GÓP-fréttir

Jakobs-
vefur


Jakob Hálfdanarson látinn

Bréf Hálfdans Jakobssonar
til Herdísar, systur sinnar,
þann 20. (- 27.) febrúar  árið 1919

Æviágrip og mynd af Hálfdani hér neðar.

* Fært inn eftir uppskrift Péturs Sumarliðasonar. Greinarmerkja- og stafsetning hefur á einstaka stað verið færð að því sem tíðkast nú um stundir. Atriðisorð í vinstri dálki eru frá GÓP.
Mýrarkoti
20. febrúar
1919
Elsku systir.

Innilegasta þakklæti fyrir símskeytið frá ykkur Aðalbjörgu. Ég fékk það í kirkjuna á miðvikudaginn, rétt þegar athöfnin var að byrja og mér fannst sem þið allar væruð hjá mér, fyrir það, meðan á athöfninni stóð, og þótti fyrir að hafa ekki reynt að koma því fyrir í símskeytinu til Jóns, hvenær jarðarförin færi fram, en þá hefði ég orðið að draga að senda það.

Æ, þá er okkar hjartkæri faðir búinn að fá hvíld og er sannarlega blessun fyrir hann eins og þetta líf var honum orðið dautt og dofið. Hann hafði alltaf líkamskrafta góða, hraustur í maga og sællegt yfirbragð, fór í föt og á flakk á hverjum degi, fram að tveimur síðustu sólarhringunum. Þó var hann nú skemur á flakki síðasta mánuðinn (í senn) heldur en vanalega áður. Aftur á móti fór sálarkröftum hraðar aftur. Var sljóleikinn orðinn svo mikill síðast að ekki var hægt að gjöra honum skiljanlegt eitt eður annað með orðum nema það allra einfaldasta viðvíkjandi mat og drykk. Tæpast að hann gæti klætt sig í og úr fötum hjálparlaust.

Þriðjud.
28. jan.
Þriðjudagsmorguninn 28. janúar klæddi hann sig sjálfur og kom fram í baðstofuna til að borða morgunmatinn með okkur en þegar hann settist að borðinu virtist hann fá snert af yfirliði svo ég studdi hann þá strax í rúmið. Um daginn virtist hann lítið taka út og hitalaus en rutl var annað veifið og þá vildi hann fara á flakk. Enga matarlyst hafði hann og borðaði ekkert þann dag nema drykkinn um morguninn og brauð með honum. Hann svaf um daginn fremur óvært eða stutt í senn og var það eins um nóttina. Var ég á rjátli yfir honum, gat ekki fundið út hvar hann fyndi til, virtist þó helst vera í höfðinu og líkast því þegar þessi ónot komu yfir höfuðið áður, eins og þú manst eftir, og var hann að smástrjúka hendinni yfir ennið og aftur á hnakkann.
Miðvikud.
29. jan.
Miðvikudagsmorguninn virtist hann hressari og drakk þá mjólkurvatn sitt eins og vant var og nokkru síðar borðaði hann hafurgrjónagraut með mjólk og tvær hveitibrauðssneiðar. Um daginn vildi hann alltaf fara að klæða sig og var að smásetjast framaná og virtist vera á honum rutl annað veifið. Ég gat með lempni fengið hann til að gera þarfir sínar í fötu inni, þá tvisvar um daginn, og hætti hann við að klæða sig. Um kvöldið virtist hann rólegri.
Aðfarar-
nótt
fimmtu-
dags
Um fimmtudagsnóttina varð ég var við þorsta hjá honum og var að smágefa honum að dreypa á vatni. Reyndi ég þá að mæla hitann í honum og sýndi hitamælir tæpar 37 gr.. Hann svaf frekar órótt. Seinnipart næturinnar varð ég var við að andardrátturinn var óreglulegur og veikur af og til, jafnvel hætti að anda í nokkrar sekúndur, sérstaklega þegar hann svaf, en það var ekki hægt að merkja að hann tæki út kvalir. Um morguninn svaf hann værar svo ég hætti við að láta sækja lækninn eins og ég var þó búinn að ákveða með sjálfum mér um nóttina. Hann drakk morgundrykkinn sinn eins og vant var.
Fimmtud.
30. jan.

