Forsíða
Ofvirknivefur
Ofvirknibók

Ragna Freyja Karlsdóttir:
sérkennari barna og unglinga
með tilfinningalega-, félagslega- og geðræna erfiðleika.

Spurningar og svör

© RFK >> Misþroski
1 Hvernig vaknar grunur um að nemandi sé misþroska og hvað er þá til ráða?

Grunur um misþroska vaknar þegar það kemur í ljós að barn á í erfiðleikum með að halda athygli, hreyfiþroski er slakari en jafnaldra og það á erfitt með að vinna úr skynáhrifum.

1a
Hver eru helstu
einkenni misþroska
barna?
Misþroska börn

  • eiga erfitt með að einbeita sér. Þau truflast auðveldlega og athyglin er flöktandi. Þau skilja illa fyrirmæli og skilaboð mega ekki vera margþætt. Þau týna hlutum og gleyma og eiga erfitt með skipuleggja sig, raða aðgerðum og fara eftir reglum. Úthald þeirra og mótlætisþol er lítið. Þau þurfa mikla athygli og aðstoð. Þau eiga í erfiðleikum með að ljúka verkefnum, byrja en gefast svo upp. Mótlæti, síendurtekin mistök og neikvæð viðbrögð þegar barnið stenst ekki væntingar umhverfisins, veikja sjálfsmyndina. Þá er oft eina vörnin sú að sýna óæskilega hegðun og þá er barnið komið í slæman vítahring höfnunar, einangrunar og vansældar. Mörg misþroska börn eiga til að gleyma sér við verkefni sem vekja áhuga þeirra og önnur geta verið vanvirk.
  • eiga erfitt með að stjórna líkama sínum, þ.e. hreyfingu, jafnvægi og samhæfingu, til dæmis augna og handa. Þetta á við bæði um fín- og grófhreyfingar sem koma fram þegar barn klippir, skrifar, leikur sér með bolta, hjólar, á að fara eftir fyrirmælum í leikfimi og svo framvegis. Þau eiga líka erfitt með að lesa í líkamstjáningu annarra.
  • eiga erfitt með að vinna úr skynáhrifum þrátt fyrir það að skynfæri þeirra séu í lagi. Þetta kemur til dæmis skýrt í ljós þegar barnið byrjar í skóla. Þá á það erfitt með áttaskyn og að greina milli hljóðlíkra og formlíkra stafa og talna. Þetta veldur þeim erfiðleikum í lestri, stafsetningu og stærðfræði. Málþroskinn er líka oft skertur og einnig líkamsvitund þeirra. Tímaskyn og snertiskyn getur líka verið skert og þau eiga í erfiðleikum með að tileinka sér nýjar og breyttar aðstæður.

Þess ber að geta að einkenni misþroska hafa oftast áhrif á allt líf barns, líðan þess heima, í skóla og í frítímanum, einnig á félagstengsl og ekki síst á hegðun. Því er nauðsynlegt að líta á heildarmyndina þegar tími misþroska barns er skipulagður. Einnig þarf að gera sér grein fyrir því að auk misþroskans getur barn átt við að stríða aðrar þroskahamlanir og/eða hegðunarvanda.

1b
Hvert á að snúa
sér ef maður
telur barn
vera misþroska?
Ef grunur vaknar um að barn eigi við þroskafrávik eins og misþroska að stríða er afar mikilvægt að barnið fái greiningu til að ganga úr skugga um það. Flestir foreldrar leita eflaust fyrst til heimilislækna en oft staðnar ferlið þar án þess að foreldrunum sé vísað til aðila sem geta greint barnið. Ákveðnir barnalæknar og sálfræðingar annast greiningu og greiningar eru einnig framkvæmdar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).

Unnt er að leita beint til foreldrafélags misþroska barna til að fá upplýsingar um misþroska og leiðbeiningar um hvert vænlegt er að snúa sér til að fá barnið greint. Foreldrafélagið er vakandi og öflugt og í Upplýsinga- og fræðsluþjónustunni í Bolholti 6 er líka hægt að fá ýmsar aðrar upplýsingar sem gagnlegar eru svo sem um fyrirlestra og námskeið og þar er gott safn fræðsluefnis.

1c
Hvernig
skilgreinir
þú hugtakið
misþroski?
Ég skilgreini hugtakið misþroski þannig eins og nafnið vísar til að það nái yfir mörg einkenni þroskafrávika sem lýsa sér aðallega í athyglis- og einbeitingarerfiðleikum, erfiðleikum í sambandi við hreyfistjórnun og erfiðleikum í úrvinnslu skynjunar á ýmsum sviðum.

(Hugtakið misþroski er oft notað sem regnhlífarhugtak yfir bæði þroskafrávik af ýmsu tagi og einnig yfir greiningarviðmið sem lúta að hegðun eins og til dæmis ofvirkni. Á Norðurlöndunum er notuð greiningin DAMP um misþroska sem lýsir sér í athyglisbresti, skyn- og hreyfitruflunum. Í Bandaríkjunum er notuð greiningin ADHD sem merkir athyglisbrestur með ofvirkni sem lýsir sér í athyglisbresti, hvatvísi og hreyfivirkni.)

1d
Hversu oft
hittir þú
börn sem
eru misþroska?
Ég vinn mest með börn sem hafa fengið greininguna athyglisbrestur með ofvirkni (AMO). Mörg þeirra eru þó líka misþroska og þau misþroska börn sem ég kenni geta auk þess líka verið greind með AMO. Það sem er sameiginlegt börnum sem hafa fengið þessar tvær greiningar er athyglisbresturinn og einbeitingarskorturinn sem gerir þeim erfitt fyrir í skóla, heima og annars staðar.
2 Hvernig eru börn greind misþroska?

