GÓP-fréttirGÓP-vísur af ýmsum toga
 

Sjá einnig

8. okt. 2012
Sturla Þengilsson

Hafa allir Íslendingar
rétt til að njóta íslenskrar náttúru?

Þessari spurningu í fyrirsögninni finnst líklega flestum auðvelt að svara og langflestir svara henni játandi. Þó liggur það fyrir að misauðvelt getur verið fyrir fólk að njóta náttúru Íslands allt eftir hæfni hvers og eins til að komast á torsótta eða fjarlæga staði á landinu. Ég hef lengi dáðst að því þegar ég sé fólk ganga um landið með allan sinn búnað á bakinu og um leið og þeir stuðla að því að halda líkama og sál í góðu formi þá njóta þeir náttúrunnar á þann hátt sem þeim finnst skemmtilegt.

Því miður hef ég ekki getað skipað mér í raðir með þessu fólki – ekki vegna þess að ég hafi ekki viljað eða nennt því heldur einfaldlega vegna þess að fimm ára gamall fékk ég lömunarveiki í faraldri sem gekk þá á landinu. Mín sýn á náttúruperlur Íslands hefur því ekki verið á forsendum afburða göngufólks heldur hef ég löngum haft til umráða jeppabifreiðar til að komast þær leiðir sem bjóðast fyrir slík farartæki og vissulega eru þær margar og einhverjar þeirra á ég eftir að fara. Ég mun hins vegar verða að láta mér nægja að hafa séð ýmsa falllega staði einungis á myndformi eins og t.d. marga staði á Vestfjörðum norðan Ísafjarðardjúps þar sem vinsælar gönguleiðir eru og göngufólk fer mikið um.

Þannig háttar einfaldlega til á landinu að ekki verður komist á nema örfáa staði nema hafa til þess fullfrískan líkama og getað ferðast gangandi með viðeigandi kost meðferðis. Engum dettur í hug að leggja túristavegi um Jökulfirðina eða upp á Esjuna og um það er hljóðlát sátt meðal íbúa landsins þó svo líklega helmingur þjóðarinnar eigi þess ekki kost að komast á þessa staði vegna vöntunar á líkamlegu atgervi, aldurs, bæklunar eða af öðrum orsökum.

Lengi hafði ég ætlað mér að fara Vonarskarð og loks varð af því síðasta haustið áður en því var lokað fyrir bílaumferð. Þetta var aldeilis ógleymanleg ferð í góðu veðri og í góðra vina hópi og svona ferðir vill maður gjarna endurtaka síðar. En nei – nú skal þetta svæði verða tekið frá fyrir einungis hluta Íslendinga eða þau langt innan við 10% sem stunda lengri gönguferðir. Forkólfar þessa hóps hafa uppi eftirfarandi áróður eða ígildi áróðurs – þeir segja beint og óbeint m.a. þetta:

  • Enga hreyfihamlaða í Vonarskarði
  • Engin gamalmenni í Vonarskarði
  • Ekkert feitt fólk í Vonarskarði
  • Enga anorexíusjúklinga í Vonarskarði
  • Enga lungnasjúklinga í Vonarskarði
  • Vonarskarð er bara fyrir okkur - „heilbrigða“ fólkið - þótt svo allir hinir hafi haft aðgang í tugi ára.

Minnir þetta okkur nokkuð á landhreinsanir frá fyrri tíð og allt fram á okkar daga? Held ég verði alla vega að draga þá ályktun að það sé verið að hreinsa land og þá væntanlega af einhverri óværu.

Nú mun einhverjum finnast sterkt að orði kveðið að líkja Vonarskarðsakstursbanni við landhreinsanir eins og við þekkjum þær verstar en ég get bara sagt við þá sem það finnst að þannig upplifi ég þessar aðgerðir og svei þeim sem fyrir þessu standa og einnig þeim sem mæla því bót.

Reykjavík, 8. október 2012.

22. sept 2010 - Jarðarför Ferðafrelsis í Vonarskarði laugardaginn 2. október kl. 13 til 14:30.

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðar leggur að VG-umhverfisráðherranum að samþykkja umferðarbann á Íslendinga. Vinir íslenskra öræfa harma það sem í stefnir og boða til jarðarfarar í Vonarskarði.

