíutöku - en þá kom í ljós að öll olía var þorrin. Þetta setti strik í reikning þeirra sem höfðu reitt sig á þennan olíutank. Að lokum varð það úr að fimm bílar héldu norður í Húnaver að sækja brennsluefni en fjórir lögðu austur yfir Blöndu til Ingólfsskála þar sem við áttum næsta næturstað. Norðurferðin eftir brennsluefninu tók allan daginn og þeir komu í Ingólfsskála klukkan 20 eftir stífa ferð.

Hveravellir - Ingólfsskáli

Þeir fjórir bílar sem fóru rakleiðis í Ingólfsskála lögðu leið sína út að sumarvaðinu yfir Blöndu. Ferðin gekk greiðlega og snjór var yfir öllu - og ánni líka. Af öllum þeim ám og lækjum sem eru á þessum slóðum var það aðeins Strangakvísl sem hafði nokkur augu uppi þar sem þræða þurfti ísana. Allt annað var undir hjarni og snjó. Á leiðinni mátti sjá til bíla sem óku upp á Hofsjökul um Sátujökul. Tveir fóru upp nokkuð vestarlega og þegar við ræddum við þá síðar hafði sprunga lokað þeim leið að toppinum. Önnur lest fór austarlega - svo sem við ætluðum okkur. Við ræddum síðar við þá og fengum að vita að sú leiðin væri þung en örugg.

Bjart var til allra átta og við sáum kennifjöll Norðurlands. Í norðri voru þeir Mælifellshnjúkur og Tindastóll og mikil gil eystri jökulsár í Skagafirði skáru sig úr í landslaginu. Klukkan var liðlega 13 þegar við komum í Ingólfsskála.

Frábært skyggni af jöklinum

Þegar menn höfðu tínt af bílum svefnbúnað og sumir nesti héldu þeir ritari og Pétur Örn ásamt þeim Gunnari, Ásgerði og Rúnari upp Sátujökulinn til að skoða aðstæður og taka myndir. Uppleiðin var ágæt á fjórum pundum og senn vorum við uppi á þessum aðdraganda Hofsjökuls. Þar skiptum við liði og við Pétur runnum upp bílaslóðina og alla leið á toppinn. Þar var útsýni frábært. Oddur Sigurðsson, jöklameistari Orkustofnunar, hafði sagt okkur frá útsýninu frá Hásteinum og að þangað færi hann iðulega til að drekka kaffið sitt. Við fylgdum ráði hans og punktum og tókum þaðan myndir af fjallahringnum allt frá Heklu í suðri, austur um Hágöngur, Jöklasystur og Hamarinn í Vatnajökli, norður um Köldukvíslarhnúka og Nýjadal sjálfan sem opnaðist hér fyrir sjónum okkar og norður í Snæfell og Herðubreið.

Afmælapáskaferðin

Svo sem tíundað hefur verið áttu ferðafélagar afmæli einn af öðrum eftir því sem ferðadagar liðu. Næsti dagur, 3. apríl, var afmælisdagur Þorsteins. Þessi gleðiefni bættust á öll önnur sem fylltu fang okkar. Aldursbil ferðafélaganna var frá tæplega sex til liðlega sextíu og í Ingólfsskála undu sér allir vel:

Hér eru ungir og aldnir í för
og allir af bestu gerðinni
og frambjóðandinn er orðinn ör
í afmælapáskaferðinni.

Suður yfir Hofsjökul

Hér hefur úrvals andi leynst
- upp er risin dróttin -
indæl hefur okkur reynst
Ingólfsskálanóttin.

Út er stigin manna mergð
með sín augu vökul
senn er lagt í sólarferð
suður yfir jökul.

Nóttin í Ingólfsskála var bæði friðsæl og fögur með fullu tungli, norðurljósum og stjörnuskini og frostið var ein fimm stig uns leið að morgni. Klukkan 7:40 var hiti við frostmark. Skömmu síðar var ekið úr hlaði og upp Sátujökul. Veðrið var hlýtt en vindur ögn meiri en daginn áður og þar sem jökulinn bar við himin mátti sjá nokkurt skýja-hýjalín. Færið var svipað og daginn áður en nú sá ekki út af jöklinum nema til norðurs. Loftið bar merki aukins hita og þegar langt var litið var móska yfir. Við ókum niður að Hásteinum og áðum þar góða stund. Leiðin af jöklinum liggur af toppinum svo þangað var aftur ekið og síðan þræddir GPS-punktar til suðurs niður jökulsporðinn vestan Golfkylfunnar, sem svo heitir vegna lögunarinnar á kortinu. Þar er þrætt ofan gilja og komið niður í hraunið vestan Þverfells. Stundum sást lítið - en oft var all bjart milli misturflóka.

Í Kerlingarfjöll

Nú komum við á slóðir þar sem liggur vegurinn milli Setursins og Kerlingarfjalla. Við fylgdum þessum slóðum - eftir því sem GPS-inn leyfði. Hann er hins vegar laus við allar tilfinningar og var því látinn ráða þegar ágreiningur varð milli hans og þeirrar slóðar sem við annars fylgdum. Það fór enda svo að fyrr en varði ókum við hjá bensínstöðinni  í Kerlingarfjöllum og að Nípunum sem frægar eru úr skíðasögum gesta Skíðaskólans. Hópurinn hafði fengið Nípur eftir þörfum og aðgang að hinu stóra húsi. Áður en varði höfðu menn komið sér fyrir og í lokasenu myndbandsins sést hvar hópurinn ber saman bækur sínar yfir nokkrum grillum á meðan aðrir eru að grafa sér aldeilis sérstaka snjóbyrgis-grillhella.

Heim í dag og á morgunn

Ritari og Pétur Örn og þeir Ágúst og Haraldur héldu heim á leið um kl. 17:20 og komu til Reykjavíkur eftir fimm tíma ferð. Færið bar þess merki að frostið hafði slaknað og kominn var krapi í slóðina. Hinir dvöldu nóttina í Kerlingarfjöllum. Á sunnudagsmorgninum óku þeir um nágrennið en héldu síðan vestur á Kjöl. Þá var krapi orðinn enn meiri og ákveðið að halda til Hveravalla þar sem vitað var að olíubirgðir höfðu verið endurnýjaðar. Síðan var afráðið að freista þess að sleppa við krapafærið suður Kjöl með því að aka suður Langjökul. Það reyndist þungt í hlýindunum og sérstaklega seinfarið frá Kristleifsskála að Húsafelli. Til Reykjavíkur var komið upp úr miðnætti eftir margslungna ævintýraför.

Þakkir fyrir samfylgdina

Að ferðalokum er margt í huga. Það stendur upp úr hvílík heppni það er að fá svo bjarta frídaga. Vissulega þarf frostið að haldast til að fjallferðir gangi vel yfir snjó og ísa - en núna fengum við stóran skammt af einmuna góðu veðri. Þessi ferð raðast við hlið okkar bestu ferða og mér segir svo hugur um að mörg munum við endurtaka þessa leiki - oft. Að leiðarlokum þökkum við hvert öðru hjartanlega fyrir ómetanlega samfylgd og samhjálp.

Myndbandið

Hi8-upptaka ritara tekur klukkutíma. Ef þú vilt fá afrit á VHS-spólu skaltu hafa samband við ritara.

Efst á þessa síðu * G-vinir / ferðatal *GÓP-fréttir forsíða