Forsíða


Frágangur kennslugagna

Skipta kennslugögnin máli?
- Já.
- Hvernig þá?

Vitnað til Marsh og Willis

Kennslugögn
til nemenda
Kennslugögn sem kennari leggur fyrir nemendur eru hluti af samræðu hans við nemendur. Kennarinn gjörþekkir gögnin og sér strax hversu vel hver nemandi nær tökum á verkefnum. Sífellt þarf að betrumbæta kennslugögn og kennarinn byrjar á því verki tafarlaust í tímanum með því að finna þröskuldana og styðja nemendurna yfir þá. Næst þegar hann notar gögnin hefur hann bryett þeim til betri vegar. Kennslugögn af þessari gerð eru ekki umtalsvert áhyggjuefni því þróun þeirra er hluti af sérfræði kennarans.
Kennslugögn
til kennara
Fyrir kemur að þegar sérfræðingasveit hefur stýrt námskrárbreytingu og samið námsefni þá þyki ekki hægt annað en láta ítarlegar leiðbeiningar fylgja með til kennarans sem á að leggja efnið fyrir bekkinn. Þegar svo ber við bendir það gjarnan til þess að áætlað hafi verið að kennslan yrði framkvæmd með nokkuð sérstökum hætti. Hætta er á að námsefni sem þarfnast sérstakra útskýringa til kennarans dagi að nokkru eða miklu leyti uppi nema breytingin og hin nýstárlega framsetning nái að verða almannaeign innan þess kennaraliðs sem annast kennsluna, - þ.e. að kennararnir hætti að þurfa að rýna í leiðbeiningarnar. Ef þessi fyrirsagða kennsluaðferð hins vegar nær ekki að ávinna sér tiltrú kennara verður kennslan að dauðum bókstaf og efnið kemst ekki í hóp þeirra kennsluefna sem kennarinn heldur utan um í sífellu.
Lítið stórt
dæmi
Glöggt íslenskt dæmi um slíka námskrárbreytingu er þegar mengjakennslan var tekin upp í grunnskólanum 1966-7. Kennararnir hófu kennsluna að hausti - eftir fyrsta námskeiðið af allmörgum sem stóðu allt skólaárið. Áætlunin var sú að þeir skyldu vera skrefi á undan kennsluframvindunni hjá þeim sjálfum í skólanum. Þannig var þeim séð fyrir ítarlegum leiðbeiningum - sem raunar gengu mest út á að kenna þeim sjálft námsefnið - en ekki endilega að miðla því.

Efst á þessa síðu