GÓP-fréttir   
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal






Ljósmyndir
ókomnar.

Haustferð 2000

Nýidalur - Jökulheimar - Veiðivötn - Hófsvað
Landmannalaugar - Dyngjuleið -
Dómadalur - Krakatindsleið - Emstrur

20. - 22. október 2000

Markmið þessarar ferðar var sem allra annarra ferða - að endurnýja kynnin við fjöll og firnindi, fara gamlar og nýjar slóðir, heilsa óvæntum uppákomum og undirbúa sig undir hið ókomna.

Þess utan var það sérlegt markmið að láta GPS-tækin lesa inn þéttriðnar punktalínur eftir öllum eknum vegum. Það nefnum við að FERLA leiðirnar. Þess vegna skiptist hópurinn á sumum vegamótum til að ferla báðar - eða allar leiðirnar sem unnið var að.

20. okt.

Ekið
í
Nýjadal

Brottför frá Reykjavík var nokkuð skipt. Sverrir og Kristinn og þeir Stefán og Guðmundur lögðu upp fyrstir um kl. 15 en Sigmundur og Svala um klukkutíma síðar. Þessir þrír bílar fóru svo saman í hópi þegar kom inn á Sprengisandsleið. Veðrið var stundum með éljum og hið efra var ís á vegum og snjór þegar kom upp fyrir Kvíslaveituveginn. Síðustu 30 km voru stundum nokkuð þæfingslegir.

Bessi og Sigrún, GÓP og Freyja, Birgir og Jóhanna Erla og þeir Ólafur og Grettir fóru af stað um klukkan 19 og höfðu samflot frá Hrauneyjum.

Pétur lagði síðastur af stað um kl. 21 með Aðalbjörgu Eir, Lilju Hlín og Þóri Pétur - að henni Perlu ógleymdri. Hún er best uppalda tík sem ritari hefur kynnst - en ritari er heldur lítill hundaaðdáandi.

Skálinn í Nýjadal er aðlaðandi og rúmgóður en það tekur tímann sinn að hita hann upp. Sjálfsagt hafa fleiri en ritari átt kaldsama nótt en svefnpokar eru þó með ýmsum göldrum og ugglaust hitaheldari gamla gæsadúninum. Vísast hefði skálinn verið orðinn viðunandi næsta kvöld - en við vorum uppi klukkan 06:30 og farin af stað kl. 08.

Haust -
vetur
Nokkur bjartsýni hafði fylgt góðum veðurspám næstliðinna daga en staðreyndir veðurfarsins tóku ekki tillit til þeirra. Þó var í sjálfu sér góð tíð, úrkoma lítil og vindur hægur. Stundum voru fagrar veðurstundir með glampa um himin og skýrt landslag - en þarna á miðhálendinu þó oftar éljadimmur og iðuhvítur. Skyggnið var af allra verstu gerð svo að þó úrkoma væri engin sáust slóðir varla nema að grilla mátti í þær stundum með snjógleraugum.

Það var því strax ljóst að á miðhálendinu var þetta vetrarferð en ekki haustferð og gerðar voru viðeigandi ráðstafanir.

Austur
undir
Gjallanda
Á laugardeginum var ekið af stað klukkan 08 og farið um Tómasarhaga - sem nú var næsta ógrænn undir 20 - 30 sm snjó - og austur undir Gjallanda. Þaðan var aftur haldið í Nýjadal og þaðan um kl. 12 suður að Þórisósi.
Vegurinn
frá
Þórisósi

Þröskuldi
Þar var veður aldeilis frábært og skyggni gott. Við leituðum gömlu slóðarinnar frá Þórisósi austur að Mána og í Þröskuld. Þegar komið var að jaðri Veiðivatnahrauns skiptust slóðar í tvennt og þrennt og við tókum þá alla. Að lokum komu þeir saman á eina meginslóð. Hún er í raun skemmtileg og haglega þrædd um hraunið.

