Forsíða


Úr gestabókinni

Silfurveröld, signd og blá,
sól og mildur Kári
húss og gesta gæti á
góðu, nýju ári.

Hér birtast nokkrar kveðjur sem ratað hafa í gestabók hússins um dagana

... en fyrst er spáð fyrir þér:

Þetta
er
spá
fyrir
þér!


Horfur
komandi
tíma

Horfurnar á komandi tíma
fyrir lesendur þessara lína:

Þú gefst aldrei upp þótt í móti blási en heldur þínu striki um leið og þú og þínir styðjið hver annan. Þú ert leitandi og á meðan orkan endist ertu sífellt til reiðu að einbeita þér að nýju verkefni ef það fangar áhuga þinn eða má verða þér eða öðrum til bóta eða ánægju.

Fastheldni og trygglyndi er aðall þinn og þú tekur mannlegum upphlaupum með æ meiri rósemi eftir því sem reynslan eykst. Þótt þú standir yfirleitt báðum fótum á jörðu áttu frjótt ímyndunarafl sem opnar þér nýja drauma og nýjar leiðir bæði í meðbyr og mótbyr.

Það fer nokkuð eftir aðstæðum hversu opinskátt þú ræðir um tilfinningar þínar og notar stundum mörg orð en stundum finnst þér ljóst að allir viti hvað þú hugsar án þess að klætt sé í orð. Þér er listfengi og sköpunargleði í blóð borin og mikill fagurkeri og missir fljótt áhuga fyrir annars og þriðja flokks munum og myndböndum. Þú ert traustur vinur vina þinna og lipur að umgangast fólk og þó að skapsmunir geti hlaupið með þig í dálitlar gönur hefur þú í þér þá stærð og þann persónuþroska sem þarf til að viðurkenna eigin mistök og axla eigin sök og eigin ábyrgð.

Þú hefur til að bera hagsýni og skipulag í meðferð peninga. Þú átt gott með að læra að sníða þér stakk eftir vexti og gera nýja áætlanir þegar aðstæður breytast. Takir þú að þér að skipuleggja og undirbúa verkefni af kostgæfni standa þér fáir á sporði þegar til framkvæmdanna kemur.

Þú dvelur ekki um of við liðna tíð og margt skemmtilegt og spennandi kemur upp á. Þegar fram í sækir skín sólin glaðar og aukin bjartsýni fæðir af sér nýjar hugmyndir og kímnigáfan blómstrar. Í einkalífinu verður enn meira af skini en skúrum og einnig þar er margt spennandi í vændum. Komandi tími ber í skauti sér margar ánægjustundir, leiki og kappleiki og þar sem árangur skiptir máli mun hann aukast jafnt og þétt eftir því sem fram líða stundir.

Eins og títt við ber í heimi hér eru allir í skemmtilegum verkum og einnig í erfiðum verkum. Það mun sýna sig þegar á líður að hin erfiðari verkin reynast þolanlegri en útlit var fyrir. Margir sem átt hafa í togstreitu innra með sér og í samskiptum við aðra munu ná að leiða þau mál til ákjósanlegra lykta.

Í heild fer í hönd skemmtilegur tími fyrir þá sem búa til og grípa þau tækifæri sem til ánægju gefast og ábatasamur þeim sem öllu halda í máta.

Ykkur gangi heil til hags
hending náttúrunnar;
sá sem grípur gleðir dags
gætir hamingjunnar.

13. jan

2020

Högni Egilsson - í netpósti:
Gísla saga

Höfðingi heim að sækja
hugsuður utan klækja
vinur án vinabrigða
vísastur allra tryggða.

Blessi þig, bróðir.

31.3.2010

Sjá
myndir
af
gosinu
í
Eyja-
fjalla-
jökli
sem
hófst
mars
2010

30. mars

og

1. apríl

Theodóra Hafdís Baldvinsdótir:

31. mars 2010 - Kæri Gísli minn. - Innilega til hamingju með daginn.

Árið 1822 átti merkur maður afmæli, um svipað leiti og gos varð í Eyjafjallajökli.
Um þetta orti Bjarni Thorarensen.
Árið 2010 gerist hið sama.
Við erum þess viss að skáldið, í sínum himni, er fyllilega sáttur við að hans mikilfenglega kvæði, á ný, hylli góðan mann og voldug náttúruöfl. - Dóra

Eyjafjallajökull

Tindafjöll skjálfa, en titrar jörð,
tindrar um fagurhvels boga,
snjósteinninn bráðnar, en björg klofna hörð,
brýst þar fyrst mökkur um hárlausan svörð
og lýstur upp gullrauðum loga.
Hver þar svo brenni mjög, ef þú spyr að,
Eyjafjalla-skallinn gamli er það.

Spyrjir þú svo, hví hann hljómi svo hart
og hósti upp vikri og eldi,
að mökkur sést eldlitur myrkrið um svart,
svo miðnætti verður sem hádegi bjart
og glóir í gulllögðum feldi,
gjörla ég þori að greina þér, að
gleðilog og fagnaðarhróp er það.

Gamall því Eyjafjalla-skallinn við ský
skekur hinn snjóhvíta feldinn
og flytur svo lofdrápu fylki á ný,
sem fornaldarskáldin, en hörpu hans í
strengjunum stirnir á eldinn,
en hljómurinn dynur svo, allir vér að
Eyjafjalla - heyrum - skáldið er það.

