GÓP-fréttir 
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal

Páskaskreppan 2000

20. - 23. apríl 2000 * Myndavefurinn

Ljósmyndir: © Samúel Guðmundsson
Hreyfimyndir tókum Þorri og GÓP.

Myndirnar
eru
líka
á
mynda-
vefnum

þar
færðu
þær
stærri

Leidin
20. apríl

Óvissuferð
austur
Hellisheiði

Skírdagur var fyrsti sumardagur.

Sammerkt var með ferðalöngum að þeir höfðu ekki ætlað sér langar ferðir um þessa sumarpáska enda af tímasetningu ljóst að hætta væri á vorveðrum. Það voru hins vegar ítrekaðar góðviðrisspár - það er að segja: spár um bjartviðri, blástur og frost - sem smám saman höfðu þau áhrif að ákveðið var að aka af stað í óvissuferð austur yfir Hellisheiði á Skírdag.

Klukkan var orðin 17 þegar lagt var af stað og á Selfossi kannaðir gósengeimar Kaupfélags Árnesinga. Síðan lá leiðin rakleiðis austur í Kirkjubæjarklaustur þar sem fyllt var á olíugeyma. Veður voru með blæstri en á Mýrdalssandi var þó mestmegnis ryk en ekki sandur að fjúka. Bjart var til landsins og loftsins en stundum dekkra að horfa til Skeiðarársands.

Siggi Flosa var með Bjössa og með ritara var Sammi.


Ekið var rakleitt í Núpsstaðaskóg.

Um nokkra hríð hefur staðið til að kanna ítarlega aðstæður umhverfis Núpsstaðaskóg og nú var gott tækifæri. Blásturinn var enn stífari en áður - um 20 m/sek svo notaður sé nýfrægur kvarði. Stundum mátti finna að heldur grófar þeytingar komu á bílana. Enginn snjór var á aurnum og aðeins innst voru skaflar - eða hjarnbreiður yfir. Núpsáin var tær og svöl en mild í skapi og lipur yfirferðar - en eins og endranær þurfti þrjár til að komast inn á eyrina framan við fossinn neðst í gilinu.

Heldur var tekið að rökkva en þó sá glöggt til þeirra atriða sem litið var eftir. Skömmu síðar var snúið til baka suður með Lómagnúpi og vestur að Orrustuhóli. Þar var ekið um hlað á Þverá og upp Þverárdalinn allt að Miklafelli. Þar er eitt elskulegt hús sem frábært var að finna á tófta tímanum undir björtum himni og rísandi fullu tungli.


Þorri bætist í hópinn

Þorri hafði þurft að sinna fermingarmálum á Skírdag en strax að þeim loknum renndi hann af stað úr Kópavogi austur sveitir. Klukkan var að verða 04 þegar hann kom í Miklafell. Þá voru ferðalangar orðnir 5 á þremur bílum.

Bjartur
blástur

Úrvals veður - úrvals vegur

Rennur - sem um rjóða svell -
röðull upp á himinboga,
morgunninn við Miklafell
magnar nú sinn rauða loga.

Úti var heiður himinn þennan daginn - rétt eins og undanfarna daga og raunar einnig alla eftirkomandi ferðadaga. Strekkingskylja var um veröldina en sólin hátt á lofti. Þessar andstæður toguðust á um færið. Sólin borar geislum sínum í svellið og skemmir það og rýrir burðarþolið. Blásturinn var stundum varla stæður og með 8 - 14 stiga frosti verndaði hann hjarnið og ísana, hraðbrautir vetrarins. Sífelldar voru þó áhyggjur ökumanna við þessar óvenjulegu aðstæður að aka hjarnbreiður og svellagljár í upphafi sumars yfir mörg varhugaverð vatnsföll, djúp gil og hraunagjár sem venjulega eru engum tækjum fær.

Grænalón
Austur með Síðujökli og að Grænalóni

Klukkan var orðin 09:30 á föstudeginum langa þegar ekið var austan Miklafells og stefnt til Síðujökuls skammt austan Fremri-Eyra. Þegar kom á móts við Rauðhóla var ekið austur yfir Hverfisfljót og Eiríksfellsá. Haldið var austur með öllum Síðujökli og yfir Djúpá, upp á Langasker og upp á 900 metra háa fjallið sem gnæfir yfir Norðurbotna og Beinadal. Þar sér á Grænafjall og Grænalón undir hvítri vetrarþekjunni. Til suð-suðvesturs sér til Súlutinda og yfir Skeiðarárjökul til Skaftafellsfjalla.

Þarna uppi fór enginn úr bíl því ekki þótti vænlegt að stætt væri í rokinu. Myndir voru teknar og ráðgast um útsýnið. Klukkan var 11:09.


