GÓP-fréttir
|
Vorferð MK 1999Myndbönd á bókasafni - fyrir kennara!Á bókasafninu er venjuleg VHS-myndband með upptöku frá þessari ferð. Þar eru einnig upptökur af nokkrum fyrri kennaraferðum. Upptökurnar eru:
Kennarar geta fengið myndböndin lánuð.
|
Ath! | Ágæti lesandi - athugaðu!!að senda mér strax leiðréttingar á örnefnum, staðarheitum og öðrum rangfærslum sem þú finnur í þessum texta - og láttu getið atriða sem þér sýnist ég hafa gleymt. Kveðja - GÓP |
Hvert? | Hvert eru allir að fara?
Vorferðir MK er af sérstökum toga. Eftirfarandi setning lýsir þeim mjög vel: Enginn veit hvert farið verður og enginn vill láta sig vanta. Okkur, ferðalöngunum, er ljóst að ferðanefndin hefur mörg járn í eldi allan ársins hring en þegar líður að vori er kominn kliður í hópinn og spurnarhugur. Í maí birtist auglýsing í kennarastofunni. Að þessu sinni hljóðaði hún á þessa leið: |
Augl! | Auglýsing um vorferð MK dagana 27. - 28. maí 1999
Kæra samstarfsfólk. Nú er enn og aftur komið að vorferð. Að þessu sinni munum við berja augum margrómað svið sögunnar þar sem nútímahetjur, jafnt sem fornar, hafa prýtt héruð og sali. Við munum minnast frænda okkar og ódauðlegs skáldskapar um leið og við virðum fyrir okkur ólýsanlega drifhvíta, fagurgræna og himinbláa fegurð. Í eyrum okkar mun hljóma fagurt fuglakvak, flugnasuð eins og það er ljúfast, seiðandi ölduniður og vinaleg, minna þekkt hljóð sjávardýra. Á ægifögrum gististað verður lagst til hvílu í uppbúnum rúmum en skammt er í hamrabúann. Hafið merðferðis:
Lagt af stað klukkan 9 á fimmtudag og komið heim um miðnætti á föstudagskvöldi. - - Með auglýsingunni fylgdi uppstilling af heilu landi. Þar voru útklippt dýr af öllum íslenskum gerðum og í útjaðri stóð burstabær. Áður en langt um leið var upp komin vindflík til að minna menn á að búa sig vel. |
Gisk | Ágiskanir
Í auglýsingunni og uppstillingunum eru margvíslegar vísbendingar. Þær flétta sveig fjölvísandi athugasemda utan um haldbær landa- og leiðamerki er segja þeim sem í þau grillir allt um væntanlega ferð. Venja er að er menn skrá sig til þátttöku láta þeir með fylgja ágiskun sína um það hvert förinni sé heitið. Nú kom fram fjöldi ágiskana þar sem tilnefndir voru staðir hvarvetna á Íslandi - nema ekki Hótel Saga að þessu sinni - og ennfremur voru nefndir staðir í nokkrum kóngsríkjum í Evrópu og í Ameríku. Þetta er djúphugsuð speki þar sem lesið er í lýsingarnar og beitt vísindalegri afleiðslu - en einnig aðleiðslu - og svo báðum þeim aðferðum á víxl. Til er að menn hleri enduróm af nýaldarspeki eða láti drauma aðstoða sig við að fagurmóta tilgátur sínar. Í förina fóru 55 að þessu sinni og tilgáturnar voru næstum jafn margar. Helmingur ferðanefndarinnar er Inga sem fléttar hina fjölmunstruðu auglýsingu:
|
Af stað! | Fimmtudagur klukkan 9
Ferðalanga beið glæsilegur hópbíll með sjónvarpi og rafmagns-sóltjöldum á himinháum framrúðum. Leiðin lá til Reykjavíkur og nú notuðu menn sannarlega tækifærið að skoða þessa vinalegu smáborg sem er norðan Kópavogs. Veðrið skartaði sínu fegursta og fjallahringurinn var hreinn og tær. Heyra mátti þá athugasemd að glæsilegasta útsýnið væri yfir voginn í suðurátt, en þekkt er að mörgum þykir fegurst heima. |
Sér sveit | Sérlið
Í MK eru margar úrvalssveitir og ein þeirra, sem er sérlega harðsnúin, hafði óskað flutnings á Reykjavíkurflugvöll þar sem hún hvarf sjónum okkar. Vegna staðarins gerðum við ráð fyrir að hún mundi sigla himinleiði - hverfandi þar með úr þessari sögu. Áfram var haldið að skoða höfuðstað Íslendinga og kanna þar listaverkagarða og blómaval. Á góðum degi má skilja hvers vegna upp rís reglubundið rifrildi milli einstaklinga sem vilja vera þar í fyrirsvari. Þessi dagur reyndist okkur með sólrúnum en ef á annan veg hefði farið í síðasta rifrildi hefðum við ugglaust hlotið viðtökur þeirrar sveitar sem öllum hjartans óska vill árna. Svo fór að lokum að hér þótti ekki verandi lengur og var þá sest í flugvél. |
Nars- Höfn | Flogið til Narsarssuaq
Flugvélin sveif til himins og alltaf er gaman að horfa til jarðar yfir þekktar slóðir. Úsýni var gott og mörgum þótti flugmaðurinn rólegur þegar hann boðaði lendingu á Grænlands kalda klaka en til jarðar sást Öldufell norðan Mýrdalsjökuls að baki og undir var Orrustuhóll skammt frá Gnúpum Bárðar. Senn var þó vélin á hafi og í mikilli hægri beygju sem létti ekki fyrr en Öræfajökull var á vinstri hönd. Skömmu síðar voru mikil vötn undir og lent hjá flugstöð nærri þéttbýli og skipahöfn. Þar var á flugstöðinni strengdur borði utanhúss þar sem á stóð: MK - velkomin til Narsarssuaq - eða þannig ...
