GÓP-fréttir
Ferðatorg
Ferðaskrá

Vetrarferð í Þórsmörk

Hér sérðu allar myndirnar

22. - 23. janúar 2000 -
(- um það bil 65 árum eftir að Ólafur Auðunsson í Dalsseli ók í fyrsta skipti bifreið inn á Þórsmörk - í júlí árið 1935. Þetta var Ford 1929 og bar einkennisstafina RÁ 5. Frá þessu segir Þórður Tómasson í bók sinni Þórsmörk, land og saga, á bls. 252. Þeir félagar óku þá inn á milli vatna. Markarfljótið rann óskipt í farvegi Þverár og Krossá rann niður með Eyjafjöllum. Það var því nóg að aka yfir Krossána á Markarfljótsbrúnni og síðan inn aurana.)

Myndir
- -
Myndbandsupptakan er komin á VHS-spólu.

Myndasmiðir eru:
Katrín V. Karlsdóttir - KVK
Pétur Örn Pétursson - PÖP
Ragna Freyja Gísladóttir - RFG
Þórir Hálfdánarson - ÞH

Hér sérðu allar myndirnar  

Veðravor
Ókum austur veðravor
- vildum finna björkina.
Víða lagði vatnaspor
vetrarferð í Mörkina.

Eftir alvöruvetur í upphafi mánaðarins hlýnaði í veðri og hæstu snjóhraukar á gatnamótum höfðu sjatnað og rýrnað og orðið að engu. Veðurspár settu regnský á helgina og útlitið var að minnsta kosti ekki þurrt og ekki svalt - sem sagt: ekki mjög vetrarlegt.

Besta
veður
Á morgni laugardagsins var hið mildasta veður, logn og hitastig ögn undir frostmarki. Á 9. tímanum ókum við austur yfir Hellisheiði og hann gekk á með dálitlum skúrum sem ísuðu vegina óðar er droparnir féllu. Allt gekk þó áfallalaust og greiðlega og við vorum á Hvolsvelli í tæka tíð.

Alla ferðina héldust lognviðri sem voru þannig að stundum vissi maður hvaðan hann andaði. Á laugardeginum voru skýjaþök yfir en á sunnudeginum var bjart til fjalla og sólin sindraði á snæhjálmi Tindfjallajökuls. Sama veðurblíðan fylgdi okkur heim um Markarfljótsaura og upp á Rangárvelli þar sem oftast eru vindar á bersvæðum.

Skoppað
yfir
lónið

Jon Egill i vinkli
Á jökli!

Jón Egill
æfir
vinkilinn

Í Rangárvallasýslu voru meiri vetrarmerki og nokkur snjór og regnbarðir skaflar í veginum.

Blesi í Langanesi

Ljúf er veröld, logn er á,
léttur er´ann Blesi -
engar fannir er að sjá
inní Langanesi.

Frá Hvolsvelli tók Klemens að sér öryggissætið og rak lestina - sem senn var öll hjá Jökulsá.

Ísar höfðu hjaðnað á Lóninu og lygnurnar við upptök árinnar spegluðu jökulinn og Skoltana. Við dokuðum stundarkorn og börn að árum og önnur í anda runnu yfir ísinn upp að jöklinum sem skreppur í sífellu stórlega saman.

Heim
og
heiman

Yfir Krossa
Yfir Krossá

Inn med Stakkholti << Stakkholtsgjá á hægri hönd ...

Pétur Örn leiddi okkur inn með Stakkholtinu, framhjá Stakkholtsgjá, yfir Hvanná, hjá Álfakirkjunni og fram að Krossá. Hún var með blíðu móti svo sem tilheyrir á vetri þegar hvergi er krap. Umhverfis voru þó mikil ísaþök og ljóst að hér hafði verið harður vetur fyrir skömmu.

Í Skagfjörðsskála tókum við upp farangur og komum okkur fyrir, snæddum - og héldum svo aftur af stað fram yfir Krossá.

Í
Stóra-
Enda

Jon bak vid tre
Jón Egill

Thorir og Oli vid Litla-Enda-gil
Horft um
Litla-Enda-gil
til Valahnúks

Eftirvainting vid Stora-Enda < Eftirvænting í Stóra-Enda

Matti og Ingi leiddu okkur inn aurana og yfir Krossá móts við Endana. Í Stóra-Enda gengum við upp með læknum og síðan í sveig til vesturs að Steinboganum mikla og fræga.

Oli og Petur i Steinboganum < Steinboginn - standi alla mína daga ...

Nú er hann mörgum lítt kunnur þar sem alfaraleiðir eru ekki svo mjög á þessar slóðir. Við horfðum niður Litla-Enda-gilið með sitt glæsta sjónarhorn á Valahnúk.

Yfirsyn fra Stora-Enda < Stór og skemmtilega samsett yfirlitsmynd frá fossinum í Stóra-Enda yfir í Hattfell neðan við Bása. Tekin af hálsinum ofan við Steinbogann.

