GÓP-fréttir forsíða
|
Lýsing á Hófsvaði
Kafli úr óbirtri sögu. Skrifað 10. sept. 1970. |
* |
- - -
Sólin var hætt að hækka á lofti þegar Weaponinn dró kerruna niður hraunruddann að vaðinu. Staðnæmst við fyrsta álinn. Tungnaá þunglamaðist áfram full af frosthömdu vatni. Miklar skarir við alla bakka - og strax hinum megin við þennan mjóa ál var greinilega lagt aftur í skarðið þar sem jeppinn hafði klifrað uppúr. |
* |
Ökumaður Weaponsins fer í vöðlur, gyrðir nælonanorakk utanyfir með belti. Tekur
tveggja metra járnkall. Fikrar sig varlega fram af skörinni. Fallið liðlega hálft annað
fet. Jeppinn hafði sýnilega hvergi snert. Vatnið var straumlítið mittisvatn ef ekki var
farið of ofarlega.
Lyftingin upp á skörina er ámóta fallinu ofan í. Nýlögnin auðbrotin en nokkurt streð við að hefja sig upp á og brjóta breiðara úr en jeppanum dugði. Strax gengið að næsta áli. Breiðari. Virðist grynnri. Fallið ámóta og fyrr. Vatnið reynist grynnra - í klof. Nokkrir stakir steinar. Vaðið í sveig, skáhallt móti straumi og síðan þvert í hólma. Lítið haf upp á skör, - fáein högg með járninu. |
* |
Þriðji állinn lítur ekki eins friðsamlega út. Napur strekkingur ísar vöðlurnar.
Maðurinn hreyfir sig með varúð til að brjóta þær ekki. Skörin nær langt fram. Styðst
við járnið þegar hann stígur fram af henni. Fallið er skuggalegt. Vaslar í miðju læri.
Botninn er hál stórgrýtisurð. Tvo, þrjá metra niður fyrir og annað eins upp með
skörinni. Engin bót. Járninu höggvið eitt högg þar sem fram af var farið - síðan lagt
út í álinn. Eftir því sem fjær dregur landinu minnkar hálkan og straumurinn eykst.
Stundum lyftist vaðarinn hálfan metra upp á stóran stein eða klöpp sem fól við hlið
sér djúpa laut .. . Landslag botnsins lýsir sér þegar horft er á manninn fikra sig,
fallvaltan en þó óhnotgjarnan, fram og til baka, þvert úr leið, í króka, eins og hann
kortleggi hvert ferfet breiðs vegar - undir straumstrokunni. Hann horfir hvikandi í
strauminn - aldrei nema örstutta stund í senn, síðan til lands, upp til lognbreiðunnar
fyrir ofan og niður í fyssandi flúðirnar örfáum metrum neðan við, þar sem allur
vatnsþungi þessa áls og næsta skellur á klettinum, Hófnum, og grefur foraðsgryfjur.
Einstaka flothjálmur situr á steini sem virðist skjóta upp kolli úr kafi. Vaðarinn fer aftur á bak og áfram. Í heild fer hann í stóran sveig: fyrst lítið eitt niður á við, svo þvert - rétt ofan við flúðir brotsins. Það grynnkar þegar meginállinn er að baki. Sveigir upp í strauminn, kringum lygnupoll, sem lúrir í skjóli eyrar. Ofan við lygnuna, þar sem aftur gætir straums, er brotin skör gerð bljúg á skammri stundu. |
* |
Hér er mikil eyja í ánni, - gengin endilöng móti straumáttinni. Skörin uppaf er
brúkleg. Aðgrunnt. Fikrar sig 50 metra nær beint upp í strauminn, vatnið smádýpkar,
orðið hátt á læri. Vaðarinn beygir þvert á rennslið og stefnir á vörðu við bakka. Það
er nokkru lengra til hennar en eyjunnar. Dýpið er stöðugt, botninn sléttur. Fimmtán
metrum frá landtökunni dýpkar í mjöðm. Þar er sex metra breiður áll. Síðan
grynnkar aftur uns kemur að landinu. Skörin slæm. Brotið úr - en jeppinn hefur
greinilega verið látinn hefja sig yfir hálfan metra upp á botnfastan klakann.
