GÓP-fréttir * -

Vetrarferð í Þórsmörk 1999 

16. - 17. janúar - Krísuvíkurleiðin í Þórsmerkurlognið
Illviðrisspár og lokað við Geitháls

Þessarar ferðar verður sjálfsagt minnst fyrir margt sem reyndist harla óvenjulegt. Veðurstofan hafði spáð miklum vindi og hvössum allan laugardaginn og fram á nótt og eftir að bifreiðar höfðu átt í verulegum erfiðleikum - og raunar var stór bíll útaf veginum og lokaði honum neðan við Litlu Kaffistofuna - lokaði lögreglan veginum við Geitháls snemma á morgni laugardagsins. Þá var hvorki unnt að fara Hellisheiði né Þrengsli.
Veðurstofan spáði sama veðri allan daginn og fram á nótt. Það fór því svo að ferðinni var aflýst í morgunsárið og menn lögðust á hitt eyrað.

Vaknað aftur og stillilegt í Reykjavík

Skömmu fyrir hádegið vöknuðu ýmsir sem enn áttu ferðanestið sitt tilbúið og sáu að ekki var aðeins orðið bjart af degi heldur einnig litlir vindar. Lögreglan upplýsti samt að enn væri lokað og yrði áfram. Hringingar upplýstu

  • að veðurstofan hélt uppteknum hætti að spá vondu veðri,
  • að gott veður var í Fljótshlíð með logni og engum renningi á Merkurleið,
  • Hafnarfjarðarlögregla taldi ferðafært um sitt umdæmi en vissi ekki um færð til Krísuvíkur,
  • Í Krísuvíkurskóla (555-1873) var veður skaplegra en um morguninn en þar var talið að nokkrir skaflar væru á veginum,
  • og Vogsósabóndinn (483-3609 og 483-3927) taldi að fært mundi verða frá Krísuvík og austur um Selvoginn til Suðurlands.
  • í Hlíðardalsskóla (483-3607) var veðrið einnig nokkru skárra en verið hafði),
  • Selfosslögreglan kvað ferðafært austan Hellisheiðar.

Gamla góða Krísuvíkurleiðin var því sýnilega enn á sínum stað.

Hætt við að hætta við

Þeir sem upphaflega ætluðu að fara höfðu nú margir snúið sér til annarra verkefna eða aðrar ástæður urðu til þess að einungis helmingurinn réðist til farar suður um og til Krísuvíkur um klukkan þrjú síðdegis.

Krísuvíkurleiðin

Leiðin reyndist geyma nokkra skafla á veginum vestan við Kleifarvatnið en þeir voru ekki umtalsverðir og skafrenningur var lítill - utan einstakar rokur. Sviptivindar voru nokkrir þegar kom austur frá Herdísarvík og skaflar við Hlíðarvatn. Þar var skafrenningur meiri og einstaka sinnum stöðvuðust bílarnir andartak uns slotaði. Klukkan 18 voru allir komir á Selfoss.

Blíðuveður inneftir

Við söfnuðumst saman á Hvolsvelli og héldum síðan um hlað á Stóru-Mörk inn á Merkurleið. Nokkur gola var án þess þó að hreyfa snjó og viðstöðulaust var ekið inn að nýju jökullænunni neðan við Jökulsá. Hún var frostbólgin og tafði nokkuð fyrir. Við ókum síðan inn að Jökulsá við lónið þar sem hún rann opin og var ekki dýpri en í kálfa. Eins var um Steinsholtsá. Eftir að við komum inn með Stakkholti var stillilogn svo að unnt hefði verið að ganga á undan bílunum með logandi kerti í næstum frostleysu. Þá var hringt úr Reykjavík að spyrja hvernig gengi og sagt af tilkynningum í útvarpi að með öllu væri ófært og bannað að ferðast undir Eyjafjöllum. Vissulega vorum við undir Eyjafjöllum - en óveðrið var sunnan þeirra á meðan við voru norðan við þau.

Óvanaleg aðkoma að Skagfjörðsskála

Hvanná var lækur ljúfur ofan í sínum grýtta auri. Krossá var nokkru bólgnari en vaðið innyfir var aldeilis frábært. Um miðnættið komum við í Langadal og bárum upp pjönkur okkar. Brátt kom þó í ljós að þar var ekki hægt að dvelja sökum þess að vatn rann um öll gólf. Vatn hafði verið sett á húsið í áramótaferðinni og gleymst að taka það aftur af þegar húsið var yfirgefið. Frost hafði síðan sett öll kranatengi út úr slíðrum sínum og úr þeim streymdi vatnið. Við reyndum að hefta rennslið eins og við gátum en hypjuðum okkur svo yfir á Básana þar sem er frábært að koma.

Í Básum

Mild í logni Mörkin hló
- man ég Bása-teiti:
mér var gefið kakakó
- kælt að nokkru leyti.

Í Básum áttum við ljúfa stund og lögðum okkur svo og sváfum fram á tíunda tímann. Þá risum við upp og snæddum og tygjuðum okkur til göngu. Haldið var inn með læknum og gengið umhverfis Bólhöfuð. Þungfært var um skóginn í djúpum snjó en fjöllin bar við bláan himin og sólgylltar þunnar skýjaveifur. Sólin skein á Mýrdalsjökulinn, Mófellið og Rjúpnafellið og á Tindfjallajökul og fram í Fljótshlíð. Á þessum tíma ársins nær sólin ekki hærra en dugir til að skína á efstu kamba Tindfjallanna á Þórsmörk.
Um klukkan 13 var haldið úr Básum.

Lagfæring til bráðabirgða í Skagfjörðsskála

Við höfðum kvöldið áður og þennan morgun haft samband við Ferðafélag Íslands og fengum að lokum leiðbeiningar til að loka fyrir vatn inn í húsið. Við renndum því aftur yfir Krossá og réðumst í það stórvirki að þurrka vatn þar af gólfum. Það reyndist mikil vinna fyrir allan hópinn. Að lokum var þar orðið svo þokkalegt að ef gólfin ná að þorna lítið eitt - svo þau ísi ekki - þá getur næsti ferðahópur sennilega gist þar.

Fagurt veður og lipur heimferð

Heimferðin gekk mjög vel. Jökulsprænuna gátum við nú farið á ísi því frost var ein 6 stig. Heim til Reykjavíkur voru allir komnir klukkan 21.

Þátttakendalisti:

Sigurjón Pétursson
Ragna Brynjarsdóttir
Katrín V. Karlsdóttir
Karl Georg Karlsson
Pétur Örn
Þorvarður Einarsson
Guðbjörg Halldóra Ólafsdóttir
Emilía Ólöf Þorvarðardóttir
Guðbjörn Haraldsson
Anna K. Óskarsdóttir
Ragna Freyja Gísladóttir
Þórir Hálfdánarson
Lind Gunnlaugsdóttir
Elín Ósk Reynisdóttir
Samúel Guðmundsson
og GÓP sem er skrifarinn og þakkar kærlega fyrir samfylgdina í þessar sérstæðu og skemmtilegu ferð.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir