GÓP-fréttir



Ferðatorg
*
Vatna-sími
Vatna-

mælinga

Vaða - ráð og
Vaða-tal

Þegar þú kemur akandi að vatnsfalli og þarft að komast yfir er eina rétta ráðið að fara í stígvél og vaða yfir, leita að þeirri leið sem er grynnst og átakaminnst fyrir bílinn, kanna hvort botninn er traustur og hvort þar er grjót sem rekist getur uppundir.

Hér eru nokkur ráð sem gott er að hafa í huga þegar á hólminn er komið. Á eftir fer listi yfir vöð á ám. Listinn er í stafrófsröð eftir nöfnum ánna. Vinsamlegast sendu fróðleik um vöð sem þú þekkir og nýrri upplýsingar um þau sem í listanum finnast.

Aðvörun

 

Skyndi-
flóð
í
Sveðju
23. okt.
2010
þegar
ísastífla
brast
 

í
veður-
blíðu

Þegar þú ert við hlið bílsins að skoða ána er athygli þín upptekin í því verkefni augnabliksins að skoða ána. Við hliðina er bíllinn - yfirleitt í gangi með vélarhljóði. Framundan er áin með sínum gný og veðrið skilar sínum veðurhljóðum. Athyglin upptekin og eyrun full af hljóðsuði sem venjulega eru ekki athyglisverð. Það er núna sem óvænt fyrirbæri geta gert þér grikki - sem jafnvel eru lífshættulegir.  

24. okt. 2010 >> Myndir frá Sveðju


Mynd: Sturla Þengilsson
Ekið suður yfir Sveðju - daginn eftir hlaupið.


Mynd: GÓP
Árfarvegur Sveðju daginn eftir hlaupið.

Daginn áður en þessar myndir voru teknar fór hér annar hópur um. Þegar einn bílanna var á yfirleið - og á svipuðum stað og sá sem sést á myndinni - verða menn varir við að það er hlaup æðandi niður ána og rétt ókomið á vaðið. Ökumaður bílsins fær vitneskju um stöðuna og eykur hraðann og nær að komast upp á bakkann áður en hlaupið geysist yfir. Bakkinn er hlaðinn úfnu hröngli eftir hlaupið. Þarna skall hurð nærri hælum.

Mikilvægt er fararstjórum og umsjónarmönnum ferða að hafa þetta í huga.
Hjálpumst að við að veita umhverfinu athygli.

Hvaða
ár
þarf

kanna?
Ef þú ert á litlum bíl sem aðeins þolir vatn í mjóalegg hefurðu áhyggjur þegar þú kemur að læk sem virðist vera í mjóalegg. Ef þú ert á stórum bíl sem þolir metersdjúpt vatn hefurðu áhyggjur þegar þú kemur að á sem virðist metersdjúp. Þegar þú kemur að á sem veldur þér áhyggjum þarftu að kanna hana og finna á henni vað.
Hvaða
búnað
þarf?
Ef þú ert á litlum bíl dugar þér að hafa klofstígvél. Ár sem eru strangari en svo að þú komist yfir á klofstígvélum eru ófærar litlum bílum.

Ef þú ert á stórum bíl sem þolir dýpra vatn dugir þér ekkert minna en vöðlur og stafur. Þá skaltu hafa regnkápu utanyfir vöðlurnar með áfastri hettu yfir höfuðið. Hafðu yfirhöfnina lokaða. Þá vöknarðu lítið þótt þú dettir í ánni. Ef þú dettur er mikilvægt að kunna aðferð til að komast aftur á fætur í ánni. Að því komum við síðar. Ef þú ert byrjandi skaltu ekki reyna við uggvænlegar ár.

(1)
Aktu
hægt
undan
straumi
Enda þótt áin virðist liðast letilega getur vatnið í henni runnið hálfan metra á sekúndu. Ef þú ekur móti slíkum straumi ýtir hann á móti þér með 500 kg krafti á hvern fermetra og fastar ef þú ekur hratt.

Láttu ána hjálpa þér! Aktu alltaf skáhallt undan straumi - ákveðið og álíka hratt og áin rennur! Vertu í svo lágum gír að þú getir gefið í með afli ef botninn reynist grófari en þú áætlaðir og ef taka þarf á til að komast upp á bakkann.  

Ef þú ferð of rólega í grýttum botni geturðu lent í því að öll fjögur hjólin lenda samtímis í grjótagjótum og bíllinn stöðvast því skriðþunginn er ekki nægur.  

Vélin þarf líka að hafa nokkurn snúningshraða til að geta blásið vatninu frá púströrinu. Gangi vélin of hægt getur vatnið flætt inn í púströrið og kæft á bílnum. 

(2)
Ekki
horfa í
strauminn
þegar þú
veður
Ekki er unnt að vaða á án þess að líta í straumlagið og áætla hvar er best að fara - skref fyrir skref. Ef þú hins vegar einblínir í strauminn fer þig að svima - og þá ertu senn ósjálfbjarga. Það má alls ekki gerast! Notaðu það ráð að líta aðeins skamma stund í einu í strauminn - svo sem 1 - 3 sekúndur - og síðan á bakkann hinum megin og landslagið og fjöllin - síðan líturðu aftur skamma stund í strauminn. Þá heldur fasta landið jafvægisskyninu í lagi. Æfðu þetta þegar lítið liggur við!
(3)
Beygðu
þig í
hnjánum -
upp í
strauminn
Þegar þú veður yfir straumvatn skaltu alltaf hafa hnén dálítið bogin. Ef þú finnur fyrir straumnum í ánni skaltu snúa hnjánum uppí hann eftir megni. Í þungum straumi gengurðu þá með stuttum hliðarskrefum en fjaðurmagn fótanna spyrnir betur í strauminn.

Ef hnén eru vel boginn - og þú réttir ekki úr þeim þegar þú tekur nýtt skref - þá hefurðu tryggara jafnvægi. Þá þolirðu að hrasa í ánni án þess að detta - jafnvel tvisvar í röð!

(4)

Leitaðu
að broti

Brot er grynning - eða hryggur í ánni. Ef áin rennur á malareyrum er yfirleitt unnt að finna brot á henni. Brot sjást best þar sem áin breiðir úr sér. Brotið er grynning í ánni, stallur eða hryggur sem vatn árinnar rennur yfir og fellur svo fram af og safnast þar í dýpkandi ál.

Vaðið er leiðin sem best er fara til að komast yfir ána. Ef brot er á ánni er best að þræða hrygginn en gæta þess að fara aldrei svo framarlega að maður skriki niður í álinn. Brot liggja alltaf skáhallt í ánni. Maður ekur yfir ána undan straumi. Ef brotið liggur niður eftir ánni frá þínum bakka geturðu notað það til að komast frá þínum bakka yfir á hinn bakkann. Þegar úr vöndu er að ráða og aðeins eitt tiltækt brot í öfuga átt er unnt að nota það ef áin er þar svo grunn að vatnið fer undir bílinn.  


Þessi mynd Jóhannesar Hermannssonar er tekin 8. janúar 2006 og sýnir bíl sem er að leggja af stað yfir Markarfljót eftir broti.

Frá nær-bakkanum að bílnum er nokkuð djúpur en straumlítill áll. Hér hefur áinn legið fyrr með þunga. Farið var yfir hann nokkru ofar en myndin sýnir. Handan bílsins sér í straumbólstra. Brotið liggur niður á eyrina. Mitt á milli bílsins og eyrarinnar er þyngri straumur en þó enginn áll. Héðan er ekki hægt að vera viss um að unnt sé að komast alla leið yfir og því ekki annað að gera en vaða fyrst og kanna málið. Ljóst er að það er áll milli eyrarinnar og landsins hinum megin og þar sem áin fer skömmu neðar að sveigja til vinstri getur þegar verið kominn djúpur áll við þann bakkann.

Handan árinnar, rétt ofan við miðja myndina, stendur maður á hinum bakkanum. Hann hefur gengið úr skugga um að þetta er viðunandi vað.

Músaðu á myndina til að opna hana mun stærri og í sérstökum glugga.

