Forsíða 
Ofvirknivefur 
Ofvirknibók 

Gylfi Jón Gylfason - 27.10.2003:

yfirsálfræðingur 
og deildarstjóri sérfræðiþjónustu 
á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar

Birtist í 
Morgunblaðinu 
11. apríl. 2003

Samskipti 

í fjölskyldum ofvirkra barna

 Ofvirknin
setur
mark
sitt
á
allt
heimilis-
lífið

Samskipti í fjölskyldum ofvirkra barna

Líf ofvirkra barna og fjölskyldna þeirra er oft enginn dans á rósum. Sjúkdómseinkenni barnanna skerða félagshæfni þeirra og mörg þeirra eiga fáa eða enga vini. Börnin eru því oft mikið ein, eða samvistum við systkini eða foreldra.

Ofvirknin hefur áhrif á allt skipulag heimilisins. Börnin eiga erfitt með að vinna morgunverkin skipulega og það þarf að fylgja þeim betur eftir en öðrum börnum. Þau verk sem skólabörnum nútímans eru ætluð, s.s. heimanám, eru þeim erfið, því þau eiga bágt með að einbeita sér lengi að því sama. Hið sama gildir um reglur í sambandi við borðhald. Kvöldmatartíminn einkennist oft af rifrildum og ósamkomulagi. Það er einnig erfitt að koma sér í háttinn og sjúkdómseinkennin valda því að oft kemur til árekstra við barnið. 

Þegar um svæsin einkenni er að ræða getur verið erfitt að finna einhvern sem fæst til að passa barnið, sem hefur þær afleiðingar að foreldrarnir fá sjaldan frí til að hlaða batteríin.  

Ofvirknin
reynir
mjög
á
fjölskyldu-
böndin

Álagið er mikið

Foreldrar ofvirkra barna eru því undir meira álagi en foreldrar flestra annarra barna. Stundum er eins og aldrei sé stundlegur friður á heimilinu og allur tíminn og orkan fer í að sinna ofvirka barninu. Skilnaðir eru algengir hjá foreldrum ofvirkra barna. Hættan er mikil á því að ástarglóðin kulni þegar foreldrarnir ná sjaldan að sinna hvort öðru og fá aldrei frí frá foreldrahlutverkinu.  

Ofvirknin
er
fjárfrek
og
truflar
launastörf

Fjölskyldur ofvirkra barna verða fyrir tekjumissi

Rannsóknir sýna einnig að fjölskyldur ofvirkra barna verða fyrir verulegum tekjumissi því stundum reynist nauðsynlegt að fara í hlutastarf til að geta sinnt ofvirka barninu þegar það er ekki í skóla. Oft eru líka mikil fundahöld á skólatíma því að oftar en ekki þarf að funda með kennurum, læknum, sálfræðingum og öðrum þeim sem sinna barninu. Fjölskyldur ofvirkra barna hafa því oft lítið milli handanna til að veita börnum sínum, sem getur haft slæm áhrif á samskiptin í fjölskyldunni.  

Námskeið
um
ofvirkni-
stjórnun
veitir
þjálfun
í
uppeldis-
tækni
- sem virkar!

Það er hægt að ná stjórn á ofvirkninni

Ofvirkni er ólæknandi, en það er hægt að halda einkennunum í skefjum með markvissri uppeldistækni, lyfjum og þekkingu á sjúkdómnum. Í boði eru vönduð námskeið þar sem hægt er að læra að taka á ofvirkninni þannig að hún trufli síður samskiptamynstur fjölskyldunnar. Á námskeiðunum er kennd nauðsyn hlýju, ástúðar og markvissrar notkun umbunar og refsinga. Stundum getur reynst nauðsynlegt að fylgja námskeiðinu eftir með viðtölum við sérfræðing sem aðstoðar fjölskylduna við að ná tökum á erfiðri hegðun barnsins. 

Mikilvægt er að ná snemma valdi á þeirri uppeldistækni sem virkar. Með því er hægt að draga úr líkum á því að barnið nái að þróa með sér alvarlega hegðunarörðugleika ofan á ofvirknieinkennin.  

Ég er
sendiherra
míns
barns
-
en
hvernig
veld
ég
því
starfi
!?!

Ofvirk börn þurfa sendiherra.

Undirritaður ráðleggur foreldrum ofvirkra barna að gerast sendiherra þeirra.

Staðgóð þekking á sjúkdómnum er undirstaða þess að verða góður sendiherra. Sendiherra talar máli barnsins, útskýrir eðli fötlunar fyrir kennurum og fjölskyldu, jafnar ágreiningsefni í félagahópnum og kemur á og viðheldur góðu samstarfi við skóla. Góður sendiherra veit að ekkert gengur sjálfkrafa fyrir sig og tryggir að barnið fái þá þjónustu sem það á rétt á. 

Eðlilegur hluti af starfi sendiherrans er einnig að hugsa vel um sjálfan sig og maka sinn og koma á skipulagi á heimilinu þar sem góðum uppeldisaðferðum er beitt. Það bætir líðan fjölskyldunnar og eykur líkurnar á því að ofvirka barninu vegni vel.

>>>>>>>>> Gangi þér vel. 
* Gylfi Jón Gylfason yfirsálfræðingur, deildarstjóri sérfræðiþjónustu á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

 

 

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók