Forsíða
Tengibrautin
MK-miðstöðin
Fjar - torgið


GÓP: Fáein orð um fjarkennslu og fjarnám

Þórunn Óskarsdóttir kenndi á námskeiði fyrir kennara þar sem fjallað var um fjarnám og fjarkennslu. Námskeiðið var haldið á vegum Endurmenntunarstofnunar HÍ haustið 1999. Þórunn óskaði eftir að þeir sem námskeiðið sóttu tækju saman fáein orð um fjarkennslu og fjarnám. Ég var einn þeirra kennara sem sóttu þetta námskeið og þess vegna varð þessi samantekt til.

Sífellt lifir sú von að texti batni með aldri - ...

Þórunn hefur vakið athygli á merkri rannsókn Kling og Hara og útdrætti úr henni í New York Times. Sú rannsókn sýnir að ekki er allur glassúrinn með sama sætabragðinu og þess vegna er hún mjög nytsöm athugun á ýmsum vítum og getur nýst vel til varnaðar!

Skilgreining Fjarnám má skilgreina þannig að það fari fram þegar nemandinn vinnur námsstarf sitt fjarri kennara. Undir það getur heyrt nám sem stundað er algjörlega á eigin spýtur þannig að kennara eða leiðbeinanda er aldrei ætlað að sjá eða yfirfara úrlausnarefni. Það sem tengist þessu námskeiði er þó fjarnám af þeirri tegund að nemandinn hefur samband við kennara með tilteknum hætti og að náminu loknu er árangur hans metinn. Fjarkennsla er starf kennarans í slíku sambandi við nemanda í fjarnámi. Til þess að einfalda orðfæri verður hér eftir notað orðið fjarkennsla um þetta samband og rætt um kennara og nemanda í fjarkennslu þótt nákvæmara sé auðvitað að tiltaka að nemandinn sé í fjarnámi.
Tæki til fjarkennslu Tæki til fjarkennslu geta meðal annars verið bækur, myndbönd, hljóðsnældur, boð og póstur en í samhengi við þetta námskeið er einkum um að ræða tölvur og tengingu um netið. Til stuðnings er sími innan seilingar og ennfremur er sums staðar unnt að grípa til myndbúnaðar.
Hvað er nám? Hér er ekki rúm fyrir ítarlega úttekt á þessu efni en vegna þess að nauðsynlegt er að íhuga hvort fjarkennsla hefur tekist kemur fljótt til þess að taka þarf ákvörðun um hvort nemandinn hefur lokið námi sínu á fullnægjandi hátt. Vissulega losar kennarastéttin sig frá þessari spurningu með því að tilgreina tiltekin námsmarkmið í viðkomandi viðfangsefni eða fræðigrein og telja síðan hversu mörg stig nemandinn hefur haft rétt. Með því er reiknuð einkunn og eftir að hún hefur verið skoðuð kemst kennarinn að niðurstöðu um það hvort nemandinn hefur numið
Að ljúka námi á fullnægjandi hátt Það er ekki ætlun mín að raska ró okkar, geitunganna, sem hér höldum vandlega svefni okkar, þótt ég tiltaki lítið dæmi.
Það er um unga stúlku sem ég nefni Siggu til að hún þekki sig ekki. Hún fæddist í sveitinni og var dálítið einræn. Foreldrar hennar voru henni stoð og settu upp öflugt tölvuver sem hún fékkst til að nýta dálítið en hún taldi sig ekki færa um slíkt. Sú vantrú hennar á sjálfri sér átti ekki við rök að styðjast. Þegar hún hafði lokið skyldunámi og dvalið heima um stund lét hún til leiðast fyrir hvatningu foreldra sinna að fara í fjarnám í stærðfræði við framhaldsskóla. Henni óx þetta mjög í augum þótt hún yrði alltaf fyrir þeirri furðu að fá aðeins skiljanleg verkefni og auðleyst dæmi og ljúka náminu með hæstu einkunn.
Ég var kennarinn hennar. Ég varð aldrei var við að hún ætti í erfiðleikum og taldi að hún hefði skráð sig til náms undir getu. Að náminu loknu hætti hún og fékkst ekki í frekara nám. Síðar kom í ljós að hún taldi að verkefnin hefðu verið sérstaklega létt og jafnvel sérstaklega löguð fyrir sig, þau hefðu átt að vera miklu þyngri, hún hefði átt að eiga í óyfirstíganlegum erfiðleikum með þau. Hún taldi sig því ekki eiga neina raunhæfa möguleika til að takast á við meira nám og hún vildi alls ekki valda foreldrum sínum sorg með því að standa sig ekki.
Nú er spurningin þessi: lauk hún stærðfræðináminu í fjarkennslunni með fullnægjandi hætti?
Vinsamlegast hafið þessa spurn í huga þegar þetta orðatiltæki er viðhaft í þessari samantekt.
Er fjarnám nytsamt?

