GÓP-fréttir
forsíða

 



Sæmundur E. Andersen

..., bakari, búfræðingur, frjótæknir, kennari, ökukennari, rútubílstjóri, bókhaldari, blaðaútgefandi, prentsmiðjurekandi, skáld, ...
á Dalvík.

Sæmundur fæddist þann 8. desember 1936 á Siglufirði. Hann var sonur hjónanna Mögnu, dóttur Sæmundar Dúasonar kennara í Fljótum, í Grímsey og á Siglufirði, og Emils Andersen, bakara. Hann var sonur Georgs Andersen, rennismiðs á Siglufirði. Georg var danskur og kom á yngri árum til Íslands til að setja hér vélar niður í báta en ílentist hér. Yngri systir Sæmundar var Margrét, fimm árum yngri, f. 9. júlí 1941, d. 25. maí 2000.

Árið 1952 flutti fjölskyldan til Akureyrar. Sæmundur fylgdi í fótspor föður síns og lærði bakaraiðn og starfaði við það nokkra hríð og greip í það líka síðar á ævinni og var einhverju sinni prófdómari í greininni. Hann stundaði nám við Kennaraskólann en dreif sig þaðan á landbúnaðarháskóla í Noregi.


Þórdís Linda árið 2004
F. 18. ág. 1937 - d. 24. feb. 2007

Þar kyntust þau Lillian, sem síðar tók upp íslenska nafnið Þórdís Linda, og þau gengu í hjónaband árið 1956. Þegar hann flutti til Dalvíkur fór hann þangað til kennslu og starfaði við það um árabil. Hann var líka ökukennari og ók um sinn áætlunarbílnum milli Akureyrar og Siglufjarðar. Síðar dró hann sig út úr kennslunni en fór þá að vinna við bókhald bæði fyrir útgerðarfyrirtæki og einnig fyrir einkaaðila.

Sæmundur kom að mörgu verkefni um dagana en auk þess sem hér hefur verið lítillega nefnt er þess að geta að hann reisti sér hús tvisvar - með öllu sem slíku fylgir.  

Börn Sæmundar og Þórdísar eru Emil Magni, Sæmundur Hrafn, Birgitta Hrönn og Dúi Kristján og barnabörnin eru tólf. 

Sæmundur lést 9. nóvember 2002 og var jarðsettur í Upsakirkjugarði frá Dalvíkurkirkju 16. nóvember 2002

Á fögrum degi Laugardagurinn 16. nóvember var í hópi fegurstu daga. Lagt af stað úr Reykjavík í morgunmyrkrinu en strax á Kjalarnesinu greindist Akrafjallið bera við bláhúmið og í Borgarfirðinum var sólin farin að senda sínar rauðu forsveitir til að roða grámaða kolla fjallanna. Frost var nokkurt - og niður í 14 stig á Öxnadalsheiðinni og þar var eina ísafærið. Dalvík var sólu sveipuð.
Sér Sæmundur E. Andersen hafði marga sérstæða hugmynd um dagana og einnig um útför sína. Í trúmálum hafði hann komið víða við til áheyrslu og íhugunar og - eins og séra Magnús G. Gunnarsson komst að orði - hafði hvergi fundið þann boðskap sem féll til fulls að hugmyndum hans. Hann hafði sagt nákvæmlega fyrir um útförina og óskir hans voru virtar. 
Útfarar-
skráin
Í útfararskránni var þetta ljóð 
eftir Sæmund E. Andersen: 
* Lífshlaup

Draumheimur barns
brosmild tilvera
ósködduð sál.

Andvarp úr fylgsnum hugans:
Ó, þú dýrðlega mynd minninganna.

Ánægja fallvölt geysist
í glerkenndu líki.
Brothætt gleði lífsins birtist.

Umvafin sælu
sást veröldin
gegnum hálsmjóa hringiðu.

 

* Heimurinn er þinn

Mikið vill meira,
mörgum sinnum meira.
Hvað um það?

Þótt gangstéttin detti
á andlit þitt,
nætursortinn
hrynji
í höfuð þitt -
þá þú um það. 

Þó umhverfið breytist,
verði þungbær auðn,
sjóndeildarhringur sjálfsins
endi í dásemd
hins litauðga dropa -
þú svarar:
Ég um það. 

Einföld sannindi
auðsæ
verða stjarnfræðilega
fjarlæg -

Það er það

* Gröfin er þín
 

*

 

Glaseygur sérðu
ef til vill,
seint og um síðir
smugu -
Við vonum það. 

Þú hrópar í neyð
ef til vill
vonleysis rómi
neyðarkall - 
Við heyrum það

Heimur fegurðar -
ef til vill.
Bíður sköpunar
manndómsins -
Ef þú vilt það.

 

* Lífið er þitt
Í kyrrþey
eða þannig
sko
Sæmundur hafði óskað eftir að verða jarðsettur í kyrrþey - og auðvitað er kyrrþeyr afstæður - en Dalvíkurkirkja var full af fólki og það var löng bílaröð sem fylgdi honum hinsta spölinn upp í Upsakirkjugarð þar sem hann hafði kosið að liggja norður og suður í óvígða hlutanum. 
Sæmundur var snillingur sagði einn gamall vinur GÓP og samstarfsmaður þegar við sátum saman í stórkostlegum veitingum að aflokinni útförinni. Þeir höfðu kennt saman og Sæmundur hafði um langt skeið liðsinnt honum um rangala bókhalds og reikningsskila - rétt eins og svo mörgum öðrum - og raunar einnig kirkjunni. 

Athöfnin í kirkjunni var ein sú besta sem sést hefur. 

16. nóv. 2002 Víst var ei allt sem í óði
ævinnar þrönga stig 
en núna var gullvagninn góði
gerður að sækja þig.

Innilegar samúðarkveðjur til Lillian, barnanna og afa-barnanna, 
til systkinanna, Þrastar, Önnu Höllu og Bjarkar og annarra ættingja og vina. 

Gísli Ólafur Pétursson og Ragna Freyja Karlsdóttir

Efst á þessa síðu * Forsíða