Jakob
deyr

Ég fór, þegar bjart var orðið og fólk komið á fætur, út í hús að gjöra morgunverkin. Þegar ég kom inn aftur var hann vakandi. Bauð ég góðan dag og tók hann strax undir við mig. Spurði ég þá hvernig honum liði. Svaraði hann því að ekki vissi hann það vel og eitthvað á þá leið samt að það væri ekki svo illa. Ætlaði ég þá að fara að tala meira við hann því mér fannst bæði skyn og ræna vera meiri heldur en í langan tíma áður. Þá sá ég að svefnmók kom yfir hann svo ég hætti við til þess að hann gæti notið svefnsins. Ég fór því burtu og var nálægt 50 mínútur úti. Skömmu eftir að ég fór út vaknaði hann. Kom þá Sigurbjörg til hans og spurði hvort hún ætti ekki að færa honum graut og mjólk. Sagðist hann ekki finna til þess að sig langaði neitt í það. Sé þá að honum svefn svo hún gekk frá honum ofan í eldhúsið en Sveinbjörn litli var inni. Nokkrum mínútum seinna heyra þau til hans í svefninum og koma bæði jafnt að rúminu. Er hann þá að skilja við í svefninum. Sendi hún Sveinbjörn strax til mín. Hljóp ég heim og inn. Var það allt afstaðið og meira að segja áður en Sveinbjörn fór út úr baðstofunni.

Elsku systir. Ég var oft búinn að eiga von á þessu áður þegar hann fékk yfir höfuðið, en nú þennan morguninn þegar ég gekk seinast frá honum, fannst mér hann hressari en oft áður og styrkur (t.d. reis upp við olnboga að drekka vatn eins og vant var tveim stundum áður) - að ég átti ekki von á svona fljótum skiptum. Þetta var kl. 11 1/2 fr. hd. sem hann skildi við.

Æ, já, maður sér svo skammt og veit svo lítið. Er ófullkominn. Ég lét strax fara af stað eftir lækni. Gat ekki alveg áttað mig á að þetta yrði svona fljótt og kvalalítið því mér fannst læknir þurfa að skoða líkið. Maðurinn kom ekki fyrri en daginn eftir upp úr miðjum degi með lækninn (hafði læknirinn verið upptekinn við holskurð er gerður var á Jakobínu í Ytri Tungu) - en hann hafði raunar ekkert að gjöra eða segja. Sagði að hjartað hefði smátt og smátt verið að gefast upp þar til að síðustu það hætti alveg að starfa.

Með manninum sem fylgdi lækninum inneftir, sendi ég svo skeytið til ykkar því ég gat ekki farið að heiman sjálfur fyrri en daginn eftir, á laugardegi. Það var svo heitt í tíðinni að ég þorði ekki að hafa líkið inni í herberginu þótt ég hefði margtjaldað fyrir dyrnar og haft gluggann opinn. Ég fékk því stofuna frammi hjá systrum til að láta það standa uppi en þær fluttu aftur inn í herbergið. Á laugardegi ætlaði ég að senda skeyti vestur til Jóns, bróður okkar, en það komst ekki fyrr en á sunnudegi.

Laugard.
1. feb.
Þegar ég kom inneftir á laugardaginn kom félagsstjórnin og nokkrir aðrir félagsmenn til mín og óskuðu af mér að mega fá að kosta útförina að öllu leyti en að ég annaðist hana að svo miklu leyti sem ég gæti. Gaf ég það strax eftir fyrir mitt leyti. Voru það Steingrímur sýslumaður og Sigurður Sigfússon og Benedikt Jónsson gamli sem aðallega gengust fyrir og hjálpuðu mér það sem þeir gátu við undirbúning jarðarfararinnar.

Ég reyndi að ná tali af ykkur gegnum símann til að vita ykkar vilja, en það gekk ekki. Þá náði ég tali af Jakobínu í Reykjavík, en það var svo slæmt að heyra til hennar að ég hafði lítið gagn af því - en þó það, að hún væri því samþykk að félagið kostaði jarðarförina og að þið mundum verða það líka og lét ég þar við sitja.

Tíðin hafði alltaf verið svo góð að ég var hræddur við að hún kynni að spillast og þorði því ekki annað en hraða jarðarförinni eftir því sem tök voru á. Enda mátti það ekki tæpara standa. Á fimmtudag eftir (þ. 13. feb.) jarðarförina fór að hríða og síðan hafa verið leiðindaveður, hríðar, renningur og mikil frost.

Fimmtud.
6. feb.

-

Sunnud,
9. feb.

