GÓP-fréttir
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal

Jökulheimar í júlí 2002

Nokkrar myndir úr Jökulheimaferð 19. - 21. júlí 2002

Þær finnast líka - stærri - á ferðamyndaalbúmi

Frábært
veður
Föstudagurinn 19. júlí var í fyrsta veðraklassa allt frá klukkan 02:30 að lagt var úr byggð. Komið var að Fossvatnakvíslinni í Veiðivötnum klukkan 04:30 með sól í norð-austurhæðum með fagra morgunbirtu á Fossvötnin.

Hvar vill maður annars staðar vera á svona dásamlegum morgni? 
Hér er horft til Litla Fossvatns af háu öldunni vestan við Stóra-Fossvatn.
Klukkan er 04:28.
Þú skalt renna upp á hana þegar veðrið er gott því útsýnið er frábært. 
Leiðin hefur aflagst eftir að vaðið færðist niður eftir - þangað sem það er nú -
og leiðin var lögð vestan öldunnar. 

Hér sér yfir suð-vestur hluta Stóra-Fossvatns.
Í baksýn er Snjóöldufjallgarður. 
Austan fellsins sem ber við himin lengst til hægri
er leiðin út að Tröllinu
og svo áfram inn með Tungnaá að Hreysinu. 

Maður slítur sig ekki svo léttilega lausan frá svona myndefni ...

Músaðu á myndina
til að fá aðra miklu stærri og með fleiri heitum.
Haltu músarbendlinum á myndinni
og músaðu svo á stækkunarhnappinn sem birtist neðst í hægra horni.
Horft af Heimabungu klukkan 06:15. 
Þeir félagar, brotin tvö úr rauða gígnum, fengu nöfn sín af þeim Vatnamælingafélögum,
Sigurjóni Rist og Eberg Elefsen. 
Kunnugir nefna þá Eberg og Rist en ókunnugir nota Táberg og Rist. 
Leiðin yfir Tungnaá og upp á Breiðbakinn er um Gnapavað stuttu neðan við Rata.
Ekið er fast neðan við Gnapa inn í Botnaverið
og leiðin liggur nokkuð bratt upp hlíðina en brautin er öll á föstu. 
Á sumrin er skynsamlegt að leita færis á Tungnaá snemma morguns - kl. 05 til 08.  

Rauðtoppur er rauðagígur sem á kortum heitir raunar Rauðhóll.
Hann teygir sig svo virðulega upp úr hrauninu norðan Gígfjalla
að hér er fylgt virðulegri nafngift sem hann er sæmdur í leiðarlýsingu frá árinu 1957.
Hér er horft af honum til norðurs og vesturs. 
Næst er sandorpið hraun sem geymir leiðina frá Illugaveri á vaði yfir Köldukvísl,
suður á Rauðtopp. Þar gengu menn upp og nutu útsýnisins.
Síðan var haldið áfram suður og vestur fyrir Gjáfjöll, austur með þeim
og yfir Heljargjá og áfram norðan Ljósufjalla til Jökulheima. 
Þessa leið fóru þeir Guðmundur Jónasson og Sigurjón Rist og svo margir fleiri - 
áður en Kaldakvísl var brúuð skammt frá Þórisósi norðan Þórisvatns. 

Horft til norðausturs af Rauðtoppi.
Nyrðri Háganga og Tungnafellsjökull eru um það bil á bak bið Syðri-Hágöngu. 
Hver skyldi hann þá vera þessi hái kambur vestan við Syðri Hágöngu á myndinni? 
Einnig vantar mig nafnið á dökkleita gjallgígnum sem er í hrauninu nærri Rauðtoppi 
- nærri orðinu Vatnajökull hér á myndinni.
Sendu mér þína ágiskun!

Horft austur af Rauðtoppi. Gjáfjöllin ná yfir meira en helming myndarinnar. 
Bak við kortalesendurna eru
Jöklasystur

Horft af Rauðtoppi suður til Gjáfjalla.
Leiðin frá Illugaveri liggur við vesturendann sem sést hér lengst til hægri.
Hraunið er sandorpið en þó ekki alveg einfalt yfirferðar.
Leiðin þræðir einstigi í hrauninu - vestan (hægra megin) við það sem sést á myndinni. 
Þar eru sandadalir á hraunamótum. 