Gengum svo aftur niður skóginn og horfðum á snjóalögin og nutum veðurblíðunnar meðan himinninn var með fallegum daglitum í skýjabrotum upp af jöklunum.


Búðar-
hamri
Nú héldum við áfram inn eyrarnar sem Krossá krossar. Það var auðvitað að við þurftum að fara hana fram og aftur og hér voru vetrartökin harðari og hjarn og ísar stundum nokkuð til skemmtunar. Ingi var að venju fundvís á góðar leiðir og klukkan 17 vorum við hjá Búðarhamri. Hvergi sáum við raunar höld þau hin miklu sem fornar sögur segja þar vera til að binda við þau hafskip sem þá gengu hingað upp árnar. Ekki urðum við heldur vör við vættir þær hinar römmu sem hrellt hafa næturgesti á þessum slóðum.
Af
kolaför
um 1930

Ártalið
er
afar(!!)
óná-
kvæmt!

Faðir Leifs heitins, svila ritara, hét Sigurður Sigurðsson (1906 - 1977). Hann var á sínum yngri árum bóndi á Efri Þverá í Fljótshlíð en seinna vann hann á pakka-afgreiðslunni í BSÍ. Hann var hér í kolagerðarhópi eitt sinn sem ungur maður. Hann sagði ritara frá þeirri för því hún var söguleg. Þeir höfðu starfað að kolagerð þann tíma sem þeir höfðu ætlað sér og legið við innan við Búðarhamar. Þetta var þeirra síðasti dagur og heim skyldi haldið næsta morgun. Þegar þeir höfðu lokið vinnu um kvöldið höfðu tveir menn gengið niður á eyrarnar til að þvo sér í tærum læk í ljómandi veðri. Þá heyrðu þeir mikinn gný til Krossárjökuls. Þegar þeir litu þangað sáu þeir háan vatnsvegg ryðjast niður gilið. Þeir áttu fótum sínum fjör að launa og komust upp í hlíðina í tæka tíð. Þröngur dalurinn fylltist af beljandi flóðinu. Verkstjórinn sendi tvo menn næsta dag ríðandi fram á Merkureggjar til að leita færis fyrir flokkinn að komast heim en án árangurs. Nesti þeirra var upp urið. Þá var tekin sú alvarlega ákvörðun að taka eitt lamb og slátra því til matar. Á þriðja degi komust þeir loks yfir vatnið og heim til sín.
Enn
eitt
gott
kvöld
í
Skagfjörðs-
skála

GOP vid vardeldinn
Að vera til
við eldsins yl
..

Kemur range Rover ur Krossa eins og adrir bilar < Víða lágu vatnaspor ...

Við ókum nú aftur fram yfir Krossá og út í Bása. Víða var þungt vetrarfæri og komið myrkur er þangað kom. Bjössi hafði vottað skírn barnabarns síns laust eftir hádegið en síðan skellt sér til okkar og var nú hér kominn í hópinn. Við ókum svo heim í Skagfjörðsskála og settumst að snæðingi.

Klukkan 20 tendruðum við eld í ljúfasta logni þar sem reykurinn sté til himins en glampar léku um andlit hópsins.

Inni í skálanum héldum við kvöldvöku áfram, sungum fyrir börnin og fórum í Fram, fram fylking með hröðum skiptingum og hörðum sviptingum.

Síðar voru upp rifjaðar eftirminnilegar ferðir. Þá nefndu margir vetrarferðina 1994 þegar við hrepptum mikið veður og gnægð var af snjó til að fjúka svo oft sá enginn neitt í nóttinni. Kom í ljós að hver hafði sína eftirminnilegu sögu að segja og eru efni til að draga saman fjölþætta lýsingu af ferðinni þegar færi gefst.

Klemens hafði með sér stjörnusjónauka en stjörnur og tungl fólu sig bak skýjaslæðu. Þær birtust klukkan 09:30 á sunnudagsmorgninum og tindruðu til okkar svo að við námum meiningu þeirra: Hæ! Klemens! en kíkinn verðum við að prófa næst.

9-10-11

Lagt fra Langadal
.. í röð kl. 11 ..

Á sunnudeginum fylgdum við áætluninni: 9-10-11 sem merkir: á fætur klukkan 9, hreinsa skálann klukkan 10, aka burt klukkan 11. Allt fór hér eftir áætlun og Freyja og Þórir fóru fyrir vaskri ræstisveit sem ýmist sópaði út fólki og farangri eða hreinlega þvoði það út. Það fór og svo að við ókum af stað í myndaðri röð klukkan 11.
Í
Sóttar-
helli
og
Húsadal
Bilar vid Sottarhelli * Folk ad fara ad ganga ad Sottarhelli

Enn var haldið til vatna og Ingi og Matti í fararbroddi. Milt vað fundu þeir á Krossá við Merkureggjar og senn vorum við öll á göngu upp í Sóttarhelli. Þar meðtókum við helgispjall þess staðar og þótti mörgum bæði all hrikalegt og nærstödd börn spurðu síðar hvort sögumaður teldi spjallið til sanninda. Varð þá fátt um svardaga.