Yfirleitt eru það barnalæknar og sálfræðingar sem sjá um greininguna. Greiningin er gerð samkvæmt alþjóðlegum staðli þar sem ákveðin greiningartæki eru notuð (ADHD-viðmið?). Þau eru meðal annars í formi spurningalista sem barnið, foreldrar og kennarar svara. Gera má ráð fyrir að til þurfi að kalla fleiri sérfræðinga, eins og talmeinafræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa og ef til vill fleiri.

2a
Hvernig
gengur að
fá greiningu?
Þeir foreldrar sem ég hef hitt í starfi mínu eru flestir sammála um að það geti gengið mjög erfiðlega og tekið langan tíma að fá greiningu fyrir barnið. Oft virðist vandinn liggja í því að fá aðra til að trúa því að eitthvað ami að barninu. Foreldrar fá oft þau viðbrögð að barnið sé illa upp alið, frekt og ókurteist. Pabbi hans eða frændi hafi verið svona í æsku, þetta sé tímabundið ástand og þetta lagist þegar barnið eldist. Foreldrarnir ganga frá sérfræðingi til sérfræðings, biðlistar eru langir og barnið oft orðið stálpað þegar greiningin loks fæst.
2b
Eru börn
greind of
sjaldan
eða of oft?
Ég tel að ekki sé unnt að greina börn of oft. Ég tel hins vegar alvarlegt að oft tekur alltof langan tíma að fá börn greind.
2c
Hversu
mikilvæg
er greining?
Það er alvarlegt mál ef barn fær ekki greiningu strax og um hana er beðið. Sé greining ekki fyrir hendi skapast ástand sem er barninu mjög óæskilegt. Upp koma ýmsar getgátur um að eitthvað ami að. Foreldrar, skyldfólk, kennarar, félagar - allir reyna að finna skýringar og svör sem geta gert barninu enn erfiðara fyrir og leitt til enn neikvæðari viðhorfa í garð þess og niðurbrots á sjálfsvirðingu og sjálfsmynd þess.
2d
Hverjir eru
það sem
uppgötva
að eitthvað
er að?
Yfirleitt eru það foreldrarnir sem finna að eitthvað er að barninu þeirra. Einkennin geta líka komið í ljós í leikskóla en líklega þó oftast þegar þau byrja í grunnskólanum. Þá aukast kröfur um að barnið sitji kyrrt, hlusti, fari eftir fyrirmælum, vinni verkefni sem þau ráða ef til vill ekki við, þá er hópurinn fjölmennari en áður og margt sem truflar og glepur. Þar reynir líka á félagatengsl og samskipti sem misþroska börn ráða oft illa við - til dæmis í frímínútum.
2e
Á hvaða
aldri eru
börn
yfirleitt
þegar þau
eru greind?
Hluti misþroska barna fær greiningu á leikskólaaldri en önnur oft ekki fyrr en þau eru orðin 12 til 13 ára og jafnvel enn eldri.
3 Hvernig er best hægt að styðja og hjálpa nemanda sem fengið hefur greiningu?
3a
Hvernig
stuðning fá
nemendur í
grunnskólanum?
Of lítinn?
Nægjanlegan?
Skólar eru misjafnlega í stakk búnir til að sinna nemendum sem greindir hafa verið með ýmis þroska- og hegðunarfrávik. Sumir skólar halda betur utan um þessa nemendur en aðrir. Óhætt er þó að segja að þjónustan við nemendurna er alltof, alltof lítil og kemur þar til sífelldur niðurskurður á fjármagni og víða skortur á hæfu starfsfólki. Það er samfélagi okkar til skammar að börn skuli ekki fá kennslu í samræmi við þá greiningu sem þau hafa fengið - kennslu sem þau eiga lögboðinn rétt á.
3b
Sýnir fólk í
kringum börnin
(þeirra nánasta
umhverfi)
skilning á
fötlun þeirra?
Sumir gera það - en því miður er það mjög algengt að fólk geri það ekki.

(Mitt mat er að tilfinnanlega skorti fræðslu í skólana um nemendur sem í námi, hegðun og félagstengslum eiga erfitt uppdráttar. Fræðslan þarf líka að ná til foreldra, aðstandenda og annarra sem umgangast barnið og þessi fræðsla þarf að vera virk allt skólaárið. Auk þess að fræða og gefa innsýn inn í þann heim sem börnin lifa í þarf að kenna hvaða viðbrögð og aðstoð starfsfólk og aðstandendur verða að viðhafa til að falla ekki í hinn vonda fordómahring skamma og neikvæðni.)

3c
Hvað er það
sem skiptir
mestu máli til
að hjálpa
þessum
nemendum?
  • Mestu máli skiptir að hafa þekkingu á því hvað misþroski er, meta námstöðu nemandans og útbúa námsáætlun með námsefni við hans hæfi.
  • Draga þarf fram sterka þætti og efla þá, bera virðingu fyrir nemandanum og byggja upp traust milli kennarans og nemandans, sýna umburðarlyndi, þolinmæði og skilning.
  • Jákvætt viðhorf og sanngjarnt hrós getur gjörbreytt barni frá því að vera að eigin dómi litils virði - í einstakling sem blómstrar með auknu sjálfstrausti.
  • Sífellt verður að hafa í huga að hegðun barnsins er ekki hið sama og barnið sjálft. Okkur þykir vænt um barnið og viljum hjálpa því til að ráða við aðstæðurnar.

Efst á þessa síðu *Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók