GÓP-fréttir 

 Hörður Þorleifsson

Ljóðaspjall í Gullsmára 25. feb. 2012

Aftur í
Vísur og ljóð úr ýmsum áttum

<< Myndin er fengin úr Læknablaðinu

Innsent
26. feb.
2012
>>>
Sæll Gísli.
Ég veit ekki hvort þú varst í Gullsmára í gær. Ég flutti þar nokkrar vísur sem ég sendi þér. Ég hef haft gaman af að leika við orð. Sem dæmi:
Ég heyrði konu biðja mann sinn að kaupa pottamold. Hann sagði að það væri til mold í bílskúrnum. Hún sagði það vera gamla mold. Þegar ég frétti þetta varð mér að orði:

Mold hefur engan aldur,
aldrei hún fyrnist heldur.
Foldin er guðagaldur
gjaldið er hraun og eldur.

Bestu kveðjur,
Hörður.

Ljóða-
spjall
í
Gull-
smára
25. feb.
2012
Ég hef af og til verið að fikta við ljóðagerð frá 8 ára aldri.

Ég ætla að byrja að kynna mig með þessari braghendu frá unglingsaldri. Hún gildir enn í dag ef ég breyti einu orði.

Ég er feimin ungur drengur eins og gengur,
löndum þó ég leyfi að skoða
leirinn sem ég er að hnoða.

Ég hafði hugsað mér að fara einkum með ferðavísur því að á gamals aldri getur maður farið hvert sem manni dettur í hug ef vilji og færni eru fyrir hendi. Þetta höfum við Ólöf mín stundað síðustu árin. En nú hefur þrengst ólin um háls flestra vegna hrunsins svo að mér er ef til vill vorkunn þó að ég skjóti aðeins á útrásarvíkingana hér í upphafi:

Mammon var hér með í ferð
mennskum klæðum búinn,
ágætur að ytri gerð
en innviðurinn fúinn.

Mammon var hér með í ferð
mikil virðing fokin.
Dularklæðin dável gerð
duttu af í lokin.

Við heimsóttum Slóveníu 2006. Portoroz og Bled eru fallegir staðir. Flogið var til og frá Trieste á Ítalíu. Heimferðinni lýsti ég svona:

Leiðin um háloftin liggur greið,
líkist mest gandreið álfa.
Bundinn í stólnum á stormandi reið
stundirnar fjórar og hálfa.

Við fórum um alllt Suður-England 2007, frá Cantaraborg til Winchester. Á þeirri leið er Hastings þar sem Vilhjálmur Bastarður sigraði Englendinga árið 1066, einnig Stone Henge, sögufrægur, forn staður með mjög stórum steinum sem mynda hring og er mikið aðdráttarafl ferðamönnum. Fjöldi manns var þar starandi í forundran. Þá varð Ólöfu að orði:

Áhuganum ei má leyna
eitthvað vefst þó fyrir mér
að alla þessa stóru steina
stari á þeir sem eru hér.

Við fórum með Magnúsi Jónssyni sagnfræðingi til Skotlands og Orkneyja 2008. Gistum fyrst á Skíðisey (á ensku Skye), eyju í Suðureyjaklasanum næst meginlandinu. Í kirkjugarði á eyjunni er leiði Floru MacDonald sem er fræg í sögu Skota eftir að hún hafði bjargað Bonnie prince Charlie sem hafði verið í útlegð vegna uppreisnar en kom til baka 1745 og safnaði liði og hóf uppreisn gegn Englendingum. Herjunum laust saman við Culloden, mestu orustu á Bretlandseyjum, og sigruðu Englendingar. Flora úbjó kvendulargervi fyrir Bonnie og komst með hann út á Skíðisey. Þaðan komst hann í skip til Frakklands en Flora var handtekin, flutt í skip og færð til London en heillaði svo alla menn að hún varð laus úr stofufangelsi eftir 2 ár og slapp við dóm. Síðan fór hún til Ameríku en sneri heim til að deyja. Áberandi stytta er af henni í Inverness í Skotlandi. Ég fer aðeins með brot af vísum úr þessari ferð okkar. Rétt er að taka fram að Magnús Jónsson byrjar alltaf ferð að morgni með ósk um að Þorlákur Helgi haldi um stjórnvölinn.

