GÓP-fréttir
Ofvirknivefur
Ofvirknibók

Kjörþögli
vefurinn 

Ragna Freyja Karlsdóttir:
sérkennari barna og unglinga
með tilfinningalega-, félagslega- og geðræna erfiðleika.

Svör við aðsendum spurningum 
Kennaranemar hafa sent inn spurningar sem Ragna Freyja hefur svarað hér á þessari vefsíðu. Upplýsingarnar eru öllum aðgengilegar og vonandi til aðstoðar í viðleitni til að hjálpa kjörþöglum.

Efnið er öllum frjálst til ritnota enda sé heimildarinnar greinilega getið - eins og gildir um allt annað efni á GÓP-fréttum.

1 Upplifðir þú það að hafa barn með kjörþögli í bekk sem erfiðleika sem þú áttir erfitt með að takast á við eða tókstu þessu sem lítilvægilegu vandamáli sem vel væri hægt að vinna á? (Sem sagt þitt viðhorf).
Svar: Ég hef ekki haft kjörþögla sem nemanda í bekk en kennt tveimur nemendum með þessa greiningu í fámennum sérskóla. Auk þess hef ég komið að málum tveggja nemenda í almennum grunnskóla með ráðgjöf. Ég leit á vanda þessara nemenda sem sérstök, sjaldgæf, áhugaverð og um leið krefjandi viðfangsefni. 
2 Var barnið/börnin mjög félagslega einangruð vegna kjörþöglinnar eða átti það eðlileg félagsleg samskipti við aðra bekkjarfélaga á sinn hátt?
Svar: Nemendurnir tveir sem ég kenndi voru félagslega einangraðir bæði frá öðrum nemendum sérskólans og höfðu verið einangraðir í heimaskólanum áður. Eftir að þeir voru farnir að tala og fóru á ný í sína heimaskóla var félagsstaða þeirra mun betri og báðir eignuðust vini.
3 Voru aðrir örðugleikar í gangi varðandi barnið/börnin s.s. seinþroski, vandkvæði með fín- eða grófhreyfingar?
Svar: Báðir nemendurnir áttu við námserfiðleika að etja og voru einu til tveimur árum á eftir jafnöldrunum í náminu. Báðir höfðu misþroskaeinkenni, meðal annars í fín- og gróf-hreyfingum. 
4 Álítur þú þetta sem sjúkdóm þar sem kennarar ættu að leita utanaðkomandi aðstoðar s.s hjá sálfræðingum og ýta þessu frá sér eða nýta sína þekkingu og reynslu og vinna með þetta sjálfir? (þetta er svo misjafnt eftir löndum og heimsálfum hvort fræðimönnum finnist að sálfræðingar eða geðlæknar eigi að hafa yfirumsjón með meðferð barnanna eða hvort reynsla og þekking kennara auk þolinmæði sé nóg meðferð)
Svar: Kjörþögli er læknisfræðilegt greiningarhugtak samkvæmt alþjóðlegum staðli. Til þess að geta tekist á við svo óvenjulegt verkefni sem kjörþögli er, þarf fyrst að fræðast um efnið af erlendum greinum og fræðibókum því mér er ekki kunnugt um neitt íslenskt efni. 

Barnageðlæknar og sálfræðingar eru þeir aðilar sem helst hafa þekkingu og reynslu á þessu sviði. Það var mér mikill stuðningur að eiga samvinnu við annað fagfólk með þessa tvo nemendur, bæði barnageðlækni og sálfræðing. Þá var hægt að bera saman bækur og ræða næstu lotur. 

Fyrir mér, sem kennara, er kjörþögull nemandi viðfangsefni skólans og þannig vann ég með mína nemendur námslega með ýmsum ráðum sem jafnframt var markvisst stefnt að því að þeir færu að tala í smáum hænuskrefum - og lánið var með okkur. 
5 Hvernig hefur skólinn mætt þörfum nemenda sem haldnir eru kjörþögli? Þín reynsla.
Svar:

 

Svar: Ég hefi komið að málum fjögurra kjörþögulla nemenda. Tveimur kenndi ég um lengri tíma uns þeir fóru að tala en auk þess hef ég gefið ráð til liðsinnis við tvo aðra nemendur.

Annar þeirra var úti á landi. Um hann hafði ég samvinnu við sálfræðing og umsjónarkennari nemandans fór eftir ráðleggingum sem honum voru sendar.

Hinum nemandanum hafði ég að hluta til afskipti af í góðri samvinnu við umsjónarkennara og einnig fékkst þroskaþjálfi til að æfa félagslega þáttinn utan skólans. Þessi samvinna gafst mjög vel.

Í vetur veit ég af tveimur börnum í almenna grunnskólanum. Annað barnið er fjórtán ára og hefur ekki fengið neina þjónustu í skólakerfinu þar til í vetur að farið var að kanna þetta betur. Nokkurn tíma tók að ákveða hvernig og hvaða þjónustu skyldi veita og endirinn varð sá að skólasálfræðingur er nú með nemandann í meðferð.

Hinn nemandinn er átta ára og hefur ekki heldur fengið neina þjónustu. Foreldrarnir leituðu til mín í byrjun skólaársins um hjálp sem ég var reiðubúin að veita en málið strandaði í kerfinu. Nemandinn hefur enn enga aðstoð fengið en sálfræðingur innan skólakerfisins hefur um nokkurra mánaða skeið haft uppi hugmyndir um að taka það að sér.
6 Hvað er gert þegar barn er greint með kjörþögli, er unnið markvisst með kennaranum og fær kennarinn sérstakt skipulag til þess að umgangast nemandann?
Svar:

 

Svo sem fram hefur komið hér í svörum mínum er það ljóst að skólinn gerir sér sjaldnast grein fyrir því að þögult barn eigi í erfiðleikum og þess vegna er hvorki reynt að greina vanda þess né liðsinna því. Ef nemandinn er greindur með kjörþögli er vandinn sá að afar fáir innan skólakerfisins hafa reynslu af því að vinna með kjörþögult barn. Ég þekki raunar engan sem þar kann til verka.
7 Hvernig er þín reynsla á bata af þeim skjólstæðingum sem þú umgengst?
Svar:

 

Þeir kjörþöglu nemendur sem ég kenndi fóru báðir að tala. Það tók annan þeirra frá janúar til október eða sjö mánuði auk sumarleyfisins en hinn um fjóra mánuði. Þeir eru nú báðir vel talandi ungir menn.
8 Hve langan tíma tekur það fyrir kjörþögult barn að fara tala við eðlilegar kringumstæður á ný?
Svar:

 

Það hlýtur að vera einstaklingsbundið hversu langan tíma það tekur fyrir nemandann að ná tökum á talinu. Margt kemur þar einnig til álita svo sem félagslegar aðstæður, þróunartími kjörþöglinnar og hugsanlega aðrar greiningar.
9 Eru þessir einstaklingar greindir með eitthvað annað?
Svar:

 

Kjörþögli flokkast undir kvíðaröskun sem skyld er félagsfælni.
10 Vinna talmeinafræðingar markvisst með þessa einstaklinga?
Svar:

 

Mér er ókunnugt um það.
11 Er málþroskinn eðlilegur?
Svar:

 

Það var ekkert að málþroska þeirra nemenda sem ég kenndi. Þegar þeir fóru að tala var allt þar til staðar.

Ganga þarf úr skugga um hvort um málhömlun getur verið að ræða því ef svo er þá er trúlegra að ekki sé um kjörþögli að ræða.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók * Kjörþögli - vefurinn