Þegar hópurinn safnaðist saman kom í ljós að sérlið okkar var þar og komið. |
Kaffi og kleinur | Sunnuhlíð
Viðstöðulaust var nú hópurinn kominn í tvo bíla sem fluttu okkur yfir Hornafjarðarfljót og vestur með Vatnajökli sem horfði kíminn niður yfir sveitir með sólgyllt hár en gróðrarskúrir gengu stundum á láglendi. Haldið var vestur á Mýrar. Er við nálguðumst einn bæinn gekk þar út maður með harmonikku og hóf að leika á hana. Strax stöðvuðu bílarnir og við gengum þar nær. Hér var Sunnuhlíð og hafði ferðanefndin upp grafið að þar bjó húsfreyja sem í æsku hafði verið á sama bæ og einn ferðafélaginn. Urðu þar fagnaðarfundir og við fengum stanslausa hljómlist og húsráðendur létu sig ekki muna um að taka þarna á móti 60 manns í kaffi og kleinur og smábrauð með ljúffengu mauki. |
Lónið | Breiðamerkurlón
Enn var haldið í vestur uns kom að Breiðamerkurlóni. Hér voru tveir hjólabátar ferðbúnir og áður en varði vorum við þar öll. Fyrst var ekið um mal-verpi en síðan runnu farartækin fram af fjörubakkanum og út í lónið. Þar var afar mikill borgarís og næsta þröngt til siglingar nema einum megin. Við fengum leiðsögn og upplýsingar um fjöll og dali sem sáust og einnig um fjörðinn undir jöklinum - sem ekki sést. Leiðsögumaður sagði okkur að nú bráðnar ísinn hraðar en áður því sjór gengur inn í lónið og hitastigið er um 4 stig. Síðan tók hann Íslandssöguna í gegn. Hann upplýsti okkur að hvað eina sem við áður hefðum haldið um þessar sveitir ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum. Hið sanna væri nýkomið í ljós. Þannig vissu menn nú að hér hefðu sveitir verið mannlausar um það bil einni öld eftir árið þúsund. Ennfremur væri það svo að sveitin sem nú er nefnd Síða hefði ekki heitið svo í fyrstu tíð því þá hefði Breiðá, bær Kára Sölmundarsonar, verið á Síðu. Þar væri og fæddur Síðu-Hallur sem hefði farið eftir djúpum dali til austurs að skírast í Þvottá. Tilkomumikið er að fara um Breiðamerkurlón þar sem þúsund ára vatn losnar úr klakaböndum - þótt ósköp sé hann álíka kaldur og annar bráðnandi ís. Svartar rákirnar gefa ísjökunum forneskjulegan blæ og mynd þeirra er kyrr í spegli lónsins.
|
Hali |
Hali í Suðursveit
Nú var ekið austur í Suðursveit. Við bæinn Hala er dálítið svæði þar sem komið hefur verið fyrir sannkölluðu Grettistaki sem skorið hefur verið í þrjár gríðar-sneiðar. Það er minnismerki um bræðurna frá Hala - þá Benedikt, Steinþór og Þórberg. Vitnað er til Þórbergs í Sálminum um blómið þar sem hann getur sér þess til að steini þyki ef til vill ekki meira að standa þúsund ár í fjallshlíð en manni að vera þar þúsund sekúndur. Hér var áð og upp dregið velþegið nesti og síðan sest í stéttar umhverfis minnismerkið og sungið sitt og hvað eftir Þórberg.