Vísað er í samantekt á
vef háskólans á Prins
Edward eyju í Cal.
sem þar er dregin út
úr efni frá University
of Idaho

Eðlilegt er að spyrja þessarar spurningar og velta fyrir sér hvort gagn sé að fjarnámi og hvort það uppfylli hliðstæðar væntingar til náms og framfara og hefðbundið skólanám þar sem unnið er með sömu viðfangsefni.

Fjarkennsla er ekki ný af nálinni og verulegar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á ýmsum þáttum hennar. Ég notfæri mér vísun fjarkennara okkar á þessu námskeiði, Þórunnar Óskarsdóttur, í vef háskólans á Prins Edward eyju í Californíu og sæki nokkrar niðurstöður og umsagnir í samantekt sem segist vera Some material extracted from "Distance Education at a Glance" developed by University of Idaho, Engineering Outreach staff.

Neðan við stytta endursögnina er vísun til baka í þann vef.

Þegar allt er við hæfi Rannsóknir fyrir tæpum áratug báru saman árangur nemenda í fjarkennslu og nærkennslu. Þar kom í ljós að fjarkennsla gat verið jafn áhrifarík þegar aðferðir og tæki hæfðu viðfangsefninu, nemendurnir höfðu innbyrðis tengsl og nemendur fengu reglubundnið ans frá kennara. (Moore & Thompson, 1990; Verduin & Clark, 1991). Á vefnum þróast hlutir mjög hratt og þau tæki sem nú eru tiltæk til samskipta og sýninga á vefnum voru mörg hver ekki tiltæk þegar þessi rannsókn var gerð. Það kann því vel að vera að þegar þessar línur eru ritaðar árið 1999 geti fjarkennsla sinnt fleiri námssviðum á fullnægjandi hátt heldur en árið 1990.
Mikilvægar spurningar Hvenær og hvar er heppilegt að viðhafa fjarkennslu? Rannsóknir (sem vitnað er til í samantektinni og voru gerðar á árunum frá 1987 til 1994) leitast við að svara þessum spurningum með því að skoða eftirtalin fimm atriði:

  • Er tölvuvædd fjarkennsla eins árangursrík og nærkennsla?
  • Hvaða þætti þarf til að mynda heppilegustu og áhrifaríkustu umgjörð um tiltekna fjarkennslu?
  • Hvað einkennir afkastagóðan fjarnemanda? Hvað einkennir góðan fjarkennara?
  • Hversu mikilvæg eru samskiptin milli nemanda og kennara og milli nemenda innbyrðis - og hvernig er best að haga þeim samskiptum?
  • Hvað kostar fjarkennslan og hvaða hagur er af henni?
Fjarkennsla eða
nærkennsla?
Rannsóknir sýna að litlu skiptir hvers konar tæki og tækni er í notkun svo lengi sem unnt er að skila lausnum á viðunandi hátt og allir þátttakendur hafa aðgang að samsvarandi tækni. Ennfremur sýndi sig að fjarnemendur stóðu sig ívið betur á sams konar prófum heldur en nærnemendur. Hefðbundin kennsla þótti skýrari og betur skipulögð en fjarkennsla og þegar fjarkennarar náðu tökum á skipulagningu og eftirfylgni í fjarkennslunni batnaði nærkennsla þeirra yfirleitt.
Hverjir eru góðir
fjarnemendur?
Yfirleitt er það svo að fjarnemendur leita sjálfir eftir því að komast í námið. Oft er um að ræða einstaklinga sem hafa aflað sér tiltekins grunnnáms og hyggja á framhaldsnám eftir hefðbundnum leiðum í gegnum fjarnám. Margir eru því afar námsfúsir og hafa nauðsynlegan sjálfsaga - og - eru eldri.

