GÓP-fréttir * *
Langjökulshringur

Haustkyljur helgina 29. sept - 1. okt 1995

Spáð var hvössu veðri af suðaustri en í þeirri átt má ætla að uppsveitir Borgarfjarðar geti verið í skjóli Langjökuls. Þess vegna var að höfðu samráði ákveðið að fara af stað og gista í Brúarási í Hálsasveit. Jafnframt var húsið tryggt til næstu nætur ef ekki yrði lengra haldið. Alls lögðu 13 bílar upp með 45 manns í ferðina en 5 bílar hættu við - enda í upphafi alls ekki víst að ferðin yrði mikið lengri.

Dokað fram á miðjan morgun

Veðrin á landinu voru víða ómildari en í Brúarási því þar var logn og milt og tók ekki að blása fyrr en birti.

Við héldum af stað um miðjan morgun með það í huga að snúa til baka ef þyrfti. Veðrið var þó viðráðanlegt og eftir að komið var vestur fyrir Strútinn var það aldrei umtalsvert.

Surtshellir

Við skoðuðum listaverkin hans Páls á Húsafelli. Þau eru tilhöggnir steinar sem komið er fyrir syðst, þar sem áður var kallað íshellir. Við gáfum okkur tíma til að fara um rangala og koma bakvegis að beinahellinum þar sem valnadyngjan er. Þegar við loksins héldum af stað var klukkan nærri hádegi.

Arnarvatnsheiði

Sæmilegur slóði er inn að Norðlingafljóti og aðeins hnévatn yfir að fara. Strax fyrir innan tekur við miklu lakari skælingsstígur. Þegar við komum að Arnarvatni hinu mikla um kl. 17 höfðu flestir fengið margra ára fylli af skakstrinum - og aldrei unnt að pára á blað:

Kóklast var um grjót og gjá,
- gráu hárin rísa!
óskrifandi leiðin lá
- en loks er komin vísa.

Veðrið var með stífum en þurrum blæstri. Af Langjökli og yfir Strútnum var mikið skýjarof og bláir himnar og þegar birtu tók að bregða var þar fagur roði.

Í heitt bað á Hveravöllum

Vegna aðstæðna vorum við seinna á ferð en upphaflega var ætlað og leiðir um Stórasand eru ekki skýrar. Var því ákveðið að aka eftir vegi frá Arnarvatni norður í Miðfjörð og eftir þjóðveginum upp á Hveravelli. Þangað komum við nokkru eftir miðnætti en hvorki það né blásturinn létu menn aftra sér frá því að fara í heitt útibað.

Hagavatn, Brúarárskörð, Laugarvatn

Skömmu fyrir hádegi var lokið skoðun Hverasvæðisins og haldið suður Kjöl. Komið var að Hagavatni, ekið þar yfir Farið, sem fellur úr vatninu, og fram á línuveginn í Mosaskarði. Farið hjá Hlöðufelli í Brúarárskörð, þar sem við gengum og skoðuðum bunur úr bergi, og fram um Miðdalsfjall hjá Gullkistu ofan í Laugardal. Þaðan er glæsileg sýn yfir Suðurland. Á Laugarvatni vorum við klukkan 19.

Þakkir fyrir trausta samfylgd

Þegar þessarar ferðar er minnst mun það standa efst í hugum okkar hversu ótrúlega vel tókst að halda áætlun þrátt fyrir aðstæður. Leiðin var líka eftirminnileg. Það á bæði við um Arnarvatnsheiðina og leiðina frá Hagavatni niður í Laugardal.

Sextugskveðja til eins ferðafélagans er jafnframt kveðja til þeirra allra:

Fórum við háan fjallaveg
í fegursta mánaskini!
Myndin er eftirminnileg:
margt var um trausta vini
með inngripin örugg og elskuleg.
Einum af þessu kyni,
sextugum kveðju sendi ég,
Samúel Guðmundssyni.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir