GÓP-fréttir-
Í Mosaskarði *

27. - 28. febrúar 1999 - Björt, fögur, ógleymanleg ferð
Góðar veðurspár

Helgarveðurspáin var hin besta. Lítið frost og nokkur vindur fyrrihluta laugardags. Lygnandi frameftir degi. Enn bjartari og stilltari sunnudagur. Allt fór þetta eftir.

Af Lyngdalsheiðarleið

Matti og Ingi leiddu förina og þau Bjössi og Anna og einnig við Þorri fylgdum eftir austur um Þingvöll í björtu veðri með nokkrum renningi sem ekki varð verulega til trafala fyrr en stundum á Lyngdalsheiðarleið. Hún liggur frá Gjábakka til Laugarvatns hjá Dímonum og Tintron, yfir Reyðarbarm og um Laugarvatnsvelli. Í máli mann heitir þessi leið leiðin yfir Lyngdalsheiði en liggur í raun fyrir norðan hina raunverulegu Lyngdalsheiði.

Norður frá Tintron

Tintron er gígur sem er mjór og stakur á mel undir hlíð skammt frá Dímon en ofan í gíginn er nokkuð djúp hola. Leið okkar lá áfram norður með hlíðinni. Þar er stikuð slóð en víða sá ekki á stikurnar vegna snjóa. Nokkur blástur var á og stundum ekki mikið að sjá til leiðarmerkja. Eftir því sem norðar dró varð renningurinn þó minni. Í vestri voru Hrafnabjörg senn að baki og Tindaskaginn, skarpur og bjartur, var sem samfelldur veggur mót vestri allt upp að hinum gamla og bungubreiða Skjaldbreiði.

Hús við Kerlingu

Kerlingin og Karlinn eru töluverðar keilur við rætur Skjaldbreiðs. Kerlingin er neðri og stærri og er á móts við Tindaskagann. Undir henni er hús sem í gestabókinni er nefnt Dalbúð. Það er nýlegt og snyrtilegt. Þar gætu allmargir sofið. Um það segir svo í skálaskrá Sverris Kr. Bjarnasonar:

SKJBRG * Skjaldborg + Dalbúð * Borð og st. H. 9 m.+ 4 m. O. * 642217 * 204539

Í Dalbúð er auk þess svefnloft þar sem býsna margir gætu sofið - sennilega um 10 manns.

Steini bætist í hópinn

Við höfðum ekið úrleiðis að Dalbúð meðan Steini kom frá Selfossi á eftir okkur. Hann hafði hins vegar fengið þá leiðbeiningu að aka á 5 pundum og aka rakleiðis og því var hann kominn framhjá þegar við ókum aftur austur með Skjaldbreiði og norður uns við vorum milli hans og Hlöðufells með Skerslin framundan. Þá var Steini þar kominn. Við héldum nú þvert yfir í Hlöðufell og þá kom í ljós að betra var að gæta sín á krapalónum. Síðan var sveigt norður með Hlöðufelli og milli þess og Þórólfsfells og síðan norður með Þórólfsfelli að austan og fram að línuveginum.

Leiðir skiljast

Þegar við Þorri komum þar hafði stýrið þyngst á bílnum og kom í ljós að vökvi var af dælunni. Afréðum við þá að halda til byggða austur með línunni og niður um Mosaskarð en hinir þrír héldu sem leið lá upp að Langjökli til að skoða framhlaupið í Hagavatnsjöklinum en hann hefur verið að skríða fram síðan snemma í haust. Þeir fóru jökulmegin við Hagavatnið og síðan yfir hálsinn og niður að Hagavatnsskálanum.

Í Mosaskarð

Við Þorri ókum austur með háspennulínunni. Færið var þungt og okkur var óhægara um vik þar sem erfitt var að stýra. Mjög fljótlega varð það okkur til happs að fram úr okkur fór sams konar bíll og við gátum fylgt í hans för. Brátt komum við fram á brún Mosaskarðs. Veðrið var einmuna fagurt og vindurinn ekki mikill þarna uppi á brúninni. Framundan sáum við yfir afrétti Árnessýslu frá Sandfelli á Haukadalsheiði, austur yfir Hvítá og norður í Bláfell, Kerlingarfjöll og Jarlhettur.

Við fylgdum slóðinni niður skarðið og ókum þá fram á þá sem rutt höfðu slóðina. Hjá þeim hafði affelgast og í logni og veðurblíðu reyndum við margar leiðir til að fá loft í dekkið aftur. Loks léðum við þeim eitt hjól undan okkar bíl að komast til byggða og fá loft í dekkið. Nokkrar frekari tafir urðu þegar við komumst að því að hitt framhjólin hafði einnig orðið fyrir áfalli. Í fyrstu var ákveðið að nota hitt framhjól okkar bíls og það var því einnig tekið undan. Það kom þó í ljós að unnt reyndist að gera við skemmda hjólið og fá það til að halda lofti.

Símstöðin í Mosaskarði

Klukkan 19 var afráðið var að Þorri færi með til aðstoðar við að komast til byggða en skrifari yrði í bílnum undir Mosaskarði. Svo vel vildi til að þó bíllinn væri undir háspennulínunni var símasamband mjög gott. Úr honum var því unnt að símast eftir þörfum sem reyndust fara vaxandi eftir því sem á nóttina leið.