Ég styð hvað sem gert er til höfuðs lokunarhugmyndum á ferðafrelsi íslensks almennings. Mér finnst jarðarfarar-viðbrögð þó vera of mikið í anda íslenskra fiskimanna sem klöppuðu fyrir kvótagjöfum til skipaeigenda um leið og réttur þeirra til eigin fiskveiða fjaraði undan þeim.

Nú eru 2,5 prósent landsmanna sannkallaðir innrásarvíkingar og hafa læst klónum svo í stýrimenn þjóðarinnar að jafnvel VG lætur hafa sig í að gangast fyrir stærsta þjófnaði Íslandssögunnar hvort sem litið er til baka eða fram á leið. Þeir sem vita hvað er í húfi mundu aldrei selja rétt sinn til ferða um fjöllin fyrir baunadisk. Sá réttur yrði þeim metinn til stórra fjárhæða.

Hér er verið að ræða um frumburðarrétt sem verið er að taka af öllum lifandi og óbornum Íslendingum.

Einungis örfá prósent landsmanna munu nokkru sinni vera líkamlega fær um gönguferðir um þessi svæði - sem eru svo yndislega vel fær almenningi í bifreið. Þessi fáu prósent landsmanna verða auk þess að hafa ólympiska þráhyggju í þjálfun og viðhaldi hennar.

Hin uppþjálfaða geta mun að sjálfsögðu eldast af þeim eins og öðrum og þá eru þeir komnir í hóp okkar hinna - B-fólksins sem er yfir 90 prósent landsmanna og er bannað að fara um Vonarskarð af því að það kanna að heyrast í okkur - eða sjást til okkar - sem A-fólkinu finnst enn verra.

Jarðarfararviðbrögð bera uppgjöfina í sér.

Verst hversu lögfræðingar eru yfirleitt lítilla sanda og lítilla sæva - eða er kannski einhver í þeirra röðum sem hugsar um annað en að bjóða sig fram til að verja velborgandi útrásarvíkinga?

21. júní 2010 - Mótmæli við yfirgangi stjórnarmanna Vatnajökulsþjóðgarðs

Mótmæli við lokunaraðgerðir
stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2010

Í maí 2010 sendi stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs frá sér drög að framtíðaráætlunum um þróun þjóðgarðsins undir heitinu: Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.
- þau sækirðu hér >>
http://www.gopfrettir.net/skrar/vj_sv_planMai2010.pdf
Frestur var gefinn til 24. júní 2010 fyrir athugasemdir við þá áætlun.
Margt kom þar fjallkæru fólki furðulega fyrir sjónir en athugasemdir GÓP voru við tillögum þjóðgarðsstjórnarinnar um lokanir ferðamannaleiða á Jökulheimasvæðinu.

Athugasemdirnar í sinni upprunalegu mynd - þessa samantekt -
má sækja hér á pdf-formi >> http://www.gopfrettir.net/skrar/GOP_AthsVidVjplan.pdf

Í september barst öllum þeim sem inn sendu athugasemdir sama staðlaða svarið þar sem athugasemdunum var í engu skeytt.
Þú sækir það hér á pdf-formi >> http://www.gopfrettir.net/skrar/vj_sv_svor_vid_aths.pdf

Athugasemdirnar sérðu hér á vefnum.

18. júní 2010  - Þjóðgarðar - fyrir hvern?

Mér koma í hug tvær eldri konur með gömlum og lasburða manni sem ég heyrði og horfði á ræða við vörð í þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli fyrir mörgum árum. Þær fóru fram á að fá að aka upp að Bölta. Gamla manninn langaði svo mjög að komast upp að bænum og endurnýja gömul kynni sín af staðnum. Nei - sagði vörðurinn. Það kom ekki til greina.

Ég vissi þó af eigin raun að uppi við Bölta voru bílar og að vegurinn var í albesta lagi. Þetta var svo sannarlega ekki þjónustumiðstöð fyrir fólk - að minnsta kosti ekki eldri borgara.

Það sama sjáum við víða til fjalla þar sem geðþótti hefir lokað gróðurlausum sandaleiðum til þess eins að neyða fólk til að ganga. Þangað skuli sko enginn eiga erindi nema hann sé góður til gangs.

Hefurðu komið í Öskju? Já - þar ríkir sú geðþóttaákvörðun að öllu fólki er gert að ganga langa sandaleið.

Hefurðu ekið Vonarskarð? Bílferð um það er ógleymanleg upplifun!! Já - þjóðgarðsstjórnin vill loka því fyrir bílaumferð!!

