Forsíða
Ofvirknivefur
Ofvirknibók

Ragna Freyja Karlsdóttir:
sérkennari barna og unglinga
með tilfinningalega-, félagslega- og geðræna erfiðleika.

Spurningar og svör

© RFK >> Forvarnir
1 Hvernig getur skólinn stutt foreldra í forvarnarstarfi?
Svar: Almennt séð er afar mikilvægt fyrir börn að samstarf skóla og heimilis sé traust. Þar ríki jákvætt viðhorf og virðing á báða bóga. Það veitir börnunum öryggi að skóli og heimili vinni saman og samkvæmni ríki með heill þeirra að leiðarljósi

Grundvöllur forvarnarstarfsins er á heimili barnsins og færist síðan einnig í skólann. Þar eru settar ákveðnar reglur og skýr mörk sem tengjast námi, skyldum, leik, umgengni og hegðun. Besti stuðningur skólans við heimilið er að fylgja eftir þeim reglum sem settar eru og skapa börnunum einnig tækifæri til að þroska og styrkja þær sterku hliðar sem hver einstaklingur býr yfir.

Í sumum námsgreinum koma einnig upp umræður og spurningar um lífsgildi og siðfræði, tillitssemi, samhug og hvernig leysa skuli ágrreiningsmál og axla ábyrgð námslega, félagslega og hegðunarlega.

Í skólanum er nauðsynlegt að starfsfólkið sé á verði og þekki þau merki sem einkenna þá nemendur sem eru að missa fótanna og koma fram meðal annars í vanlíðan, þreytu, skapsveiflum, kvíða, óstundvísi, einbeitingarskorti, áhugaleysi, hirðuleysi um sjálfan sig, fatnað, skólatösku og námsgögn, vanmetakennd, hegðunarvandkvæðum og skertri sjálfsmynd. Líka ber að huga vel að nemendum sem lagðir eru í einelti og ekki síður að þeim sem eru gerendur. Raunar geta tóbaksnotkun og áfengisneysla verið vísbendingar um vaxandi erfiðleika og í partíum eru nemendum boðin fíkniefni. Verði starfsfólk vart við breytingar í fari nemenda verður að hafa samband við foreldra, leita skýringa og samræma aðgerðir.

2 Hvað getur skólinn gert til að styrkja sjálfsmynd nemenda?
Svar: Í grunnskólanum eru alltaf nemendur sem hætt er við að ánetjast fíkniefnum. Þessir nemendur leyna sjaldnast á sér. Annað hvort draga þeir sig í hlé og loka sig af eða sýna óæskilega hegðun sem ekki er alltaf auðvelt að finna skýringu á. Í báðum hópunum eru nemendur sem búa við mikla vanlíðan.

Góður stuðningur við nemanda er fólgin í atriðum eins og þessum:

  • a. Kanna námsstöðu og vera þess fullviss að námsefnið sé við hæfi,
  • b. sjá til þess að þau fái þann námslega stuðning sem þau þurfa,
  • c. finna sterkar hliðar nemandans, styrkja þær og byggja þannig upp hinar veikari hliðar,
  • d. nota verklegar greinar til að byggja upp sjálfstraust nemenda sem síðan styrkir hann í bóklega náminu,
  • e. ræða við og kenna nemandanum æskilegar leiðir til að leysa ágreiningsmál án ofbeldis
  • f. styrkja félagsfærni markvisst. Skapa vinatengsl.
  • g. Ræða við nemandann um vímuefni og afleiðingar.

Innan hvers skóla ætti að vera amk einn starfsmaður sem hefur þekkingu á vímuefnum og vímuefnavanda, námsráðgjafi eða kennari, hugsanlega óvirkur alkóhólisti. Þessi starfsmaður skipulegði fræðslu fyrir kennara, foreldra og nemendur og væri þeim til ráðgjafar í einstaklingsmálum.

Hver skóli ætti að hafa yfirlýsta stefnu í forvarnarstarfi sem kynnt væri nemendum og foreldrum. Nauðsynlegt er að fræða kennara og foreldra um ýmsan þroska- og hegðunarvanda barna. Þetta á ekki síst við um ofvirkni því að margar rannsóknir hafa sýnt að ákveðnum hópi ofvirkra barna er mjög hætt við að ánetjast vímuefnum. Með fræðslu öðlast fólk skilning á högum þess nemanda sem í vanda er staddur.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók