GÓP-fréttir forsíða * *

A - a - abba - lá

Þórsmerkurferðartexti eftir GÓP við írskt þjóðlag

(Jónas Árnason: Með krús í hendi ég sat eitt sinn ..)

Þetta er almennur söngtexti fyrir vetrarferð í Þórsmörk. Hann hefur þann kost að það má nota hann bæði í litlum bílum og hópbílum og syngja hvert erindi þar á leiðinni sem hæfir eftir því sem ferðinni miðar fram. Viðlagið er haft sem fyrsta vísa og samið með sérstöku tilliti til þess að þetta kvæði hljóti að verða fremst í stafrófsröð hverrar söngbókar.

(1)
A - a - abba lá - abba labba lá
abba labba lá - abba labba lá!
Við syngjum saman: - abba labba lá
og látum enduróma um björgin há!
(2)
Við tökum nesti og nýja skó
og núna höldum af stað í Merkurskóg!
og ekki snúum við aftur þó
að ofan kyngi hann snjó á snjó!
(3 - viðlagið)
Við syngjum abba lá, abba labba lá!
abba labba lá - abba labba lá
Við syngjum saman: - abba labba lá
og látum enduróma um björgin há!
(4)
Af áhyggjum er nú ekki baun -
við ökum austur um nýja Svínahraun
á Hellisheiði hjá Hveradal
og erum hátt uppí fjallasal!
(5)
Við ofan keyrum um Kambabrún
og kannski sjáum við hvorki garð né tún
því það er myrkur og það er hríð
og þetta er engin sprettutíð.
(6)
Og áfram austur um Ölfusið
og yfir Þjórsá á brúnni förum við
og framhjá Hellu að Hvolsvelli
að Hlíðarenda mér inn skelli!
(7)
Og heilli stund fyrir hádegi
er hópurinn hér á góðum framvegi
og ekur piltum og ungmeyjum
um austurveginn hjá Landeyjum.
(8)
Við ökum Fljótið á breiðri brú -
og bjart er orðið um alla veröld nú.
Við förum lipurt í einni örk
og yfir hlaðið í Stóru-Mörk.
(9)
Þar upp við hliðið er skjannaskafl
hér skal því hefja vort Merkurferðartafl
við dömpum lofti úr dekkjunum
og drögum að keðjuhlekkjunum.
(10)
Já, ferða-upphitun fáum við
með því að fara um þetta strembi-hlið
og núna erum við allir til
og erum senn við Nauthúsagil.
(11)
Þar rennur lækur einn lygn og tær
og ljúfur oftast sem blíður vinur kær
en stundum er eins og stífli straum
- hann stappist fullur með krapaflaum.
(12)
Við ökum braut upp að brekkunum
og brátt er komið að gráu rekkunum
að sýna fjallið og segja: "hér-
na upp með Sauðá er Merkurker!"
(13)
Og næst er Seláin - sæl og blá
og síðan Akstaða gamla heimaá
og síðan Innri-Akstaðaá
og er þá Langanesið allt frá.
(14)
Og niðr'á aurnum er ennþá á
- ein einstök læna svo brún og jökulgrá -
og undir bakka er önnur hjá
og einnig hún er með jökulbrá.
(15)
Hann Fremri-Jökulskoltur nálgast nú
- hann nístir greipinni þétt við ísabú -
og innan skamms okkur opnast sjón
og ofurmagnað er Jökullón.
(16)
Og Jökulsá hún er jafnan kær
og jeppum leyfir hún svona oftastnær
að komast yfir með engan stans
en er þó stundum með ísafans.
(17)
Við ökum hálsinn um Innri-Skolt
sem oft er drýgri en ýmis önnur holt
og hér á Tindfjöllin horfum þá
úr Hoftorfunni við Steinsholtsá.
(18)
Og yfir Steinsholtsá ökum við
hún er nú oftast með fremur ljúfan sið
en stundum allt er þar undir snjó -
og örðugt þá er í Fagraskóg!
(19)
Við Draugabólið í brekkunni
í Bólhöfðinu þar yfir Krossánni
þar sem að sér yfr'í svartan vegg
já, slétta þilið í Merkuregg!
(20)
Við ökum saman með Suðurhlíð
og síðan Stakkholtsgjá okkur opnast víð
- þar stund við stöndum í hrifningu
er steypist fossinn um hvelfingu.
(21)
Nú inn með Stakkholti stefnum við
hjá Stakknum megum við raunar búast við
að Hvanná okkur ei gefi grið
og grýti bílunum út á hlið.
(22)
Nú mjakast flotinn um urð og ís
og Álfakirkjan með töfratónum rís
við erum gengin í Goðalönd
og göldrum halda nú engin bönd.
(23)
Á Krossáraurinn við komum nú
við keyrum lækinn í nokkuð góðri trú
- hann oft er spræna - svo mild og mjó
en mikið oftar þó full með snjó.
(24)
Þá taka aurarnir okkur við
og álar Krossár á alla heimsins hlið
við ökum varlega út á það
og erum að - uns við finnum vað.
(25)
Hér yfir ána og skarir skal
við skellum okkur nú inní Langadal
að Skagfjörðs-Þórsmerkur-skálanum
- þar skoppar lækur hjá balanum.
(26)
Og eftir bardús og bitagerð
við bregðum okkur í Merkurgönguferð.
Um hugann seytlar sú fjallafirrð
sem fyllir sálina ró og kyrrð.
(27)
Og síðan komum við aftur inn
og etum næringarríkan kvöldverðinn
og síðan andartak undir feld -
en eftir átta við kveikjum eld.
(28)
Nú hvolfist myrkur um himinshlið
og hér við bálið má heyra óm og klið
og er það kulnar er engin bið:
þá inní húsinu syngjum við!
(29)
En þegar miðar að miðri nótt
er mönnum þó ekki orðið alveg rótt:
þeir arka hlýbúnir uppí háls
og uppá Fremri-Slyppugilsháls.
(30)
Við skoðum stjarnanna blikin blá
og birtu mána um fjöll og svellagljá.
Við eigum eilífan undrafund
og erum gagntekin óttustund.
(31)
Í gleði göngum að húsi heim
og höfum veröld í okkar örmum tveim.
Nú er á Þórsmörku þýðust nótt.
Við þiggjum náðir og sofum rótt.
(32)
En klukkan níu hinn næsta dag
enn niðar lækurinn okkur Merkurlag
og álfar skima við hæð og hól
og hópurinn kominn er á ról.
(33)
Og um hálf-ellefu áætlum
að öllum borðum og líka gólfunum
sé orðið ágæta unandi
og allt í eldhúsi skínandi.
(34)
Þá yfir Krossána keyrum við
á kröppu broti um úfið straumlagið
og yfir aura og ásana
og alla leið inn í Básana.
(35)
Því það er gaman að ganga þar
við göngum saman innundir bjarkirnar
og inn með læknum - og lengra fram
og líðum senn í hann Myndahvamm.
(36)
Og síðan höldum við heim á leið
- í huga eigum við Merkurtöfraseið.
Já - sælir vinir, ég segja verð:
Við sjáumst aftur í Merkurferð!

Efst á þessa síðu * Forsíða