Þegar komið er út úr hrauninu er ekið að gígnum Mána sem er eins og hálft hringleikahús. Hálfur gígbarmurinn er móti norðri en leikvangurinn á hörðu steingólfi framan við þessi stúkusæti. Vegurinn beygir síðan milli Mána og gígsins Gutta sem heitir í höfuðið á jarðfræðingnum Guttormi Sigbjarnarsyni.

Lýsingur
og
Buxarnir
Ritari viðurkennir að hann hefur gefið glæsta og ljósa tindinum með hattinn - við vesturenda Ljósufjalla - nafnið Lýsingur. Suðaustur frá Lýsingi er hrauntungan sem ætíð er erfið yfirferðar og sérstaklega fyrir stóra bíla. Hún hefur því frá fornu fari borið nafnið Þröskuldur. Í þessari hrauntungu eru gígarnir enn. Sumir miklir og sumir litlir, en þeir eru margir. Fyrir allmörgum árum var ritari þarna með ferðafólki á hópbíl og var gengið upp í stærsta gíginn. Efni hans er skriðukennt með hraungjallsgrjóti sem er bæði óöruggt á að stíga og einnig óljúft við föt manns ef í þau nær. Þarna hrasaði ritari og reif buxur sínar. Kom honum þá í hug að hann hefði aldrei heyrt nafn á þessum merku gígum. Þótti honum nú tími til kominn að gefa nafn sem helst liti nýstárlega út en mætti þó vel vera auðvelt að muna. Síðan heita þeir Buxar.

Það fylgir af þessari nafngift að þegar litið er af Lýsingi suður yfir Buxana er einn næstur og heitir að sjálfsögðu Næstbuxi. Annar er litlu fjær og heitir Nærbuxi. Svo fá þeir forskeyti allt sem hentar og sá stærsti er Stóri Buxi og þeir fjölmörgu sem eru lengra til suðurs nefnast einu nafni Suðurbuxar. Hugmyndaflug ferðamanna getur svo hverju sinni ort inn í þetta stef.

Auðvitað er fróðlegt ef einhver þekkir eldra nafn á þessum gígum og er það afar velkomið í línu til ritara.

Í
Jökulheimum
Við runnum nú inn frá Þröskuldi og vorum í Jökulheimum fyrir kl. 18 en þá er sólsetur eftir almanakinu.

Það er ekki í kot vísað að dvelja í Jökulheimum. Skjótlega voru húsin funheit og okkur leið vel við snæðing og létt spjall. Efldist og mjög kátína manna þegar ritari sagði af umtalsverðri villu sem hann rataði í fyrr þennan sama dag og rannsakaði norðurbakka Kvíslaveituskurðarins milli brúnna. Er hann nú orðinn þokkalega kunnugur því svæði. Spennandi þótti mönnum frásögn þeirra Grettis, Ólafs og Birgis af ævintýri þeirra er þeir voru með í þeim hópi sem undirbjó og sigldi niður Dimmugljúfur - og buðu þeir að lána okkur hinum myndbandsspólu með upptöku af þessu magnaða fyrirtæki.

Veðurspár Veðurspár voru öllu þunglegri fyrir sunnudaginn svo ákveðið var að taka daginn snemma. Við vorum í svefni skömmu eftir klukkan 22 og komum vel undan draumum klukkan 06:30.

Förum upp með fasið þýtt
fyrndum draumum gleymum
allt er nú sem orðið nýtt
inní Jökulheimum.

Veiðivötn Ekið var af stað klukkan 8 og haldið niður að Hraunfelli. Þar skiptist hópurinn og sumir óku leiðina um Hraunvötnin en aðrir áfram niður á Veiðivatnaleið og þaðan hjá Tjaldvatni og út að Trölli þar sem hópurinn safnaðist saman. Síðan var tekinn stóri Veiðivatnahringurinn. Við renndum upp á ölduna háu vestan við Stóra-Fossvatn. Upp á hana var áður algengast að aka þegar farið var í Veiðivötnin. Útsýnið var frábært og til norðurs sá allt til Kerlingarfjalla.
Tungnaá
á
Hófsvaði
Ekið var frá Veiðivötnum að afleggjaranum að Skyggnisvatni - en sú leið liggur framhjá Skyggnisvatni og niður að Tungnaá þar sem Hófurinn stendur úti í ánni. Þar er Hófsvað á Tungnaá. Að þessu sinni var Tungnaá hógvær og þægileg viðskiptis og við vorum komin yfir hana klukkan 13.
Skiptar
leiðir
Nú skiptust leiðir.

