Sigurður Ásgeirsson
Árið 2004 var stofnað félag atvinnuveiðimanna við minka og refaveiðar. Forsíða
| |
* | Bræður tveir koma sem oftar í Þórsmörk og eftir spjall sláumst við feðgar í för með þeim að kíkja á greni. Við vitum ekki að þetta orðalag merkir að líta til grenis og vera þar uns refurinn birtist - og erum því ekki biðbúnir. Sigurður kemur okkur fyrir í klettaskúta gegnt urðinni. Við horfum niður yfir aðkomuleiðirnar og hann útbýr skotstöðuna. Stendur svo upp og við ræðum hljóðlega saman. Við sjáum refinn. Hann er asalaus þótt greitt fari og stefnir í grenið. Sigurður leggst til riffilsins og miðar. Nú á ég von á skoti. En. Nei. Hann lyftir nú höfðinu - og gaggar. Refurinn stoppar, lítur upp til okkar sperrtum eyrum - og fær skotið í hálsinn. |
* |
Eitt þriðjudagskvöld er hann á kvöldvöku í
Skagfjörðsskála og lætur eftir mér að segja frá.
Skotið í hálsinn - segirðu. |
* | Jú. Auðvitað getur maður verið hætt kominn en oft mundi ekki miklu breyta þótt fleiri væru saman. Eitt sinn var ég sem oftar að líta til grenis í brúninni við Seljalandsfoss. Þar var lengi stór steinn sem heppilegt var að stökkva niður á og fikra sig síðan eftir syllu. Eitt sinn þegar ég lenti á steininum var hann svo að falli kominn að hann hrundi viðstöðulaust. Eitthvert viðbragð varð mér til bjargar en síðan hef ég saknað hans. Nú er mun tafsamara að sinna þessu greni. |
* | Jú - auðvitað munar um félaga. Eitt dimmt kvöld fór ég í Skjólkvíar, gekk inn í nýja hraunið, datt ofan í gjótu og rotaðist. Kom að lokum aftur til meðvitundar. Staulaðist upp. Þreifaði um veggina sem allir voru lóðréttir og svo háir að þótt ég nýtti nokkurra metra rými dugði tilhlaupið ekki til að ná gómum upp á brún - og botninn var hellan grjótlaus. Já - það má alveg segja það. Góð ráð voru að verða nokkuð dýr. Það var orðið töluvert kalt og farið að snjóa. Ég fór að safna snjónum og byggði átyllu í einu horninu. Það snjóaði nógu lengi til þess að átyllan náði að duga mér til að koma gómunum upp á. |
* |
Get ég eitthvað verið þér
aðstoðlegur? Þar með er hann kominn á laugardagssíðdegi í hellirigningu í ágústlok og dregur bilaðan bíl minn í Stórumörk. Það er auðvitað ekki nóg. Koma varð merkurkallinum inn í Húsadal. Við Jökulsá eru allir viðmiðunarsteinar í kafi. Ég býðst til að kanna vaðið. Já, það er vötnótt - en ég held þó að þetta sé í lagi, segir hann. Hann þolir upp á frambrettið. Það er djúpt. - Það flaut upp á húddið? Já, - hann þolir aðeins meira. Innfrá er engu lokið. Viðgerðarsveitin þarf í bæinn að sækja varahluti. Bíll hennar er framan við Jökulsá. Það er mið nótt. Olíustöðvar lokaðar. Þið komið bara heim. Við tökum olíu þar. Eftir lágnættið erum við í Steinmóðarbæ. Á hlaðinu er bílsbil milli tveggja opinna verkfærakassa. Aðstoð Sigurðar Ásgeirssonar er tafarlaus. |
* |
GÓP og Sigurður Ásgeirsson í Gunnarsholti fyrir 1980 Öðlingur
er fallinn frá.
Gísli Ólafur Pétursson |
* * * | |
Upplýsingar með minningar- greinum í Mbl. 26. apríl 2008 |
Sigurður Ásgeirsson fæddist að Ytri-Sólheimum í Mýrdal 19.
desember 1930. Hann lést á Lundi, hjúkrunar- og dvalarheimilinu á Hellu 17.
apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Kristín H. Tómasdóttir húsfreyja
frá Skammadal í Mýrdal, f. 10. mars 1893, d. 15. apríl 1975, og Ásgeir Pálsson
bóndi frá Brekkubæ í Nesjum, Austur-Skaftafellssýslu, f. 2. júlí 1895, d. 28.
júlí 1973. Þau byggðu nýbýlið Framnes í Mýrdal árið 1936. Systkini Sigurðar voru
sjö, Ása Pálína, Stefán, Margrét, Guðgeir og Unnur Aðalbjörg sem öll eru látin,
en tvö lifa bróður sinn, þau Siggeir og Ingibjörg. Sigurður kvæntist árið 1956 Lilju Sigurðardóttur frá Steinmóðarbæ, Vestur-Eyjafjöllum. Þau slitu samvistir. Sigurður ólst upp í Framnesi og stundaði öll almenn sveitastörf, reri til fiskjar, sótti vertíðir í Vestmannaeyjum og sinnti farandvinnu við skurðgröft og heybindingu. Hann hóf störf hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti á sjöunda áratugnum og starfaði þar til sjötugs, var lengstum ráðsmaður. Hann var sjálfmenntaður þúsundþjalasmiður og hannaði og smíðaði fjölda véla og tækja fyrir Landgræðsluna. Hann unni náttúru landsins, var afar fróður um fugla og landsþekkt refaskytta. |
* |
Útför Sigurðar
var gerð frá Oddakirkju á Rangárvöllum og hann var jarðsettur í
Sólheimakirkjugarði í Mýrdal.
Hér fylgja nokkrar myndir frá Odda. |
Sæmundur á selnum - einkennissaga Odda
|