(5)
Það verður
að vera
gott að
komast
upp úr
Það er allt í lagi að fara ofan í ána af bröttum bakka ef vélin er vel varin fyrir vatni og ekki verður of djúpt á bílnum. Það er hins vegar mikið atriði að uppkoman sé góð. Ekki stefna bílnum að bröttum bakka handan árinnar. Undir bröttum bökkum er auk þess iðulega dýpri áll og þá ertu í vondum málum.
(6)
Ekki
leggja í
ána
nema þú
sért
viss um

komast
yfir!!
Þetta hljómar dálítið undarlega - en þegar þú hefur vaðið nokkra læki og ár öðlastu glögga yfirsýn yfir það sem er alveg óhætt, það sem er í lagi og það sem er áhættusamt. Ef þú ert á einum bíl skaltu aldrei taka áhættu.
Ef áin
gefur ekki
færi á sér -
hvar má
leita
lags?


Svigfræði
árinnar

 

Hugsaðu þér skíðamann sem fer í svigum á nokkurri ferð og færið er mjúkur snjór. Hann tekur beygju til hægri og síðan aftur til vinstri. Hann byrjar með því að spyrna í snjóinn til vinstri þegar hann beygir til hægri. Eitt andartak verður slóð hans dýpri vinstra megin en grynnist svo strax og hann kemur úr beygjunni. Skömmu síðar spyrnir hann hægra megin í og beygir aftur til vinstri og enn kemur dýpri slóð rétt fyrir og í beygjunni en grynnist þegar úr henni er komið. Milli dýpisins framan við fyrri beygjuna og dýpisins framan við seinni beygjuna er kominn hryggur í slóðina.

Hryggurinn er frá því spyrnt er til vinstri uns spyrnt er til hægri. Ef vatn rynni í þessum förum væri hryggurinn brotið og þar sem hægt dýpkar aftur kæmi fossinn á brúninni þar sem vaðið er að finna. Þetta brot liggur frá hægri bakkanum og yfir á vinstri bakkann.

Hugsaðu þér vatnasvig árinnar! Vatnið kemur inn í beygju á ánni. Það spyrnir fast í bakkann. Ef gagnstæð beygja er neðar í ánni spyrnir vatnið þar í hinn bakkann. Þá er hryggur niður eftir ánni. Hann hefst í efri beygjunni við bakkann fjær spyrnunni og honum lýkur í neðri beygjunni við bakkann fjær spyrnunni.

Aðeins
á
malar-
botni
!!
Athugaðu!! að önnur lögmál gilda ef áin er ekki á malarbotni! 
Ár á malarbotni róta botninum eftir styrk straumsins. Það er þó minna ef mölin er mjög gróf - eins og til dæmis í Núpsvötnum og Súlu eftir að þær koma saman. 
Ár á föstum botni - t.d. á hraunbotni - þurfa ár og aldir til að móta botninn svo nokkru nemi. Þar geta líka verið gjótur og klettar í botni. Eina ráðið er að vaða!!
Vertu
varkár
Ef þú ert úti í straumharðri á verður þú að taka þínar ákvarðanir og treysta á eigin úrræði. Áin er ef til vill ófrýnileg og maður verður að hafa sig allan við. Á ég að stíga eitt skref í viðbót? Get ég snúið við? Get ég snúið við ef ég stíg eitt skref enn og áin verður erfiðari? Allt þetta eru spurningar sem maður verður að eiga við sjálfan sig. Sjaldnast eru samferðamenn svo nærri eða vel búnir að þeir geti hjálpað þeim sem fipast að vaða eða fellur í ána. Ef aðstæður eru þannig að þú finnur til uggs skaltu taka mark á honum.
Öryggis-
band
Ef vaðið er á hættulegum stöðum verður ekki komist hjá því að nota öryggisband. Festu endann í bílinn!

Það er tvíbent að láta halda í sig í bandi þegar maður veður straumvatn. Ef þú lætur halda í þig verður haldarinn að gefa þér góðan slaka til að þú lendir ekki í átökum við hann til viðbótar við strauminn. Slakinn lendir auðvitað í straumnum og togar í þig líka. Ef þú dettur - og togað er í þig - getur svo farið að þú komist alls ekki aftur á fæturna. Í versta falli dregur bíllinn þig aftur á þurrt og þú hefur þá jafnvel solgið vatn.

Ef þú hefur slakann í eigin hendi geturðu gefið eftir svo sem þarf hverju sinni. Það er hins vegar erfitt að stjórna slakanum um leið og stafnum í þungum straumi.

Þegar þessir erfiðleikar eru orðnir meiri en þér líkar skaltu hætta við!

Þegar þú
dettur
Þegar þú dettur þarftu að hafa svigrúm!

Þegar þú dettur í ána ertu á hennar valdi. Hún lyftir upp fótum þínum og stýrir líkamanum í flot-veltu. Slepptu ekki stafnum. Berðu hann og hendurnar niður í botninn eins og akkeri. Þannig stýrirðu þér og innan skamms kemurðu fótunum ofan í botninn. Lyftu höfði og baki gætilega upp í strauminn um leið og þú lætur hælana ofan í botninn og beygir þig mjúklega í hnjánum. Eftir því sem þú færð betri viðspyrnu ýtir áin meir í bakið á þér og þú lætur hana ýta þér aftur upp á fæturna.

Það er alveg eðlilegt að þú dettir aftur þegar þú kemur upp - en þá er bara að endurtaka leikinn.

Áin ber þig nokkurn spöl meðan þú kemur þér aftur upp og sá spölur getur verið langur í straumharðri á. Þess vegna skaltu ekki vaða ógnvekjandi á þegar skammt fyrir neðan þig er enn straumharðari áll.

Þú skalt alls ekki setja traust þitt á fólkið á bakkanum. Það er ekki einu sinni víst að það sé að fylgjast með þér.

>>

Vaða - tal

Hér verða talin nokkur vöð. Sum þeirra eru á svo föstum botni að sennilega finna eftirkomendur svipaðar aðstæður. Ár á malareyrum eru síbreytilegar og á þeim verður að leita vaðs hverju sinni. Þetta á til dæmis við um Krossá, Þröngá og Markarfljót sem afmarka Þórsmörk.

Vatnsdýpi er ýmist eftir minni eða athugun. Það miðast þó alltaf við þann dag þegar vaðið var kannað eða/og ekið. Vatnsdýpið verður sjálfsagt allt annað þegar þú kemur þar að og ert þar á eigin ábyrgð. Ef þú ert í vafa - þá skaltu fara í stígvél og kanna vaðið!!!!

