GÓP-fréttir
 

Páll Sigurðsson,
búfræðingur og bóndi í Árkvörn í Fljótshlíð
f. 7. maí 1885 - d. 9. mars 1979

Athugaðu !! >> músaðu >> hér <<
til að finna myndirnar í meiri upplausn.
Þar geturðu sótt þær og prentað.

Myndirnar
tók
Ragna
Freyja
Karlsdóttir

Efst er
mynd
sennilega
frá
1964

 

Hinar
úr
Þórsmerkur-
skreppu
í
ágúst
1965


1964 (?) Páll Sigurðsson -
taldi að myndin yrði eðlilegri ef hann væri á hreyfingu.
Fjær eru Hreiðar Jónsson og GÓP. Mynd: RFr.


Halla og Páll í Básum í ágúst 1965. Mynd: RFr.


Ágúst 1965 - GÓP og Halla. - Mynd: RFr.
Horft niður í Húsadal við brekkutoppinn að Snorraríki.


Ágúst 1965 - Páll og Halla í Básum. - Mynd: RFr.


Þórsmerkurskreppa 1965. Mynd: RFr.
Helgi Sigurðsson og hans kona, Halla og Páll og GÓP.

Kveðja
frá
GÓP
og
RFr
í
mars
1979
Nokkuð er nú liðið síðan meðalmannsaldur hér á landi var talinn liðlega þrjátíu ár. Þrjá slíka mannsaldra hafði vinur minn, Páll Sigurðsson frá Árkvörn, lifað þegar hann lést á Hrafnistu í Reykjavík að morgni hins 9. mars sl.. Næstum heill slíkur mannsaldur er liðinn síðan hann flutti mig ungan og mjóan til sumarvistar í Árkvörn undir hlýjan handarjaðar sinn og inn í umhyggju konu sinnar, hennar Höllu heitinnar Jónsdóttur, sem var hans stoð og stytta.

Ef til vill er þetta nokkuð stórskorinn mælikvarði á aldur en hann hæfir vel þegar litið er til þeirra reginbreytinga sem orðið hafa á þjóðfélagi okkar til þessa dags frá því Páll fyrst leit dagsins ljós hinn 7. maí árið 1885.

Þeim mun meir furðar okkur sú andlega skerpa sem Páll átti yfir að ráða fram til síðustu daga. Hann fylgdist glöggt með viðburðarás hinnar líðandi stundar þrátt fyrir dapra heyrn. Hann hafði frumkvæði í viðræðum um slík efni sem önnur. Þá velti hann oft upp nýjum flötum eða dró til lærdóma liðin atriði sem gátu að meira eða minna leyti talist hliðstæð.

Páll var hinn mesti fræðaþulur um hin ólíkustu efni - allt frá skólavísdómi til þekkingar á ættum og bújörðum víða um land. Hann var mjög vel heima í íslenskum og norrænum bókmenntum að fornu ognýju og hafði þar flestum meiriyfirsýn. Fjölbreytt reunsla hans af margvíslegum samskiptum við fólk og víðfeðm þekking hans gáfu honum þá heildarsýn yfir mannlegt atferli sem nær að skilja það og rekja það til orsaka og afleiðinga.

Fljótur var Páll að átta sig og mynda sér skoðun um menn og málefni. Álit hans var ljóst og skýrt og hann setti það fram undanbragðalaust og án allrar tæpitungu. Hann var sá vinur sem gjarnan sagði okkur hvar við mættum bæta okkur. Oft brá okkur í brún og þótti tónn hans hrjúfur. En við vorum honum síðar þakklát þegar við nýttum ráð hans, þessar ábendingar sem við fáum svo alltof sjaldan frá þeim vinum sem við tökum mark á. Sumir leituðu til hans með hin viðkvæmustu og afdrifaríkustu vandamál. Hann fór frá okkur aldraður og þreyttur en jafnframt hvarf hann úr fjölmörgum mannlegum hlutverkum. Hann var elsti bróðir sem lengi hafði litið til með yngri systkinum. Hann var elstur ættingjanna og sveitunganna og um hann gengu margar sagnir. Hann hafði víða bundið kuningja- og vináttubönd og mörgum var hann náinn ráðgjafi.

Páll varð aldraður maður og ern. Hann átti margar minningar frá langri æfi. Sterkir einstaklingar settu svip sinn á æskuheimili hans í Árkvörn. Þaðan átti hann björt leiftur og einnig endurminningar um áföll og hrjúfleik í samskiptum mildrar ömmu og stjórnsamrar móður sem áttu hann báðar á ólíkan hátt. Og þreytuleg var minning hans um mörg fyrri ár síns búskaparstrits þar sem margir voru munnar. Þá voru kaldar eftirleitir á Þórsmörk þar sem legið var í hellum og lekum bólum og úti vatnsveður eða vetrargarri. Inn yfir vötnin fylgdi hann oft ferðamönnum svo og vinum sem heimsóttu þau hjónin. Þá var kaldsamt í haustveðrum að reka fé og sækja vörur í kaupstað um langan veg. Þá voru hús og strangur vinnudagur sniðin að þröngum stakki krappra lífskjara. Frá þessum tíma rifjuðust endurminningar þegar við skoðuðum byggðasafnið í Árbæ síðast. Þar hafði Páll gist og fengið inni fyrir hestana í þann tíma.

Hlýjar og kærar voru minningar hans frá námstímanum á Hvanneyri, frá farandkennslustörfum á Rangárvöllum og frá skólanefndar- og prófdómarastörfum í Fljótshlíð í fjöldamörg ár. Og oft yljaði það honum að minnast góðra gesta, vinafagnaða og lyftandi samræðu.

Páll var á áttræðisaldri þegar þau hjónin fluttu til Reykjavíkur. Þar breyttist verksvið hans og af honum léttust sífelldar skyldur bóndans. Þar lifði hann áratug sem hann oft taldi sinn besta. Þá fór hann víða í innheimtustarfi sem honum lét mjög vel og aflaði honum umgengni við marga og vináttu víða.

Það var uns Halla féll frá. Hún sem var svo sterk og létt í lund þrátt fyrir mótbyrinn. Til síðasta dags var hún að létta undir með fólki, styrkja kjark þess og bjóða gestum til veislu. Fráfall hennar kom öllum á óvart og var Páli mikið áfall. Hennar heilsa hafði virst svo góð en hann stóð hrumur eftir. Þá var honum brugðið.

Páll, þú nefndir mér um daginn að þú hygðist fara að deyja. Ég taldi þaðóþarfa svona rétt fyrir sumarið. Allt væri í lagi með að bæta einu sumri við - og um hvíldina yrði hvort sem er enginn svikinn. Þá hresstistu við og sagðir með léttari tóni: "Já, kannski við eigum eftir að fara aftur saman austur í Hlíð".

En nú hefurðu kastað ellibelgnum sem fjötraði þig svolengi og ef við eigum eftir að fara saman í Hlíðar tilverunnar þá verður þú á ný leiðsögumaðurinn og sýnir mér brautina.
- -

Sú hugsun mildar að farnir vinir heimti hver annan handan hins horfna. Það er eins og að eiga aftur vísan næturstað í Árkvörn þar sem bíða holl ráð og hlýja Höllu og spjall við Pál um fortíð og framtíð.

Mars 1979 Gísli Ólafur Pétursson

GÓP-fréttir forsíða *