Forsíða


Ómar Árnason cand. act.

fæddur 9. apríl 1936
dáinn 11. júní 2011
jarðsettur frá Hafnarfjarðarkirkju 22. júní 2011

Kveðja

22.6.2011

Látinn er Ómar Árnason, tryggingastærðfræðingur, kennari, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri HÍK og síðar starfsmaður KÍ. Ég starfaði með honum liðlega áratug í HÍK. Það vakti strax athygli mína hve lipurlega hann leysti úr einföldum og snúnum erindum ýmist elskulegra eða ofuræstra hringjenda hvort sem um var að ræða þann fimmtánda eða nítugasta þess dags.

Með Ómari kynntist ég því fyrirbæri sem menn hafa kallað límheila. Minni hans var nákvæmt - þótt ég muni aldrei að hann hafi fullyrt neitt í þá átt. Nei, - hann sagði ævinlega heimildir á tilteknum gulnuðum blöðum. Og - hann vissi ævinlega hvar þau gulnuðu blöð var að finna. Og - það koma ævinlega í ljós að allt sem þau geymdu hafði Ómar einmitt sagt.

Mörgum finnst þeir hafa svarið - en koma því ekki fyrir sig. Svo var ekki með Ómar Árnason. Hans minnisúrvinnsla var hnökralaus. Hann fann allt strax á sínum minnisdiski - og allt í því samhengi.

Ómar var maður hinnar glöggu yfirsýnar - sem ekki tók aðeins til aðalatriða heldur einnig til hinna fjölmörgu smærri atriða. Þegar á samningafundi voru ræddar hugmyndir um breytingar á launa- eða starfskjörum varð þrasstaðan aldrei svo kröpp að hann gæti ekki dregið fram hinar ýmsu afleiðingar og árekstra sem af þeim myndu leiða. Og - þegar aðrir viðstaddir sáu ekki samhengið brást það ekki að það kom öllum í koll síðar.

Ómar var sóknþungur samningamaður. Hann átti ætíð fleira ónefnt þegar eitt hafði fengist fram og var aldrei hættur að þrýsta á til hagsbóta einstökum félagsmönnum sem brotið hafði verið á eða heildarinnar í kjarasamningum. Hann kunni að doka við, bíða færis og jafnvel að setja tiltekið mál í lengri bið - en ekki að gefast upp. Málið var komið upp á samningaborðið um leið og nýtt tækifæri gafst.

Væri Ómar upptekinn var einboðið að fresta samningafundi.

Starf fyrir stéttarfélag er enginn rósadans. Félagsmönnum þykir sjálfsagt að fram náist ítrustu kröfur - og alltaf eru samningar hörmulegir þegar þeir eru kynntir. Þá segir það sitt um stöðu Ómars í hugum félagsmanna HÍK að meðan hann gaf kost á sér í stjórn félagsins var hann ávallt endurkjörinn með einna flestum atkvæðum.

Fyrir aldarfjórðungi spurði ég hvort hann ætti annað áhugamál en kennslu og baráttu fyrir bættum kjörum kennara. Hann hugsaði sig um eitt andartak - en svaraði svo neitandi.

Það var eitt af því frábæra sem ég hef upplifað að kynnast og starfa með Ómari Árnasyni.

Kæra Hrafnhildur, börn, niðjar og vinir Ómars, innilegar samúðarkveðjur.

Gísli Ólafur Pétursson                 

Efst á þessa síðu * Forsíða