 

17. júní 2010 - Til varnar umferðarrétti almennings:

Félög og landssamtök
eldri borgara,
öryrkja,
fatlaðra,
langveikra
og annarra sem eiga óhægt um vik til ferðalaga nema í bíl -

dragið upp gunnfána til varnar ferðafrelsi félagsmanna ykkar!

Mér kemur í hug samferðarmaður minn í Jökulheimaferð árið 1965 sem var lamaður neðan mittis og hafði verið frá barnsaldri. Ákveðni vann bug á ótrú hans um að hann gæti komist í svona ferð vegna fötlunar sinnar. Allt gekk upp og upplifun hans varð sem himnasending og skaut iðulega upp í samtölum hans og tónlistarsköpun til dauðadags. 

Mér kemur í hug aldraður ferðafélagi minn sem féll frá fyrir skömmu. Enn hef ég ekki hitt Íslending sem víðar hefur farið innanlands og utan. Gönguþrek hans var yfir efstu mörkum og í óveðrum skemmti hann sér. Þegar við kynntumst var hann liðlega áttræður og orðinn ógangfær eftir tvö áföll. Alla æfi hafði hugur hans verið til fjalla en nú gat líkaminn ekki lengur drýgt fyrri dáðir. Síðasta áratuginn sem hann lifði var hann oft farþegi í ferðum okkar á heimilisjeppum um sveitir landsins og fjöll og firnindi. Þetta var eini ferðamátinn sem dugði honum, ferðamáti sem gaf honum svo sannarlega framhaldslíf. Hann var lánsamur að falla frá áður en unglingar landsins náðu því tröllataki á stjórnkerfinu sem nú virðist ætla að duga þeim til að ræna eldri borgara réttinum til að fara um landið og njóta þess.

Samtök eldri borgara hafa verið svo upptekin í hefðbundnum viðfangsefnum að þau hafa ekki tekið eftir því hvaða ósvinna er í gangi gegn hagsmunum þeirra. Mikill fjöldi eldri borgara hefur farið til fjalla og ekið þar yndisslóða sér til lífsfyllingar og glaðst við að sýna landið afkomendum sínum, frændum og vinum. Öræfi og eyðimerkur Íslands eru lífshættuleg ókunnugum en töfrareitir þeim sem þekkja til. Æskunni er það kynning beint í hjartastað að fylgja fullorðnum vini sem þykir vænt um landið. Í stað yfirstandandi árásar á tilverurétt eldri borgara ættu yfirvöld að styrkja þá til að kynna yngri kynslóðum gleðileiðir fjallanna, torfærar slóðir um hraun og skorninga, yfir ár og eyðisanda og upp á fjallatinda.

Eldri borgarar hafa lengi fundið þá andúðarbylgju sem reist hefur verið gegn fjallferðum þeirra. Iðulega halda yngri gönguhrólfar því fram að þegar menn eldist hætti þeir að hafa áhuga á að fara til fjalla. Það er auðvitað aðeins vegna þess að hinir yngri hafa enn ekki orðið eldri. Hávaðinn af þessu klifi hefur samt náð að draga úr kjarki hinna eldri til að verja sinn fæðingarrétt til landsins. Nú er sannarlega kominn tími til að eldri borgarar komi út úr skápnum og láti sterklega til sín heyra. Krefjist þess að í engu verði skert frelsið til að fara um hinar kæru fjallaslóðir okkar allra.

Sama á við um samtök allra þeirra sem verða að njóta jeppa heimilisins - eða vina og vandamanna - til að fara um fjöllin. Þetta er ekkert feimnismál. Það er á engan hallað þegar fram er sett sú afdráttarlausa krafa að almenningur haldi rétti sínum. Umferðarréttinum verði ekki ráðstafað eins og kvóta til fáeinna útvalinna.

Það tekur svo auðvitað út yfir allan þjófabálk að náttúruelskur almenningur skuli rekinn af sínum unaðsstöðum undir verkstjórn þeirrar stjórnmálahreyfingar sem kennir sig við náttúruna. Sem kjósendur geta menn þolað harðræði meðan þjóðfélagið klífur upp hlíðar kreppudalsins en alls ekki þjófnað umferðarréttarins.

13. júní 2010 - Ég mótmæli því að af mér verði stolið fæðingarrétti mínum til umferðar um landið!

