GÓP

Forsíða


Kennsla? Kennari? Skóli?

Nokkrar hliðar á kennslu kennara í skóla.
Samantekt þessi er upphafin haustið 1999 og til hennar dregið úr mörgum reynslusjóði. Þar kemur bæði til eigin reynsla ritara og ýmissa viðmælenda sem ekki er sérstaklega getið. Einnig eru skoðaðar bækur sem fjalla um þessi efni og skyld efni en að þessu sinni er einungis getið sérstaklega um bók þeirra Marsh&Willis.

Kennari Hvernig kennari er ég?

Margur spyr sig þessarar spurningar. Ekkert einfalt svar er til og einkunnir eins og góður, lélegur, ómögulegur segja yfirleitt aðeins lítinn hluta sögunnar. Allir kennarar reyna alltaf að gera sitt besta - og þeir starfa alltaf samtímis á fjölmörgum sviðum. Þeir eru að miðla tilteknu efni, ráða fram úr óvæntum aðstæðum, kenna nemendum að ráða við aðstæður prófsins, þar sem þeir fá engu ráðið en verða að semja sig algjörlega að því sem fyrir þá er lagt og einnig eru þeir með bæði augun opin fyrir því að þessa nemendur sína eiga þeir eftir að hitta á förnum vegi innan fárra ára með maka og börn, í félagslífi, sem samstarfsmenn og sem samherja eða mótherja í stjórnmálum og í sameiningu munu þeir sitja í því verkefni að finna lausn á samfélagsviðfangsefnum til hagsbóta fyrir alla. Þannig gerir kennarinn sér grein fyrir mikilvægi þess að nemandinn þroskist, sjálfsvirðing hans aukist, sjálfsagi hans verði að sérstöku afli hans og hann verði nýtur þegn í lýðræðisþjóðfélagi.

Þegar spurt er hvernig kennari er ég? er því eðlilegt að leita svara á sem flestum víddum. Að þessu sinni er leikurinn fólginn í því að þú forvitnast um hversu lýðræðislegur þú ert í vinnubrögðum þínum. Gættu þess þó að hér er ekki um neinn Stóradóm að ræða - síður en svo! Hins vegar ætti skoðun þín á leiknum að geta vakið umhugsun - og ef til vill sendirðu mér skeyti með athugasemdum. Satt best að segja á svona vefsíða erfitt með að verða gagnleg nema til baka komi athugasemdir sem unnt er að vinna úr til að betrumbæta hana. Sem sagt:

Kennsla

er það sem
kennari
gerir







Stuttar
skilgrein-
ingar:

Hvað gerir kennari?

Kannski gamla spaugið sé bara réttast? >

Þeir gera sem geta, - hinir verða kennarar !


Er kennarastarfið það sama og kennslustarfið? Það er að minnsta kosti ljóst að þetta tvennt verður ekki sundur greint. Hvað er það sem kennari ber með sér til starfsins? Hvað fylgir því að vera kennari? Hvað er það sem einkennir kennarann? Hvað er það sem kennari þarf að vera, geta og gera?

Hér er ein stutt skilgreining:

Kennari liðsinnir nemendum og auðveldar þeim að nema.
Margir kennarar kæra sig ekki um að orðlengja þetta frekar - einkum þegar þeir ræða við aðra en kennara. Þetta er líka sú skilgreining sem er munntöm þeim sem ekki eru kennarar. Allir hafa lært að lesa meira og minna fyrir tilstilli ömmu og mömmu og finnst því kennarastarfið ekki tiltökumál.