Birgir og Jóhanna Erla og þeir Ólafur og Grettir fóru saman.
Birgir segir
: Við fórum austur með línunni út að á en þar er ca. 90 gráðu hægri beygja. Síðan framhjá Ljótapolli sem leið liggur að krossgötunum. Þaðan fórum við austan Tjörvafells beint inn á Dómadalsleið og í Landmannahelli. Svo áfram vestur eftir matarstopp. Við tókum sem sagt krókinn inn í Landmannahelli og því vantar kafla af eiginlegri Dómadalsleið.

Svarti Krokur
Svartikrókur
Sjá hér mjög skemmtilega mynd af þessum stað - og fleiri myndir í annarri frásögn.

Sverrir og Kristinn og þeir Stefán og Guðmundur héldu að Frostastaðavatni.
Sverrir segir:

Frá Hófsvaði fórum við suður með fljótinu að Ljótapolli, þaðan að Landmannahelli og ferluðum hringinn í Kringlunni. Þá ókum við upp á Pokahrygg og ætluðum suður um Mógilshöfða, en snérum frá vegna lélegs skyggnis og vegna þess að framundan var hliðarhallabrekka með blautum og afar sleipum snjó.
Við afréðum þá að fara næstu leið fyrir vestan, um Krakatind, Mundafellsháls og Vatnafjöll suður á Fjallabaksleið syðri að Keldum. Það gékk ágætlega, en snjórinn í Nýjahrauni var þó nægur til þess, að ekki tókst alltaf að halda slóðinni, en samt að langmestu leyti. Við Hófsvað hafði ég fært Veiðivatnaferilinn yfir á gömlu 386 fartölvuna, en láðist að tæma GPS-tækið, svo ég vissi ekki hvenær að því kæmi, að ferillinn frá Hófsvaði færi að étast upp. Það kom svo í ljós að hann nær aðeins frá Dómadalshrauni og suður á Fjallabaksleið, en þeir ferðafélagar okkar, sem urðu samferða að Landmannahelli, eiga vonandi báðir það sem á vantar.

Bessi og Sigrún óku leiðina sem áður hét Yfir Dyngjurnar
Bessi segir:
Austast er ekið norðan undir Eskihlið, litlu síðar blasir Löðmundur við í suðri en vestast á leiðinni er ekið undir Dyngjum þeim sem leiðin er kennd við. Við Valafell má fara hvort heldur norðan þess eða til suðurs á Dómadalsleið. Í síðara tilvikinu er ekið meðfram Valagjá sem er vel þess virði að skoða, þrír aflangir sprengigígar, samvaxnir. Afar greiðfær enda nánast ekkert farin í seinni tíð, þess vegna ekkert þvottabretti!

Ritari og Freyja og Pétur og hans börn héldu í Hrauneyjar.

Veður
og
spár
Það var auðvitað að veðurspárnar voru með sama svip þennan daginn og þann fyrri. Veður raunveruleikans hylltu ekki spárnar og Suðurlandsundirlendið var bjart með sólroðnum fjöllum og fögru veðri allt til Reykjavíkur.

Þetta var skemmtileg ferð með hóflegri vetrarsveiflu. Verulegur munur var á snjóum og færi efra og neðra á öræfunum. Aðeins föl var sunnan Köldukvíslar og Gjáfjalla og nærri Veiðivötnum var víða engan snjó að sjá á stórum svæðum. Þar var sums staðar líkt og komið hefðu snjósveipir og markað sér hluta í hlíðum og fjöllum - með nettum hætti.