Yfirlit

Ábæjará í Austurdal í Skagafirði
Bergvatnskvísl í Þjórsá
Beylá við Langavatn 
Blanda við Hofsjökul
Blautakvísl sunnan Nautöldu
Brunavötn við Fremrieyrar
Dalsá á afrétti Gnúpverja
Emstruá - nyrðri
Emstruá - syðri
Fjórðungskvísl
Fossá í Þjórsárdal  
Fossvatnakvísl við Veiðivötn
Gilsá innan við Þórólfsfell í Fljótshlíð 
Gljúfurá í Borgarfirði 
Grindakvísl - Sjá Systrakvísl ofan við Jökulheima.
Hágöngulón - sjá Kaldakvísl 
Helliskvísl á Landmannaleið
Hnífá 
Hnjúkskvísl á leið Laugafell - Skagafjörður
Hólmsá neðan Hólmsárbotna
Hvanná á Þórsmerkurleið
Jökulfall á Kerlingarfjallaleið - Króksvað á ármótum við Fossrófulæk
Jökulgilskvísl við Landmannalaugar
Jökulsá úr Gígjökli í Eyjafjallajökli - á Þórsmerkurleið
Jökulsá vestari við Ingólfsskála
Kaldaklofskvísl við Hvanngil
Kaldakvísl
Kaldá við Kaldársel ofan Hafnarfjarðar
Kerlingalæna - Sjá Systrakvísl ofan við Jökulheima.
Kriká úr Jökulkrika vestan Nautöldu
Krossá á Þórsmerkurleið
Krossá við Sandmúla austan Skjálfandafljóts 
Krókakvísl austan Krókafells og vestan Ingólfsskála norðan Hofsjökuls
Langá á Mýrum 
Laugalæna við Landmannalaugar
Laugakvísl við Laugafell norðan Höfsjökuls
Laxá - Stóra-Laxá í Hreppum - á Tangaleið, línuveginum milli  Hvítár og Þjórsár 
Leirá - á Línuvegi milli Hvítár og Þjórsár
Markarfljót 
Miklakvísl neðan Nautöldu
Mjóadalsá í Langavatnsdal í Borgarfirði
Nautá við Nautöldu
Norðlingafljót
Núpsvötn
Ófæra - nyrðri
Ófæra - syðri
Rauðá í Vonarskarði
Rauðá í Þjórsárdal - við Stöng
Skaftá við Fögru
Skjálfandafljót á Gæsavatnaleið
Skógá í Skógaheiði á leið á Fimmvörðuháls
Stafnsvötn - ytri efst í Vesturdal í Skagafirði
Steinsholtsá á Þórsmerkurleið
Stóragilskvísl í Þóristungum
Stóra-Laxá í Hreppum 
Strangilækur á leið Laugafell - Skagafjörður 
Svartá á Kili
Svartá á Tangaleið, línuveginum milli  Hvítár og Þjórsár 
Svartá á Sprengisandsleið sunnan Syðri Hágöngu
Sveðja - úr Hamarslóni vestan undir Vatnajökli
Sylgja til vesturs úr Vatnajökli 
Systrakvísl austan Bláfjalla
Særingsdalskvísl á Tangaleið, línuveginum milli  Hvítár og Þjórsár 
Söðlá úr Söðulfelli vestan Nautöldu
Tjaldakvísl í Þóristungum
Trippagilskvísl í Þóristungum
Tungnaá
Veiðivötn  
Víðidalsá í Borgarfirði
Vonarskarð - vestan til
Þjórsá
Þorn til vesturs úr Vatnajökli 
Þórólfsá við Þórólfsfell innst í Fljótshlíð
Ábæjará Ábæjará - við Ábæjarkirkju. Stríð á en ekki mjög vatnsmikil. Vaðið er þröngt og afar stórgrýtt. Aðeins fært jeppum á stórum dekkjum. Vatnsdýpi 50 sm.

Göngubrú er á ánni og stutt að kirkjunni. Göngutími 5 mínútur.

 Bergvatns-
kvísl
Sjá Þjórsá
Beylá Beylá á vaði skammt frá ósum í Langavatn. WGS84-hnit: 64 46,422 * 21 44,541. 22. nóvember var vatnsdýpi um 20 sm. Sjá mynd. 
Blanda
við
Hofsjökul
Í miðjum september árið 1991 var Blanda ekki djúp, ca 50-60 sm á góðu vaði við girðinguna sem er við Kjalveg skammt frá Rjúpnafelli. Þar voru þó stórir steinar í vaðinu sem gæta þarf að og standa margir upp úr ánni. Farið var yfir í dimmum ljósaskiptum - öðru hvorum megin við aðalvaðstað síðari ára.

Aðal-vaðstaðurinn er þar sem brautin úr austri kemur til vesturs niður aflíðandi halla með ána á vinstri hönd. Áin beygir til hægri - til norðurs - og rétt neðan beygjunnar er vaðið.

Í miðjum september árið 2006 var Blanda djúp á aðal-vaðstaðnum, ca 1m og bratt upp úr til vesturs. Þetta vað er á góðum botni og beggja megin er fast land að ánni. Hálfum kílómetra ofar rennur áin í álum um malareyrar. Þar voru vel viðunandi vöð með dýpi sa. 60 sm. Sums staðar var gljúpur botn en mátti finna leiðir sem voru færar óbreyttum bílum. 
Sjá hér myndir  (þessa og næstu 13) af því svæði og yfirferðinni þar. 

3. ágúst 2009 Hafði bíll stöðvast í ánni vegna vélarbilunar. Skoðaðu fjórar myndir - þar sem þessi er síðust. Af þeim má einnig sjá hvernig áin beygir og hvar vaðið er staðsett. Athugaðu að þetta er sama vaðið og sýnt er á myndinni frá 23. okt. 2010!

23. okt. 2010 í frosti - var lítið í ánni á þessu aðalvaði.

Blauta-
kvísl
sunnan
Nautöldu
Sjá kort við Nautá

Liggur í mörgum lænum á deigum söndum.
18. sept. 2010 var lítið vatn í flestum lænum en þó nokkru meira í þeirri nyrstu. Samt ekki í hné.

Sjá myndir úr ferð um Nautöldu að Múlajökli fram og til baka.

Bruna-
vötn

við
Fremri-
Eyrar
Vestan við norðurodda Fremrieyra eru Brunavötn. úr þeim rennur tær á. Norðan við Fremri-Eyrar er mjótt og nokkuð gróið hraunhaft sem er örðugt yfirferðar. Til austurs tekur strax við úfið apalhraun og áin rennur inn í það. Við norð-austur-horn Fremri-Eyra eru sandsvæði í hrauninu beggja megin við ána og gott færi á henni á mjúkum en öruggum sandbotni. Vatnsdýpi í september og október hefur verið liðlega í hné. Af sandsvæðinu sunnan árinnar er ágætt að komast upp í fellið yfir lítil hraunhöft.
Dalsá
á afrétti
Gnúp-
verja
Ef komið er norðan að ánni liggur vegurinn fram á nokkurt fell við ána. Þar skaltu staðnæmast og líta yfir hana. Brotið er þvert yfir ána út frá fellinu. Þú ekur svo vestur af fellinu og út í ána og niður með fellinu uns þú kemur á brotið. Þar ekurðu þvert yfir. Dýpið á vaðinu í september var ca 50-60 sm.

Sjá hér myndir af vaðinu og yfirferð.

Emstruá
- nyrðri
Nyrðri-Emstruá getur verið viðsjárvert vatnsfall. Meginállinn hefur verið brúaður á fossbarmi. Að norðan er ekið yfir og niður eftir grunnum áli uns kemur á vegarslóðann að brúnni og yfir hana.
Emstruá
- syðri
Um hana orti Sturla Friðriksson, grasafræðingur, þegar hann eitt sinn þurfti að fara ríðandi fyrir hana á jökli:

Yfir kemst á klakaspöng
klárinn fremst þótt hnjóti
þar sem Emstruáin ströng
úfin lemst í grjóti.

Á haustum hefur hún verið bæði vaðin og ekin á eyrunum ofan við gilið. Nú er göngubrú efst í gilinu. Eitt sinn í regnmildum september voru þar slík boðaföll að ritari þessara lína lét sér nægja að ganga fram með henni og sté aldrei út í þótt væri í vöðlum og með járnstaf í hendi.

Fjórðungs-
kvísl
Sjá Öræfaleiðir Sigurjóns Rist frá 1958
Fossá í
Þjórsár-
dal
Við Reykholt
Í meðalvatni er áin vel fær jeppum en of djúp fyrir fólksbíla.

Ofan við Háafoss - á Línuveginum - sjá myndir frá júlí 2005
Áin er á breiðu, jafndjúpu og grófgrýttu vaði.

Eldra vað
Áður var farið aðeins neðar á hraunbotni undan fossi  - sjá mynd 
Á Tangaleið, en svo nefnist línuvegurinn frá Hólaskógi vestur að Hvítá, þarf að aka Fossá. Hún er þar á klapparvaði. Klöppin er óslétt og ofan á henni er grjót af mörgum gerðum - sumt stærra en svo að skemmtilegt sé. Gróft og mikið klungur fyrir litla bíla. Í stórrigningu í júlílok 2003 voru dýpstu svæðin um 50 sm. Í björtu og hlýju skúraveðri 2. ágúst 2003 var dýpið á sömu stöðum um 40 sm. Klofstígvél eru hér sjálfsagt hjálpartæki!)

