Forsíða

Safn *  MK-miðstöðin

af ýmsu tilefni

11.12.98

Hugleiðing
yfirsetumanns
í prófi

Lag: Merikanto - Úr 50 centa glasinu ...

Hér einum gengur betur og öðrum gengur skár
- hver einasti er afskaplega iðinn,
og yfirsetumaður á pappír setur pár.
Af prófinu er klukkutími liðinn.

Þá velta yfir prófbörnin vitsins tímamót:
þau virðast taka æði - jafnvel bila -
og loka öllum gögnum og hand- og fótafljót
þau flykkjast upp til kennarans að skila.

Þó sitja nokkrir áfram og vitsins vopnum ná
og vinna meðan prófsins klukkur tifa -
en allt er þetta eðlilegt og af því máttu sjá
að áfram munu kynslóðirnar lifa.

30.11.1993

Á rissblaði

Á rissblaði

Ráð er að þakka - rétt er það -
risspappír Jóna skilaði
en enginn óskaði eftir að
athafna sig á rissblaði

þessvegna hef ég þetta ort
þó ekki sé það kvæði
en risspappírinn er orðinn kort
- án þess að það til stæði.

Kemur hér loksins stakan stök
- stendur á fornum grunni:
í henni finna allir rök
og eru á meiningunni:

Dagsins erill eykur brun-
ið í streitukófi
- en alltaf er nú afslöppun
yfirseta í prófi.

15.12.1989 Í yfirsetu

Nú hef ég setið hér næsta lengi
og næðið ég betra víst aldrei fengi
til þess að setja saman vísu
- sálinni huggun í léttri krísu.
Þess vegna ríða nú verð ég á vaðið:
og vísuna hripa niður á blaðið
- úti er frostið og fimbulkaldi
(ég fálma um allt eftir innihaldi)
en ekkert er fjarri og ekkert er nærri
og andaslitrurnar stærri og stærri
- en loksins finn ég mér takmark og tilgang:
ég tek eftir því er ég skoða minn ritvang
að pappírinn hylst þessu hálfsamda kvæði
- sem heldur þó engum sérstökum þræði -
fyrr en í endann að andinn upp rýkur -
akkúrat - þegar blaðinu lýkur.

Efst á þessa síðu * ForsíðaMK-miðstöðin