Forsíða 
Ofvirknivefur 
Ofvirknibók 

Gylfi Jón Gylfason - 17.02.2003:

yfirsálfræðingur og deildarstjóri sérfræðiþjónustu á skólaskrifstofu Reykjanesbæjar

 Amma 

Ömmu-reglan
er hún notuð á þínu heimili?
 Einföld Ömmureglan er einföld og áhrifarík leið 
til að fá börn og unglinga til að sinna þeim verkum sem þú ætlar þeim. Þegar þú notar ömmuregluna tengir þú saman það sem þú vilt að barnið geri og það sem barnið vill gera, þannig að barninu er umbunað fyrir æskilega hegðun með því að það fær að gera það sem það langar til. Ef ömmureglan er notuð rétt, eykur þú líkurnar á því að barnið hlýði þér.
Jákvæð 
afleiðing
=
umbun
Almennt gildir um hegðun, 
að tíðni hegðunar sem hefur jákvæðar eða eftirsóknarverðar afleiðingar fyrir barnið eykst. Með því að umbuna barninu fyrir þau verk sem þú ætlar því, með afleiðingum sem eru eftirsóknarverðar fyrir barnið, aukast líkurnar á því að barnið gegni.
Virkar 
vel
Ömmureglan virkar sérstaklega vel 
til að fá barnið til að sinna húsverkum. Til að skerpa á því hvernig þú getur notað ömmuregluna ætla ég að gefa þér nokkur dæmi. “Þú mátt fara í tölvuna þegar þú ert búinn að vaska upp”. “Þú mátt fá ís eftir matinn þegar þú ert búinn að borða grænmetið”. “Þegar þú ert búin að æfa þig á flautuna geturðu farið og spurt eftir Halldóru”. “Þegar þú ert búinn að fara út með ruslið geturðu farið á æfingu”. “Þegar þú ert búinn að gera þig tilbúinn í háttinn máttu horfa á Spaugstofuna”. “Þú mátt fara út að leika þér þegar þú ert búin/n að læra heima”.
Varúð!!
Alls ekki
snúa
reglunni
við!!!!
Alls ekki snúa ömmu-reglunni við!!
Það er auðvelt að nota ömmuregluna. Það eina sem þú þarft að varast er að gæta þess að snúa henni ekki við.

Dæmi um viðsnúning 
gæti verið. “Allt í lagi, þú mátt fara til Halldóru, en þú verður að lofa að taka til í herberginu þegar þú kemur heim”.

Ef þú snýrð ömmureglunni við 
og leyfir barninu að fá það sem því finnst eftirsóknarvert áður en það hefur framkvæmt það sem þú vilt að það geri, minnka líkurnar á því að barnið hlýði þér. Ef þú lætur undan og leyfir barninu að snúa ömmureglunni við, ertu í raun að umbuna barninu fyrir að mótmæla þér með því að sleppa barninu við að vinna verkið sem þú vilt að það vinni. Með öðrum orðum: Ef barnið veit að það getur komist hjá því vinna verk með því að taka æðiskast, tuða eða mótmæla þér, mun tíðni þeirrar hegðunar aukast, vegna þess að barninu er umbunað fyrir þessa óæskilegu hegðun með því að sleppa við að vinna verkið.

Snjöll börn
láta alltaf
reyna á
mörkin!!
Hafðu hugfast að öll börn reyna á þau mörk sem þeim eru sett. 
Það er eðlilegt að barnið athugi hversu staðfastur/föst þú ert og reyni að koma sér undan kvöðum eða fresta þeim. Flest börn reyna því stundum að snúa ömmureglunni sér í hag. Það er jafneðlilegt að þú ætlir barninu tiltekin verk í samræmi við þroskastig barnsins og gangir eftir því að þau séu unnin með því að nota ömmuregluna rétt.
>>>>>>>>> Gangi þér vel að nota ömmu-regluna! 
* Gylfi Jón Gylfason yfirsálfræðingur á skólaskrifstofu Reykjanesbæjar.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók