GÓP-fréttir
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal

Myndir:
Pétur Örn
Pétursson

Vetrarferðin í Þórsmörk

6. - 7. janúar 2001

Myndirnar eru stærri á myndasafninu!

Athugaðu! Athugaðu að sumar myndirnar eru samsettar - allt að þrjár myndir í einni - og eru lengur að koma. Hver mynd kemur í sérstakan glugga og þú getur skotið honum niður og unnið eitthvað annað á meðan hún er að hlaðast inn!


Eir og Lilja

Vid Krossa << Gullroðnir ísar

Undan-
gengin
frost-
viðri
Frá miðjum desember
höfðu staðið stillur, hreinviðri og frost um hvern dag. Á þriðja í jólum höfðu þrír bílar skroppið dagsferð úr Reykjavík í Langadal án fyrirstöðu. Enginn snjór var þá á leiðinni og margir lækir þurrir því ekkert úr hafði komið í langan tíma. Skarir voru samt dálítið erfiðar á Krossá og síðan á Markarfljóti en erfiðust reyndist Þórólfsá innst í Fljótshlíð.

Nú var aftur haldið inn á Þórsmerkurleið en frostið hafði í engu slakað á klónni.

Frá Hvols-
velli
kl. 10:30



Selja-
landsfoss

Við söfnuðumst saman á Hvolsvelli
og sumir voru komnir í tæka tíð til að fylgjast með þegar 16 jeppar úr Jeppadeild Útivistar lagði af stað þaðan inn í Bása klukkan 10. Þó oft þyki skemmtilegt að kljást við ófarna slóð er hinu ekki að leyna að það er þægilegt að fylgja slóð sem margir bílar hafa ekið og gert þannig vel færa.

Lagt var upp kl. 10:30 og ekið að Seljalandsfossi. Það var sérkennilegt að horfa til hans í sínu hvíta frosthverfi með grýlukerti um fallstaðinn efst og hrímvaxið ískleprasvæði allt umhverfis hylinn og brekkurnar beggja megin.

Naut-
húsagil
Nauthúsagil
var áður fjölsóttur staður. Þar var alltaf staðið við fyrr á árum þegar farið var ríðandi í Þórsmörk og einnig eftir að farið var að ferðast með bílum. Ritari hefur þó ekki gengið inn í Nauthúsagil síðan árið 1960 að leiðsögumaður í hóferðabíl á leið í Húsadal gekk þar inn með ferðahópinn.

Að þessu sinni fórum við vegarslóða sem lagður hefur verið upp að Nauthúsagili. Gengið var inn í gilið og allt upp að fyrsta lága fossinum. Það er alltaf ævintýri að ganga inn í gil og ekki síður þegar frostið hefur leikið við lækinn. Undir fossinum er dálítill hylur - og í ljós kom við óvænta rannsókn að hann tekur manni í mitti.

Eftir þessa skoðun okkar má gera ráð fyrir að ferðafélagarnir leggi oftar ferðir sínar hingað.

Jökulsá
Steins-
holtsá
Árnar í Langanesinu voru í klakaböndum
en Sauðáin var þurr - sú sem rennur úr Merkurkerinu. Það hefur ritari ekki áður séð. Fremri-Akstaðaáin var ekki mjög ísgróin en Innri-Akstaðaáin hélt algengum vana sínum og var nokkru erfiðari. Úti á aurnum rennur Kýlisáin úr Innra-Kýlisgili og er oftlega heldur erfið viðureignar á vetrum en að þessu sinni var hún eins og Sauðáin: gjörsamlega þurr!

Við ókum Jökulsá á ísi bílbreidd ofan bílavaðsins en Steinsholtsá milli dálítilla skara. Síðan var rennt í Stakkholtsgjá og komið þar um kl. 13.

Í
Stakk-
holtsgjá


Horft niður
ísaþröng


Ísveggurinn

Lækurinn í Stakkholtsgjánni
sýndi frostmerkin en snjór var lítill á jörðu. Við gengum inn í hliðargjána og mjökuðum okkur varlega upp ísaða stórgrýtisurðina inni við fossinn mjóa sem kemur úr ljóssins hæðum ofan í þessa myrku hvelfingu. Hægt var að feta sig að fosshríminu og standa þar á ísi og uppi voru mikil grýlukerti sem okkur til gleði héldust kyrr uppi.