Svo virðist einnig sem nokkrir þættir í fari og umhverfi nemenda séu mikilvægir til að hjálpa þeim gegnum nám. Þar á meðal er viljinn og frumkvæðið til að bera sig eftir aðstoð kennara og það að líta til hagnýtingar námsefnisins en ekki einungis að sleppa í gegnum próf. Einnig styður það tileinkun námsefnisins ef nemandinn starfar á sviði sem tengir námsframganginn beinlínis við starfsframa. Þeim nemendum sem hafa lokið tilteknum námsáföngum og skrá sig í fjarnám til að afla sér viðbótarnáms gengur yfirleitt vel í náminu.

Hverjir eru góðir
fjarkennarar?
Góð fjarkennsla er í grunnatriðum eins og góð nærkennsla og hugsanlegt er að það sem gerir kennslu góða sé með einhverjum hætti algilt í kennslusamhengi.

Fjarkennsla krefst hins vegar mikillar skipulagningar og undirbúnings umfram aðra kennslu og því þurfa fjarkennarar að hafa eftirtalin atriði sérstaklega í huga til að bæta fjarkennslu sína:

  • Fjarnemendur meta mikils þá kennara sem eru vel undirbúnir og hafa gott skipulag, gera vel grein fyrir því sem ætlast er til, skýra og sýna með myndrænum hætti og nota tæki og tól sem hæfa viðfangsefninu og nemandanum.
  • Einnig er mikilvægt að kennarinn kunni að nota þá tækni sem hann þarf að nýta í samskiptum sínum við nemandann. Kennarinn þarf að vera í essinu sínu í tækjaflórunni, horfa beint í myndatökuvélina, endurtaka spurningar - og hafa kímnigáfu.
Samskipti? Margur fjarnemandi þarf stuðning og leiðbeiningu til að nýta fjarkennsluna til fulls. Þessi stuðningur fæst með blöndu af samskiptum milli hans og kennarans og milli hans og annara fjarnemenda.

Fjarkennarar þurfa að vera þess minnugir

  • að fjarnemendur leggja mikið upp úr því að fá í tæka tíð að vita um hvað eina sem til stendur svo sem verkefni, ritgerðir, æfingar og próf.
  • Fjarnemendur græða á því að vera í litlum námshópum. Þannig fá þeir gagnkvæman stuðning og tilfinningu fyrir því að eiga hjálp vísa ef á þarf að halda. Það er þeim frekari hvatning til námsins ef þeir eru í títt í sambandi við kennarann.
  • Fjarnemendum líkar betur við námið ef þeir geta náð til einhvers hjálparmanns á skóla-stofnuninni sem getur verið þeim hjálplegur með tól og tæki og þekkir til viðfangsefnis fjarkennslunnar.
Debet og Kredit Það er ljóst að fjarkennsla kostar. Það þarf að kaupa þá tækni og þann tækjabúnað sem nauðsynlegur er og þessu þarf að halda við svo að það sé alltaf í góðu lagi. Það þarf að ráða tæknimenn til að láta tækin ganga og starfsfólk til að útbúa kennsluefni og laga það að fjarkennslunni. Það þarf að halda utan um fjarnám eins og nærnám, stjórna því, skrá það, liðsinna fjarnemendum og sinna útskriftum og eftirþjónustu við þá eins og nærnemendur.

Það má ekki gleyma því að þótt þetta kosti allt sitt þá kostar líka mjög mikið að reisa hús og hafa búnað til að hýsa fjarnemendur sem nærnemendur ef sá kostur er frekar valinn. Það er líka fleira sem reiknast til tekna við fjarkennslu. Það er til dæmis ekki annar kostur betri til að mennta fólk á afskekktum stöðum. Fjarnemendur geta lokið námi sínu án þess að hætta í vinnu sinni - og fjarnemendur geta notið handleiðslu færustu sérfræðinga á því sviði sem þeir nema.

