GÓP-fréttir
ForsíðaIrma Geirsson
á Ljósafossi

F. 25. september 1920 - d. 19. mars 2010


Ragna Freyja og Irma við Ljósafoss 7. sept. 2003
Irma áttræð

25. sept.
2000

*

Texti:
GÓP

*

Lag:
Lofsöngur
Böðvars
Guðmunds-
sonar

Ævihafið yfir fer
eilíf tímans gára:
Irma Geirsson orðin er
áttatíu ára.

Við heilsum þér Irma á afmælisdegi!
og upphefjum sönginn á gleðinnar vegi!
Já! alltaf er gaman og indælt að sjá þig
og okkur fannst aldeilis frábært að fá þig!
Hæ!
Hó!
Íslandið á þig!

Já, ljúft er að minnast og líta til baka,
og láta í huganum myndirnar vaka:
þau sumur með ilmi og heiðríkju hnossi
og hlýju og lipurð og ástúð og kossi -
hæ!
hó!
á Írafossi!

Já! hér ertu Irma með brosið þitt bjarta
og berð þér á örmum hann Trítil við hjarta.
Við óskum að garðræktin gangi í haginn
og gefum þér sönginn og afmælisbraginn.
Til
ha -
mingju með daginn!

19. mars
2010
Irma Geirsson lést á Kumbaravogi 19. mars 2010
* Irma fæddist 25. september árið 1920 í Kolberg í Pommern, sem þá var í Þýskalandi en nú í Póllandi. Hún lést á Kumbaravogi 19. mars 2010.

Foreldrar hennar voru þau Frida d. 1927 og Gustaf Borgenhagen. Systir hennar var Dorothea sem fæddist 1926 og dó 1943 úr barnaveiki. Þegar Irma var 7 ára lést móðir hennar úr barnsfararsótt, barnið dó og nokkru seinna faðir þeirra. Systurnar ólust upp hjá móðurömmu sinni, Mette Maria, sem dó 1944, og afa, Gustaf Knappert, í Zernin sem er lítið þorp í nágrenni Kolberg.

Þegar Irma var 14 ára fór hún að vinna fyrir sér við bústörf á bóndabæjunum. Vinnudagurinn var þetta 5 - 8 klst og frí á sunnudögum. Þegar stríðið skall á varð allt erfiðara. Árið 1944 gekk taugaveiki og Irma lá einangruð, lömuð og missti heyrn, mál og sjón - en þraukaði samt. Enga vinnu var að hafa árin 1944 og 1945. 

Hörmungar styrjaldarinnar settu mark sitt á Kolberg og fólkið sem lifði þar. Fjöldi dó og margir flýðu til Svíþjóðar. Rússarnir birtust eina nóttina og tóku Kolberg. Enginn kostur að flýja. Hún var tekin til fanga og látin vinna fyrir þá. Þetta var dimmur tími í huga Irmu. Í maí árið 1946 tókst henni mikið veikri að flýja með pólskum mjólkurbíl til Stettin og komst að lokum til Grossparin skammt frá Bad Schwartau en þetta svæði er samfelld byggð allt frá Lübeck. 

Irmu tókst brátt að fá vinnu bæði við landbúnaðarstörf og sem ráðskona við heimilishald. Atvikin höguðu því svo að henni barst auglýsing frá Íslandi. Þetta var atvinnutilboð frá íslenskum bændum og í júní árið 1949 fór hún í hundrað manna hópi með Esju frá Hamborg til Íslands.

Hún réði sig til tveggja ára að Syðri-Brú í Grímsnesi. Hún kynntist Alexander Reinholt Geirssyni f. 21.8.1911 d. 26.10.1982, sem þá var fráskilinn og vann við Ljósafoss. Árið 1950 gengu þau í hjónaband. Í fyrstu hélt Irma áfram að vinna að Syðri-Brú en árið 1954 hóf hún störf við mötuneyti virkjananna við Ljósafoss og Steingrímsstöð og síðar einnig Írafoss. Þar starfaði hún til sjötugs eða í 37 ár samfleytt.
Heiðar f. 2.6.1944, sonur Alexanders, ólst upp hjá þeim Irmu frá 9 ára aldri. Hann er rafvirki og starfar við M.S. á Selfossi. Hans kona er Sigrún Jóhannsdóttir f. 19.3.1945, og eiga þau þrjár dætur, Auði, Valgerði Rún og Heiðrúnu Jóhönnu og barnabörnin eru orðin fimm.

Sambýlismaður Irmu 1983-94 var Karl, húsgagnasmíðameistari, f. 15.7.1919, d. 20.2.1996, sonur Sæmundar kennara í Fljótum, Grímsey og á Siglufirði, Dúasonar f. 10.11.1889 og d. 5.2.1988, og konu hans Guðrúnar Þorláksdóttur f. 11.5.1892 og d. 13.5.1980.

Nú er Irma fallin frá.

Hún átti góðar minningar frá unga aldri en erfiðar frá stríðstímanum í Pommern og flóttanum yfir til Þýskalands árið 1946 langveikri og sífellt léttari. Hún hafði fast í huga að þegar hún var 25 ára var  hún aðeins 25 kg. Atvikin leiddu hana til Íslands þar sem henni gafst nýtt líf, ný ævintýri, ný fjölskylda og margir vinir sem nutu hennar eðlislægu elskusemi og hlýju og óbilandi gamansemi.
Við kynntumst henni ekki fyrr en árið 1983 þegar þau Karl Sæmundarson tóku saman eftir að bæði höfðu misst maka sína. Þau bjuggu 11 ár á Ljósafossi. Síðasta árið var Karl orðinn þungt haldinn af alzheimer en Irma reyndist honum óþreytandi og elskuleg í umhyggju sinni.

Árið 1997 var járntjaldið fallið. Þá áttum við saman ógleymanlega ferð í hennar fæðingarhérað þar sem æskuheimili hennar og eiginlega allt þorpið var enn í svo til sömu skorðum og þegar hún flúði þaðan hálfri öld fyrr. Hún vissi ekki annað en að öll hennar þýska fjölskylda hefði dáið í stríðinu en við eftirgrennslan í þeirri ferð kom í ljós að hún átti náið skyldfólk á lífi. Ári síðar vorum við aftur á ferð með henni um Þýskaland þar sem hún heimsótti frændfólkið og það voru góðir endurfundir.

Irma var einlæg og umhyggjusöm en einnig ákveðin og lagin við að koma verkum fram - og hún var sannarlega höfðingi heim að sækja. Allra næst henni stóð Heiðar sem hefur ávallt verið hennar styrka stoð. Afkomendur Karls senda Heiðari og hans fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur við fráfall Irmu um leið og við erum afar glöð yfir að vera svo lánsöm að hafa kynnst henni.

Útförin var frá
Selfosskirkju
25. mars
2010

Nú er Irma fallin frá
fór hún margan dalinn,
átti bæði þraut og þrá
- þar var allur skalinn.

* Ragna Freyja Karlsdóttir og Gísli Ólafur Pétursson.

Efst á þessa síðu * Forsíða