Vestur og norður til Jökulheima

Við snerum nú undan vindinum vestur sömu leið að Rauðhólum og yfir Hverfisfljót en héldum síðan norður með jöklinum. Færið var stundum ósléttara en þegar greiðast gekk mátti fara hratt yfir. Við komum norður fyrir Innri-eyrar og sáum Laka greinast frá Blæng og Sveinstind rísa með öll sín Fögrufjöll að sjálfri Fögru við Vatnajökul. Við ókum hjá efstu Lakagígunum og ofan við Lakahraunið, yfir fremri Skaftárbotna og upp á Sjónaukann. Útsýnið þaðan er alltaf jafn glæsilegt þótt hér væri ekki heldur fýsilegt að stíga út vegna veðurhæðar.

Nú var haldið áfram norður að Skaftá og yfir hana í tveimur álum sem hógværir hafa flutt sitt vatn undir meira en meters þykkum ísa og hjarnskildi. Áður en varði vorum við norðan undir Fögru og tókum myndir niður yfir snævi þakinn Langasjó og upp á hæstu hæðir Breiðbaksins. Síðan fylgdum við þeirri myndastefnu. Þar er Breiðbakurinn mjóstur. Þar mátti af sama stað sjá niður yfir Langasjó til suðurs og norður yfir Fremri Tungnaárbotna og allt til fjærstu fjalla í hinu frábæra skyggni.

Við ókum niður af Breiðbaknum eftir stikuðu slóðinni og yfir Tungnaá á ísi á Gnapavaði. Hjarnið inn til Jökulheima var afleitilega óslett en þó vorum við þar um klukkan 14 og ...

Bjart er veður - vindi fyllt
- varla þessu gleymum -
áttum nestis- stutt og stillt
stopp í Jökulheimum


Norður að Hamarsfjöllum

Nú ókum við upp á Heimabungu og síðan inn með Fóstrufelli og Jökulgrindum. Við komum að Tröllafuð sem nú var slétthvít og að Fleygi sem var undir skafli í hússtærð. Svo var haldið norður um Stafnaskarð og inn með Bláfjöllum en síðan upp með Jökulgrindum í hraunjaðrinum, Ofar komum við á sandfylltari svæði þar sem betra var yfirferðar og námum staðar við nýjan skála sem stendur í hlíð við lækina sunnan við rauðu gígana upp af Öskunum. Gígarnir er framan við Grjóthálsinn. Hálsinn sá var ekki svo aðlaðandi að hann heillaði okkur umfram allt. Því var svipast um eftir leiðum neðar í þessum miklu Hamarsfjöllum, sem Haraldur Matthíasson kallaði Mókolla - en fá hér ekki að bera svo kollótt heiti. Þegar nánar var skoðað mátti þar fara yfir hrauntraðir, gjár og sprungur á snjó og við fórum inneftir milli Tröllahrauns og hlíða. Annars er Tröllahraunið aldrei árennilegt og nú var það ekki kafið snjó.

Blástur af Sprengisandi

Nú var klukkan 18:20 og þegar horft var norður til Tungnafellsjökuls var blástur og kóf að sjá. Löng leið var eftir í þá átt til gististaðar í Nýjadal en aðeins lifðu þrír tímar dags. Var þá ákveðið að snúa til Jökulheima, koma við í Veiðivötnum og gista í Hrauneyjum. 

Það gekk allt sem í sögu. Jökulheimar voru sveipaðir rauðri síðdegissól og í Veiðivötnum voru R'unar og Bryndís í góðum félagsskap. Í Hrauneyjar komum við klukkan 23:30 og áttum þar góða hvíld.

Óvissuferð

Þótt ferðalotur væru ljósar hverju sinni var ferðin þó í heild ein óvissuferð. Nú var haldið af stað um klukkan 9 á laugardeginum norður Sprengisandsleið. 

Veðrin voru björt og svöl og þegar Kerlingarfjöll voru enn einu sinni tignar fyrirsætur í myndatöku var ákveðið að halda yfir Þjórsá og inn í Setur. Það er skáli sem Ferðaklúbburinn 4x4 á sunnan undir Hofsjökli. 

Við ókum í Þúfuver og þaðan að Sóleyjarhöfðavaði þar sem Þjórsá var á ísi. Drjúgur spölur er inn í Setur en þar er indælt að koma, hús frábært og öll aðstaða. Þar ettumst við að snæðingi og áttum spjall við aðra ferðamenn.

Norður yfir Hofsjökul

Klukkan var um 14 þegar við héldum vestur úr Setrinu. Við komum af Illahrauni í skarðið sunnan við Þverfellið. Þar lögðum við upp eftir háa malarkambinum sem er 2 km hánorður af Þverfellinu. Hér uppi í yfir 900 metra hæð var slíkt logn að varla blakti hár á höfði. Þetta reyndist úrvals uppgönguleið á Hofsjökul því héðan mátti aka út á snjóinn og þá vorum við á punktaðri Hofsjökulsleið - þeirri sömu og við komum suður Hofsjökul um páskana 1999. Þessi nytsami melkambur teygir sig áfram upp í 1000 metra og það er einmitt þar af honum til austurs sem leiðin liggur á jökulinn. 


Hann verðskuldar nytsamt heiti og verður hér kallaður Uppgangur.

Nokkuð þungt var þó upp brekkurnar neðst en viðstöðulaust ókum við upp á toppinn sem er í um það bil 1780 metra hæð. Útsýnið er nánast á heimsenda. 