Á fimmtudaginn 6. febrúar átti kistan að vera tilbúin en þá var austan hríð hér úti á nesinu og ofurlítil alda. Ég ætlaði að koma sjóveg út eftir, því svo var snjólítið að ekki var hægt að aka, ekki einu sinni uppi á heiðinni. Ég fór því einn landveg inneftir (Húsav.) á föstudaginn en kistan var þá ekki til fyrri en um kvöldið. Seinnipart dagsins gekk í sunnanvind með hlýindum er stóð alla nóttina og laugardaginn svo það var með öllu óakandi nema á auðu þar sem slétt var. Ég fékk því mótorbát á laugardag til að fara með mig og kistuna. Þó að dálítil norðaustan bára væri vonaði ég að geta einhvers staðar komist á land hér úti á nesinu. En þá bilaði vélin er kom út í Bal.....kr. og komst báturinn upp í Héðinsvík. Þar varð ég að fara í land með kistuna. Fékk ég þar mann með hest og sleða að aka henni út á Kvíslarkamb. Tókst þetta þó autt væri og aurar en þaðan fékk ég svo menn til að bera hana með mér út fjörur að Hringversnámum. Þar fékk ég aðra menn til að bera hana áfram fjörurnar upp Hallbjarnarstaðakamb og heim í Hallbjarnarstaði. Þá var komið myrkur á laugardegi. Um kvöldið fór ég heim.

Á sunnudag var kominn frostkali en gott veður. Var kistan þá sótt á sleða suður í Hallbjarnarstaði og fékk ég Kára til að hjálpa mér til þess og svo að kistuleggja þá um daginn.

Mánud
10. feb.

kistu-
lagning

Ég var búinn að biðja þá á Húsavík að tilkynna gegnum síma um sveitirnar að húskveðjan yrði hér þann 10. en jarðarförin þann 12. og svo átti mótorbátur að koma hingað þegar húskveðjan færi fram og flytja fólk að innan og svo kistuna inneftir aftur um kvöldið. En það var þá sunnan drif inni í flóanum svo báturinn kom ekki og enginn af Húsavík nema presturinn landveg kvöldið áður. Hér var ekki eins hvasst um daginn og alveg bárulaust. Vegna stormsins og hve blautt var að fara kom færra en við bjuggumst við. Um 50 manns voru aðkomandi og ekkert utan sveitar. Sr. Jón hélt húskveðjuna. Vona ég að geta sent ykkur hana seinna ásamt þeim ræðum sem haldnar voru í kirkjunni.

Um kvöldið fóru allir héðan og Sigurbjörg fór landveg á hesti með þeim Finnu og Stjána suður í Tungu því hún treysti sér ekki til að fara sjóveg inneftir ef til þess kæmi.

Þriðjud.
11. feb
Á þriðjudag 11. feb. var komið blæjalogn og bárulaust. Kom mótorbátur þá snemma um morguninn og eins menn úr nágrenninu til að bera kistuna ofan að sjó hér í Furuvík. Gekk allt fljótt og vel og blíðalogn og sólskin á okkur inneftir. Besti og hlýjasti dagurinn sem komið hefur á vetrinum - er mér, held ég, óhætt að segja. Við komum svo snemma inn á Húsavík að tæplega voru allir komnir á fætur þar. Þó komu flöggin í hálfa stöng um leið og við komum inn á víkina og á bryggjunni var fullt af fólki þegar báturinn lagðist þar upp að. Þar tóku á móti kistunni og báru hana til kirkju Steingrímur sýslumaður, Sig. Sigfúss., B. Jónsson (Auðnum), Jónas Sigurðsson, bræður Stefán og Sveinbjörn, Páll Sigurðsson. Í kirkjunni var söngflokkurinn fyrir og söng einn sálm. Kirkjan var tjölduð með svörtu innsti bekkurinn og gráturnar. Kistuna langaði mig til að hafa eins að útliti og kista móður okkar en það var ekki til í kaupstaðnum brons eða gylling. Hún var úr þykkum borðum úr plönkum, máluð hvít með svörtum, lakkeruðum listum og laufum, og tiglum á lokinu. Fjórir kransar voru, allir ljómandi fallegir. Var einn úr Guðjohnsenshúsinu, annar frá ykkur sem K. Blöndal kom með, þriðji frá Keldhverfingum eða Árna í Þórunnarseli. Þessir voru úr útlendu efni en fjórði var héðan af heimilinu, að mestu úr íslensku efni. Bjó Sigíður Metúsalemsdóttir hann til fyrir mig. Fylgdi hann kistunni úteftir og inneftir aftur.
.Miðvikud.
12. feb.