Fossvatna-
kvísl
við
Veiðivötn
Eldra vað er á fossbrúninni neðan við Litla-Fossvatn. Annað vað er þar skammt fyrir neðan. Næstliðna áratugi hefur það verið fáum hundruðum metra neðar. 
Vaðið er stórt um sig. Undanfarin (2002) ár hefur mjög djúpur (um og yfir metri) pollur rótast upp af stórum bílum og hópbílum - en vorið 2002 og haustið 2003 var hann enginn og vaðið allt álíka djúpt - 40 - 50 sm. 
Vaðið getur verið viðsjárvert jafnvel fyrir stóra bíla ef í því er  pollur. Farið eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar eru í orðsendingu veiðivarðarins við bakkann. Eina örugga leðin er að vaða yfir og kanna vaðið. 
Ef vaðið er ískyggilegt er hyggilegt að hverfa þarna frá og aka þess í stað upp að Hraunvötnum. Þaðan liggur fjölbreytt og fögur leið niður með Litlasjó og að Tjaldvatni þar sem veiðivörðurinn hefur aðsetur. Á þeirri leið eru engar ár. 
Gilsá Við Þórólfsfell
Þegar ekið er inn með Þórólfsfelli innan við Fljótshlíð skiptast leiðir skammt innan við varnargarðinn sem stýrir Markarfljóti frá Hlíðinni. Önnur leiðin liggur í sneiðingum utan í Þórólfsfellinu en hin fer niður á aurinn. Strax eftir að á aurinn er komið er farið yfir Gilsá. Hún breiðir vel úr sér og er með grunnu vatni - oftast minna en 40 sm djúpu. Þarna er ekki mikil hætta á sandbleytu þótt áin sé að mestu á sandbotni. Hafðu samt gát á þér í mikilli rigningatíð og líttu alltaf eftir brotum til að elta grynnstu leiðina. 

Við Hellisvelli
Getur verið í nokkrum vexti en er yfirleitt hæg yfirferðar með ca 30-50 sm dýpi. Hún breiðir úr sér á vaðinu og er þar gjarnan í álum sem finna má brot á. Á eindrifsbílum er vert að skoða hverja yfirferð til enda og sjá hvernig aka skal alla leið inn á brautina aftur hverju sinni sem leið er fundin yfir ál.

Gljúfurá  Gljúfurá í Borgarfirði á leið frá Svignaskarði að Langavatni. WGS84-hnit: 64 43,992 * 21 41,694. 22. nóv. var vatnsdýpi um 30 sm. 
Grinda-
kvísl
Sjá Systrakvísl ofan við Jökulheima.
Hágöngu-
lón
 
Útfallið úr Hágöngulóni - sjá Kaldakvísl.
Hellis-
kvísl
á
Landmanna-
leið
Vatnslítil og ekki fyrirstaða 4x4-bifreiða en á eindrifsbifreiðum þarf að sýna fulla aðgát þótt þeim sé yfirleitt alltaf fært yfir. Vatnsdýpi yfirleitt á bilinu 20 til 40 sm.
Hnífá
Sjá kort við
Nautá
Áin er ekin á góðu vaði á nokkuð grófgrýttum botni. 18. september 2009 var dýpi minna en 40 sm. Sjá myndir - þar sem þessi er fyrst

Sjá einnig Öræfaleiðir Sigurjóns Rist frá 1958

Hnjúks-
kvísl
Í ágústbyrjun: Hnjúkskvísl er jökulsá - skammt neðan Laugafells á Skagafjarðarleið - í Vesturdal. Nafnið dregið af Laugafellshnjúki. Áin á vaðinu er um 20 m breið, dýpið um 50 sm. Grófur og grýttur botn.
16. sept. 2006 >> sjá mynd.
Hólmsá
neðan
Hólmsár-
botna
Síðsumars og snemma hausts er Hólmsá ekki djúp yfirferðar á Syðri-Fjallabaksleið. Ekið er yfir hana í jaðri Mælifellssands skömmu áður en leiðin liggur upp miklar brekkur og um Álftavatnskrók í Eldgjá.
Hvanná á
Þórsmerkur-
leið
Hvanná er hörð og stríð og eyrar hennar eru sérlega grófar. Þegar veghefill hefur farið inn yfir Hvannáraurinn er oft erfitt að ná sæmilegu undanhlaupi á heflaða vaðinu. Vatnið er þó ekki mjög djúpt - oftast ekki mikið yfir hné - en skellur mun hærra vegna straumþungans.
Jökulfall á
Kerlingar-
fjallaleið - á
ármótum
við
Fossrófulæk

* * *
Króksvað
nafnið tengist
því að þarna er
Jökulfallið að
taka mikinn
krók, frá
norðurstefnu
til suðsuð-
vesturs.

Frá Kjalvegi er ekinn afleggjarinn til Kerlingarfjalla að Fossrófulæk. Ekið er niður Fossrófulækinn að Jökulfallinu. Þar eru tvö vöð suðaustur yfir og eitt til baka.

Sjá hér tvö myndasöfn. Í öðru er neðra vaðið kannað og ekið svo og bakavaðið. Í hinum safninu sést hvernig efra vaðið er ekið. 

Nokkuð mikill steinn er í botni án þess að nægilega beri á honum. Hann rekst í kúlu Landcruiser HD80 á 38" ef óheppnin er á sínum stað. Hann er á efra vaðinu. Hér sést bíll með vinstra afturhjól uppi á honum:

 Til að losna við að rekast á steininn:

  • á innyfirleið - þegar ekið er suðvestur yfir ána - skaltu halda þig ofarlega - þ.e. aka vel þvert yfir. Landtakan er þá líka aflíðandi og góð. Ef slegið er undan verður bakkinn brattari,
  • á bakaleið - þegar ekið er norðvestur yfir ána - skaltu vera hægri-sækinn fara strax að ármiðjunni. Það er líka góð stefna því landtaka ofarlega - vel til hægri - er aflíðandi og góð en dýpri rás og brattur sandbakki tekur við fljótt þegar komið er lengra til vinstri. 
Jökulgils-
kvísl við
Landmanna-
laugar
Jökulgilskvísl er nú brúuð. Ef fara skal inn í Hattver þarf að fara inn Jökulgilið og yfir Jökulgilskvíslina - jafnvel nokkrum sinnum. Hún rennur á mjúkum líparíteyrum sem geta verið linar og vart haldið bílum. GAKKTU úr skugga um að öllu sé óhætt!
Jökulsá úr
Gígjökli
í
Eyjafjalla-
jökli
- á
Þórsmerkur-
leið
Við Jökullónið
Við gosið í Eyjafjallajökli vorið 2010 fylltist jökullónið af auri og aðstæður breyttust. Þegar þetta er ritað í júlí 2010 er enn ekki komin full ró á gosstöðvarnar.

Vatnið er þó yfirleitt lítið og vað hefur verið gert ágætt.

Jökulsá
vestari
við
Ingólfsskála

Krókakvísl
er ágætt nafn.
Hún er austan
undir
Krókafelli.

Um miðjan september 1991 var Vestari Jökulsá liðlega í hné en vaðið er afar stórgrýtt. 

Þessi upptakakvísl vestari Jökulsár rennur milli Krókafells og Lambahrauns úr Hofsjökli. Austan hennar er Ingólfsskáli. Vaðið hefur færst spölkorn upp eftir ánni frá því sem var 1991 - en þá var farið vestur að ánni strax eftir að komið var niður af hraunkambinum við skálann. Þar var grófur klettabotn. Efra vaðið er á ekki mjög grófum malarbotni.

Kaldaklofskvísl
við Hvanngil
Göngubrú er á Kaldaklofskvísl en bílum verður að aka yfir ána. Til suðurs er ekið niður hraunbakka og svo yfir á fremur breiðu vaði. Í því miðju er nokkuð verklegur steinn. Niður undan honum er sandbunki á svo sem eins fermetra svæði sem þó er ekki til vandræða. Vaðið hefur verið rutt og liggur í sveig neðan við steininn. Það afmarkast að neðan af stórum steinum sem rutt hefur verið til. Best er að aka sveiginn.
Kaldakvísl

Svart-
höfða-
vað

*

Kvíslar-
hnúkavað

*

Vað yfir
útfallið úr
Hágöngu-
lóni

*

Illugavers-
vað

*

Trippa-
vað

*

Köldu-
kvíslar-
vað

við Svarthöfða syðst í Vonarskarði
Miðað er við yfirferðir í síðari hluta september. Í meðalári eru áin liðlega í hné. Hún er á grófum og föstum botni og suðurferð er einkar heppileg. Áin er hins vegar svo breið að hana má einnig aka þægilega norðuryfir.
24. okt. 2010 >> sjá mynd.

við Kvíslarhnúka
Ágætt vað er á Köldukvísl þvert austur af Kvíslarhnúkum. Hún rennur um hraun sem er hálfvegis fullt af auri sem þó er ekki mýkri en svo að vel má yfir aka. Nauðsynlegt er að ganga alveg yfir vaðið og í land hinum megin uns fundinn er sá staður þar sem skal stoppa bílana. Vatnsdýpið í byrjun ágúst og í miðjum september var ca 50-60 sm. Áin breiðir dálítið úr sér.