Héðan sér suður til Heklu og allra fjalla á hásléttunni sunnan jökla og í Breiðbak. 

Fjöllin við Vatnajökul eru greinileg og norður til Tungnafellsjökuls og í austri sér til Snæfells og í norðaustur til Herðubreiðar. Skagafjarðarfjöll eru í norður og til suðvesturs sér niður á Kjölinn og til Hrútfells og Bláfells. Uppi á toppi vorum við klukkan 15:30. Skýjaðra var norður að horfa en þó ekki svo mjög til norðvesturs.


Út í óvissuna
Ekið norður af Hofsjökli

Við ókum norður af ...

og vorum í Ingólfsskála kl. 17.


Við Ingólfsskála

Okkar nestis neytum vér
- niðar stundin vökul -
komnir nú að nýju hér
norður yfir jökul.

 

Þaðan runnum við greitt að Hveravöllum.

 

Til Arnarvatns hins stóra

Nú var ekið niður fyrir Sandkúlufell og lagt á Stórasand. Leiðin liggur sunnarlega að hæðarótum og milli Kráks og Krákshrauns en síðan vestur og rétt fyrir norðan Langajörfa. Við komum norðan stóra Arnarvatns og beint á Hnúabaksskálann þegar klukkan var liðlega 22. Þar gistum við í litlu húsi og fór vel um okkur.

 

Gisti-
mál

á
Hnúabaki

Þarna á Veiðifélag Arnarvatnsheiðar og Tvídægru nýlegan og aðlaðandi 20-manna opinn skála.
Sverrir Kr. Bjarnason staðsetur hann á N:645764 V:202193.
Veiðifélagið hefur einnig tvö lítil fjögurra manna hús og við gistum í öðru þeirra.
Forsvarsmaður Veiðifélagsins er Þorsteinn Helgason á Fosshóli -
símar hans eru 451-2649 og 855-0582.
Gistigjald er kr. 1000.

Á þessu svæði hefur Theodór Pálsson á Sveðjustöðum s. 451-2950 verið gæslumaður undanfarin ár.

Klukkan sjö og sól er há
sem er þeirrar gerðar
að hún kallar okkur á
og til nýrrar ferðar.

Um klukkan 9 á páskadagsmorgni var haldið af stað. Nú skiptum við liði. Bjössi fór norður veginn frá skálanum og til Siglufjarðar en hinir suðvestur að Úlfsvatni og síðan að Norðlingafljóti og yfir það á ísi. Ekið var að Surtshelli í Hallmundarhrauni og gengið úr skugga um að hann var fullur af snjó. Sneiðingurinn upp á Strútinn var óþægilegur í hallanum yfir Norðlingafljóti og ekki árennilegur þeim smábílum sem þar voru iðandi fyrir ofan.

Við ókum nú suður yfir Hvítá og svo upp á Kaldadal. Bjart var um alla veröld og við runnum suður uns sá til Skjaldbreiðs. Þá var tekin stysta leið yfir hjarn og ísa og stundum þunga skafla en komið upp á Skjaldbreið um klukkan 13. Glæsilegt útsýni er þaðan til allra átta. Sér til Baulu í Borgarfirði, á Ok og Langjökul, Jarlhettur og Kerlingarfjöll, Hofsjökul og Heklu og Eyjafjallajökul, Botnssúlur í vestri og Hvalfell og til Skarðsheiðar og Hafnarfjalls og á haf út. Ekki má gleyma hinum glæstu nærfjöllum, Hlöðufelli og Kálfstindi, Skriðunni, Klukkutindum, Skefilsfjalli, Kálfstindum, Tindaskaga og Hrafnabjörgum, Þingvallavatni og Henglinum, Gatfelli og Ármannsfelli.


Ferð á Skjaldbreið er sannarlega stórfengleg.

Útvíkkaður Þingvallahringur

Við ókum nú vestur til Gatfells og heim hjá Meyjarsæti og um Hofmannaflöt. Veðrið var hlýtt og sljákkað hafði í vindinum sem þó hafði sem betur fer ekki lagt af svala sinn til að halda vegum saman. Þó voru mikil átök í gangi milli hans og sólarinnar sem sífellt sótti inn í vetrarríkið.

Við vorum komnir í Kópavog klukkan 17 eftir frábæra óvissuferð um útvíkkaðan Þingvallahring.

Kærar
þakkir
Næstum því en-laus ferð

Þegar hugmyndir komu upp í þessari ferð voru þær hentar á lofti - því nú var allt fært og allt hægt. Í huganum endurómar athugasemd Bjössa: Við erum ekki áskrifendur að svona veðri og svona færi. Við ókum því allar skemmtileiðir sem í hugann komu og þótti ótrúlegt að eiga enn eina en-lausa ferð.

Þetta var stórkostleg ferð sem við þökkum hver öðrum kærlega fyrir.

Efst á þessa síðu * Ferðatorgið * GÓP-fréttir-fréttir * Ferðaskrá * Vaðatal * Myndavefurinn