Við ferðuðumst í fögru skyggni
fjöll og dalir blöstu við.
Þorlákur minn, þótt hann digni
þér er treyst að gömlum sið.

Þorlák Helga biðja ber
í bílnum snemma að morgni dags
að veðrið okkur verði hér
vinsamlegt til sólarlags.

Það er vinstri handar akstur í Bretlandi. Bílstjórinn heitir Alec og hefur verið með okkur í fleiri ferðum.

Bíllinn ekur aðra hönd
en Alec hann er slyngur.
Magnús vekur lærdómslönd
og leikur við hvern sinn fingur.

Út á Skíðis ystu tá
og aðra leið til baka
undir fótum Flora lá
fróm án allra saka.

Hér sleppi ég bálki en set punktinn yfir ferðina:

Þá er lokið þessum brag
þennan okkar lokadag
á ferð um þetta fagra land
full af gleði og trega í bland.

Við höfum farið þrisvar til Tenerife í skammdeginu. Þar er mikil veðurblíða, hlýtt og kyrrlátt. Einhverju sinni á göngu á ströndinni fór sviti að renna niður á ennið undan húfunni. Þá kom skyndileg gola og ég tók ofan og datt þá þessi vísa í hug:

Læt ég vindinn blása burt
bleytu úr mínu hári.
Þangað til það verður þurrt
þarfnast ég þín, Kári.

Í fyrravor fórum við til Berlínar og dvöldumst þar í 5 daga í blíðu veðri og vorum sífellt á fartinni, gangandi, því að þar var margt að sjá og aðkoma auðveld á tveimur jafnfljótum.

Ferðin um Berlín var býsna góð
breyskjandi sólskin og gola.
Múrinn er fallinn og frjáls þessi þjóð
sem fyrr mátti hörmungar þola.

Alexandersplatz er torg í hjarta borgarinnar. Þar stendur sjónvarpsturn, rúmlega 200 metra hár.Hann er vinsæll útsýnisstaður. Við þurftum að bíða í tvo tíma til að komast upp í turninn. Útsyni þaðan er stórfenglegt og sést í allar áttir yfir borgina.

Á Alexanderstorgi trónir
turninn allra hæða val.
Uppi skari gesta gónir.
Hann gefur frá sér mynd og tal.

Eurocenter er verslunarkjarni í Berlín, nokkuð miðsvæðis. Þar er tímamælir eða klukka gerð úr glerkúlum sem grænn vökvi rennur í. Þegar 60 litlar glerkúlur, hver upp af annarri, hafa fyllst, rennur allur vökvinn úr þeim í stóra glerkúlu sem rúmar allan vökvann. Þá er komin ein klukkustund. Þetta endurtekur sig aftur og aftur. Litlu kúlurnar tákna mínútur og þær stóru sem eru 12, hver upp af annarri, tákna klukkustund. Klukkan gengur rétt. Ég varð alveg agndofa, stórhrifinn af þessu snilldarverki.

I Evrocenter áttum svo
af umhyggju og natni
að stara næstum tíma tvo
á tímamæli úr vatni.

Þekktasta gatan í Berlín heitir Unter Den Linden, undir linditrjánum. Það er breiðgata frá Brandenborgarhliðinu að Alexanderplatz.

Að ganga alveg upp að hnjám
var alla daga þáttur snar.
Leiðin undir linditrjám
liggur að hjarta Berlínar.

Nú held ég að það sé komið að því að líta sér nær. Ósjáfrátt litur maður til Esjunnar þegar farið er í ferðalag innanlands. Norðanáttin hleður oft skýjum á toppinn og oft er hvasst undir henni.

Grátt er yfir gresjunni.
Gríðarlegur stormur
liggur yfir Esjunni
eins og Miðgarðsormur.

Við getum verið að ferðast í þoku og leiðindaveðri og fengið svo allt í einu góðviðri. Upp í fjögur veður á dag, eins og sagt er. Við vorum að koma að norðan og stefndum suður Kjöl. Það var þoka og kalsaveður fyrir norðan en skyndilega birti upp er nálgaðist Kjöl.

Þoku léttir, lyftist brá,
landið skýrist óðum,
Kjalfell hæst er Kili á,
kunnum ferðaslóðum.

Á rútuferð um Snæfellsnes 2007 út fyrir jökul á moldar- og malarvegi fór svo að leir settist á rúðurnar svo að lítt sást út. Þá varð eftirfarnadi vísa til:

Komi regn í stríðum straumum
stundarkorn á gluggann minn
og skoli burtu skítataumum
svo skíni blessuð sólin inn.