úr Hágöngulóni 
Útfallið
er í breiðum farvegi. Að honum eru háir og brattir bakkar. Þeir gætu orðið ófærir ef mikið vatn fer um útfallið og nær að sópa burt neðsta hluta þeirra. Þann 28. september 2002 voru bakkarnir vel viðráðanlegir öllum jeppum.
Vatnið flæðir úr lóninu yfir stífluna. Unnt er að meta vatnsmagnið með því að fara að yfirfallinu og setja fót út á það - í strauminn. Að þessu sinni (28. sept.) var dýpið um hálft fet en straumurinn er mikill svo mun hærra stendur straummegin. 
Neðan við útfallið er um það bil bílbreidd með grófu grjóti en þar er engum jeppa unnt að aka vegna þess hversu stórgrýtt er að á báða vegu. 
Neðan við yfirfalls-mannvirkið er vatnið óbrotið en þegar kemur aðeins neðar - á að giska 50 metrum - er meira og minna samfellt brot yfir að líta. Þar var áin á bilinu 40 - 70 sm djúp. Farið var frá eystri bakkanum nokkuð beint yfir ána en sveigt upp með vestari bakkanum að uppleið sem reyndist ágæt. 
Um það bil 20 metrum ofar liggur vegur niður vesturbakkann - en leiðin meðfram bakkanum alla leið þangað - er mun dýpri. 

Gott vað suður yfir er út í af sama stað á norðurbakkanum en aka svo nokkuð undan straumi og koma upp úr neðan við bröttu bakkana sunnan megin. Þar er líka þægilegt að aka upp á hraunið. 

WGS84 
GPS-punktur austan vaðsins: 64.534120, -18.190985
vestan vaðsins: 64.535180, -18.191920
Athugaðu að það munar allt að 40 metrum ef þú ert með þitt GPS-tæki stillt á Hjörsey55. 

við Illugaver 
19. okt. í björtu veðri með nokkrum blæstri og 6 stiga frosti.
Áin breiðir úr sér á eyrum. Botninn er jafn og fastur en þó eru tvisvar áhyggjulausar deigjur - þ.e. sandbleyta - grunnar og stuttar. Önnur er við norðurbakkann en hin um bíllengd frá suðurbakkanum. Farið var suðuryfir. Áin  fer þarna nokkuð beint en þó í lítilli hægri beygju. Upp úr var farið rétt ofan við álinn sem byrjar að myndast við suðurlandið í beygjunni. Útí var farið svo ofarlega að hornið við ána var um það bil 40 gráður. Vatnsdýpið lengst af um 60 sm nema bílbreidd númer 2 frá syðra landinu sem var um 85 sm. en uppkoman góð að og á syðri bakkann. 
Brotið á ánni er til hjálpar suðuryfir - en gerir hana erfiðari yfirferðar til norðurs.  Sjá mynd.
Sjá einnig bíla á vaðinu 9. október 2004 - við afar lága vatnsstöðu í ánni.

Um vaðið á Köldukvísl þann 26. júlí 1959 segir Sigurjón Rist í bók sinni Vadd' út í á bls. 187: Kaldakvísl var í miklum gassa, um 80 rúmmetrar á sekúndu. Hún er þarna vond yfirferðar sökum þess að fara þarf hana nær þvert yfir. Aeins er unnt að víkja ofurlítið undan mesta strengnum , einkum á suðurleið.  

Í grein sinni Öræfaleiðir í Ferðum, riti Ferðafélags Akureyrar 1957 segir Sigurjón Rist um vaðið yfir Köldukvísl við Illugaver:
Bílavaðið er auðratað því að farið er nær þvert yfir ána, aðeins þó undan straumi þegar haldið er suður yfir. Greinilegar slóðir eru að ánni beggja vegna. Venjulegt sumarrennsli Köldukvíslar er þarna 30 - 60 rúmmetrar á sekúndu. Hún fer að vaxa eftir kl. 17 og verður mest seint á kvöldin (til samanburðar er Laxá, S.-Þing., hjá Brúum 45 rúmmetrar á sek.). Breidd Köldukvíslar er 60 metrar og mesta dýpi 80 - 100 sm. Mest er vatnsdýpið nálægt norðurbakkanum. Botn er fremur grýttur en fastur, nema norðurbakkinn kann að vera laus.

Köldukvíslarvað - sjá mynd. og Trippavað 
Þessi vöð eru skammt ofan við ármót Tungnaár og Köldukvíslar.
Október-mynd Gunnars Júlíussonar af Köldukvíslarvaði sýnir að áin er afar vel viðráðanleg fyrir alla jeppa og engin ástæða til annars en ætla að hún sé eins góð yfirferðar á Köldukvíslarvaði sem er aðeins neðar. Vatnsdýpi var um 60-65 sm 10. okt. 2004. 

>>

Vötn í
Þóris-
tungum:

Stóragilskvísl
Trippagilskvísl
Tjaldakvísl

Þótt Köldukvísl sé allri veitt í Sauðafellslón og Þórisvatn er samt umtalsvert vatn í farvegi Köldukvíslar á þessum slóðum. Um helmingur þess bætist í hana í Þóristungum. Stóragilskvísl fellur í Trippagilskvísl og þær síðan í Tjaldakvísl sem fellur nokkuð mikilúðleg í Köldukvísl. Bílavaðið á þessu sameinaða vatnsfalli er skammt ofan ármótanna og var um 60 sm djúpt 10. október 2004. Vaðið er nokkuð straumhart, grófgrýtt og grjótið frekar hált og botninn sums staðar með botngróðri á grjótinu. Skammt þar fyrir ofan er vað á Köldukvísl. Sama dag var hún þar lygn og um 60 sm djúp en með stórum steinum í kafi sem hafa þarf augu á - einkum ef bíllinn er ekki vel hár. Sjá mynd.
Kaldá við
Kaldársel
ofan
Hafnar-
fjarðar
Bílavaðið er fáum metrum neðan við girðinguna um vatnsból Hafnfirðinga. Gakktu yfir ána á lágum stígvélum til að finna hvernig best er að renna fólksbílnum yfir. Fært öllum fólksbílum. Hraunaslóðin innan við er dálítið gróf en með varúð má aka þar inn í Valaból og auðvitað líka að Helgafelli.
Kerlinga-
læna
Sjá Systrakvísl ofan við Jökulheima.
Krossá
á
Þórsmerkur-
leið
Ef þú ert í för með öðrum bílum skaltu taka mið af þeim. Skálaverðir í Langadal segja til um vaðið ef til þeirra næst. Ef þú ert á öðrum tíma skaltu vaða ána. Leitaðu að broti, aktu ákveðið en í lægsta gíri, skáhallt undan straumi og gættu þess að landtakan sé góð. Ekki leggja í ána nema þú sért viss um að komast yfir. Þórsmörk er yndisleg á öllum tímum - ef maður er á þurrum og gangfærum bíl. Bíll sem festist í Krossá fyllist af jökulleir í legum og smurflötum sem allir eyðileggjast nema hann sé rifinn í frumparta sína og hreinsaður upp. Ekki tefla á þá hættuna!
Krossá
við
Sandmúla
Krossá við Sandmúla rennur í Skjálfandafljót úr austri um 10 km sunnan við Réttartorfuskálann. Hún er bergvatnsá. Í ágústbyrjun 2001 var vatnsdýpið á bílavaðinu um 50 sm.  
Langá 
á Mýrum
Langá á Mýrum. WGS84-hnit eru: 64 41,363 * 21 51,948. 22. nóv. var dýpið um 40 sm. 
Laugalæna
við
Landmanna-
laugar
Laugalæna rennur úr gilinu við Suður-Náminn og yfir hana þarf að aka til að komast á svæðið við skálann. Yfirleitt er vaðið einn hyldjúpur pollur. Vaddu dálítið um hann til að finna hvernig er best að þræða hann til að fá hann grynnstan.
Laugakvísl norðan Hofsjökuls Laugakvísl rennur sunnan undir hæð þeirri sem skáli Ferðafélags Íslands - og fleiri hús - standa á. Hér er mynd af henni á ljúfum degi 16. september 2006.
Laxá
Stóra-Laxá
á
Tangaleið,
línu-
veginum
milli Hvítár
og Þjórsár
Stóra-Laxá á Tangaleið var farin í  mikilli rigningardembu 27. júlí. Farið er yfir hana þrisvar. Fyrst vestast, skammt frá skálanum sem nefnist Helgaskáli - merktur Helgafell á korti á N: 64-17,199 og V: 19-53,625 sem nefndur er eftir Helga Stefáni Jónssyni, fjallkóngi - 1965 - 83. Farið er yfir á N: 64-16,939 * V: 19-53.981 með mesta vatnsdýpi innan við 50 sm þegar dýpkaði aðeins austan við miðju. 
Næst stuttu austar á N: 64-16,691 *  V: 19-53,851 skammt frá: Stórgrýtt með 30-40 sm dýpi en allt að 60 sm við austurbakkann.
Í þriðja sinn (næst fyrir austan Særingsdalskvísl) á N: 64-15,762 * V: 19-51.036 og reyndist mesta dýpið vera um 50 sm á grófum malarbotni.
Leirá
á Línuvegi
Leirá á Línuveginum milli Hvítár og Þjórsá. Ef leiðin er ekin til austurs (frá Gullfossi) eru litlir lækir fyrst en svo er komið að Leirá. Í mikilli rigningu (27. júlí) var hún 40-50 sm djúp á traustum malarbotni. Ekið vel undan straumi austur yfir en á móti straumi á sama vaði til vesturs.
Markar-
fljót
Við Hrafntinnu-hraun
Þegar farin er leiðin í Hrafntinnusker suður af Dómadalsleið og suður yfir Pokahrygg er komið að upptakakvíslum Markarfljóts. Yfirleitt er þessi leið ekki fær fyrr en síðla í ágúst sökum snjóa. Þá er fljótið nánast lækur tær yfir að fara og um það bil 30 sm á dýpt.