Yfirsyn fra Sottarhelli < Útsýni frá Sóttarhelli - á breiðmynd.

Húsadalur

GOP segir fra i Husadal
Hvernig var nú
vistin þeim .. ?

I mynni Husadals < Í mynni Húsadals

Þá var haldið í Húsadal og gengið inn á Húsflötina. Þar fór hugurinn til þeirra Sæmundar Ögmundssonar, 25 ára, og Magnúsar Árnasonar, 22 ára, sem bjuggu þar með fjölskyldum sínum fardagaárið 1802-3. Nokkurn styrk hafa þeir fengið vegna konunglegrar tilskipunar frá 15. apríl 1776 sem boðaði þeim einstaklingum dálítið liðsinni sem reistu byggð sem lagst hafði af eða hófu búskap á nýbýli í afrétti. Þetta var eindæma hart ár og búskapurinn stóð ekki lengur. Nú eru tvær aldir liðnar en tóftirnar eru hér enn.

Fram
yfir
Fljótið
Við ókum niður varnargarðinn sem heldur að Markarfljótinu ofan úr gilinu. Fljótið var með nokkru vatni en þegar við komum niður fyrir Lausölduna og á móts við Hellisvelli fann Ingi úrvals vöð á tveimur álum og við vorum komin yfir.

GOP yfir Fljotid med myndarann < Myndatökumaðurinn - má í engu slaka ..

Við ókum upp að tóft gamla leitarmannahússins á Hellisvöllum og tókum myndir af mannskapnum. Börnin voru í brekkum og giljum og hellum og þegar hópurinn lagði af stað voru ritari og Pétur eftir því börnin höfðu horfið upp gilið og voru í brasi í efstu fönnum. Við gengum eftir þeim - og öll komum við aftur að mestu heil á húfi og Arna var furðufljót að gera við höndina á sér.

Niður með Þórólfsfellinu fylgdum við svellalögum Gilsár og ókum yfir hana nærri varnargarðinum við Fellið. Þórólfsá var einnig kyrr og hljóð í rennu milli höfuðísa og þar fórum við án fyrirstöðu upp á Fljótshlíðarveginn.

Hjá
Tuma-
stöðum
á
Rangár-
velli
Veðrið var alltaf jafn yndislegt og við ókum hjá Tumastöðum og Tungu þar sem leiðin liggur meðfram Kötlunum.

Fossinn i Kötlunum < Meðfram Kötlunum. Grasrytjur höfðu fokið í stórviðri og sátu í þekjum á sköflum.

Síðan ókum við gegnum Vatnsdalinn og hjá Þríhyrningi upp á Rangárvelli. Færið var allt með besta móti. Gamli bærinn að Reynifelli er nú orðinn stekkur og áratugir síðan þar bjuggu Jón Sigurðsson frá Árkvörn og sonur hans síðar. Nú eru að rísa sumarhús í jaðri landsins fram að Rangá.

Við
Rangá
og
Gunnars-
stein
Isarnir vid Ranga < Ekkert venjuleg Rangá ...

Það var ekki neitt venjulegt að koma að Rangá. Gríðarlegir ísjakar höfðu hrannast saman í eina klakastöppu. Hér hafði mikið gengið á fyrir skömmu - en í dag rann Rangá ljúf og létt um máða steina.

Við komum að Gunnarssteini og rifjuðum upp söguna um fyrirsátina í Knafahólum, undanreið þeirra bræðra, Gunnars, Kolskeggs og Hjartar að steininum mikla við ána. Þar vörðust þeir á fjórða tug manna - og rýrt gerðist fyrir þeim smámennið - eins og segir í Njálu.

Heim
kl. 19
Klukkan var farin að ganga 17 og hér kvöddumst við og hver hélt til síns heima eftir fjölbreytta og frábæra ferð. Í fyrstu höfðum við haldið að þetta yrði sumarferð að vetri. Þegar til kom reyndist vetur konungur öflugri inn milli jöklanna og leiðir okkar voru lagðar um meginvötn héraðsins. Vetrarferðin 2000 í Þórsmörk stendur því mjög vel undir nafni.
Bestu
þakkir
Ferð er sameiginlegt verkefni. Það er samhjálpin og gleðin sem gefur ferðum sinn ógleymanleika. Í þessari ferð voru mörg skemmtileg viðfangsefni og veðrin byrjuðu vel og urðu sífellt betri. Þetta var skemmtileg ferð.

Að ferðarlokum þökkum við hvert öðru kærlega fyrir samfylgdina og ritarinn sendir öllum sínar bestu kveðjur.

Hér sérðu allar myndirnar  

Efst á þessa síðu * Ferðatorg * Ferðaskrá * GÓP-fréttir * Hér sérðu allar myndirnar