Forsíða 
Ofvirknivefur 
Ofvirknibók 

Gylfi Jón Gylfason - 18.02.2003:

yfirsálfræðingur og deildarstjóri sérfræðiþjónustu á skólaskrifstofu Reykjanesbæjar

 Fyrir-
myndin
ég !!

Á barnið þitt sér góðar fyrirmyndir?
Mitt
framferði,
orðbragð,
skapstilling,
viðbrögð,
vinaval,
fataval 
- allt er
barnsins
fyrirmynd.
Fyrirmyndir barna eru þeir/þær sem þau sjá í umhverfi sínu. 
Börn líkja eftir þeirri hegðun sem þau sjá hjá öðrum.
Sem foreldri ert þú mjög áhrifarík fyrirmynd. Barnið hermir eftir þér, það sem þú gerir þegar það sér þig í samskiptum við aðra og hvernig þú kemur fram við það sjálft. Barnið fylgist sérstaklega með þér þegar þú ert illa upplagður eða pirraður.
Vond
eða
góð?
Vond fyrirmynd
Ef að þú beitir ofbeldi, notar of þungar refsingar, öskrar eða hótar þegar þú ert að aga barnð er líklegt að barnið muni einnig prufa þessar aðferðir í samskiptum við þig og aðra.

Góð fyrirmynd
Á sama hátt gildir að ef þú er réttlát/ur og sanngjarn/gjörn mun barnið einnig athuga hvort að þær aðferði virki vel í samskiptum við aðra. Auðvitað eru margir aðrir þættir sem hafa áhrif á hegðun barna, en þú sem foreldri getur haft mikil áhrif á barnið með framkomu þinni. Þær væntingar sem þú hefur til barnsins hafa einnig mikil áhrif. Með því að tala jákvætt um skóla barnsins og gildi þess að mennta sig, eykurðu til dæmis líkurnar á því að barnið tileinki sér jákvætt viðhorf til náms, sem aftur eykur líkurnar á því að barnið ljúki námi sem veitir því möguleika á góðu starfi þegar það er orðið fullorðið. 

Öllum
verður á
en
kann ég
að biðjast
afsökunar? 
Mikilvægasta kennslan
Enginn er fullkominn, það er eðlilegt að gera stundum mistök í uppeldinu. Allir uppalendur eru stundum pirraðir og segja eða gera eitthvað vanhugsað sem þeir sjá eftir. Það er hins vegar mikilvægt að læra af mistökum sínum og bæta fyrir þau ef það er hægt. Að biðjast afsökunar á því að hafa hreytt einhverju í barnið sem það átti ekki skilið er dæmi um það að vera góð fyrirmynd. Með því ertu að kenna barni þínu að það er eðlilegt að biðjast afsökunar þegar maður hefur gert á hlut annarra.
Margir
eru þeir
sem
gegna lykil-
hlutverkum
í æsku- og
unglinga-
starfi.  
Lykil-fyrirmyndir
Auk foreldra á barnið sér margar aðrar fyrirmyndir: Dæmi um það eru til dæmis íþróttamenn og aðrir sem skara fram úr á einhverjum sviðum í þjóðfélaginu. Með því að gera kröfu um góða námsástundun, auk kröfu um góðan árangur í íþróttinni geta þjálfarar og forsvarsmenn íþróttafélaga haft mikil áhrif til góðs á viðhorf barna til náms. Íþróttafélög ættu þess vegna að hampa sérstaklega afreksmönnum sem skara fram úr í námi. Ef íþróttafélagið sem barnið þitt er félagi í, gerir ekki kröfu um góða námsástundun samhliða íþróttaiðkun, ættirðu að kom óskum þínum um það á framfæri við þjálfara barnsins.
Ég læt ekki
hvern sem er
gerast
fyrirmynd
barnsins
míns.
Vöndum fyrirmyndirnar
Ekki eru allar fyrirmyndir jafn æskilegar. Í fjölmiðlum sem hafa börn og unglingar að markhópi, eru til dæmis sýnd myndbönd þar sem talað er um ofbeldi og fíkniefnaneyslu sem eðlilegasta hlut í heimi. Sum myndbönd eru einnig full af kvenfyrirlitningu og eru alls ekki við hæfi barna og unglinga, þótt þau séu framleidd með þau í huga. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Sem góð fyrirmynd og foreldri, er því mikilvægt að fylgjast með því hvað barnið þitt er að horfa á, meta hvað er æskilegt barnaefni og útskýra fyrir barninu þínu afhverju þú telur sumt í sjónvarpinu ekki við hæfi barna. Ef þér finnst erfitt að gera þetta geturðu kannski sótt þér stuðning með því að ræða við foreldra þeirra sem eru vinir barna þinna. Allir foreldrar hafa hag af því að börnin okkar eigi sér góðar fyrirmyndir.
Ég er fyrirmynd,
ég fylgi reglum
samfélagsins,
þess vegna
((vona ég))
finnst barninu 
mínu eðlilegt 
að fylgja reglum
samfélagsins.
Fyrirmyndin fylgir reglum samfélagsins
Ef þú hefur samráð við aðra foreldra um þetta er gott að ræða í leiðinni um útivistartíma. Vitað er að mjög mikið af því sem við viljum ekki að börn og unglingar geri, fer fram án eftirlits foreldra eftir að lögboðnum útivistartíma er lokið. Með þessu ertu barni þínu einnig góð fyrirmynd. Þú ert að senda barni þínu skýr skilaboð um að það sé þér mikilvægt að það sé farið eftir þeim reglum sem gilda í samfélaginu og þannig eykurðu enn og aftur líkurnar á því að barnið þitt njóti velgengni í lífinu.
>>>>>>>>> Gangi þér vel að vera barninu þínu góð fyrirmynd. 
* Gylfi Jón Gylfason yfirsálfræðingur á skólaskrifstofu Reykjanesbæjar.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók