GÓP-fréttir
* -
Vetrarferð í Þórsmörk 1999 23.-24. janúar - Snjóar og skarir í mildu veðri - heim yfir Markarfljótið |
Mildilegar hríðirVeður voru eftir spám. Hiti var við frostmark og nokkrar hríðarslitrur austur yfir Hellisheiði og á Selfoss. Þar var léttara yfir og himinn með ýmsum litum þegar við ókum austur í daginn. Frá Hvolsvelli að sjá var eins og hvítur mökkur væri vestur fyrir Jökulsá en þegar inn var ekið svifaði öllu frá og við vorum ætíð í björtu og mildu veðri. |
Skartbúin StakkholtsgjáUm klukkan 13 vorum við í Stakkholtsgjá og gengum inn gljúpan og þungan snjóinn. Lækinn þurfti að fara þrisvar hvora leið en yfir gnæfðu bergveggirnir hlaðnir grýlukertum. Þegar kom inn í hvelfinguna þar sem fossbunan steypist ofan hamarinn voru hliðarnar hvítar af hrími og ísun. |
Undanfarar kveiktu uppÁ föstudagskvöldinu höfðu þeir Ási, Gunnar, Halli, Jón, Rúnar og Sigurjón farið í Básana en skruppu í Skagfjörðskála árdegis á laugardeginum að kveikja fyrir okkur upp í húsinu. Það var því farið að loga þegar við komum. Þá kom í heimsókn Þorsteinn Ólafsson úr Básum. Hann fór á skíðum og geislinn hans var nokkurs konar gambanteinn. Hann gerði okkur góða og glaða stund og var við brottför hlaðinn góðum kveðjum og þakklæti til þeirra Básverja fyrir þeirra hjálpsemi og góðan hug í okkar garð. Það gekk hægt að hita húsið og vatnið gekk upp úr gólfinu þegar viðurinn þandi sig við aukið hitastig og ruddi út vatninu sem flæddi um gólfin þegar við vorum þar undanfarandi helgi. Það furðaði þó fleiri en ritarann hversu gólfin tóku að jafna sig. Ætla má að hafa megi þau um ókomna tíð - þótt þau að sjálfsögðu muni aldrei ná fullum bata! |
Gengið til SnorraSíðdegisgangan var norður í kvöldið. Við áðum í Skugga og príluðum niður að Snorraríki um stigaverk sem nýlega hefur verið sett þar saman. Það er voldugt og með handriði svo hver hefur nokkuð í að halda. Snorraríki sjálft var hins vegar á sínum stað og enn hefur engri lyftu verið komið þar fyrir. |
VesturdalurÞað er ekki auðvelt að ganga vestur fyrir Vesturdal. Það fengum við að reyna þegar við höfðum látið hugann reika til Snorra og rómantískra sagna við Snorraríki. Við ákváðum að leggja lykkju á heimleiðina og reyna að fara vestur fyrir Vesturdal og koma ofan af hlíðum Valahnúksins niður í Skagfjörðsskála. Í ljós kom að Vesturdalurinn gengur alveg upp í Valahnúkinn sjálfan svo það hefði orðið örðugt í þessu færi að halda þá áætlun út. Við snerum því niður í dalinn og gengum fram eftir honum á Langadals-götuna. Göngufærið var þungt en yfirleitt sökk gangandi maður ekki upp fyrir hné því neðri snjóalögin voru þéttari fyrir. |
Kveikjum ...Klukkan 20 gerðum við eld og horfðum í logana sem hrifu hugann til annarra veralda en tunglið vakti yfir okkur á fyrsta fjórðungi. Síðan settumst við inn í sal og áttum þar góða stund. |
Yfir MarkarfljótiðÞegar gengið hafði verið frá húsinu lögðum við upp um klukkan 11:30. Mörkin kvaddi okkur björt og tær og Skagfjörðsskála bar við sólbjartan Tindfjallajökulinn í norðri. Við ókum viðstöðulaust niður fyrir Merkureggjar og út að Markarfljóti. Það lá í tveimur álum með nokkrum ísum að. Skamma stund tók að brjóta úr skörum og yfirferðin var örugg. Gilsáin flæmdist nokkuð um en var ekin á heldu. Vegarsneiðingarnir utan í Þórólfsfellinu voru ágætir nema eitt gilið var lokað af miklum skafli. Fyrir það var ekið eftir aurnum og hefði mátt fara alveg niður að varnargarðinum. Þórólfsá var ekki mikil en nokkrir ísar að henni. Þar tók sveitarvegurinn við. |
Heima klukkan 17Nú voru allar götur greiðar og við runnum til Kópavogs. |
Þátttakendalisti:
|