Hvert er
starf
kennara?
Lengri skilgreining

Hér er ein skilgreining sem er heldur lengri: Kennari:

  • er sérstaklega menntaður í sinni kennslugrein og fylgist sífellt með framvindu hennar
  • er sérstaklega menntaður í því að kenna og fylgist sífellt með nýjungum í því efni
  • er kunnugur venslum sinnar kennslugreinar og annarra fræðigreina og fylgist sífellt með umfjöllun á því sviði
  • þekkir framþróun og breytingar innan sinnar kennslugreinar, bæði innan síns kennslusviðs og til allra átta innan greinarinnar og í tengingum hennar við aðrar greinar
  • er sífellt að hugleiða þær breytingar á efnisvali og framsetningu sem þjóna fræðigreininni best
  • er sífellt að hugleiða hvernig skynsamlegt sé að þróa kennslu innan sinnar fræðigreinar bæði í sinni eigin knenslu og í kennslu allra nemenda - bæði í þessum skóla og í öðrum skólum í samvinnu við þá kennara sem þar starfa
  • hefur ætíð varann á þegar minnstu teikn eru uppi um að almenn fræði og hans sérgrein sérstaklega séu afflutt á almannafæri eða gildi þeirra rýrt og hefur upp fræðilegan og alþýðlega skiljanlegan málflutning til leiðréttingar
  • er sífellt að semja við þá sem vilja koma öðrum fræðigreinum eða öðrum sjónarmiðum að á kostnað efnis og tíma þeirrar fræðigreinar sem hann sinnir
  • er sífellt að leggja niður fyrir sér hvernig hann hyggst miðla efninu í næstu lotu og í næstu kennslustund
  • er sífellt að endurskoða í hug sér þær kennsluaðferðir sem hann hefur notað og sérstaklega þær sem hann hefur notað til að miðla þeim efnisþætti sem verður viðfangsefni næsta kennslutíma
  • endurskoðar í hug sér hugsanlega framvindu miðað við ýmsar breytingar á framgangsmáta sem honum koma í hug og hann veit að munu geta orðið honum innan seilingar í kennslustundinni
  • leggur línurnar þannig að umdeild atriði fræðigreinarinnar veki ekki andúðarbylgjur með nemendum og með aðstandendum þeirra
  • leggur línurnar þannig að námsefni sem hann er neyddur til að miðla en telur þó óverjandi að setja fram sem sína eigin sannfæringu geti að hans mati orðið nemendum þrátt fyrir allt til aukins þroska
  • endurskapar sífellt í hug sér kringumstæður kennsluvettvangsins og er því á andartaki reiðubúinn að grípa hvert færi til að snúa óvæntum viðburðum og athugasemdum til framdráttar markmiðum kennslunnar
  • er sífellt að meta hvaða aðgerðir séu viðeigandi, hvaða gögn sé heppilegt að nota, hvaða frammistaða nemenda beri nægilegri kunnáttu vitni, hvað þurfi að gera til að fylgja málum eftir svo námsárangur verði viðunandi,
  • í kennslustundinni er hann sífellt að meta og taka ákvarðanir á augnablikinu vegna viðbragða nemenda, um efnisatriði sem skyndilega er ljóst að verður að umorða eða skýra með öðrum hætti, veita athygli árangri kennsluaðferðarinnar og taka ákvörðun um hvað sé betra að gera í næsta skipti og hverju megi sleppa af því sem nú var notað, hvaða hlutar námsefnisins eru að úreldast og hverjar eru þær nýjungar sem banka á dyr, hvernig færa þarf áherslur til að undirbúa endurskipulagningu námsefnis áfangans.
  • undirbýr nemendur sína undir próf og þær einskorðuðu kringumstæður sem þar verður að hlíta
  • umgengst nemendur sína eins og hann vildi að hans kennarar hefðu umgengist hann þegar hann var í skóla
  • sér í hverjum nemanda uppvaxandi og merkan þjóðfélagsþegn
  • sem hann mun þurfa að starfa með innan skólans eða/og í félagslífi og stjórnmálalífi samfélagsins
  • í miðri framkvæmd undirbúnings síns og innan og utan kennslustofunnar og í miðri kennslu sinni fær hann fjölmörg úrlausnarefni sem eru allt í senn: alls óvænt, utan námsefnis, allt annars eðlis en honum gat til hugar komið - og þola alls enga bið.

Efst á þessa síðu * Forsíða