Við Laufafell - og fossinn Laufi
Vöð eru á Markarfljóti bæði ofan og neðan við Laufafell. Neðan við Laufafell er ekið yfir það á Syðri-Fjallabaksvegi. Það er yfirleitt ekki mjög vatnsmikið en á að giska 60-70 sm í meðalvatni. Svipað er á vaðinu ofan við fellið þar sem ekið er inn í vestari Reykjadali. Efst við Laufafellið er fallegur foss í Fljótinu. Þessi foss er nafnlaus en hér verður hann nefndur Laufi. Það er þjált og þægilegt nafn sem kallast á við nafnið á fellinu.

Milli Þórsmerkur og Þórólfsfells
Á vetrum og vorum er Markarfljótið viðráðanlegt á jeppum. Á góðum vöðum má fara á óbreyttum bílum. Munurinn getur verið sá að á erfiðu vaði er vatnið ca 1 m en á góðu vaði um og undir 50 sm. Fljótið brýtur sig víða á þessu svæði - þ.e. víða má finna á því brot. Berið virðingu fyrir því, gætið ítrustu varkárni og verið vakandi fyrir sandbleytum. Á vetrum þarf að vinna á ísum og gæta vel að uppkomunni á hinum bakkanum. Alltaf verður að vaða - alla álana!

Mjóadalsá
í Langa-
vatnsdal
Mjóadalsá í Langavatnsdal í Borgarfirði. WGS84-hnit eru: 64 51,271 * 21 44,836. 22. nóvember var vatnsdýpi um 20 sm. 
Nautá

Söðlá

Kriká

Nauthaga-
kvísl

Miklakvísl

Blautakvísl

 Hnífá


Söðlá frá Söðulfelli og Kriká frá Jökulkrika falla saman milli Nautöldu og Nauthaga í Nautá sem í miðjum september 2009 var 40 - 50 sm djúp, ekki straumhörð og botn mjúkur en þó ágætur.

Sjá vað á Hnífá.

Nauthagakvísl kemur úr Nauthagajökli. Rennur í grófmalarfarvegi. Var í september 2009 40-60 sm djúp.

Nautá og Nauthagakvísl mynda Miklukvísl.

Norðlinga-
fljót
Ekið frá Surtshelli um Vopnalág. Í septemberlok var vatnið um 50-60 sm á jafndjúpu vaði - nokkuð grófu.
Núpsvötn

yfirleitt
of djúpt
fyrir
jepplinga
en fært
óbreyttum
jeppum
-
Vaddu útí !!

Syðri yfirferðin
Bergvatnsáin Núpsvötn kemur úr Núpsstaðaskógi austan Lómagnúps og rennur nokkuð langa leið um sandaflæmi. Á þetta sandaflæmi - nokkru neðan við Núpsstaðaskóg - fellur líka jökulsáin Súla úr Grænalóni. Þegar hlaup er í Súlu flæðir hún yfir svæðið og í Núpsvötnin og þvær burt fínni mölina. Þar er því sums staðar feiknagróf möl eða hnullungar í botni. Þar geta grafist sannkölluð hnullungagil í farveginn. Þetta þarf að athuga þegar leitað er vaðs þar sem fyrst - syðst - er komið að Núpsvötnum. Þar eru Núpsvötn ekki hreinræktuð malará - en vissulega er þar minni hætta á sandbleytum. 

Yfirferð framan við Núpsstaðaskóg
Inni við Núpsstaðaskóg er mölin miklu fínni og þar þarf að gæta sín vel á sandbleytum. Ekki er nauðsynlegt að aka þar yfir því tjaldstæði hefur verið sett upp undir klettunum þar sem komið er að ánni. 

Ófæra
- nyrðri
Við Ljónstind vestan Eldgjár má aka yfir Ófæru á jeppum og hópbílum. Þar liggur leið upp að Sveinstindi og inn á Breiðbak.

Í Eldgjá er nokkuð djúpur hópbílapollur á vaðinu sem heppilegt er að skoða áður en ekið er yfir - eins þótt aðrir séu þar. Óþarft er að aka í pytti þótt aðrir geri.

Sunnan Eldgjár er skemmtilegt að aka norður yfir Ófæru og upp á gjárbarminn uns komið er móts við Ófærufoss þar sem glæsilegt útsýni gefst. Vaðið á Ófæru er á nokkuð föstum botni. Syðsta álinn má taka með nokkrum kostum. Nyrsti állinn er hins vegar frekari og þar þarf að aka upp álinn alldrjúgan spöl.

Ófæra
- syðri
Skemmtileg hraunbrú er á Syðri-Ófæru á leiðnni suður á Mælifellssand. Brúin er skammt frá Álftavatnskróki. Það er mesta skröngl að aka brúna og borgar sig alls ekki. Nokkrum tugum metra ofar er ágætt og grunnt vað á ánni.
Rauðá
í
Vonar-
skarði
Rauðá flæmist um Vonarskarð næst Gjóstunni sem er brött brekka nyrst í skarðinu og utan í Tungnafellsjöklinum. Í september er leiðin mjúk, áin er nánast lækur og allt í lagi að aka hana viðstöðulaust.
Rauðá
í
Þjórsár-
dal
- við Stöng
Í venjulegu sumarvatni er áin fær öllum bílum. Rétt er að vaða yfir hana til að athuga grjót í botni og renna lágum bílum undan straumnum.
Skaftá
við Fögru
Efsta - það er að segja: austasta fjallið í Fögrufjöllum er hér nefnt Fagra. Völlurinn austan við Langasjó er látinn draga nafn af fjallinu og heita Fögruvöllur. Liprast er að aka austur af Fögruvelli nokkuð miðsvæðis en halda síðan í átt að Fögru meðfram ánni í jökulhólunum. Vaðið er við rætur Fögru. Þá er áin komin út úr sandbleytufláka og rennur á hörðum malareyrum. Þarna eru miklar sviptingar og á bilinu frá 1992 til 1998 hafði hún brotið mikla brekku úr fjallsrótunum. Samt eru malareyrarnar þarna ráðandi. Vatnsdýpið - í ágústlok og miðjum október þrisvar fært með vatnsdýpi ca 70 sm og einu sinni ófært í septemberlok með gríðarlegu vatnsmagni. Einu sinni í vetrartíð í nóvember í einum litlum áli. Á venjulegum vetri undir þykkri snjóþekju.

