GÓP-fréttir * *
Sumarferðin 1995:

Á Njálu-slóð

Njáluslóðar-söngur
Einmuna veður

Laugardaginn 22. júlí í logni og glaða sólskini var haldið austur úr Reykjavík og sem leið liggur eftir gamla veginum um Svínahraun. Hann var fyrst lagður 1877-8 og síðan lagaður og endurbættur á sama stað en nú er hann víða orðinn harla grýttur. Við gengum um Kolviðarhólinn í stafalogni með sól á heiðum himni og bjartur var Búasteinninn í Hellisskarðinu.

Skein yfir landi sól á sumarvegi

Stundum hefur verið haft á orði að höfundar margra Íslendingasagna hafi ekki aðeins klætt persónur sínar litklæðum við hversdagsstörf heldur einnig gætt þess að hafa alltaf úrvals veður - rétt eins var þennan bjarta dag:

Frammá skjómans skæru tíð
skarpur hjó menn víða,
sólarljómi lék um hlíð,
- logn og rjómablíða.
og silfurbláan Eyjafjallatind

Jökullinn skartaði sínu fegursta og taðan angaði þegar við áðum við Hlíðarendakirkju:

Tær er veröld til að sjá
tifar urt í blænum.
Hýrum augum horft er frá
Hlíðarendabænum.

Síðan gleymdum við okkur um stund í litríkum viðburðum Njálu.

Réttrar sjónar kelda

Í Rauðaskriðum og á Bergþórshvoli var kominn nokkur andvari en útsýnið ógleymanlegt upp til fjallanna og út til Vestmannaeyja. Þaðan var haldið um Hvolsvöll að Keldum á Rangárvöllum þar sem menn böðuðu augu sín í Maríu-keldunni sem veitir öllum rétta sýn:

Ef að týnist rétta rýn
ráðasón ég melda:
bætir rýn og réttir sýn
réttrar sjónar kelda.
Okkur dvaldist í góða veðrinu á Keldum og sungum við undirspil í kirkjunni. Síðan héldum við vestur yfir Rangárvelli, fórum hjá Gunnarsholti og að Þingskálum. Þar gengum við um búðir. Þá bar svo við að reiðmenn leituðu vaðs og fóru yfir Rangá og við gátum séð fyrir okkur hvernig þeir Gunnar og Njáll höfðu þar verið á mannþingi:
Garpur knár um garða fer
Gunnar sá hinn slyngi -
fortíð þá með okkur er
á Þingskálaþingi.

1995

Svo runnum við vestur sveitir og náðum til Reykjavíkur klukkan 20. Þá vorum við komin aftur til okkar tíma:

Vinda tímans oft er undruð,
áfram veltur grimm:
nú er komið nítján hundruð
níutíog fimm.

Njálu-slóðar söngur

Í stórum hópi á Njáluslóð eru hugir manna margvíslega tendraðir. Sumir njóta íslenskrar sumarferðar á fagrar slóðir og nema sögubrotin eins og ævintýri. Aðrir kannast við söguþráðinn, virða fyrir sér sviðið og rifja upp atburðina með leiðsögumanninum. Enn öðrum stendur sagan svo fyrir hugskotssjónum að atburðir hennar eru sem innan seilingar og þeir geta hvar sem er fyllt betur í hverja mynd.

Í Njáluför erum við sem lifandi nótur á hinu íslenska hljómborði. Þar á leikur hinn mikli máttur sem samofinn er úr ilmi andartaksins, bliki náttúrunnar, gleði samferðarhópsins og hughrifum sögunnar. Þá geta menn bergmálað óm hjarta síns með því að syngja saman eftirfarandi texta við fallegt lag sem sigraði í söngvakeppni Eurovision fyrir liðlega áratug og heitir: Ein bisschen Frieden.

Hér eru karlar og konur í för
kát öll í bragði með spaugið á vör
Nú verður gleði og nú verður fjör!
Nú flýgur stundin ör!


Nú er ég hérna á Njálunnar slóð.
Nýt hverrar stundar því sagan er góð.
Sviðið er komið og kveikir mér glóð,
- kallar fram sögn og ljóð.


Sem ljómi sólin á silfurvogi
oss sindrar Njálunnar skæri logi:
- í Rangárþingi er bjartur bogi
þó belji fljótið við iðusog.


Og hugur flýgur á fornu skeiði
og finnur sögu hjá gömlu leiði.
- Já, út um byggðir og inn við heiði
er bæði ásta- og vígaleið.


Íslands ómur um mig fer
ymur milt í brjósti mér -
kynslóð mín er komin hér:
kynngimögnuð stundin er.
Ómurinn sogaði úð mín' og önd
- andartak hvarf ég á fortíðarströnd:
Formæður leit ég með fumlausa hönd
við funans - og tregans lönd.


Höfundur Njálu! Nú þökkum við þér!
- þjóðkæra skáldið sem horfið er mér -
heilluðum augum nú hver og einn sér!
Heiðraði sögugrér!


Og nú er komandi kveðjustundin:
- hún kallar til okkar, sögu-grundin.
Við kveðjum hali, við kveðjum hrundir
og köllum: Þökk fyrir þessa stund!


Við komum aftur til okkar tíma,
með eigið sjónvarp og bíl og síma
og förum aftur og enn að kíma
og erum syngjandi tölvu-rím.


Bergmálar í brjósti mér -
bærist jafnt í mér og þér,
áður fyrr - og einnig hér:
Íslendingar erum vér!

GÓP-fréttir