Forsíða Ofvirknivefur Ofvirknibók |
Gylfi Jón Gylfason - 13.05.2005:yfirsálfræðingur fjallar um ritalín-notkun barna |
Lyf eru ekki |
Að gefa lyf að gamni sínu |
Alhæfingar sem ekki standast nánari skoðun |
Umræðan um lyfjagjöf við ofvirkni undanfarna daga hefur því miður ekki alltaf verið málefnaleg. Í kjölfar upplýsinga um að mikil aukning hafi orðið á notkun ofvirknilyfja hefur verið alhæft um lyfjagjöf við ofvirkni út frá einstökum dæmum og gefið í skyn beint og óbeint að verið sé að ofnota lyf við hegðunarörðugleikum. Einnig er gefið í skyn að foreldrar hafi ekki val um það hvort að börnin þeirra taka ofvirknilyf eða ekki. Reynsla undirritaðs er ekki í samræmi við fullyrðingar um að lyfjagjöfin sé misnotuð eða að verið sé að viðhafa óvönduð vinnubrögð við greininguna. |
Tölfræðin er eðlileg |
Í Reykjanesbæ eru 4% barna á grunnskólaaldri með ofvirknigreiningu árið 2004. Af þeim var tæpur helmingur eða rúmlega 1,5% af heildarfjölda barna á grunnskólaaldri á ofvirknilyfjum. Algengi ofvirkni er talin vera 3-5%, þannig að þessar tölur eru fyllilega innan eðlilegra marka. Lyfjanotkunin sömuleiðis. |
Tilvísunum hefur fækkað |
Tilvísunum til okkar á fræðsluskrifstofunni vegna ofvirkni og hegðunarvandamála hefur fækkað milli ára og á okkar þjónustusvæði hefur því ekki orðið nein sprenging í notkun á ritalini og skyldum lyfjum við ofvirkni. |
Ekki er vitað um ófagleg vinnubrögð |
Þau börn sem undirritaður þekkir til í Reykjanesbæ og eru á ofvirknilyfjum hafa öll fengið viðeigandi greiningu sem uppfyllir þær faglegu kröfur sem gerðar eru. Að þessum ofvirknigreiningum koma auk sálfræðinga margir sérfræðingar á læknasviði, flestir þeir sjálfstætt starfandi barnageðlæknar sem á landinu starfa, læknar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og læknar sem starfa á Greiningar og Ráðgjafarstöð ríkisisins og Barna og Unglingageðdeild Landspítalans. Vinnubrögð þessara lækna hafa verið vönduð og fullkomlega í samræmi við þau vinnubrögð sem tíðkast í greiningarvinnu. |
Þjónusta við Reykjanesbæ er eins og annars staðar |
Ég geri ráð fyrir að vinnubrögð þeirra þegar þeir vinna fyrir aðra en í búa í Reykjanesbæ séu jafnvönduð. Mér finnst alla vega ótrúlegt að við í Reykjanesbæ séum á einhverjum sérsamningum við lækna, þ.e. að þeir vandi sig þegar þeir vinna fyrir okkur og fúski og kasti til hendi þegar þeir eru í greiningum annars staðar. |
Læknar eru fagmenn og vanda til verka |
Ég tel því líklegt að skýringa á mikilli notkun ofvirknilyfja sé að leita í öðru en að læknar viðhafi almennt óvönduð vinnubrögð. Sjálfsagt er hægt að finna einhvers staðar dæmi um að ofvirknilyfjum hafi verið ávísað án undangenginnar greiningar. Sé svo er um hrein undantekningartilfelli að ræða. Þeir læknar sem að koma að málefnum ofvirkra barna eru einfaldlega fagmenn sem vanda sig við vinnu sína. |
Ofvirkni ber að ræða á faglegum grunni |
Við skulum sýna ofvirkum börnum og foreldrum þeirra þá virðingu að ræða um ofvirkni og meðferð við henni með faglegum hætti og ná umræðunni úr því fari sem hún hefur verið undanfarna daga. Auðvitað þarf að skoða vandlega af hverju notkun ofvirknilyfja er að aukast og fá skýringar á því af hverju við á Íslandi erum að nota meira af þessum lyfjum en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. |
Lyf eru ekki gamangjöf til barna |
Staðreynd málsins er hins vegar sú að það setur enginn börn á lyf að gamni sínu. Tilgangur lyfjagjafarinnar er ætíð að draga úr skaðlegum áhrifum ofvirkninnar. Foreldrar hafa alltaf val um lyfjagjöf eða ekki. Lyfjagjöf við ofvirkni er því ekki beitt nema að brýna nauðsyn beri til. |
* | Gylfi Jón Gylfason er yfirsálfræðingur á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. |