Það eru tveir álar í Skaftá. Annar rennur suður með rótum Fögru. Hinn kemur styttri leið undan jöklinum og rennur fram með lágu en sérstæðu felli og vaðs er leitað neðan þess. Sá áll hefur yfirleitt verið álíka djúpur hinum og heldur strangari yfirferðar án þess þó að vera svo mjög erfiður. Haustið 2000 - 12, nóvember - var hann þó alveg þurr. 

Í þau skipti sem hér er vitnað til voru lítil og engin vötn á svæðinu upp af Tröllhamri en á svæðinu suður að Græningja (grængróna gígnum sem næstur er jöklinum í Lakagígaröðinni) eru hins vegar nokkrar ár sem koma frá jöklinum og renna niður að hrauninu þangað til kuldar aukast á haustinu. Þetta vatnasvæði er umtalsvert í sumarhitum. Hluti vatnsins rennur undir hraunið en mest af því rennur norður með því og út í farveg Skaftár. Á þeirri leið eru sandbleytur í ánni og illt hraunið á bak við - sem varla er meira en þokkalega fært gangandi manni - nema unnt sé að aka upp á fellið austan Tröllhamars en þangað liggur ýtt slóð frá Lakagígum. 

Aðrir lækir suður með Síðujökli eru ekki umtalsverðir - nema lænan úr Brunavötnum.

Skjálfanda-
fljót
á Gæsavatna-
leið
Sjá Öræfaleiðir Sigurjóns Rist frá 1958

Nú er komin brú yfir Skjálfandafljót skammt neðan við fossinn Gjallanda. 

Skógá í 
Skógaheiði
Farið er yfir Skógá á bílavaði á  leiðinni upp frá Skógum um Skógaheiði á Fimmvörðuháls. Venjulega er vatnsdýpið ekki meir en um það bil 60 sm. og nokkur straumur. Í rigningatíð hefur áin reynst gangandi fólki erfið yfirferðar. 
Stafnsvötn
ytri
Stafnsvötn - ytri efst í Vesturdal í Skagafirði. Ekið er yfir ósinn sem er lítill lækur, hálf bíllengd með vatnið 10-15 sm djúpt.
Steins-
holtsá
á
Þórs-
merkurleið
Steinsholtsá er innan við Hoftorfuna á Þórsmerkurveginum. Fyrrum var hún eina mannskaðavatnið á leiðinni en á næstliðnum árum hafa menn farið sér að voða í Krossá svo Steinsholtsá einokar ekki lengur þennan titil. Áður var hún erfiðust yfirferðar allra vatnanna en þegar Innstihaus féll í Steinsholtslónið 1967 ruddust fram kynstur af vatni, jarðvegi og ís og síðan hefur hún yfirleitt verið sem ljúfasta lamb. Hún getur þó orðið dálítið djúp á heitum dögum - svona 60-70 sm en yfirleitt má taka hana undan straumi og á fleiri en einum stað. Gæta þarf þess að á henni vöðin ekin ólíkt eftir því í hvaða átt er verið að fara. Ætíð er miðað við að straumurinn hjálpi bílnum.
Stóra-Laxá Stóra-Laxá í Hreppum. Sjá Laxá - Stóra-Laxá
Strangi-
lækur
Á sumardegi: Strangilækur - bergvatnsá á leiðinni Laugafell - Skagafjörður (Vesturdalur). Breidd um 10 metrar á vaðinu. Mesta dýpi um 30 sm. Botninn er malarbotn - ekki grófur. 
16. sept. 2006 - sjá hér mynd.
23. okt. 2010 - sjá hér mynd. Ísar og dýpi 40-50 sm.
Svartá á Kili Svartá er að jafnaði lækur um 30 sm djúpur. Farvegurinn er gróf-grýttur.
23. okt. 2010 - Sjá hér mynd þar sem farið er yfir hana um brjótanlegan ís.
Svartá
á Tanga-
leið
Svartá á Tangaleið sem er Línuvegurinn milli Hvítár og Þjórsár. Reyndist í rigningarveðri 27. júlí vera lítil - aðeins um 20 sm djúp.
Svartá
á Sprengi-
sandsleið
Svartá á Sprengisandsleið nokkru sunnan við Syðri Hágöngu. Hún kemur úr Þverölduvatni. Á vaðinu á gömlu leiðinni framhjá Versölum var hún 30-40 sm djúp í fyrstu snjóum í október 2004.
Sveðja
- úr
Hamars-
lóni
gegnum
Leynidal
vestan
undir
Vatnajökli
1966 - 2004: Í september er yfirleitt ekki meira vatn í Sveðju en svo að það má aka hana strax og hún fellur hjá fyrstu brekkunni neðan við fossinn fram úr Leynidal. Farvegurinn er töluvert grófur og vatnsdýpið upp undir mitt læri.
Vatnavextir geta verið í Sveðju vegna dagshita á jökli eða vegna flóða undan jökli.

Haustið 2005 reyndust breyttar aðstæður. Mikil vorflóð höfðu mokað upp melbakkana og áin var öll hin hægasta viðfangs og dreifði sér um mikið svæði.

Haustið 2010 voru aðstæður breyttar. Áin kom ekki fram úr Leynidal í fossi meðfram suðurhæðum Hamarsfjalla. Jökullinn hefur hopað svo mjög að áin hefur fundið sér leið nyrst með jöklinum og kemur þar gegnum jökulruðningana. Dýpi var um 30-40 sm. Sjá hér mynd og þær næstu í safinu.

Sylgja

Sylgja er lítil á sem sameinar lækinn úr Hraungili og þann sem kemur úr Sylgjufelli. Jökulkambur er sunnan Sylgjufells að Nyrðri jöklasystur (á kortum: nyrðri kerlingu) en norðan hennar eru upptakakvíslar Tungnaár í innri Tungnaárbotnum.  Á myndinni sést rauður ferill upp Hamarsfjöllin (á kortum: Mókollana) til austurs til Hamarsins í Vatnajökli. Sylgja rennur grunn á sandaeyrum en þar er þó ekki mikil sandbleytuhætta. 

Nafnið er orðaleikur. 
Annars vegar kallast það á við nafnið Þorn á mun vatnsmeiri á sem er kílómetra sunnar og rennur frá nyrðri hluta Jökulkambsins. Nöfnin tengjast beltisspennu þar sem eru sylgjan og þornið sem heldur í beltisólina. Hins vegar vísa bæði nöfnin til þess að þær hverfa ofan í hraunin eftir stutt rennsli ofanjarðar. Þær þorna upp þegar hraunið svelgir þær. 

Systra-
kvísl
austan
Bláfjalla
Systrakvísl - eða Kerlingalæna - rennur úr innri Tungnaárbotnum hjá Nyrðri-Jöklasystur. Þær Jöklasystur, nyrðri og syðri eru á kortum nefndar Kerlingar. Kvíslin rennur eftir sandorpnu hrauni og kemur með Bláfjöllum niður í Stafnaskarð og niður í fossinn Fleygi. Við Bláfjöllin er afar grýtt vað. Þegar íslaust er orðið má aka þetta grjótavað í báðar áttir. Áin rennur þarna yfir hraunhaftþ Ekið er út á eyri neðan við haftið og er mjó sandbleytulæna meðfram grjótinu. Vertu vel niðri á eyrinni sem yfirleitt er nokkru breiðari en bíllinn. Vaðið er nokkuð grófgrýtt. Búast má við dýpi á bilinu 0 - 60 sm. eftir árstíma og hitafari - og áin er auðvitað dýpri í leysingum á vorin.   

