Forsíða


Leifur Sigurðsson

bóndi á Kvígsstöðum í Borgarfirði

fæddur 19. maí 1939
dáinn 6. janúar 1994
jarðsettur frá Hvanneyri 15. janúar 1994

Kveðja

6.1.94

Leifur Sigurðsson, búfræðingur og bóndi á Kvígsstöðum í Borgarfirði og starfsmaður Hvanneyrarbúsins, lést að kvöldi fimmtudagsins 6. janúar sl. Hann var nýlega stiginn upp úr flensunni. Þennan dag var hann venju fremur slæmur í öxl og vinstri hendi. Hann hætti í vinnu um hádegið og um kvöldið var hann látinn.

Leifur Sigurðsson var svili minn og jafnaldri og kynntist Særúnu í árdaga þegar við vorum báðir enn meiri strákar og unnum öll saman á stóru búi tengdaföður okkar. Það var á sólgullnu sumri, vatnið stórt og bjart og það rauk úr því þar sem grunnt var á hverina. Yfir víðáttumikil tún og kjarri vaxna hlíðina gnæfði fjallið sem gjarnan dró til sín gróðurskúrina. Við fórum tveir um túnið og þegar lyftitækið hjá mér lyfti svo þungu að það komst ekki úr stað með byrðina - þá horfðumst við á - og svo ók Leifur undir með vagninn. Já, við tókum óafsakanlegar áhættur. Síðan höfum við tekið okkur á. Það kemur svo í ljós að maður er aldrei öruggur.

Leifur var sonur Sigurðar Sigurðssonar f. 18.12.1906 - d.1977, sem var bóndi á Efri-Þverá í Fljótshlíð og síðar um langt árabil starfsmaður í bögglaafgreiðslu BSÍ, og konu hans, Ingibjargar Jónsdóttur f. 1.12.1908 - d. 1985. Eftirlifandi eldri systir Leifs er Guðbjörg Jóna f. 14.1.1933 starfsmaður Blindravinafélagsins, gift Jóni Þóri Einarssyni f. 30.1.1927. Eiginkona Leifs er Særún Æsa Karlsdóttir f. 20.5.1945 og verður ekki með sanni þrætt fyrir þá fullyrðingu Leifs á góðri stundu að þar hafi hann krækt sér í bestu systurina.

Börn þeirra Leifs og Særúnar eru:

  • Svala f. 10.12.1962, verslunarmaður. Eiginmaður hennar er Jóhann Magnús Elíasson f. 30.5.1959, rekstrarhagfræðingur. Synir þeirra eru Elías Halldór f. 21.7.1984 og Jón Rúnar f. 31.8.1991.
  • Sigurður Ingi f. 19.3.1964, blikksmiður. Hann var giftur Ragnheiði Guðrúnu Sigþórsdóttur f. 18.2.1969. Þeirra sonur er Leifur f. 11.2.1988.
  • Sigurþór f. 15.3.1966, bifvélavirkjameistari. Sambýliskona hans er Bryndís Ragnarsdóttir f. 25.2.1967, bankaritari.
  • Karl Dúi f. 15.1.1970, bifreiðasmiður. Sambýliskona hans er Kristrún Júlíusdóttir f. 21.4.1968. Þeirra sonur er Bjarki f. 26.3.1993.

Manni verður tregt tungu að hræra þegar svo nærri er höggvið í traustustu hornstólpa fjölskyldunnar. Í þrjátíu og fimm ár höfum við horft til með barnahópnum okkar á sama aldrinum og vitað stundum meira og stundum minna hver af öðrum. Fæðingar, fermingar og fertugsafmæli voru föstu punktarnir en svo fórum við að finnast oftar. Hugurinn rennur til þeirra atburða. Það eru komin tuttugu ár síðan við viðhengin sungum á sviðinu á niðjamóti Sæmundar kennara Dúasonar og Guðrúnar Þorláksdóttur þennan ólýsanlega texta sem ekki fyllti út í lagið. Þegar það Krakavallamót var endurkallað fyrir þremur árum léðum við raunar ekki söngraddir okkar á sviðið en stundin var yndisleg. Þegar bindingin yfir Kvígsstaðabúinu minnkaði varð meiri tíma til sameiginlegra funda og ferðalaga. Hver slík stund er okkur öllum gull í sjóði - og frábæra samveru áttum við í Nátthaga síðasta sumar!

Hinar góðu, gengnu stundir eru þrepin í stiga endurminninganna. Um þann stiga hleypur hugur minn og stöðvast við heimsóknir á Kvígsstöðum, stundum óvæntar en alltaf við hlýjar móttökur. Margs er að minnast og tíminn hefur flogið fram. Börnin okkar, sem í fyrstu voru svo ung og smá tóku upp á því að vaxa og eldast með fljúgandi hraða og eru nú orðin tíu árum eldri en við vorum í árdaga þegar við fyrst gengum saman til verka á túni.
--

Óvænt hefurðu horfið á brautu, - svo óvænt að okkur er brugðið. Við þurfum að kyrra hjartslátt okkar og ná áttum á ný. Við mildum áfallið með því að hugsa okkur að þú hafir farið að kanna þá ókunnu stigu sem við munum síðar eftir fylgja og þar munirðu taka á móti okkur. Þar skín sól í heiði og þú hallar þér hátt í gróinni brekku. Hestar þínir taka niður í hlíðinni og á bak við gnæfir fjall við himin. Allir verkir eru horfnir úr kroppnum og þú ert að íhuga hvar best sé að reisa bæinn þar sem í fyllingu tímans verður kallað saman til nýrra vinafunda og fjölskyldufagnaða og þar sem við verðum öll á besta aldri. Eitt verð ég þó að segja við þig að lokum - svona á meðan við erum einir: auðvitað varstu okkar elstur en það munaði nú bara árinu og þetta var þó alveg óþarfur asi.

--
Systkini Særúnar og fjölskyldur þeirra svo og við öll sem komum saman á niðjamótum og öðrum góðum stundum sendum Særúnu, börnunum og barnabörnunum og þeim Jónu, systur Leifs, og Jóni manni hennar, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ljúfa kveðju legg ég hjá
Leifi Sigurðssyni
hugarljómun fær hann frá
fyrrum svila og vini.

Gísli Ólafur Pétursson                 

Efst á þessa síðu * Forsíða