GÓP-fréttir 
Ferðatorg



Keldur á Rangárvöllum - Þríhyrningur til hægri

Músaðu á myndina til að sjá fleiri úr vetrarferð á Keldnasvæðið í janúar 2007.

Keldur á Rangárvöllum

Laugardaginn 29. júlí reit Sigurður Sigurðarson minningargrein um frænku sína, Guðrúnu P. Helgadóttur, fyrrum skólastjóra Kvennaskólans í Reykjavík. Í þeirri grein lýsti hann Keldum og umhverfi þeirra - og féllst nokkru síðar á að sú lýsing fengi að birtast í GÓPfréttum. Sjá einnig hér minningarorðin í heild.  


Sigurður Sigurðarson
dýralæknir
Ég átti heima á Keldum á Rangárvöllum um skeið í barnæsku.

Þar bjuggu þá afi minn og amma,
Skúli Guðmundsson, Brynjólfssonar frá Keldum
og Svanborg Lýðsdóttir,
Guðmundssonar frá Hlíð í Gnúpverjahreppi.

 



Nærkort af Keldum. Einn kílómetri er milli lína.
  Keldur eru ævintýrastaður þeim sem kynnst hafa, með sín fornu torfhús og umhverfi sem er engu líkt.

Skálinn er eitt elsta hús landsins frá 12 öld og austur af honum í röð: skemmur tvær, smiðja og hjallur, en stóra fjárréttin og önnur útihús austar. Fram af þessum húsum er kirkjan, bændakirkja, sem Guðmundur Brynjólfsson langafi okkar Guðrúnar lét byggja 1838 og síðar endurbyggja 1875. Hann bjó þar í hálfa öld og Skúli sonur hans önnur 50 ár eftir hann til 1946.

Árið 1932 voru menn að grafa fyrir safnþró í varpanum. Allt í einu hurfu þeir ofan í jörðina og höfðu þar með fundið leynigöng, sem enginn vissi af, frá skálanum gamla niður að læk.

Framan við varpann er bæjarlækurinn, vatnsmikill og straumþungur, en þó með spegilsléttar lygnur og fram af honum eru formhrein lambhúsin, sem Jón bróðir Skúla, síðar bóndi á Ægisíðu byggði 1895.

  Útsýnið frá Keldum er stórbrotið, varðað fjöllum í suðri og austri:

Vatnsdalsfjall með Hádegishnauk í hásuðri, austar er Þríhyrningur, frábær útsýnisstaður með tinda og skörð, sem minna á varðturn. Þar fólst Flosi frá Svínafelli með liði sínu í 3 daga eftir Njálsbrennu og fylgdist með leitinni að brennumönnum. Skúli Guðmundsson bóndi kallaði Þríhyrning fegurstan fjalla í heimi. Við rætur Þríhyrnings er Reynifellsalda. Austan Þríhyrnings er Þjófafoss. Þar földu sig þjófar tveir, sem síðar voru hengdir á Þingskálum. Í austri eru Tindafjöll og Vatnafjöll og í landnorðri fjalladrottningin Hekla, Tryppafjöll, Geldingafjöll og Selsundsfjall. Þar vestur af eru Bjólfell og Búrfell, þar sem systurnar bjuggu er veiða vildu og sjóða Gissur á Lækjarbotnum.

Knafahólar eru í norðri. Þar var Gunnari á Hlíðarenda og bræðrum hans Kolskeggi og Hirti gerð fyrirsát, en nokkurn veg þaðan til suðausturs við Rangá er Gunnarssteinn, þar sem þeir vörðust og hröktu á brott ofurefli fjandmanna sinna en Hjörtur féll þar, bróðir Gunnars, sem reiddi hann heim á skildi sínum. Síðar fannst beinhringur við Gunnarsstein, áletraður hjartarmynd.

  Hólavöllur með vörðunni stóru, útsýnisstaðurinn góði, byrgir fyrir sýn til útnorðurs heiman frá bæ. Grákall er svo vestan túnfótar en Kirkjuhóll, Potthóll og Skyggnir við sjóndeildarhring til vesturs og útsuðurs og Loðsa upp af Stokkalæk. Allt ilmar af sögunni hér.

Keldur standa á fornri hraunbrún. Undan brúninni í hálfhring um bæinn frá austri til vesturs koma óteljandi uppsprettur, með kaldara og betra vatn en gerist annars staðar, 2-3 gráður allan ársins hring. Þær mynda Keldnalæk, sem fellur úr Austurbotnum og Króktúnslæk, sem fellur úr Vesturbotnum og þeir sameinast sunnan túns við Tanga.

Svo segir Kristín Skúladóttir frá Keldum:

Uppsprettan bólar við brekkurætur,
blátært er vatn og kalt,
veitir sárþyrstum svölun góða,
silfurlind gefur allt.
Hér áttu fjársjóð bóndi á bænum,
sem er betri en gullið valt.

Maríubrunnurinn


Maríubrunnurinn er upp af læknum lengst til hægri.

Músaðu á myndina til að sjá þær stórar - frá 14. febrúar 2008.

Vestan við bæjarhúsin, skammt suður af bæjartröðunum verður dálítil skál í brekkuna við Króktúnslæk, 5 metrar rúmir í þvermál hálfur þriðji meter að dýpt með lindarauga hringlaga í botni um 2 m í þvermál. Þetta er Maríubrunnur, heitinn eftir Maríu guðsmóður. Þar bóla upp ótal uppsprettur. Vatnið kemur undan hraunbrún á 25 metra dýpi er mér sagt.


Maríubrunnurinn úr sama sjónarhorni og fyrri myndin.


Skúli Lýðsson, bóndi á Keldum, og greinarhöfundur,
Sigurður Sigurðarson, dýralæknir, eru systkinasynir.
Hér eru þeir að huga að Maríubrunninum.


Hér sést Króktúnslækurinn sem kemur undan brekkunni
við myllukofann. Lækurinn stendur nú svo hátt
að nærri rennur inn í Maríubrunninn - en þó ekki alveg.


Veröldin speglast í Maríbrunninum.

Í Maríubrunninn er ævinlega sótt vatn til barnaskírna á Keldum. Lindin er vígð af Guðmundi biskupi Arasyni góða, f. 1160, d. 1237. Vatnið er sagt heilsubætandi, bæði til inntöku og til að lauga augu sín.

Sigurður Sigurðarson dýralæknir

Efst á þessa síðu * Forsíða