Framdrif bilar í byggðarferð

Senn var orðið rökkvað og nóttin gekk í hönd en hátt á lofti var næstum fullt tungl á skafheiðum himni og blæjalogn. Það er þó alltaf örðugra að ferðast við þessar aðstæður þegar ekki sér glöggt hvar krapaflár leynast eða hvar liprast er að smjúga milli steina og því sóttist ferðin nú seinna. Þegar kom niður undir grasgarðinn, þar sem heyböggum hefur verið hlaðið til að hefta sandfok og stuðla að uppgræðslu, var þar ísuð krapafylla og um þær mundir fór framdrif bílsins. Hann hafði sig þó yfir og alla leið til byggða en bæði sóttist ferðin nú enn hægar og einnig varð ljóst að þessi bíll kæmist ekki uppeftir aftur með hjólið.

Ofaní

Pétur Örn og Fríða höfðu verið á Sportinum á Kjalvegi ofan við Gullfoss og voru nú nærri Geysi. Þau náðu strax sambandi við hjálparmann í höfuðstað Sunnlendinga sem kominn var upp að Geysi í þann mund sem þeir Þorri komu þar. Um kl. 23:30 hélt hann ásamt þeim Pétri og Þorra upp frá Haukadal og upp á brúnirnar en þar voru þeir óheppnir þegar undan þeim brast ís á vatnsrás á mýrarsvæði. Þeir voru einir á ferð og bara vatnsdýpið var metri. Þeir gátu stigið út á ísinn en þó þeir stæðu í verulegu brasi var snemma ljóst að hjálparlaust kæmust þeir ekki upp úr. Vegna galla á loftnetstengingu náðu þeir þó ekki símasambandi að segja frá málum sínum fyrr en klukkan 01:30.

Sólbjartur sunnudagur eftir svala nótt

Svalast varð sumum sem dvelja þurftu í bílnum í keldunni næturlangt í 9 stiga frosti en svo kom sólin upp og varpaði yljandi geislum sínum yfir hvíta veröldina og skuggarnir löngu urðu smám saman styttri og geislarnir gáfu meiri hita. Á þessu svæði sér yfir láglendið umhverfis Sandvatnið allt austur fyrir Hvítá. Til Kerlingarfjalla sér yfir Bláfellshálsinn. Jarlhettur varða Langjökulinn og milli þeirra sér í framhlaupsöldur Hagavatnsjökuls sem nú er á hlaupum. Sitt hvorum megin við Mosaskarðið eru Mosaskarðsfjall að sunnan og Fagradalsfjall norðar en undir því er leið upp að Farinu þar sem yfir það má fara nokkuð þægilega þegar ekki eru ísar og vatnið er viðráðanlegt. Undir Mosaskarðsfjalli er Torfukofi sem Sverrir Kr. Bjarnason lýsir þannig:

TORFUK * "Torfukofi" Skógr. rík. * A-Mosask. Kojul. 4 m. O. * 642441 * 201456

Við austur gnæfði Hekla yfir nágrenni sitt og þaðan hellti sólin geislum sínum yfir þessa fríðu veröld.

Klukkan 10:30 kom sá til hjálpar úr Reykjavík sem þangað hafði kvöldið áður ekið framdrifsbrotnum bíl sínum. Þeir voru tveir saman. Þorri fór með þeim og dekkið og voru í Mosaskarði klukkan 12 á hádegi. Skjótt varð Mosaskarðsbíllinn ferðbúinn. Í birtunni voru nú allar leiðir ljósar og sóttust vel eftir kalda nótt. Að Geysi var komið eftir hálfan annan tíma.

Hagavatnsmenn

Þeir félagar í Hagavatnsskálanum fylgdust með framvindu mála. Þeir voru á vaktinni til klukkan eitt en náðu þá ekki sambandi við símstöðina í Mosaskarði og hyggur símstöðvarstjórinn að hann hljóti þá að hafa verið í dotti. Þeir misstu því af atburðum næturinnar og fregnuðu ekki af þeim fyrr en á miðjum morgni þegar úrlausn var tryggð. Þeir óku inn með Jarlhettum og þangað sem framhlaup Hagavatnsjökulsins ryðst fram um hlíðar og kletta og áttu þar stórfenglegan sólbakaðan dag í mildasta veðri.

Eftirmáli

Þetta var stórkostleg ferð. Veðrið var með eindæmum gott og frostið með stillum og útsýnið aldeilis frábært. Ef til vill munum við sem í brasinu stóðum minnast ferðarinnar ekki síst fyrir þá röð af skorti á heppni sem hékk óslitið saman. Þar er til að taka

  • (1) ákvörðun GÓP að aka austur um Mosaskarð í stað þess að snúa til baka þá slóð sem farinn hafið verið,
  • (2) affelgun bílsins sem lagði slóðin. Hann hafði þangað til ekið bílnum 220 þúsund kílómetra án þess að affelga nokkru sinni!
  • (3) Framdrif hans brotnaði - það hafði þó gerst nokkrum sinnum fyrr og almennt er Landcruiserinn viðkvæmur fyrir bakk-átökum því framdrifið er ekki heppilega hannað til að standast slíkt. Unnt er að láta afturdrif að framan og þá er séð við þessum ágalla.
  • (4) Dott símstjórans þegar Hagavatnsmenn hringja klukkan 01.
  • (5) Léleg loftnetstenging í síma bílsins sem festist.

En allt leystist þetta vel og í kaupbæti fengum við sólarupprásina við fagrar og veðurblíðar aðstæður.

Ritari þakkar bæði samferðamönnum í þessari ferð og þeim sem tengdust henni þegar til þeirra var leitað.

Efst á þessa síðuGÓP-fréttir