Ég krefst þess að alþingismenn og umhverfisráðherra sjái til þess að almenningur verði ekki rændur rétti sínum til að aka um hálendi Íslands. 

Umferðarréttur má aldrei verða síðri en hann var fyrir setningu laga nr. 44/1999 um náttúruvernd
Frá barnæsku hef ég ferðast um hálendi Íslands - fyrst með foreldrum og síðar eigin fjölskyldu, vinum og félögum og oftast á óbreyttum jeppabíl heimilisins. Nú eru fram komnar hugmyndir um að reka almenning á fjölskyldufarartækinu burt af fjölda stórfenglegra leiða um hálendið og við og um þjóðgarða. Tilgangurinn virðist vera sá að afhenda öræfin því promilli Íslendinga sem næstliðin ár hefur komið til skjalanna sem gönguhetjur og telur sér að því atvinnuhag. Hér er um að ræða siðlausa árás á umferðarrétt almennings sem þó var tryggður í markmiðsgrein laga nr. 44 frá 1999 um náttúruvernd. Þar segir:

Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.

Bönn við umferð almennings á heimilisbílnum gengur þvert á það sem þar segir.

Upphróp um utanvegaakstur
er aumlegt yfirklór áróðursodda þessa gjörnings. Þar er klifað á ummerkjum þar sem einhverju sinni hafa verið á ferð ökumenn sem ekki hafa lært hvað varast þarf þegar komið er út af malbikinu. Enn dettur engum í hug að loka Miklubrautinni þótt fjölmargir fipist einmitt þar. Umfang slíkra óhappa var fyrst metið skipulega sumarið 2009 þegar það sýndi sig að vera hverfandi. Það er líka einkennandi fyrir alla þá umræðu að áróðursoddarnir varðveita sín fáu dæmi í stað þess að stuðla að lagfæringu þar sem þeir telja hennar þörf.

Allir eiga öræfin
Ómerkar eru einnig háværar yfirlýsingar um að verið sé að opna landið almenningi til göngu. Íslendingar eiga öræfin - allir. Líka ungir og aldnir. Líka öryrkjar og ferðahamlaðir. Líka húsmæður með barnahópa og gamalmenni í sinni umsjá. Líka þeir sem berjast í bökkum. Aðeins örlítill hluti þeirra hefur íþróttafærni, tíma og aðstöðu til að ganga um fjöllin en allir geta farið á heimilisjeppanum eða setið í hjá vinum og ættingjum. Þannig eru öræfin á hálendi Íslands.

Æskan á rétt á öræfafræðslu
Sama gildir um börnin okkar. Það þykir nefnilega fínt að segjast ætla að gæta landsins fyrir afkomendur þeirra sem nú lifa. Það er gert með því að hindra þá sem nú lifa í að fara um landið. Banna nútímafólki að fara um óbyggðir en geyma þær fyrir framtíðarfólk. Það þarf bara að hugsa eitt andartak til að skilja að þetta er innihaldslaus fullyrðing. Þeir sem lifa hverju sinni eru á meðan: nútímafólk. Það stendur einmitt til að gera hinni almennu fjölskyldu, hinum almenna nútíma manni, ókleift að kynna börnum sínum öræfin. 

Esjan er ekki fögur
og Esjan er ekki ljót:
kærfinning, mjó og mögur,
mótast við hjartarót.

Glórulausar lokanir
Lokanir á umferð um Vonarskarð og svæðið austan Köldukvíslar eiga sér engin rök. Þar liggja allar leiðir um öræfi, hraun og eyðimerkur. Allt svæðið er stórbrotið og unnt að aka ógleymanlegar útsýnisleiðir þar sem engrar vegagerðar er þörf og enginn kunnugur vill sjá neina vegagerð. Um þær hafa menn ekið frá því fyrir miðja síðustu öld og eftir næsta hvassviðri eru slóðir víðast horfnar. Á öllu svæðinu er aðeins eitt vatn sem nokkuð er víst að ekki þornar upp þegar líður á sumar - og þarna hafa fáir gengið. Í Vonarskarði liggur akstursleiðin um algjöra eyðimörk. Örfáir koma þar gangandi. Þeir hafa á næstliðnum árum uppgötvað svæðið og finnst sjálfsagt að taka það ódýru eignarnámi af almenningi með þeim rökum að þeir þoli ekki að heyra þar vélarhljóð - eða jafnvel umferð hesta. Ekkert í umferð almennings ógnar vernd náttúrunnar á þessum slóðum né sjálfbærri þróun hennar.