Allir vér biðjum með eldjökli því
auðnu Gísla til handa,
sem norðurljós fegursta norðrinu í
nái hans vegsemd ljóma' yfir ský
og lengur en logafjöll standa;
og fjallsins svo hrópandi fetum í spor:
Lifi Gísli Ólafur Pétursson, vinur vor.

GÓP: Þetta konunglega afmæliskvæði orti Bjarni Thorarensen á fæðingardegi Friðriks VI. þann 28. jan. 1822. Þá gaus Eyjafjallajökull.
Sleppt er þriðju vísu sem vísar til óeigingirni Friðriks sem verndara Íslands.

17. júní 2007

Þann 17.6.2007, skrifaði Høgni Egilsson:

Handan hafs og fjalla
heyri ég landið kalla
söngur þess í sálu minni ómar
saga þess í vitund minni hljómar
ár þess svalt af enni mínu falla.

Hjartanlega til hamingju med daginn - Høgni

Þakkir færð frá þeim sem njóta
þinna ríku ljóða
- eigðu gleði mannamóta
maður tveggja þjóða.

Bestu hátíðakveðjur - GÓP

31.3.2000 Högni Egilsson:

Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
undarleg er hans ferð,
hendist hann fram
yfir hauður ísa
öndóttu stáli studdur.

Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
einmuna er hans ferð,
hugfimi hans
er sem hjásól skíni
línbleiku landi yfir.

Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
óræðin er hans ferð,
gistir hann alfa,
gleðst við ómega, -
ótrautt og engu háður.

Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
ódæma er hans ferð,
tölvilltur
lýstur hann töfrasprota
ljónfimt á lokinhamra.

Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
örþreytis er hans ferð,
ber hann í hjarta
bægð og trega
þungan í þagnarhallir.

Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
orðfleygin er hans ferð,
glaður með glöðum
vinur með vinum
skáldmenntar skeiðvargur.

-
Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
Íslendings er hans ferð;
læstur við töfra
elds og ísa,
Íslands eilífu vætta.

-
Mál er að mæla
maður heitir Gísli,
- gleðji þig guðir allir!

31.3.1990

Hilsen
fra
Högni
og
Liv

Högni Egilsson:

Gísli av Island
gratulerer;
Islending
av ætt og sinne,
ildsjel
tro mot viddens kallen.

Gísli av Island
gratulerer;
venners ven
og fienders fare,
fredens mann
og kampens leder.

Gísli av Island
gratulerer;
datakropp
og dikters lynne,
"landstryker"
og lovens hersker.

Gísli av Island
gratulerer;
alvorsmann
og urokråke,
ensom tenker,
gledespreder.

Gísli av Island
gratulerer;
ung er tanken,
ung er jorden,
unge Gísli
SKÅL!

31.3.1990 Nanna Jakobsdóttir:

Ferðaglaður frændi minn svo oft í önnum er
innanlands og utan, já, bæði þar og hér.
Ég vildi að þér gengi allt gleðilega í haginn -
Gísli minn, ég segi:
Til hamingju með daginn!

28.3.1988 Jón Sæmundsson:

Þægilegan þáði blund,
þökkum frá mér slengi:
þeim sem stýra Grenigrund
gæfa fylgi lengi.

15.10.1984 Svana Björk Karlsdóttir:

Hér leit ég aðeins við
rétt til að gleyma ekki alveg
hvernig hér er umhorfs.

Hér ríkir alltaf góður andi.

Jan. 1981 Pétur Sumarliðason:

Undir skafheiðum himni
og skínandi sól
ég skaust hérna inn.
Svona áningarstaðir
við alfaraveg - og áfram ei meir - .

Gamlárskvöld
1979
Jóhannes Ólafsson:

Ljóðið eina kom ekki á þessu ári
en ef til vill seinna.
Ég veit ekki hvernig það verður
og hlakka ekki beint til þess og
þó er það svo sem í lagi.

Í kvöld hef ég séð marga renna niður góðu tári
af einhverju. Einna
helst vildi ég að enginn samningur væri gerður
og ekki leyfð áflog
og hver haldi sig að sínu fagi.

27.12.1979 Jóhannes Ólafsson:

Hér sit ég með auða örkina
og er að hugsa um það
hvernig ég á að vera búinn í Mörkina.

Karl Jónsson:

Ég er búinn í Mörkina
en er að hugsa um það
hvað ég á að gera við örkina.

31.12.1975
Pétur Sumarliðason:

Við lögðum þar upp -
- á hið ókunna haf -
- óvisst um vörina -

Enn siglum við framhjá
vör tímans -

Opið haf -
heilir, sænautar

Við siglum
1976.

31.3.1969
Pétur Sumarliðason:

Þótt aðrir sjái eitthvað
í birtubrigðum
þér bregður sjaldnast
þótt roðni á efstu tindum.

Þú heyrir í byggð
hvernig hríslast
lækir og lindir -
- ljúflingur, vinur
við heilsum þér öll
eins og öræfalækur
sem leikur í grjóti.

31.3.1950
Haraldur Björnsson:

Láttu hvorki skin né skúr
skipta þínu sinni
vertu alla ævi trúr
æskugleði þinni.

Efst á þessa síðu * Forsíða