útför

Ég fékk svo að geyma kransana í herbergi uppi á lofti í kirkjunni til vors. Þá langar mig til að koma upp umgjörð með gleri yfir leiðin og hafa þá þar. Á kistunni voru 13 minningarspjöld, gefin til minningar um föður okkar í Blómsveigarsjóð Karlottu Pálsdóttur. Stofnuðu þau Páll og Aðalheiður hann í fyrravetur þegar þau misstu dóttur sína, með 1000 krónum. Hve mikil upphæð það hefur verið sem nú hefur verið gefin, veit ég ekki. Það stóð ekki á spjöldunum. Ég geymi þau hér öll heima. Þau voru frá sýslumannshjónunum, Unni og Sig. Sigf., Guðnýju og Benedikt, Aðalheiði og Páli, Karli í Túnsb. og fjölsk., Guðnýju og Einari trésm., Kristínu Steingr. T'unsb., Maríu í Vallh. og fjölsk., Vilhjálmi Guðm. og fjölsk., Sigríði og Aðalst. Jóhanns., Jósefínu og Sig. Kristjáns., Jóhönnu og Jóhannesi Þorsteins., Þorvaldi á Sandhólum.

Í kirkjunni hélt sr. Jón ræðu, þá Steingrímur sýslumaður, svo Indriði á Fjalli. Sigurður Sigfússon las upp kvæði, ljómandi fallegt frá frændkonu (sem sjálfsagt hefur verið eftir Unni).

Ljóð
Huldu

Hulda var
skáldnafn
frændkonu
Jakobs,
Unnar
Benedikts-
dóttur
Bjarklind
dóttur
Benedikts
á Auðnum.

Á ljósrit
vélritaðs
frumrits
er að
neðan
handskrifað:

Til
Eyrarbakka-
fólksins.

Jakob Hálfdánarson
f. 5. febr. 1836
d. 30. jan. 1919

Um sál þina hugsjónir breiddust sem blóm
og brostu mót komandi degi.
Þú hræddist ei samtíðar harðan dóm
né hindrun á óruddum vegi.
Því framundan skein þér hið skæra blys
sem skuggarnir slökkva eigi.

Þú hélst út í stríðið með hreina lund,
þinn hjör var skýlaus og fagur.
Og söm var þín aðferð alla stund
og æfin einn starfadagur.
Ei fága þarf skugga af skildi þeim
sem skilar þinn æfihagur.

Svo margt var unnið og mikið strítt
að mætti í sögur færa.
Um þína hvílu er þakkarhlýtt,
af því mætti æskan læra:
að hreinasta gullið sem gefst á jörð
er göfgandi trú og æra.

Minn söngur berst skammt, ég sé og veit,
þér sungið mun fegra kvæði
í verkum þínum og þroskaleit
því það eru framtíðargæði.
Þær grundir tala er gafstu mál,
og geyma þitt duft í næði.

  Svo las hann upp skeyti úr Mývatnssveit. Fleiri töluðu ekki eða lásu upp.
Símskeytið
úr
Mývatns-
sveit
Símskeytið úr Mývatnssveit var á þessa leið:

Kveðjuorð til Jakobs Hálfdanarsonar:

Leggja skal blóm yfir legstein þinn,
þú leiddir svo margt í haginn.
Nú kveður Mývatnssveit kjörsoninn
með kærleik og þökk fyrir daginn.

Nokkrir vinir og vandamenn hins látna í Mývatnssveit.

* Kirkjan var full af fólki. Fátt var þó fremur úr sveitunum. Fjórir voru úr Mývatnssveitinni. K. stjórnarnefndar, Þórólfur og Sigurður á Arnarvatni og bræður Benedikt og Jón Kristjánssynir, nokkrir úr Laxárdal og Reykjahverfi, flest úr Reykjadal og Aðaldal og svo af Tjörnesi margt og þó nokkrir úr Kelduhverfi. Í Kinn og Bárðardal er ég hræddur um að tilkynningin hafi komið heldur seint. Líka var blautt og vont að fara, hálfgerður vöxtur í ám.

Það var besta veður um daginn. Dálítil sunnan hlý gola. Veikindi voru líka á Húsavík í nokkrum húsum. Taugaveiki og önnur hitaveiki. Læknir var ekki búinn að gefa upp hvað væri. Ég get ímyndað mér að færri hafi komið úr sveitunum fyrir það.

* Ég hefi nú farið nokkuð nákvæmlega í að skýra frá þessu og vill þá verða sem oftar, að ég skrifa meiri málalengingu en þörf er á og þó getur verið að það gleymist er síst skyldi. Ég skrifa nú um leið Jóni. bróður, og reyni að koma því með fyrstu ferð. Það er rétt komið bréf frá honum skrifað til föður okkar, dagsett í nóvember. Lætur hann bærilega af líðan sinni og fólksins.

