GÓP-fréttir
forsíða

Högnaljóð
Vísur og ljóð


Högni Egilsson sextugur

17. september 1990

Afmæliskveðja frá GÓP

1
Egils hátt upp tek:
orð saman rek.
Hleð mærðar hlut
hugknarrar skut.
Byrjar bíð við dröfn
bruna úr höfn -
sigli Noregs sund:
sé vinar fund.
2
Högni! heillir þér!
Heilt óskum vér!
Andans yggju grér!
Austur hvass fer
vinar hugur hlýr
hann á dyr knýr
þig faðmar fagnandi
frá Íslandi.
----
3
Hugur þinn og hönd
á Hulduströnd
lék að töfralegg
við lífsins egg;
hrima hyldýpið 
við hægri hlið - 
á hina fjallsins fax
og feigðin strax.
4
Öfl úr ýmsri átt
þér ortu mátt
og þrótt í þína sál -
þitt tungumál;
fas að stilla strítt
en stöðva lítt;
og kveðja lá og laut
og leggja á braut.
5
Skáld á skólastað
og skáld við blað
og skáld við skólastarf
með skáldaarf.
Metinn öllum af
við ysta haf -
er munda vildir meir
þinn menntageir.
----
6
Kynntumst Fróni fjær -
framtíðir tvær;
þröng og þung var grund
við þekktarsund -
klifum krónuskarð
- það klungurbarð -
upp bratt - í aðra hlíð
og aðra tíð.
7
Nú var hringur nýr
og neistinn skír
sem innri eldinn knýr
í ævintýr:
mín við ystu rönd
á íshafs strönd;
en nú um Norðurlönd
þín nýta hönd.
8
Mannúð heil og hlý
í heimsins gný
er tillegg þitt og tákn:
að temja bákn.
Styður hal og hrund
á heimagrund
að hafa heila lund.
Hratt flýgur stund.
9
Eðalmálmurinn
á orðstírinn
þótt finni aðra strönd
og framandlönd.
Og hvar sem Högni fer
á honum sér
hans yfirbragð sem er:
af sjálfum sér.
---
10
Hittumst af hending
heims í lending,
heyrðum sama hljóm:
hugans berg-óm.
Blár er hljóms boginn
blíður loginn
gjör af vænleik vina
um vinsemdina.
--------
11
Hér af bjargsins brún
ber laut við tún
og leiðin liðast öll
um ljóðsins fjöll
uns hún stöðvast hér
er stöndum vér:
Þín ganga er giptuleg -
um gæfuveg.
12
Áð er stutta stund
við steindan lund
og bergt á bikar víns
- hans bróður míns -
hans vinir hitta hann
þann hlýja mann - .
Þar lít ég undir þak
- langt andartak.
13
Svo ...
strax er lagt af stað.
Starf kallar að:
þín bæði bíða verk
brýn, nýt og merk ...
-----
---
Læt ég þar lenda.
Ljóðs minnin benda -
en hugann finn ég venda
að Hlíðarenda.

Hlíðarendi er nafn sem GÓP hefur gefið sumarhúsi Högna og Liv
Efst á þessa síðu
* Forsíða