Svo brá við að það fór að hellirigna er við vorum nýkomin á malbikaðan veg og hreinsaði gluggana.

Sumarið 2009 fórum við með Öldungadeild lækna um Austurland. Fararstjóri var Hjörleifur Guttormsson sem hefur ritað þrjár ferðafélagsbækur um Austurland og er fræðasjór. Bílstjóri var Sveinn Sigurbjarnarson, eigandi Tanni Travel ferðaskrifstofunnar, kallaður Svenni. Rútan var gul, sögð heita Gvendólína númer tvö. Fyrst var farið inn Fjótsdalshérað í þoku. Í fjörðunum var gott veður og bjart:

Þrengir að oss þoka grá
svo þekkjast varla fjöll né hólar.
Vona að hún víki frá
og vermi aftur geislar sólar.

Firðirnir voru svo þræddir frá norðri:

Borgarfjörður eystra er byggð í skjóli fjalla
og Borgin álfa vakir trygg yfir þessum stað.
Dyrastafir tröllauknir draga að sér alla
sem dýrka fagra veröld og Kjarval setti á blað.

Svo var haldið til Loðmunarfjarðar. Á leiðinni þarf að fara yfir háls sem er allerfiður fyrir rútu og setti geig í suma. Einn farþeginn harðneitaði að fara með og var skilin eftir upp af Húsavík.

Yfir fjallaklöngur og ofar skýjum löngum
ók hún Gvendólína sem sögð er númer tvö.
Svenni var við stýrið og stýrði fram hjá dröngum,
styrkum höndum lagði hana allar beygjur sjö.

Loðmundarfjörðinn við litum nú augum,
ljúft var að kanna þann framandi heim.
Flöktið var horfið af fínustu taugum,
friðinn þar gripum við höndum tveim.

Næsta dag var farið til Mjóafjarðar. Skipt var um rútu. Sú nýja var bleik og heitir Emilía og er stærri en Gvendólína. Ekið var yfir Mjóafjarðarheiði, framhjá Bræðravatni, sem er efst á heiðinni. Komið var sólskin og blíða:

Bræðravatni Emilía
ekki sinnti hót.
Mjóafjörðinn, fagra hlýja,
flutti hún okkur mót.

Öðlingur á bæ þar býr,
búinn geði þekku.
Vinsæll er og viðmótshlýr,
Vilhjálmur á Brekku.

Leiðsögn skýr og ljós í senn,
ljúft að fylgja henni.
Hafi þökk þeir heiðurmenn,
Hjörleifur og Svenni.

Ég var gestkomandi í sumabústað sl. sumar. Það var mikið skrafað við stofuborðið. Á borðinu var opinn súkkulaðipakki með stökum molum. Greip ég í hugsunrleysi einn mola og stakk honum upp í mig óséð. Fann ég þá skyndilegan sting í tunguna. Hafði geitungur setið á molanum. Þá varð til þessi Geitungsbragur:

Í Súkkulaði sólginn er
og seildist eftir mola.
Geitungur að gæða sér.
Grimmd hans mátti ég þola.

Á molanum hann mettur sat,
mig hann tók að pína.
Byrjaði hann að bora gat
í bragðlaukana mína.

Stökk ég upp af stólnum hratt,
þann sting gat ég ei varist.
Þetta hefði geitung glatt
ef greyið hefði ei farist.

Lét í munni lífið sitt
lostafullur hrekkur.
Að ætla sér í opið mitt,
ömurlegur smekkur.

Út úr munni geitung gróf,
greyið varð að klessu.
Það var mikið manndómspróf
mér að lenda í þessu.

Þegar tungan blés og brann
bruna lagði í kokið
og verk í eyrað vinstra fann
var mér öllum lokið.

Stóð í einar stundir tvær,
stillt varð um þær mundir.
Engum vil að þrautir þær
þurfi að gangast undir.

Svo er hér hollráð til ykkar allra í langhendu:

Í geitungstíð er gott að vera
gætinn þegar borðað er.
Aldrei lét ég á því bera
að óttinn væri að stjórna mér.

Aftur í >> Vísur og ljóð úr ýmsum áttum

GÓP-fréttir  * efst á þessa síðu