|
Jökull | Skálafellsjökull
Bílarnir fluttu okkur nú austur og austur og austur fyrir Smyrlabjörg og lögðu þar á brattann. Veðrið var frábært með sól og logni og þegar við áðum ofan við Hungurgil (sem ég held raunar að beri annað nafn - láttu mig vita) sáum við til allra átta og gátum varla haft okkur aftur inn í bílana. Vegurinn var nýheflaður og aldeilis ágætur. Á einum stað skammt neðan við Jöklasel var ekið gegnum snjótraðir sem voru á hæð við hærri bílinn. Þegar kom í Jöklasel beið okkar dýrlegur kvöldverður við snjóborð inni á jökulröndinni. Logn var, sólskin og hiti. Sólin baðaði skjannahvíta jökulgljána sem virtist svitna undan atlotunum. Þarna sátum við í vellystingum í langa, langa stund - sem okkur þótti þó bæði stutt og vissum um leið aldrei hvað tímanum leið.
|
Smyrla- björg | Áð á Smyrlabjörgum
Nú var runnið niður og niður og alveg niður á tún. Innan skamms vorum við í næturstað á Smyrlabjörgum. Þar var sannarlega þægileg og aðlaðandi aðstaða með rúmgóðum herbergjum með salernum og sturtum. Varla vorum við þó sest er ferðanefndin vakti athygli okkar á því að komnir væru hljómlistarmenn. Enginn stans var hafður á og undu menn sér í dansinn. Hér dunaði skemmtan fram yfir lágnættið og reyndist þá liðsmaður okkar einn og merkur veðurviti af annarri stöðinni hinn mesti gleðigjafi og lék á hin ýmsu hljóðfæri af fingrum fram. Sat ritari lengi við hlið hans og dáðist að. Fór ekki hjá því að þessi fjörgun liðsins í framhaldi af ógleymanlegri stundinni á rönd jökulsins sækti á hugann.
|
Austur | Austur um Almannaskarð
Laust eftir klukkan 10 á morgni föstudagsins var ekið austur á bóginn, yfir Hornafjörð og um Almannaskarð í Lón. Suðvestlendingum er nýlunda að reistum fjöllum með hallandi jarðlagastöflum og víða knöppu undirlendi að djúpum og löngum fjörðum. Þá er líka stundum hægt að horfa austur á heimsenda:
|
Fluga | Fluga - raunar Flugustaður
Senn vorum við í Álftafirði og vaskur liðsmaður okkar, Ingólfur, hafði leiðsögn með höndum. Hér átti hann ættingja og hafði dvalið - en hafði ekki frekar öðrum vitað að hingað skyldi haldið. Fyrr en varði bar okkur að Flugustað þar sem ferðanefndin hafði upp grafið að biði hans verkefni. Þar á bæ býr föðurbróðir Ingólfs og beið húsfreyja með pela að hann gæfi heimalingnum. Horfði nú hópurinn hugfanginn á þegar lambið þreytti þambið:
|
Ærin | Aðalsteinn og kindin
Aðalsteinn heitir ökumaður á bifreiðinni 502 sem flutti okkur með miklum sóma. Kind ein stóð þétt í veginum og sinnti í engu ærandi flauti. Viðureign Aðalsteins og kindarinnar stóð fáeinar sekúndur og lauk með þeim hætti að Aðalsteinn náði að sveigja hinni stóru bifreið svo til hliðar að hvort tveggja varð ósárt eftir. Þótti okkur ljóst að þarna hefði verið komin móðir lambsins. Hefði henni þótt sér lítilsvirðing ger að afkvæmi hennar var fætt á kúamjólk úr pela:
|
För í Papey | Papey
Nú var ekið um Hamarsfjörð á Djúpavog þar sem Papeyjarferjan beið. Hafðar voru hraðar hendur að ferðbúast og síðan fór ferjan með helming hópsins út til Papeyjar. Þangað er nær klukkustundar ferð. Þetta er í raun eyja- og skerjaklasi en Papey sjálf er langstærst eða um 2 ferkílómetrar. Gott var í sjóinn og við Papey var fyrst siglt inn á Áttahringsvog - eða Áttæringsvog. Þar er gríðarmikið af fugli svo að ský virtist draga fyrir sólu er hann hóf sig til flugs af sjónum. Ferjan heitir Gísli bóndi í Flatey en Gísli bóndi keypti Papey um aldamótin 1900 og bjó þar í full þrjátíu ár. Þegar hann keypti eyjuna gat hann valið úr þremur stöðum sem þá voru lausir og kostuðu allir jafnt. Einn var Bessastaðir, annar Engey og hinn