Mynd frá Wikipedia

Robert J. FisCher
Robert James (Bobby) Fischer
f. 9. mars 1943 Chicago - d. 17. janúar 2008 Reykjavík

11. heimsmeistarinn í skák

Fischer 13 ára gegn Donald Byrne 1956 - skák aldarinnar

Toppar á ferlinum:
1957-1966 Fischer 14-23 ára - Bandaríkjameistari átta sinnum
1971 Kandidatamótið í Buenos Aires - lokaeinvígi við Tigran Petrosjan (+5-1=3)
1972 Heimsmeistaraeinvígi í Reykjavík við Boris Spassky (+7-3{1F}=11)
1972-1975 Heimsmeistari í skák
1975 Heimsmeistaraeinvígi við Karpov. Fischer mætti ekki. Karpov dæmdur sigur.
1992 Afmæliseinvígi við Spassky

940 skákir - vinningshlutfall 73% << skoðaðu safnið!!
Ítarleg æviatriði á ensku eftir Bill Wall

Forsíða

 


Mynd: Sigurður Sigurðarson, dýralæknir.

Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrum forseti Skáksambands Íslands,
Minningarathöfn í Laugardælakirkju 16. febrúar 2008:

Í minningu meistarans
Bobby Fischer

 

Að feta sitt einstig á alfarabraut
að eilífu er listanna göfuga þraut.
Að aka seglum í eigin sjó
Einn meðal þúsunda fylgdar.

Einar Ben.

  Hvernig skal lifa lífinu? Hver eru þau gildi í lífinu sem hafa sjálfgildi og eru eilíf, hafin yfir skyndilæti hversdagsins og geta veitt varanlega hamingju?
Til eru þeir menn sem finna hið sanna markmið í lífinu, eina stjörnu til þess að stýra eftir án þess nokkru sinni að efast, eitt gildi til þess að lifa fyrir. Margir telja listina meðal vafalausustu gilda mannlífsins og unnendur skáklistarinnar telja hana hiklaust til listanna.
Með hvíldarlausri viðleitni berjast þessir menn upp brattann til þess að ná fullkomnun. Samlíking Jesú Krists um manninn sem fórnaði öllu fyrir eina perlu sýnir afstöðuna til hinna eftirsóknarverðu gilda.
Slíkir menn berjast gegn straumnum, með augun á þeirri ljóslind sem viðfangsefni þeirra er, og skera sig skýrt frá þeim sem berast fyrir ytri áhrifum eins og strá sem sveiflast hingað og þangað eftir vindáttinni. Slíkt lífshlaup sjáum við oft hjá listamönnum sem lengst ná í list sinni. Það er eins og þeir séu reknir áfram af hálfmeðvituðum eða ómeðvituðum kröftum stundum í yfirþyrmandi einhyggju með demoniskum eldmóði. Þeir eru aldrei algjörlega heima hjá sér á jörðinni, verða stundum heimilislausir í tilverunni., eiga sér ekkert heimaland. Að lifa ríku hugsanalífi heimtar einveru og óbrotið líf að ytri viðburðum.