Umferðarrétturinn er margra bankahruna virði
Hvers virði er réttur almennings til að fara um hálendið á heimilisjeppanum? Hægt er að kaupa hann af fátæklingi fyrir baunadisk en sá sem ekki er þjakaður af skuldum léti sér ekki hagga þótt boðnar væru fúlgur fjár. Rétturinn er þar með einnig tekinn af afkomendunum og þeirra afkomendum - til eilífðar. Það sem hér er ætlað að taka af almenningi er því margfalt meira en fáein bankahrun. Þetta er lífsfyllingarþjófnaður af íslenskum almenningi og með öllu siðlaus.

8. des. 2009

Þriðjudagur - Umhverfisskúffan hrekkur upp við vondan draum

Þetta er merkileg frétt sem ekki þarfnast neinnar skýringar.

Það má þó velta vöngum yfir fyrsta lögmáli allra stofnana - sem einmitt er þetta: að undirstrika mikilvægi sitt til þess að stækka til þess að fá aukið fjármagn og ráða fleira fólk og byggja fleiri byggingar og lifa af og undirstrika mikilvægi sitt ... . 

Vitleysan ríður ekki við einteyming.

Auðvitað væri rétt að hætta þessu rugli. Hætta að stefna í tugmilljarða fjáraustur til að gera hina ýmsu öræfahluta að sérstökum stofnunum með landstjórnir og hirðir þeirra og sérstök lög og löggulíki. Losa sig við þá utanveltu einstaklinga sem sitja í ýmsum stjórnum og ráðum við að spinna upp aðferðir til að stela umferðarréttinum af lifandi og óbornum Íslendingum.

Þess í stað á að gera það sem hefur miklu meiri áhrif - og kostar ekki neitt:

  • festa í lög að Ísland sé allt einn þjóðgarður hvað svo sem öllum útlendum skilgreiningum líður,

  • færa yfirumsjón hans í skúffu í menntamálaráðuneytinu

  • lögbinda kennslu í öllu skólakerfi landsins um umgengni í þjóðgarði og liðsinni við þá sem minna kunna,

  • kenna öllum landsmönnum að fara um allan þann þjóðgarð sjálfum sér og öðrum til gagnkvæms yndis.

16. júlí 2007  - Hagnýting uppmagnaðs ótta

Koldíoxíð virðist vaxa með hækkandi hita andrúmslofts - en vöxturinn er sex öldum á eftir. Nú hefur verið sett upp svikamylla til að hala peninga til skógræktar af nytsömum sakleysingjum undir því yfirskini að koldíoxíð sé ekki afleiðing - heldur orsök hlýnunar! Sjá nánar í umfjöllun loftslagsvísindamanna. Í leiðinni er sakleysislegri nauðsynjablæju sveipað um það háttalag að ræna almenning landsvæðum og troða þar upp skógi - sem hver á?

"Nígeríu"-nafnið er
nets á svikum mestum
- "Kolviðurinn" keppir hér:
kunnuglegri flestum.

Apríl 2006

 - Kjalvegur til einstaklinga

Hópur manna með alþingismanninn Kjartan Ólafsson af Suðurlandi sem talsmann beitir sér fyrir því að loka almannaveginum yfir Kjöl og byggja upp einkaveg og skattleggja alla sem fara þá fjallaleið. Þar fari alls konar umferð.

Allra vegur er um Kjöl
einum selja má'ann
-honum allra eign er föl
alþingsmann ef á'ann.

En ég styddi annan söng
og það gerðu fleiri:
að þeir græfu undirgöng
út að Akureyri.

26. janúar 2006 - Allt er vænt sem vel er grænt

Þjórsárver sögð tvímælalaust dýrmætasta land á Íslandi og umhverfisráðherra undirbýr lagafrumvarp til að stækka friðlandið þar.

Á öræfum ég flýt til feigðaróss
og fáir víst sem þaðan ekki vikju
fyrst jökuls drullusvað er dýrmætt góss
ef djarfar aðeins fyrir grænni slikju.

14. des. 2002

 

Ísland - þar sem allir hugsa sitt -
og er menn standa frammi fyrir vanda
veit hver og einn að arfa-rangt er hitt!
Aðeins ég á réttu hef að standa!

GÓP-fréttir  * efst á þessa síðu