þriðji Papey og verðirð var 12 þúsund krónur - sem í þann tíð jafngiltu tvennum árslaunum ráðherra. Hann valdi Papey því hann var fuglatekjumaður og hafði áður nýtt Ingólfshöfða. Már Karlsson, leiðsögumaður okkar, er giftur sonardóttur Gísla svo börn þeirra eiga Gísla fyrir langafa. Það er mikil og ánægjuleg lífsreynsla að koma í Papey. Fuglinn er kvikur í öllum björgum og þau eru víðast við eyjurnar. Lagst er að í Selavogi og þar er sérkennilegur útbúnaður til að verja skipið ákomum. Strengur er hafður þvert yfir voginn og leggst skipið að honum og rennur með honum svo að bjarginu að þar má snerta með stefni. Ganga menn svo á land og upp traustlegan stiga á grasi gróna brúnina. Eyjan er öll gróin og mikið um votlendi. Það eru sýnilega engar ýkjur að aldrei þraut vatn í Papey. Í Papey er hreinlegt og gömlu húsanna er gætt og nýlega hefur þar elsta og minnsta kirkja landsins verið gerð upp. Afkomendur Gísla bónda eiga tvo sumarbústaði í eynni en þar er einnig kjörið að tjalda. Papeyjarferjan fer daglega með ferðamenn. Farið er klukkan 13 og komið aftur um kl. 16 eða síðar eftir aðstæðum. Þeir sem vilja geta dvalið í eyjunni lengur á milli ferða. Við gengum um eyjuna og hlýddum á Má sem opnaði sögusviðið fyrir okkur í hálfa gátt. Hann hafði auga á hverjum fingri og varaði við ef stigið var utan leiða á bjargsins brún - enda eru björgin 20 - 45 metra há. Það stóð á endum að þegar lokið var umferð um eyna og hópurinn hafði snætt nestið bar ferjuna aftur að með seinni hópinn. Skrifið í gestabók Gísla bónda í Papey sagði Már:
|
Adolf Hólm | Adolf Hólm Petersen
sendi hingað þessar vísur sem hann skráði í gestabókina:
|
* | Klukkan var á áttunda tímanum þegar aftur var haldið til Hornafjarðar. |
Á Höfn | Pakkhúsið á Hornafirði
Jöklaferðir er fyrirtæki sem rekur Jöklasel við Skálafellsjökul. Þeir tóku vel á móti okkur í Pakkhúsinu sem er í senn samkomusalur og minjasafn. Þar áttum við góða hvíldarstund meðan sólin silfraði umhverfið og höfnina og ósinn sem dregur heimamenn jafnan til sín að horfa á hina ólgandi straumröst. |
Sig | Fjölskyldan SigÞegar klukkan var 23 vorum við svo komin í loftið og lentum í Reykjavík á miðnætti - eins og ferðanefndin hafði lofað! Til þess að ná þessari miklu yfirferð innan tímamarka naut ferðanefndin umtalsverðrar aðstoðar ýmissa meðlima fjölskyldunnar Sig þó að sjálfsögðu væri það Drífa sem mest munaði um. Sú fjölskylda stendur svo sannarlega hug okkar nær:
|
Góð ferð | Við ferðarlok
Þetta var aldeilis stórfengleg ferð. Skipulag hennar var frábært og allt var kórónað með einmuna glæsilegu veðri. Á þessum áratug hafa sveitir og landshlutar skoðað í eigin barm að bjóða ferðamönnum að heimsækja forvitnilega staði, sérstæða og um margt ógleymanlega. Það er ekki síður stórfenglegt fyrir íslenska ferðamenn en erlenda að heimsækja það sem fram er boðið á hverjum stað því enginn hefur alls staðar komið og að þessu öllu er fengur. Ferðanefndinni hefur tekist að velja atburði og ævintýri sem bæði koma á óvart og eru eftirminnileg. Þessi vorferð MK reyndist standa fyllilega undir væntingum okkar og vera verðugur toppur á sífelldar toppanir undanfarinna vorferða. Við, ferðalangarnir, þökkum ferðanefndinni frábært starf og elskulega umhyggjusem í okkar garð og óskum henni langra lífdaga, árangursríkra starfa og sérlega góðrar heilsu - og alveg sérstaklega þegar dregur til ferða á komandi árum.
|
Eftir- máli | Ritari hugsar sérSumt má gera í hugarheimi sem örðugt mundi ella. Ritari á í hugarheimi þá mynd að ferðanefndin stendur í miðjum hópnum og í einu komum við að þeim þakkarhendi og segjum:
|