Ég var búinn að gleyma því að mér var sagt, að sama daginn sem jarðarförin fór fram á Húsavík var samkoma haldin á Skútustöðum í Mývatnssveit í tilefni af deginum, en ég hefi ekkert frétt af því greinilega.

Ekki hefi ég enn talað við hreppstjóra eða sýslumann að skrifa upp munina en gjöri það sjálfsagt í vor. Ég vona að þið skrifið nú fljótlega aftur ef þetta bréf kemst til skila og þá getið þið látið mig vita hvort þið viljið að eignirnar séu seldar á uppboði. Það eru bara dauðir munir. Skepnum var öllum búið að farga fyrir 1 1/2 ári. Ég hef haldið nákvæman reikning árlega yfir það sem okkur hefur farið á milli svo að það lægi fyrir til sýnis. Svo dettur mér í hug að einhver ykkar reyndi að koma norður til mín í vor og mér þætti vænst um það.

Fimmtud.
27. feb.
1919

Nú er kominn 27. feb.. Ég er rétt búinn að fá bréf og kort frá þér og sömuleiðis bréf Guðleifar að lesa. Þakka ég hjartanlega fyrir það. Ég hefi engan tíma til að skrifa almennar fréttir núna og ekki sál heldur. Var búinn að skrifa Aðalbjörgu í janúar og vona að það sé komið til skila nú. Ég ætla að reyna að koma þessu bréfi með Sterling sem á að koma bráðlega.

Heimilisfólkið biður hjartanlega að heilsa ykkur öllum. Guð veri ávallt með ykkur og varðveiti.

Þinn elsk. bróðir

Hálfdan Jakobsson.

Stutt yfirlit
yfir
æviferil
Hálfdans
samantekið
2011
Stutt yfirlit yfir æviferil Hálfdans samantekið 2011 hjá Menningarmiðstöð Þingeyinga.

Hálfdan Jakobsson frá Mýrarkoti
Tuesday, 09 August 2011 08:48

Vorið 2011 barst Héraðsskjalasafninu bréfasafn Hálfdans Jakobssonar frá Mýrarkoti. Vinna við flokkun og skráningu safnsins er nú lokið og í þessu pdf-skjali má sjá yfirlit yfir bréfasafnið.
http://husmus.is/images/stories/skjol/skjalasafn/halfdan.pdf

Hálfdan fæddist þan 26. maí 1873.
Hann var sonur Jakobs kaupfélagsstjóra Hálfdanarsonar og konu hans Petrínu Kristínu Pétursdóttur.
Áður en hann hóf búskap á Tjörnesi fór hann víða um heim og stundaði allskyns störf, búskap í Manitóba, fiskveiðar í Seattle, gullgröft um fimm ára skeið í Klondyke.

Hálfdan fór vestur árið 1893 og settist að við Manitóbavatn. Gullhugur var mikill hjá ungum mönnum vegna gullfundanna í Klondyke og þegar Hálfdán hitti æskufélaga sinn Sveinbjörn Guðjónsson nýkominn að heiman varð það úr að þeir fóru báðir norður í Klondyke. Þeir voru fimm ár og tóku þar land og fundu nokkurt gull en auðugir menn urðu þeir ekki nema hvað þeir urðu reynslunni rikari, því hvergi sagðist Hálfdán hafa kynnzt jafn taumlausri ágirnd og óvægi við aðra þar sem allir ætluðu að verða ríkir á augabragði og hvað sem það kostaði. Heim til Íslands kom Hálfdán aftur haustið 1903 eftir 10 ára ævintýraríkt "heims-flakk" eins og hann kallaði það sjálfur.

Eftir heimkomuna stóð hann fyrir brennisteinsnámi á Þeistareykjum fyrir Englending, Black að nafni, sem þá hafði námurnar á leigu. Hann ferðaðist líka mikið með útlendingum um landið þessi ár og lenti oft í erfiðum ferðum sem bæði þurfti karlmennsku og áræði til að komast í gegn um.

Árið 1905 keypti hann jörðina Héðinshöfða við Húsavík, og bjó þar í fimm ár, þá seldi hann jörðina en keypti Mýrarkot á Tjörnesi nokkru seinna og bjó þar til dauðadags.

Hálfdan Jakobsson lést þann 22.september 1955, áttatíu og tveggja ára að aldri.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir * Jakobsvefur