Ferlun Þetta var verulega góð æfing í ferlun og raunar nytsöm úttekt á hvers konar búnaði bílanna fyrir veturinn og samhæfing á viðbrögðum samferðamanna. Ennfremur sýndi sig vel hversu mikilvægt það er að hafa góða fartölvu tengda við GPS-tækið.
Um
fartölvur
Góðan samanburð var að hafa á tölvum og tækjum því ýmsar tegundir voru með í för. Ritari hafði gamla tölvu sem keyrði að vísu Windows95 en skjárinn var ekki baklýstur. Það var erfiðast því ekki sá á skjáinn í snjóbirtu dagsins - svo að gagn væri að. Ritari dáðist mest að útbúnaði Bessa sem hafði nýja HP-tölvu með áströlsku forriti sem heitir OziExplorer og hægt er að kaupa af netinu við hóflegu verði. Þetta forrit metur Bessi betra heldur en NavTrek og Nobeltec - og dosforritin eru ekki í sömu sýslu.

Ritari setur inn nánari lýsingu á verði forritsins og hvar það má finna á vefnum - þegar Bessi hefur rekið augun í þessa setningu ">og sent honum upplýsingarnar.

Það reynast ekki drápsklyfjar á aðstoðarmanninn að hafa tölvuna á hnjánum - eins og maður þó hefði haldið að óreyndu, en auðvitað er töf að því að þurfa sífellt að leggja hana frá sér þegar hlaupa þarf út til framkvæmda. Mjög er nytsamt að útbúa hnappaborðshlíf svo leggja megi þar á hendur sínar og það smálegt sem verið er að nota.

Enn betra er auðvitað að hafa heppilega festingu til að bera tölvuna og halda henni þannig að báðir geti litið á hana eftir þörfum. Þá þarf hún að hafa snúnings-sæti. Það þarf að vera öflugt til að halda henni kyrri. Því miður þekkir ritari enn ekki til neins aðila sem útbýr slíkar festingar.

Innskot:
24.10.2000:

Ath!!
GPS-síða Grétars er
öflugasta
GPS-torgið
sem ritari
hefur
fundið á
vefnum.
Líttu þangað!!

Sæll Gísli
Gaman að lesa fréttir af ferðinni. Snjórinn í "efra" kemur mér ekki á óvart, því helgina á undan var samfeldur snjór frá Laugafelli niður undir Íshólsvatn, sums staðar það djúpur að hægt var að festa 38" dobblara með góðum vilja.
Hvað varðar tölvuforrit þá er tilvísun á OziExplorer búin að vera á GPS-síðunni minni sl. ár og heimasíðan hjá höfundi er http://www.powerup.com.au/~lornew/oziexp.html.
Það sem mig langar til að vita er hvort Bessi var með alvöru kortapakka með þessu forriti og þá hvaðan hann þá kemur. Ég veit bara um tvö forrit sem nota kortin frá Landmælingum, þ.e. Navtrek/Nobeltec og Fugawi.
Það eru nokkrir hérna búnir að bolta rörfestingar í bílana sína til að setja palla undir tölvurnar, en ekki held ég að það séu nein raðsmíðaverkefni.
Kveðja - Grétar Ingvarsson

Á GPS-síðu Grétars eru umsagnir um forritin. Við fyrirspurn frá ritara sendi Grétar þetta svar:
Gartrip forritið er að mínu mati mjög gott til að vinna með punktasöfn, en það er ekki "moving map" forrit, þ.e. les ekki jafn óðum inn á kort í tölvunni, eins og Navtrek t.d. gerir. Ozi hef ég ekkert notað, rétt fiktað með það, en líst nokkuð vel á það, vandinn með flest "moving map" forrit er að fá kort, nema að fara að skanna sjálfur einhver ósköp af kortum.

Kærar
þakkir
Ritari þakkar öllum samferðarmönnum kærlega fyrir samfylgdina. Ef til vill berast myndir úr ferðinni sem komast hér inn á vefinn - eða unnt verður að vísa til.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir-fréttir * Forsíða * Ferðatorg *  Ferðaskrá * Vaðatal