< Ísfoss >>
Hina gjána
gengum við síðan og fylgdum læknum. Gilið þrengist strax en ekki líður á löngu uns komið er þar sem vatn ýrir ár og daga, sumar og vetur út úr brekkum og bergveggjum og háir og breiðir fossar eru nánast eins og hörpustrengjatár sem frostinu þykir svo einkar skemmtilegt að binda í hvíta strengi sem bókstaflega klæða þarna klettavegginn og allt verður þeim mun magnaðra sem lengra er komið. Unnt er að komast þarna inn að fossi í þröngri skoru og alls staðar voru vefir frostsins alveg stórkostlegir.

Hvanná
og
Krossá

Krossa_01
Fyrsti áll Krossár

Yfirsyn
Horft af Krossá

Nú var ekið að Hvanná og þar voru á móti okkur komnir nokkrir bílar úr Básunum að gera okkur þægilegri för og skemmtan á þessum fallega degi. Hvanná rann milli hárra ísabakka og yfirferðin var erfið en með samhjálp vorum við óðar komin yfir.

Kvoldfegurd << Kvöldfagur Mýrdalsjökull

Þeir Básamenn höfðu kannað Krossá
án þess að finna vað yfir í Langadal. Þeir vísuðu okkur góða leið yfir fyrsta álinn. Sá var glettinn og djúpur en þeir höfðu fundið stað þar sem ís í botni hélt og þar með varð ekki eins djúpt yfir að fara og auðvelt upp úr. Þá komum við að Krossánni en hér voru sérstakar aðstæður.

Frostbólgur
voru miklar og það var lærdómsríkt að sjá hvernig öflug á verður frostbólgin og frosthlaupin. Það þrengir að ánni í farveginum vegna grunnstinguls og skaranna og sums staðar bætast við ísaþök. Þar að kemur að farvegurinn rúmar ekki það vatn sem er í biðröðinni. Þá eru ísarnir orðnir að stíflugarði. Vatnið þrýstir á uns stíflan bilar og það kemur flóð sem víða brýtur ísana og grefur sig þar sem botn er opin fyrir grunnstingli - eða byltist upp á ísinn og vellur yfir þar sem ísfjöturinn heldur að öðru leyti. Ofanvatnið ber undan sér krap og ísa og þar kemur að ný stífla fer að myndast hægt og rólega fyrir tilstilli frostsins og að lokum er komið nýtt og ísastíflað þrep ofan á því sem fyrir var. Svona þrep smíðast svo aftur og aftur og allt svæðið er vægast sagt varhugavert.

Ekkert
vað á
Krossá

Ekkert vad
Inn yfir? Já
Til baka? Nei.

Á Krossánni sjálfri
var hvergi að finna vað sem öruggt gæti talist fram og til baka. Það er alltaf lærdómsríkt að leita vaðs og ekki síður þegar ár eru í klakaböndum. Margvísleg brögð eru möguleg en aldrei verður komist hjá því að finna ráð til að koma bílnum upp úr ánni.

Bilastajdid < Bílar á næturstæði

Við geymdum bílana utan við á og gengum yfir á ísi. Sennilega hefur gönguferðin frá bílunum að hlaðinu í Langadal verið um 100 metrar. Tunglið var næstum fullt og birta þess slík að lakara var að hafa kveikt á handljósi á göngunni.

Eldsbjarmi
Rauðu blysin roða trén

Kvöld
og
morgunn
í
Langadal
Veðrið var aldeilis frábært
og frostið ekki umtalsvert. Þetta var Þrettándinn og við stóðum við eld og gleðigarpar brugðu blysum á loft og skutu flugeldum og börnin veifuðu stjörnuljósum.

Við sátum svo í salnum og skemmtum okkur til miðnættis þegar við bjuggum okkur upp og gengum að skoða stjörnur og tungl af Fremri-Slyppugilshrygg.

Morgunvísan varð svona:

Nóttin líður - nú er hér
niður ísa-lagsins
og þau bíða eftir mér
ævintýri dagsins.