Vaðari ræðst á fyrirstöðuna en verður að taka sér hvíld eftir fáar mínútur. Hálfrar mínútu hvíld, síðan önnur sókn. Klakinn kvarnast, engin hjálpandi fleygni. Ekki hætt fyrr en kominn er flái úr metershæð niður í hálfsmeters fall. Vaðarinn losar hnullung úr urð við vörðuna, fer með hann út í ána, setur hann á botninn til hliðar við brautina. |
* | Veður til baka í eyjuna og svo í straumálinn. Ekki veitir af stuðningi járnkallsins. Sums staðar er vatnið í beltisstað. Hann stígur niður - niður - en kemur járninu fyrir sig og kemst upp á klett. Næstum dottinn í pyttinn. Lítt fýsilegt að vökna. Athugar hvern stein að nýju og mátar stöðu brautarinnar. Hikar andartak, fikrar sig áfram. |
* | Hér er óbrotið úr. Það tekur skamman tíma. Síðan ofan í næsta álinn og loks þann síðasta. |
* |
Hann leggur járnið í bílinn og klifrar beinfættur inn í hlýjuna til Sverris. Eftir stutta
stund er ísinn úr vöðlunum. Vatnið rennur frá þeim.
- Hvernig er það? - Í lagi - og verður að vera það. - Hvað er gjótan djúp? - Uppfyrir. Ég fór alla leið. Það hefur eitthvað verið tekið til hendinni í morgun. Ég hamaðist heillengi á skörunum - og það var þó bara snyrting. - Hvernig er hinum megin? - Þægilegast með kerruna ofan í. Best er að fara í einni lotu svo bremsurnar frjósi ekki. Vertu viðbúinn þegar við förum fram af. Bremsurnar duga bara á fyrsta fallið - en það þarf ekki að verða svo slæmt þegar kerran fer niður. - Þetta er eina leiðin. - Já. Kýlum á'ða. |
* |
Bílnum mjakað af stað, fram á og fram af skörinni. Fyrsti í lága og bremsur. Lent
furðu mjúklega og enn aukin varkárni með kerruna. Rétt strax komið að
mótskörinni, gefið sígandi drjúgt í - hálfu feti áður en framhjólin snerta - og enn
einu sinni - með kerruhjólin jafnvel enn nær skörinni.
Næsti áll, niður í, í sveig og upp í hólmann. Þriðji állinn. Framhjólin þegar á leið út af skörinni. Eitt andartak ólgar vatnið yfir fremsta hluta vélarhlífarinnar, vatnshrindingin minnkar, afturhjólin koma niður, - og kerran. Bíllinn veltist eins og belgmikill vatnahestur marandi í ánni, sviptist harkalega upp á steina og ofan í gjótur þrátt fyrir sniglið. Ökumaðurinn velur fremur grýttan botn og ekur stórgrýtisurðina framhjá pyttinum. Þá er stutt eftir af röstinni, senn snýr bíllinn upp með lygnunni, - þefar af straumnum og er svo uppi í eyjunni. Upp eyjuna, fram af henni, upp eftir ánni, sveigir til lands. fer yfir álinn. Hálfu feti áður en framhjólinn snerta skörina byrjar vélin að auka hraðann, ekki snöggt - en þétt. Árekstur. Bíllinn hefst upp að framan. Vélin tekur á, afturhjólin koma á þéttingsferð, bíllinn lyftist upp á að aftan - en staðnæmist andartak með öll hjól krafsandi ísinn með keðjunum. Aðeins eitt andartak - svo dettur hraðinn niður og hjólin mjaka bílnum áfram upp á brúnina. |
* | Kerruhjólin ber að skörinni. Bíllinn stöðvast. Öll hjól snúast hægt. Kerran rís brött upp úr ánni. Ökumaður stekkur út með hamar í hendinni. Hleypur aftur með bílnum, út í ána, rótar hnullungnum að kerruhjólinu. Er óðar komin að kerrufestingunni. Stígur á kerrubeislið, sviptir festingunni úr. Bíllinn sígur áfram, kerran virðist á báðum áttum hvort hún á að lyftast. Strekkist stroffa úr beislinu í bílinn. Kerran sígur. Stroffan er stíf. Bíllinn stöðvast aftur. Öll hjól halda áfram að snúast. |
* |
Asinn er af ökumanninum. Hann lengir í stroffunni. Bíllinn færist fjær. Hann losar
yfirbreiðsluna af kerrunni, leggur skjólborðin niður til hliðar, framborðið fram á
beislið. Losar tvær stífstrekktar keðjur í keðjustrekkjurum og dregur yfirbreiðsluna
af.
Vél ræsist í gang. Strax er gangurinn þýður og jafn. Það urgar létt í gírkassa. Skjannahvítur snjóbíllinn mjakast upp á skörina. |
* | . . . |