Mynd: Sigurður Sigurðarson, dýralæknir.
  Bobby Fischer lagði sjálfan sig undir í tafli lífsins. Hann helgaði sig þeirri list sem er takmörkuð við sextíu og fjögurra reita borð en er takmarkalaus í margbreytileika sínum, þeirri list sem bundin er ströngum leikreglum en hefur til skýja aðeins þá sem með afli hugarflugsins og snillinnar ná að höndla kjarnann.
Hann lifði í lífi sínu miklar andstæður, vald örlaganna hreif hann með í sinn óbilgjarna leik. Ölögin gáfu og örlögin tóku. Æviskeið hans var sem leikvöllur andstæðnanna. Hann var hylltur og útlægur ger, fátækur og ríkur, frægur og fyrirlitinn, sigurvegari við skákborðið en laut í lægra haldi í leitinna að hamingju lífsins, naut frelsis og var sviptur því og fangelsaður, eignaðist fjölda aðdáenda en fáa vini. Hann var fullkomlega skeytingarlaus um það öryggi og athygli sem flestir sækjast eftir en lifði alla tíð í samræmi við þær meginreglur sem hann mótaði sjálfur án tillits til skoðana fjöldans. Á því sviði sem hann kaus sér sem leikvöll var hann öllum fremri, þar hugsaði hann eins og hálfguð en lét lönd og leið margt það sem aðrir meta mest. Er það ekki í samræmi við nútíma fræðigreinar sem gera þjóna sína blinda á það sem þeim kemur ekki við.
  Því meir sem hann forðaðist fjöldann og fjölmiðla varð hann frægari. Hvert skref hans og orð vakti heimsathygli.
Það var með ólíkindum hvílíka athygli og aðdáun þessi einmana maður vakti í einangrun sinni með afrekum sínum á 64 reita borði.
Skoðanir Fischer á Bandaríkjunum og Gyðingum voru öfgafullar og litaðar af beiskju Þessar skoðanir báru vitni innri sárum og vonbrigðum. Þær urðu sálarmein Þar var hann hvorki tilbúinn að fyrirgefa né slá undan. Þessar þráhyggjuhugmyndir sköðuðu Fischer mest sjálfan. Fischer gaf engan afslátt, hvorki við skákborðið né í lífinu sjálfu. Okkur meðalmennina sundlar við að heyra svo hástemmdar lýsingar og öfgakenndar skoðanir. Hann sóttist ekki eftir að halda sig í námunda við meðalveginn. Þótti mörgum Fischer þá sem auðhitt skotmál. Sá heimur sem færði okkur Bosníu og Darfur, sá heimur sem færði okkur Hirósíma og Nakasaki taldi sig þess umkominn að sækja þennan einmana snilling til saka fyrir það eitt að færa trémenn af hvítum reitum á svarta vegna brots á reglugerð sem löngu er fallin úr gildi vegna meints brots í landi sem ekki er lengur til. Þjóð hans sem hann hafði fært heimsmeistaratitilinn í skák einn og óstuddur, hrakti hann út í eyðimörkina.
  Til vina sinna gerði hann miklar kröfur og sætti sig ekki við að þeir fylgdu ekki þeim reglum sem hann mótaði um líf sitt. Jafnt í lífi sínu sem við skákborðið fylgdi hann sínum ströngu og ósveigjanlegu kröfum.
Að sumu leyti minnir líf Fischers á líf skylmingaþrælanna í Colosseum forðum. Hver bardagi, hver skák hans var upp á líf og dauða. Það er engu líkara en bestu árum hans hafi verið fórnað á altari skákgyðjunnar. Hann var ekki einn þeirra sem blóta marga og misjafna guði. Skákinni allt. Og sú fórn var ekki til einskis. Hann reis hærra en aðrir náði lengra upp brattann og afrek hans við skákborðið verða öðrum viðmið sjálfsagt um aldir og verða ef til vill aldrei endurtekin.
  Raunar taldi Fischer sig alltaf í útlegðinni heimsmeistara, hann hafði aldrei tapað titlinum. Þetta minnir á Hamlet:

I could be bound in a nutshell
And count myself a king of infinite space
Were it not that I had bad dreams.