Í Bása
og að
Krossá við
Merkureggjar

Hopurinn
Hópurinn

og Perla
með Perlu

Ekkert vað
yfir í
Húsadal

Ekkert vad
Ekkert bílavað!

Tre i Basum
Hvernig væri að vera tré og vaxa upp í Básunum?

Básana
heimsóttum við um hádegið og gengum inn með læknum - og lengra fram - og alla leið í hann Myndahvamm - eins og segir í kvæðinu. Básamenn voru að búast til brottfarar og runnu úr hlaði rétt á undan okkur.

Yfir Hvanna
Yfir Hvanná
Við höfðum samflot niður fyrir Hvanná en síðan skildu leiðir því við hurfum fram að Krossá við Merkureggjar að leita þar vaðs.

Sú leit tók nokkurn tíma en niðurstaðan varð sú að ófært væri yfir. Vatnsdýpi í lænunni við fjærbakkann reyndist 1,5 m og þverhníptur bakkinn. Seinna leituðum við fram af Símonarsteini neðan Steinsholtsár en þótt vötnin væru þar heldur opnari voru þar líka skarir og þverhníptir bakkar - og hvergi vað.

Heima
kl. 19
Steinsholtsárdalur
hefur ekki nafn sem ritari þekkir. Það er dalurinn þar sem Steinsholtsáin rennur úr lóni sínu undan jökulsporði Steinsholtsjökuls. Dalurinn var áður afar þröngur en víkkaði lítillega við framhlaupið sem varð árið 1967 þegar hluti úr Innsta-hausi féll niður í lónið svo að það gusaðist hressilega úr því. Við skoðuðum dalsmynnið og sumir gengu inn Réttarnefið í átt að Suðurhlíðunum, aðrir suður í Aurölduna sem nefnist Innri-Skoltur og er innan við Jökullónið, en aðrir gengu yfir hana og í veg fyrir bílana er þeir kæmu að lóninu. Þetta varð þannig vel kannað svæði og höfðu fáir komið þar áður.

Við runnum nú heim á leið. Ísaklemmur lækjanna voru óbreyttar en við vorum á Hvolsvelli kl. 16:30 og heima fyrir kl. 19.

skemmti-
leg
vetrar-
ferð
Þetta var skemmtileg ferð
og fyrsta vetrarferðin um nokkurt árabil þar sem vetrartökin á náttúrunni voru slík að ekki tjóaði annað en taka tillit til þeirra. Snjór var aðeins inni í Mörkinni en enginn neðan við Stakkholtsgjá. Það voru hins vegar frosthörkurnar sem settu slíkt mark á Krossá að hún hleypti okkur ekki yfir. Þess verður líka að geta að yfirferð var okkur á engan hátt mikilvæg en okkur finnst þó til muna skemmtilegra að komast yfir Krossá.

Þetta var sem sagt vetrarferð af þeirri gömlu gerð þar sem ýmsar áætlanir sem gerðar höfðu verið heima í heitu húsi urðu að taka mið af raunveruleika íslensks vetrar þegar að ánni var komið. Það var líka afar skemmtilegt að kljást við það verkefni að ganga úr skugga um að ekki yrði lengra ekið.

Það var líka nytsamt að fá þessa erfiðleika því næstliðna vetur hefur fátt reynt á þar sem munar um samstilltar hendur og útsjónarsemi og þjálfun í að bregða við með réttum hætti.

Bestu
þakkir!
Ferðir verða góðar af því að ferðafélagarnir eru góðir.
Það er skemmtilegt að rifja upp ferðir og taka þá eftir því að það var ekki veðrið sem skipti öllu máli og ekki færðin og ekki hitinn og ekki kuldinn og jafnvel ekki hvort maður blotnaði meira eða minna. Það er félagsskapurinn og hin sameiginlega gleði sem gerir gæfumuninn.

Í þessum ferðahópi höfðu margir farið oft saman en aðrir sjaldnar og hér voru verðug viðfangsefni. Þetta var góð æfing og ritari þakkar fyrir skemmtilega samfylgd í góðum hópi

Athugaðu!! Myndirnar eru stærri á myndasafninu!

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir-fréttir * Forsíða * Ferðatorg * Ferðaskrá * Vaðatal