Úr samantekt á
vef háskólans á Prins
Edwars eyju í Calif.
Some material extracted from "Distance Education at a Glance" developed by University of Idaho, Engineering Outreach staff. Return to "What Is Distance Learning?"
Að lokum Það er ekki ætlunin að gera efni þessu nein endanleg skil enda er hér aðeins blaðað í fjölskrúðugu heimildasafni. Fyrir þá sem hyggja á fjarkennslu er hér vísað á afar nytsama samantekt Hauks Ágústssonar sem hefur ritað um skipulagt fjarnám í föstum tengslum. Samantektin er á VMA-vefnum og heitir Fjarkennsla/fjarnám - Aðferðir og hugmyndir. Þar tekur hann ítarlega á flestum þessara atriða og rekur hvernig þau eru skilgreind og framkvæmd í fjarkennslu hjá VMA. 
Hversu ráðandi er
tækið?

Hvað er það sem tækið
skilgreinir?
Hvað er það
sem þess vegna
skilar sér?
ekki?

Að síðustu er ekki unnt að víkja sér undan því að velta fyrir sér hversu ráðandi sjálf fjarkennslutæknin er um þau markmið kennslunnar sem unnt er að ná fram. Með öðrum orðum: hversu meðalið helgar markmiðið.

Það er alkunna að örðugt er drottnandi yfirgangssegg að kenna mikilvægi lýðræðis eða jafnræðis því fas hans segir þar annað en orðin. Þar er kennarinn tækið eða meðalið og sá árangur sem næst af kennslunni litast af meðalinu. Telji nemandinn sig eitthvað þekkja til lýðræðis og jafnréttis eftir kennsluna og vetrarvistina með meðalinu er hætt við að það verði ekki sama innihald í hans hugtaki og annars sem hafði annað meðal. Myndbandsspólu tekst ekki að koma fingrum á öxl nemandans og í stafkrókum skilaboða sjást ekki glettniviprur í augum kennarans. Rör flytja vatn - og hvaðeina .... sem rör geta flutt. Þannig skilgreina rör það sem rör geta flutt.

Spurningin verður því þessi: að hve miklu leyti skilgreinir fjarkennslubúnaður það sem hann getur gert skil og hvað er það sem óhjákvæmilega kemst ekki til skila? Þegar því hefur verið velt upp kemur spurningin: eru það mikilvægir þættir sem fara forgörðum?
Vísbending

Hefur fjarkennslan
mörk?

Þetta er í raun vísbending um áhugavert - og ef til vill mikilvægt - rannsóknarefni.

Ef hugsað er til þess innihalds sem menn vilja hafa í hinu fullnægjandi námi má draga fram þætti sem æskilegt teldist að sinna og hlú að í fari nemandans. Í fljótu bragði sýnist sem sumt geti hlotið betri umfjöllun í fjarkennslu en annað síðri. Það er til dæmis hvergi tækifæri til eineltis í fjarkennslu - nema kennarinn leggi nemanda í einelti. Það er hins vegar síðri möguleiki fyrir kennara að skynja sérstaka þörf nemanda fyrir hlýlegan stuðning og styrkingu - og koma slíku til skila á heppilegan og oft óvart máta. Það er líka örðugt að sjá nokkrar frægar kennsluaðferðir notaðar í fjarkennslu svo sem ýmsar leitaraðferðir og einstaklingsbundnar tilraunir.

Yfirleitt getur maður - að minsta kosti í fljótu bragði - hallast að því að fjarkennsla sé þeim mun heppilegri sem ætlunin sé að steypa fleiri í sama mót.

Sérhæft nám virðist fjarkennanlegast. Það virðist upplagt að beita fjarkennslu í greinum þar sem menn hafa komið sér saman um markmiðssetningu og orðað hana skýrt, skilgreint undirmarkmið og gert námið í raun tæknilegt í smáatriðum og að lokum vel metanlegt.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Tengibrautin * MK-miðstöðin * Fjar - torgið