Þegar komið er austur yfir ána skaltu aka upp með henni - en ekki út í hraunið því það er rustaleið!

Tæplega 50 metrum ofan við vaðið opnast sandgil Bláfjallamegin. Farðu þar aftur yfir ána en athugaðu að það vað er miklu mýkra - þ.e. í því er hætt við sandbleytum. 

Aktu svo upp í það gil því þannig fæst mýkstur vegur um sanda í stað hraunsins. Gilið breiðir fljótt úr sér, um hundrað metrum frá ánni er afleggjari til vinstri upp og þvert yfir Bláfjöllin að Dórnum í Gjáfjöllum - en áfram liggur leiðin norður með fjöllunum. Ekið er allt norður að ánni sem heitir Þorn og síðan upp með henni að grýttu en venjulega ekki mjög djúpu vaði neðan við dálítinn foss nærri jöklinum. Hér er mynd af fossinum með miklu vatni.

Þrautavað í miklu vatni getur fundist skammt ofan við fossinn. Reikna má með að þar geti verið vað fyrir gangandi þótt illúðlegt sé neðan við fossinn.

Særings-
dals-kvísl
Særingsdalskvísl - lítill lækur á Línuveginum milli Hvítár og Þjórsár. Í mikilli rigningardembu hinn 27. júlí 2003 reyndist hann 20-30 sm djúpur. 
Tungnaá

 

Botnaverið
Sumarvatn Tungnaár hefur næstliðin ár allt runnið um Botnaverið þótt sumarið 2003 sé umtalsverður hluti hennar aftur kominn í sinn fyrri farveg milli Félaga og vestan Rata. Í Botnaverinu er mjúkur sandur og sandbleytur og nauðsynlegt að gæta bæði að ánni og botni hennar og líka að leiðinni sem ætlunin er að aka frá ánni og inn á sæmilega þurrt svæði sem venjulega er nær Rata. Á sumrin er þó yfirleitt skynsamlegra að doka við á bakkanum ef mikið er í. Vera við ána á tímanum kl. 05 - 09 næsta morgun og kanna Gnapavað.

Gnapavað - sjá hér mynd! 
Rati er efstur í Tungnaárfjallgarðinum. Hann rís allur í Botnaverinu og Botnaverskvíslin rennur milli hans og Gnapa. Í október 1998 var þar öll Tungnaá - en raunar aðeins lítill lækur - enda þornar Tungnaá með öllu á vetrum. Í September er hún enn nokkur og getur þá á morgni verið 50-70 sm. Kanna þarf vaðið hverju sinni en það er yfirleitt á sama stað - svo sem nauðsynlegt er því færið er varla 100 metrar áður en komið er í stórgrýti og sandbleytur.

Hófsvað - sjá hér myndir: Venjulegt haustvatn * Mikið vatn 
>>
Fannst 27. ágúst 1950 - sjá hér frásögn Sæmundar í Kexinu.
>>
Sögubrot: ekið Hófsvað.
Til er afbragðs uppdráttur og lýsing á Hófsvaði frá Sigurjóni Rist 1958 í Ferðum sem er blað Ferðafélags Akureyringa.
 Í leiðarlýsingu segir hann líka dálítið um vatnsmagn og hvers konar bílum er þar árennilegt yfir að aka. 
Tungnaá í vatnavöxtum haustið 2002 - sjá frásögn Andrésar Magnússonar og myndir.
Hófsvað þrautkannað haustið 2003 - sjá frábærar yfirlitsmyndir og texta Andrésar Magnússonar.

Áin rennur í fjórum álum á hraunbotni umhverfis þrjár eyjar. Ef farið er frá syðra landinu koma fyrst tveir litlir álar. Síðan kemur aðal állinn. Hann er farinn nokkuð neðarlega og á móts við neðstu tána á þeirri eyju sem þá er framundan. Stuttu eftir að kemur yfir helming brotsins er beygt upp í strauminn og ekið þar meðfram álnum og í hólmann áður en hann er hálfnaður. Ekið er nokkuð þvert yfir hann og síðan upp eftir ánni liðlega tvöfalt lengra en ekið var yfir hólmann. Þá er sveigt til norðurlandsins. Dálítill áll er í ánni áður en komið er alveg að landinu. Hann er þó lítið meiri en svo að vart verður við hann.

Veiðivötn Sjá Fossvatnakvísl við Veiðivötn
Lækur á leið að Tröllinu og í Hreysið er ekki vatnsmikill en mjúkur og varhugaverður eindrifsbifreiðum. Þaðan er hálftíma gangur eftir slóðinni að Tröllinu.
Víðidalsá í
Borgarfirði
Víðidalsá fellur um Langavatnsdal í norðurenda Langavatns í Borgarfirði. Á vaði nærri Langavatni var hún um 30 sm djúp þann 22. nóvember. WGS84-hnit: 64 49,464 * 21 45,450. 
Vonarskarð
- vestan til
Í Vonarskarði er í september ekki mikill vatnsagi ef farið er vestan til. Til eru sandbleytusvæði sem hafa þarf auga með en hægt er að aka alls staðar þar sem maður getur gengið.

Sjá hér nánar um leiðina um Vonarskarð.

Þjórsá

 

Ath!

Græna
leiðin
fáfarin

 

For-
seta-
vegur
núna
oftast
farinn

Sjá Öræfaleiðir Sigurjóns Rist frá 1958   

Bergvatnskvísl Þjórsár - um það segir Sigurjón Rist: 
Í Ferðum 1947 sagði skáldið Baldur Eiríksson um þessa leið meðal annars:

Farið um ótal ókunn drög,
yfir Þjórsá, en grunna mjög,
í hófskegg - í hæsta lagi.
- -
Viðbót GÓP - endurskoðuð 22. nóv. 2004
eftir ábendingu frá Grétari G. Ingvarssyni:

Leiðin sem Sigurjón er að lýsa og hefur þetta vatnslitla vað er sýnd með grænni slóð á myndinni. Hún hefur nú fyrir nokkuð löngu verið að óþörfu aflögð. Henni má þó fylgja meðal annars með hjálp stika sem enn standa uppi. Hún fer yfir Bergvatnskvísl á vaði sem er
á  64 56.197 N, 18 03.242 V.

Nú er farin önnur leið sem nyrðra nefnist Forsetavegurinn. Hún liggur vestur frá Fjórðungsöldu næstum syðst og sveigt er til suðurs yfir vað á Bergvatnskvísl, síðan örlítið vestan við hánorður og vestan við Laugafell. Á þessari leið hefur til Bergvatnskvíslarinnar safnast meira vatn úr ám og lækjum og hún er orðin mun vatnsmeiri á vaðinu
- sem er á 64 52.509 N 18 12 896 V.

Skömmu eftir 1990 var hún þar á vori svo vatnsmikil að jeppi komst ekki yfir hana. Hann fór út í ána og festist þar. Annar bíll var á bakkanum en fékk ekki að gert. Fólkið lenti í hörmungum og manntjón varð. Þá hefði miklu munað að hafa eldri leiðina vel þekkta og þar með tiltæka.

Sóleyjarhöfðavað - um það segir Sigurjón Rist:
ófært bílum fyrr en seint á hausti.

Þorn Rennur vestur frá nyrðri hluta Jökulkambs í Vatnajökli að norðurenda Bláfjalla og fellur þar í sandkluft og hverfur - þornar upp. Leiðin liggur frá Bláfjöllum upp með Þorni og vað er á því skammt fyrir neðan dálítinn foss upp undir jöklinum. Áin er þar stórgrýtt en ekki djúp - hnévatn á hausti. 

Sumarið 2010 var áin ófær nema stærstu bílum á vaðinu neðan við fossinn. Hún var hins vegar viðráðanleg fyrir göngufólk ofan við fossinn og þar var líka betra bílavað.

Nafnið er orðaleikur - sjá Sylgja. Þar er líka kort sem sýnir afstöðu ánna.

Þórólfsá
í Fljóts-
hlíð
Á þurrum sumardegi er dýpið um 50 sm á sæmilegu broti. Áin rennur milli bakka sem halda dálítið að henni svo að hún getur verið óþægilega djúp þar sem hún er mest ekin. 

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir * Sverris-síður