Leiðin norður með Bláfjöllum að austan liggur um Stafnaskarð.
Það heitir svo vegna þess að þegar að því er ekið sjást stafnar sitt hvorum megin.
Sá eystri er sjálfur bergveggurinn í þessu mikla Stafnagili
en sá vestari er miklu minni og sést ekki alveg strax.
Um Stafnagilið rennur Systrakvíslin.
Gilið er stórskorið og gróft og óneitanlega afar spennandi til nánari skoðunar. 
Á kortum er Systrakvíslin nefnd Kerlingalæna því að þar eru Jöklasystur kallaðar Kerlingar. 

Já, Stafnagilið er nokkuð ögrandi
og óráðlegt að ætla sér að ganga upp eftir því nema vera vel stígvélaður. 

Hér getur verið snjór fram í júlí - en það var hlýtt framan af sumri
og hvergi snjó að finna þann 20. júlí 2002.
Á þessu vaði þarf að varast sandbleytu við eyrina.
Vaðið framundan er grófgrýtt en ekki djúpt að öðru jöfnu. 
Með aðgát er leiðin fær óbreyttum jeppum - alla leið norður um Vonarskarð. 
Hún hverfur hins vegar víða yfir veturinn svo þú skalt sækja þér GPS-punkta á GPS-torgið

Horft af Bláfjöllum til Jöklasystra í þungbúnu skyggni.
Ský fela efsta hluta hinnar hnarreistu Syðri systur.
Allur fjallagarðurinn frá Fóstrufelli, sem er næst innan við Heimbunguna,
og allt upp að Nyrðri systur heitir Jökulgrindur.
Að þeim lá jökullinn fram undir 1960 - en nú er hann alls staðar fjarri. 

Hókus - pókus! Pétur Örn og Kalli Jóns að galdra. 

Þegar farið er inn að Hreysi er farið úr Veiðivötnum út að Tungnaá hjá Tröllinu.
Ekið er áfram niður að Tungnaá og síðan eftir slóðanum inn með ánni í um það bil 10 mínútur -
uns ekki verður lengra ekið. Þá þarf að ganga hlíðina inn með ánni.
Þegar komið er inn fyrir öxlina sem sést frá bílunum er útsýnið þetta.
Hlíðin er brött og allt í lagi að gera ráð fyrir 15 mínútna rólegri göngu. 
Hreysið er upp við klettana innan við staka klettinn sem sést ofarlega í brekkunni undir bláu örinni. 

Á leiðinni má finna marga hella þegar farið er nógu ofarlega. 
Guðmundur Rúnar og Kalli Jóns standa hér framan við einn forvitnilegan ... 

... og inni í honum sér eftir gangi og inn í leynikima, afhelli sem bíður könnunar. 

Hér er Hreysið fundið. Ekki fer á milli mála að hér hafa margar hendur unnið að. 
Í berginu eru víða göt - bæði til hliðar og einnig afar hátt uppi
- rétt eins og tjaldað hafi verið fyrir með dúki. 

Hér er horft inn í Hreysið. Mannvirkið sést greinilega. Þegar það var í notkun
var Tungnaá ekki orðin til. Þá var Stórisjór úti fyrir, blár og tær og fullur af fiski.
Þá var þess virði að fara alla leið hingað inneftir og búa við þessar erfiðu aðstæður
á meðan fiskurinn var sóttur í vatnið. 
Tungnaá varð til þegar kólnaði og Tungnaárjökull stækkaði vestur yfir fjöllin.
Hún flutti jökulleir með sér - en svo fylltist allt með ösku frá Skaftáreldum.
Veiðiferðir féllu niður um 50 ára skeið og eftir það urðu menn undrandi:
Hvergi var Stórasjó að finna!

Efst á þessa síðu * Ferðatorgið * Forsíða * Ferðaskrá * Vaðatal