  Á síðari árum hvarf Fischer frá dýrkun skákgyðjunnar. Þau sinnaskipti urðu honum ekki til gæfu. Hann fleygði frá sér perlunni sem hafði verið hans dýrasti fjársjóður og dró sig enn fastar inn í skelina. Hann missti sjónar af þeirri huldu ljóslind sem hafði lýst honum veginn og gefið honum tilgang í lífinu. Segir ekki í helgri bók : “Þar sem fjársjóður þinn er þar er hjarta þitt.” Gildi lífsins máðust og tómleikinn varð fylgifiskur. Daður hans við slembiskákina var eins konar yfirskin, hún varð honum aðeins hjákona sem aldrei gat tekið við hlutverki gyðjunnar.
  Aðeins framtíðin mun skera úr hvort draumur hans um slembiskákina sem framtíðarkeppnisgrein og fjölforrita talandi skákklukkuna sem hann hafði hannað og látið smíða, verða að veruleika.
Skákheimurinn glataði miklu þegar Fischer kaus á hátindi skákhæfileika sinna að einangra sig og tefla ekki meir.
S
kákin missti af þeirri framþróun sem þessi einstæði snillingur hefði getað með djúpum skilningi og yfirburða þekkingu, vakið og eflt.
  Undrandi horfum við yfir lífsferil þessa manns. Varla verður til jafnað nema í ævintýrum. Hann var þjóðhetja Bandaríkjanna, sigraði í frægasta skákeinvígi sem fram hefur farið, skákeinvígi allra tíma, en var síðar hundeltur af stjórnvöldum þjóðar sinnar. Á hátindi frægðar sinnar og afreka dró hann sig út úr lífinu og hvarf heiminum. Einmana var hann rekinn út á lífsins eyðihjarn og sviptur nærveru þeirra ættinga og vina sem næst stóðu honum og heimalandi. Einsamall reikaði hann um löndin með hugarvíl sitt og var síðar fangelsaður í níu mánuði fyrir að margir telja engar sakir.
Síðustu árin var hin japanska Myoko eini fasti punkturinn í tilveru hans. Og nokkra vini eignaðist hann á Íslandi.
Þegar heilsu hans hrakaði tókst hann á við sjúkdóminn eins og glímuna við skákborðið. Gegn sjúkdómnum ætlaði Fischer að sigra einn og óstuddur, líkaminn átti sjálfur að yfirvinna meinið. En þessari skák hlaut Fischer að tapa. Það vinnur enginn sitt dauðastríð.
Íslendingum tókst að koma í veg fyrir að hann dæi í bandarísku fangelsi. Fyrir það ætti bandaríska þjóðin að þakka. Þegar fram líða stundir mun sagan dæma Bandaríkin hart fyrir meðferð þeirra á Robert Fischer.
  Þar sem hann vann sinn stærsta sigur, þar sem stjarna hans reis hæst og skein skærast , þar sem hann varð heimsmeistari í skák, er hann nú lagður til hinstu hvílu.
Hér er aðeins lítill trékross, enginn minnisvarði, lítið sem minnir á meistarann sem hér hvílir og undarlega, ótrúlega ævi hans. Allt eins og í yfirskilvitlegu samræmi við þá lífsstefnu hans að fara aldrei alfaraleið og forðast fjöldann. Hér liggur hann í kyrrlátri sveit þar sem friður fámennis og jafnvægi náttúrunnar standa vörð um leiði hans. Þeir sem lengst sjá og dýpst skynja heyra að vindurinn sem gnauðar við kirkjuþakið þylur orð guðs yfir moldum hins látna..
Myndir Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis, frá athöfninni í Laugardælakirkju









*   *   *
 
Mynd frá National Post

Sjá þar á ensku grein eftir Kristínu Örnu Bragadóttur
Til
upp-
rifjunar

Tilkynning frá Utanríkisráðuneytinu 20.12.2004

Landvistarleyfi Robert Fischer

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi var í dag boðaður á fund í utanríkisráðuneytinu vegna máls Roberts James Fischer, fyrrum heimsmeistara í skák.

Sendiherranum var tjáð að boð íslenskra stjórnvalda til Fischers stæði. Fischer hefði unnið heimsmeistaratitil sinn í frækilegu einvígi á Íslandi 1972. Frá þeim tíma hefði hann, sem skákmeistari, notið mikils álits á Íslandi. Sjálfsagt væri honum um það kunnugt og þess vegna í vandræðum sínum kosið að leita til Íslendinga. Með því að vísa ekki þessari beiðni á bug væri Ísland eingöngu að bregðast við með vísun til sögulegra tengsla við skákmanninn. Forsenda ákvörðunar stjórnvalda hefði verið sú að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki krafist framsals Fischers frá Japan. Einnig var útskýrt að brot gegn viðskiptabanni á fyrrverandi Júgóslavíu væru fyrnd samkvæmt íslenskum lögum og uppfylli að því leyti ekki skilyrði til framsals.

  Frá Alþingi 24.01.2005

Robert Fischer sendir Alþingi erindi um íslenskan ríkisborgararétt

Forseta Alþingis, Halldóri Blöndal, var í morgun afhent erindi frá Robert Fischer, fyrrverandi heimsmeistara í skák, þar sem hann óskar eftir því að Alþingi veiti honum íslenskan ríkisborgararétt. Það voru Garðar Sverrisson og Sæmundur Pálsson sem afhentu forseta Alþingis erindið fyrir hönd Roberts Fischers.

Erindi Roberts Fischers var rætt á fundi forsætisnefndar Alþingis í morgun og var ákveðið að senda það til allsherjarnefndar Alþingis til meðferðar.

Efst á þessa síðu * Forsíða